Málefni aldraðra

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 23:56:01 (4097)

     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Út af þeim ummælum sem hér hafa fallið í sambandi við vistheimili aldraðra, þá þykir mér rétt að taka hér til máls og í fyrsta lagi kannski þar sem ráðherra kom inn á í sinni ræðu að samkvæmt vistunarmati væri talið að það biðu 127 Reykvíkingar sem þyrftu nauðsynlega á hjúkrunarrými að halda. En þá er þess til að geta að það eru um 120 Reykvíkingar sem búa á heimilum og eru í sjúkraplássum utan Reykjavíkur þannig að það dæmi er utan þessa sem hér var nefnt.
    Varðandi það sem 14. þm. Reykv. kom hér inn á áðan í sambandi við þær íbúðir sem byggðar hafa verið við Hrafnistu í Reykjavík, þá er rétt að taka fram að því miður setur hún þær íbúðir undir einn og sama hatt annarra þjónustuíbúða sem hafa verið byggðar vítt og breitt um alla borg og ég get tekið undir að hluta með henni að menn hafa geyst þar heldur fram án þess að huga að því hvernig ætti að þjónusta það fólk sem kaupir þessar íbúðir. Munurinn á þjónustuíbúð við Hrafnistu í Reykjavík og öðrum þjónustuíbúðum úti í bæ er kannski sá að það er hjúkrunarfólk á vakt allan sólarhringinn fyrir þjónustuíbúðir við Hrafnistu í Reykjavík auk þess sem þetta fólk hefur aðgang að Hrafnistu í Reykjavík, allri þeirri þjónustu sem þar er veitt og ætla ég nú ekki að tiltaka það alla þá þjónustu sem þar er veitt en þar er nokkuð mikill munur á.
    Um verðlagningu á þessum húsum er það nú svo að verð á fermetra á þessum húsum er ekki mjög mikið hærra en í sambærilegum íbúðum, vel að merkja þá í blokkum, ekki í raðhúsum. Ég veit að hv. 9. þm. Reykv. þekkir nokkuð vel til þessara þjónustuíbúða við Jökulgrunn og getur eflaust vitnað til þess sem ég hef sagt hér að það er a.m.k. slík ásókn í þessar íbúðir öryggisins vegna. Þó að fólk þurfi að greiða fyrir það þá byggist það m.a. á því eins og ég sagði áðan að það er hjúkrunarfólk á vakt allan sólarhringinn og er tilbúið og boðið og búið að koma þá strax þegar þessi öryggishnappur er notaður.
    Varðandi það frv. sem hér hefur verið rætt um og er nú meginmálið, og kannski margir hverjir langt komnir frá því, þá þykir mér rétt að taka það fram að við í meiri hluta heilbr.- og trn. vorum sammála því að stuðla með öllum hætti að eins mikilli flýtingu á uppbyggingu Hjúkrunarheimilisins Eirar og mögulegt er. Þar er hægt að vista, þegar það hjúkrunarheimili er upp byggt, um 120 manns og er vissulega mikil þörf á og brýn að það heimili komist í gagnið sem allra, allra fyrst.

    Ég vildi benda á það sem hv. 9. þm. Reykv. kom hér inn á í sambandi við það fjármagn sem hefur á undanförnum árum verið veitt úr Framkvæmdasjóði aldraðra til reksturs að það hefur verið um 33% af þessum svokallaða nefskatti sem fer til Framkvæmdasjóðs aldraðra. Þarna er í sjálfu sér um nokkra hækkun að ræða en engu að síður, eins og hæstv. heilbrrh. kom hér inn á áðan, erum við að tala hér um tvö ár sem þetta er bundið, þessi 55% og vel að merkja er þá bundið þeim leikreglum að það er fjárln. sem mun fjalla um framkvæmdir fyrir þá peninga sem úr sjóðnum fara.
    Ég held að allir þingmenn séu sammála því að það er mjög slæmt ástand hérna á Reykjavíkursvæðinu og það þarf verulega að taka hér á til þess að gera aðstæður fyrir það fólk sambærilegar við það sem orðið er víðast hvar úti á landi. Reykjavíkursvæðið hefur dregist verulega aftur úr hvað varðar vistunarrými fyrir aldraða miðað við það sem hefur gerst úti á landi og það er nauðsyn á að það verði bætt og það verður gert með því að flýta þeirri byggingu sem nú er langt á veg komin, þ.e hjúkrunarheimilið Eir.