Málefni aldraðra

88. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 00:14:57 (4099)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég lét hv. þm. hafa þær upplýsingar sem ég fékk úr mínu ráðuneyti. Það voru skriflegar upplýsingar, samanteknar af einum skrifstofustjóranna þar sem gerst veit um þessi mál, þar sem þessar niðurstöður koma fram. Ég hef ekki séð grein umrædds varaborgarfulltrúa en mér finnst alveg ástæðulaust að draga í efa þær niðurstöður sem ég fékk hjá embættismönnum heilbrrn. sem fylgjast með þessari þróun mála og hv. þm. fékk afrit af.
    Í öðru lagi er sá galli á fyrirkomulagi sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðinga í borginni að í störfum sínum hafa þær ekki haft samstarf við heilsugæslustöðvarnar, t.d. um heimahjúkrun. Í sumum tilvikum hefur því verið um tvíverknað eða jafnvel þríverknað að ræða. Nú er verið að semja við sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðinga upp á nýtt um að þau störf sem þeim verði falin í sambandi við heimahjúkrun verði þeim falin af Heilsuverndarstöð og heilsugæslustöðvunum í Reykjavík. Það verði því algjörlega í höndum Heilsuverndarstöðvarinnar og heilsugæslustöðvanna í Reykjavík hvaða þjónusta er veitt við heimahjúkrun, þær stjórni henni alfarið og feli þeim 20 hjúkrunarfræðingunum sem starfa með sjálfstæðum hætti verk í þeirra þjónustu til þess einmitt að koma í veg fyrir þann tvíverknað og jafnvel stundum þríverknað sem átt hefur sér stað þegar þrír aðilar, þ.e. heimahjúkrunin, heimilishjálpin og heimahlynning Krabbameinsfélagsins og síðan sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðingar, hafa mikið til verið að vinna á sama vettvangi. Ég held því að þessi nýi samningur sem fyrir dyrum stendur sé til þess að bæta og gera þjónustuna við aldrað fólk í Reykjavík skilvirkari.