Málefni aldraðra

88. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 00:16:56 (4100)

     Frsm. 1. minni hluta heilbr.- og trn. (Finnur Ingólfsson) ( andsvar):
    Virðulegi forseti. Það var ekki ætlun mín áðan að draga eitthvað í efa það sem hæstv. ráðherra sagði um hversu margir Reykvíkingar hefðu ekki aðgang að heilsugæslu eða heimilislæknum. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að hann lét mig hafa þær upplýsingar og ég tek þær alveg trúanlegar.
    Hins vegar var ég að benda á að læknir, varaborgarfulltrúi Sjálfstfl. sem titlar sig svo virðulega

í þessu blaði í dag, segir, með leyfi hæstv. forseta, þar sem hann er að svara grein er ég hafði skrifað í Dagblaðið nokkru fyrr: ,,Í grein sinni fullyrðir Finnur Ingólfsson að nú vanti ekki nema 2.000 Reykvíkinga aðgang að heimilislækni. Finnur tilgreinir núv. heilbrrh. sem heimildarmann fyrir þessu. Þó heilbrrh. sé maður hugrakkur og óragur við að taka óvinsælar ákvarðanir er hann ekki óskeikull fremur en Finnur Ingólfsson.`` Með þessu verið að draga í efa að það sé rétt sem hæstv. ráðherra hafi haldið fram. Það var ástæða minnar spurningar.
    Hitt atriðið varðandi samninginn við sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðinga og það fyrirkomulag sem hæstv. ráðherra var að lýsa hvernig skyldi komið fyrir þá var það um margt athyglisvert. Mér finnst full ástæða til að skoða það. Hins vegar verður, hæstv. ráðherra, að líta á það í svolítið víðara samhengi held ég vegna þess að mjög stór hluti þeirra sjúklinga sem sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðingar eru að þjónusta kemur beint frá sjúkrahúsunum. Auðvitað er hægt að koma því öllu fyrir í gegnum Heilsuverndarstöðina og heilsugæslustöðvarnar. Það er ekki nokkur einasti vafi. Það felst ótrúlegur sparnaður í því að geta útskrifað sjúklinga fyrr af sjúkrahúsum ef hægt er að þjónusta þá með slíkri aðstoð sem boðið er upp á í heimahúsum.