Málefni aldraðra

88. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 00:19:08 (4101)


     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) ( andsvar):
    Virðulegi forseti. Það er aðeins tvennt sem ég vildi minnast á. Í fyrsta lagi má alltaf búast við því að einhverjir íbúar í jafnfjölmennu sveitarfélagi og Reykjavík skrái sig ekki af einhverjum ástæðum á heilsuverndarstöð eða hjá heimilislækni. Jafnvel þó að búið væri að fullnægja allri þörf fyrir heimilislækna og heilsugæslulækna í Reykjavík eins og hún væri metin væri hætta á því að alltaf væru einhverjir sem ekki skráðu sig. Ég tel því að menn séu að nálgast mjög mikið það mark, miðað við að við hv. þm. höfum fengið réttar upplýsingar, að heimilislæknaþjónustunni og heilsugæslunni í Reykjavík sé vel sinnt.
    Í öðru lagi vil ég líka draga í efa það sem hv. þm. sagði vegna þess að það hefur verið kvartað undan því við heilbrrn. að heilsugæslustöðvarnar og þeir sem stjórni heimahjúkruninni viti ekki af sjúklingum sem sjúkrahúsin eru að senda heim. Það er auðvitað nauðsynlegt að heilsuverndarstöðvarnar viti af þeim sjúklingum og fylgist með líðan þeirra. M.a. þess vegna fannst mönnum eðlilegt að reyna að fá hina sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðinga til að vinna störf sín í fullu samráði og samvinnu við heilsugæslustöðvarnar.