Málefni aldraðra

88. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 00:28:19 (4103)


     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að heilbr.- og trn. fái þessar upplýsingar. En ég ítreka enn viðvörunarorð mín. Ég tel að þessar frumupplýsingar um vistunarmat aldraðra séu alls ekki fullnægjandi vegna þess að ég tel að menn eigi eftir að samræma skoðanir. Menn hafi t.d. ekki metið vistunarþörf þeirra sem þegar eru á stofnunum, þ.e. þörfina á því að byggja vistunarstofnanir fyrir þá sem kunna að vera inni á stofnunum sem eru hjúkrunarheimili að nafninu til, meta hvernig aðstæðurnar eru þar, því að hjúkrunarheimili og hjúkrunarheimili geta verið sitt hvað. Sumar af þeim stofnunum sem notaðar eru sem hjúkrunarheimili á Íslandi eru einfaldlega þannig að þær eru ekki gömlu fólki bjóðandi. En með öllum þessum fyrirvörum skal ég fúslega veita heilbr.- og trn. þær upplýsingar sem um var beðið, en æski þess að menn fari þá með þær upplýsingar með þeim fyrirvörum sem ég hef hér sett.
    Í annan stað vil ég aðeins geta þess að þær upplýsingar sem ég hef um vistunarmatið í Reykjavík eru frá vistunarmatsnefndinni sjálfri. Þar er því um meira að ræða heldur en beiðnir sem komið hafi til Reykjavíkurborgar. En ég tek fram að ef ég man rétt eru á milli 90 og 100 umsóknir enn ómetnar í þessum hópi þar sem niðurstaðan var að þörf væri fyrir alls 157 hjúkrunarrými.
    Í þriðja lagi vil ég einnig taka fram að svo einkennilegt sem það er þá gengur rekstur vistheimilisins á Reykhólum mjög vel. Ástæðan er ekki sú að það hafi verið svona mikil þörf fyrir vistun í sveitinni eins og hún var byggð þá heldur virðist vera svo mikið af eldra fólki sem á uppruna sinn í Reykhólasveit sem vill koma þangað aftur til þess að eyða þar ellidögum sínum. Rekstur vistheimilisins á Reykhólum gengur því ágætlega og skal ég fúslega upplýsa að það kom mér á óvart.