Málefni aldraðra

88. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 00:30:35 (4104)


     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þessi svör. Ég geri þá ráð fyrir því að heilbr.- og trn. fái aðgang að vistunarmatinu eins og það liggur núna fyrir, með öllum fyrirvörum auðvitað. Að sjálfsögðu verður að fara vel með það þar sem það er ekki fullbúið.

    Varðandi Reykhóla þá er mér kunnugt um að reksturinn hefur gengið furðuvel, sem er aðallega vegna þess að það var ákveðið fyrir allmörgum árum að sameina heilsugæsluumdæmin í Barðastrandarsýslu og Dalasýslu. Þetta er orðið eitt upptökusvæði og það hjálpar til við að stuðla að því að reksturinn á Reykhólum sé traustur.
    Loks tel ég ástæðu til þess, virðulegi forseti, að þakka fyrir þá ítarlegu umræðu um málefni aldraðra sem hér hefur farið fram. Það er ekki svo oft sem slík umræða fer fram. Ég vek athygli á því að þátttakendur í henni af hálfu stjórnarandstöðunnar og reyndar af hálfu stjórnarliðsins líka hafa ekki síst verið þingmenn Reykvíkinga. Það segir sína sögu um málaflokkinn, að hann er sérstaklega alvarlegur og erfiður hér, en það segir líka, gagnstætt því sem stundum er haldið fram t.d. í fjölmiðlum, að það kemur fyrir að rætt sé um málefni Reykvíkinga á Alþingi. Það hefur a.m.k. verið gert hér í kvöld.