Tekjustofnar sveitarfélaga

88. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 00:36:13 (4106)

     Frsm. minni hluta félmn. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að mæla fyrir áliti minni hluta félmn. um frv. til laga um breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Í meginefni frv. er kveðið á um

að fella niður innheimtu á aðstöðugjaldi árið 1993 og greiða sérstakt 120 millj. kr. framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem draga á frá þeim greiðslum sem sveitarfélög eiga að fá frá ríkissjóði í stað aðstöðugjaldsins. Í þriðja lagi er í frv. kveðið á um að ákvæði laga um gjöld sem tengd eru aðstöðugjaldsstofni haldi gildi sínu óháð breytingum á aðstöðugjaldinu. Í fjórða lagi er lagt til í frv. að framlag ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði skert um 110 millj. en það er sú fjárhæð sem samkvæmt lögum á að renna til Lánasjóðs sveitarfélaga. Í fimmta lagi er gert ráð fyrir að lögin komi til framkvæmda á fyrsta degi nýs árs.
    Það var ekki mikill tími til að fjalla um þetta en þó má segja að við fengum nokkuð góðar upplýsingar frá fulltrúum Sambands ísl. sveitarfélaga. Hvað sveitarfélögin varðar og aðstöðugjaldsþátt frv. má segja að við höfum eins góðar upplýsingar og hægt er að ætlast til að menn geti reitt af hendi miðað við þann tíma sem menn höfðu til að líta yfir málið. Hins vegar kom greinilega í ljós að hraðinn á málinu var meiri en svo að unnt væri að fá lögfræðilegt álit um álitaefni sem komu upp varðandi landsútsvar en gert er ráð fyrir því að landsútsvar verði lagt á og innheimt áfram þrátt fyrir að aðstöðugjald verði ekki innheimt.
    Virðulegi forseti. Álit minni hluta félmn. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Um þrjátíu ára skeið hefur aðstöðugjald verið einn gildasti tekjustofn sveitarfélaga. Allt fram til ársins 1990 var lögbundið mismunandi hámark gjaldsins eftir atvinnugreinum. Þrátt fyrir lagabreytinguna hefur flokkun aðstöðugjaldsins haldist í meginatriðum. Ókostir aðstöðugjaldsins hafa verið mismunandi skattlagning milli atvinnugreina, mismunun milli sveitarfélaga og uppsöfnuð áhrif gjaldsins í verðlagi.
    Minni hluti nefndarinnar er samþykkur því að fella niður aðstöðugjöld á öllum atvinnugreinum, enda muni nýr tekjustofn sveitarfélaga ekki fela í sér áðurgreinda ókosti.
    Ekki liggur fyrir hvaða tekjustofna sveitarfélögin fá í stað aðstöðugjaldsins og er málið því ekki fullunnið. Tekið er fram að með stuðningi við afnám aðstöðugjaldsins er minni hluti nefndarinnar ekki að fallast á þá leið sem ríkisstjórnin hefur valið til bráðabirgða.
    Að fengnum upplýsingum fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga gerir minni hlutinn ekki athugasemd við það hlutfall af álögðu aðstöðugjaldi sem sveitarfélögin skulu fá greitt með sérstöku framlagi úr ríkissjóði, en tekur fram að ekki liggja fyrir upplýsingar um innheimtu aðstöðugjalds á undanförnum árum sundurliðað eftir sveitarfélögum.
    Hvað varðar landsútsvar bendir minni hlutinn á að vafi leikur á að það standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að viðhalda því eftir að aðstöðugjald hefur verið fellt niður.
    Ekki gafst tími til að afla lögfræðilegra álitsgerða um þetta efni og telur minni hlutinn óráðlegt að viðhalda landsútsvari í ljósi þess vafa. Þá tekur minni hlutinn undir gagnrýni Sambands íslenskra sveitarfélaga á ríkisstjórnina fyrir skerðingu á framlagi ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, sbr. bráðabirgðaákvæði IV í frv. og telur það ámælisvert af stjórnvöldum að rjúfa þannig nýgert samkomulag við Samband íslenskra sveitarfélaga. Slíkt framferði eykur ekki traust sveitarfélaga á núverandi ríkisstjórn og var þó ekki á bætandi.
    Niðurstaða minni hlutans er að hann mun styðja ákvæði til bráðabirgða I og II, sitja hjá við ákvæði III og leggjast gegn ákvæði IV í frv.
    Birt eru sem fylgiskjöl með áliti þessu umsögn minni hluta efh.- og viðskn., ályktun Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 7. des. 1992 og bréf Vinnuveitendasambands Íslands frá 3. des. 1992.``
    Undir þetta álit skrifa auk mín Jón Kristjánsson, Sigurður Þórólfsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
    Ég vil aðeins víkja að þessu áliti okkar. Við nefnum þrjá ókosti sem hafa fylgt aðstöðugjaldi. Í fyrsta lagi að skattlagning hefur verið mismunandi milli atvinnugreina. Allt fram til þess að ný lög um tekjustofna sveitarfélaga tóku gildi á árinu 1990 var innheimtu aðstöðugjaldi skipt í fjóra flokka eftir atvinnugreinum. Fiskveiðar voru einn flokkurinn með lægsta hámarksprósentu innan þess flokks. Næsti flokkur var t.d. fiskiðnaður og annar iðnaður. Síðan kom þriðji flokkur sem var, ef ég man rétt, ýmis þjónustustarfsemi og í fjórða

flokki var verslun og aðrar greinar sem báru hæst aðstöðugjald. Hæsta hámarkið var 1,3% af veltu fyrirtækja, en í lægsta flokknum var hámarkið, ef ég man rétt, eitthvað um 0,3--0,4%. Allan þennan tíma voru því mjög mismunandi álagningarflokkar.
    Eftir að lögunum var breytt voru allar atvinnugreinar settar í einn flokk með 1,3% hámarki. Þrátt fyrir að sveitarfélögin hefðu þá frjálsræði um að ákvarða álagningarprósentuna innan þessa hámarks, 1,3%, án tillits til atvinnugreinar, hefur reyndin orðið sú að sú flokkaskipan sem áður var hefur í meginatriðum haldist þó bilið hafi kannski breyst og jafnvel minnkað á milli flokka. Í einstaka sveitarfélagi hafa menn stigið skrefið til fulls og samræmt álagningarprósentuna.
    Þetta hefur þýtt að atvinnugreinarnar hafa um þrjátíu ára skeið borið misjafna skatta. Munurinn á lægsta álagningarflokknum og þeim hæsta var nálægt því að vera einn á móti fjórum. T.d. báru verslun og önnur slík viðskipti þannig nálægt því fjórum sinnum hærra aðstöðugjald en t.d. fiskveiðar. Þetta er auðvitað mismunur á milli atvinnugreina sem er sögulega séð að mörgu leyti skiljanlegur en ekki er eðlilegt að viðhalda til frambúðar. Atvinnugreinar verða að vera skattlagðar nokkurn veginn á jafnréttisgrundvelli og hefur ekki þótt í seinni tíð eðlilegt að hlífa einni grein umfram aðra hvað þetta snertir. Þetta er fyrsti punkturinn um ókosti aðstöðugjaldsins, þ.e. mismunur milli atvinnugreina. Áform um að hætta innheimtu aðstöðugjaldsins er kostur hvað þetta varðar ef sá skattur sem í staðinn kemur, hvort sem hann verður af fyrirtækjum eða öðru, vekur ekki upp sama ókostinn og menn eru að fara frá.
    Í öðru lagi hefur ókostur aðstöðugjaldsins verið mismunun á milli sveitarfélaga sem er í fyrsta lagi leidd af mismunandi atvinnusamsetningu sveitarfélaga og því að aðstöðugjaldsprósentan hefur verið mismunandi eftir atvinnugreinum. Þannig hafa t.d. byggðarlög sem hafa byggt sína atvinnustarfsemi að mestu leyti á verslun og þjónustu haft miklu meiri tekjur af aðstöðugjaldi á íbúa en sjávarútvegspláss vegna þess að álagningarprósenta aðstöðugjaldsins á sjávarútveginn var miklu lægri en t.d. á verslunina. Þetta hefur skapað verulega mismunun á milli sveitarfélaga. Sú mismunun hefur fyrst og fremst komið fram milli Reykjavíkur annars vegar og annarra sveitarfélaga hins vegar. Þó ber dálítið á því að staðir á landsbyggðinni, sem eru nokkurs konar verslunarmiðstöðvar síns fjórðungs, eru í svipaðri stöðu gagnvart nágrannasveitarfélögum og Reykjavík hefur verið gagnvart landsbyggðinni hvað þetta varðar.
    Sem dæmi má nefna að á þessu ári er álagt aðstöðugjald 5.350 milljónir, rúmir 5,3 milljarðar. Þar af rann til Reykjavíkur einnar rúmlega 2,8 milljarðar, sem gerir liðlega 50%, 52--53% ef ég reikna í huganum, þar sem búa um 40% þjóðarinnar. Það sem ég horfi til prívat og persónulega er að breytingarnar sem er verið að fara út í leiði til þess að tekjurnar dreifist jafnar eftir íbúafjölda en aðstöðugjaldið hefur gert. Það ætti að leiða til þess að tekjurnar hækkuðu í þeim sveitarfélögum þar sem menn hafa haft tekjur af aðstöðugjaldi undir landsmeðaltali, en lækka að sama skapi eitthvað þar sem menn hafa haft tekjur af þessum gjaldstofni vel yfir landsmeðaltali. Með því að fara frá aðstöðugjaldinu eru menn væntanlega að stuðla að því að eyða þessari mismunun sem aðstöðugjaldið hefur valdið milli sveitarfélaga.
    Í þriðja lagi hefur aðstöðugjaldið sem veltuskattur auðvitað haft áhrif í verðlaginu, nokkurs konar uppsöfnunaráhrif. Þar sem aðstöðugjaldið hefur verið þó þetta hátt, allt upp í 1,3%, geta þessi uppsöfnunaráhrif orðið mikil þegar við erum að tala um veltu í gegnum hvert fyrirtæki á fætur öðru. Sjávarútvegsfyrirtæki sem kaupir vöru af verslun, sem aftur kaupir af innflytjanda eða eitthvað slíkt, á hverju stigi er aðstöðugjald lagt á og safnast upp og endar hjá þeim sem er hinn endanlegi kaupandi og notandi, hann ber í raun og veru ekki bara aðstöðugjald miðað við álagningarstofn þess fyrirtækis sem hann hefur verslað við heldur allra þeirra viðskipta sem hafa farið fram á undan. Þannig að búast má við því að með því að leggja þennan skatt af þá eigi að vera hægt að lækka verðlag eitthvað, a.m.k. um jafnmikla fjárhæð og álagningunni hefur numið, og e.t.v. eitthvað eilítið meira vegna þessara uppsöfnunaráhrifa.
    Það er hins vegar sá þáttur málsins sem er í hvað mestri óvissu að stjórnvöld geti

tryggt að verðlag muni lækka til jafns á við þá skattalækkun sem er verið að veita atvinnurekstri. Ég minni t.d. á ummæli blaðafulltrúa Flugleiða í útvarpinu þegar rætt var við hann um þetta og mál sem tengdust gengisfellingunni, en hann tók þannig til orða að afnám aðstöðugjaldsins væri búhnykkur fyrir Flugleiðir. Það þýddi auðvitað, svo ég túlki nú hans ummæli eins og ég skildi þau, að hann hugsaði sér ekki að Flugleiðir mundu lækka verð á sinni vöru, flugfarmiðum, þannig að þeir tækju út aðstöðugjaldið, heldur að aðstöðugjaldið rynni raunverulega inn í fyrirtækið sem nýjar tekjur. Og ég er því miður nokkuð uggandi um það að atvinnureksturinn og forsvarsmenn hans muni ekki af nægjanlega miklum krafti snúa sér að því að lækka verð á sinni þjónustu og vöru til samræmis við þessa lækkun á sköttum eða aðstöðugjaldi. En þarna þurfa stjórnvöld að halda mönnum við efnið og fylgja því fast eftir að þetta nái fram að ganga.
    Við tökum það sérstaklega fram að með því að styðja það að aðstöðugjaldið sé lagt af, þá erum við ekki að fallast á þá leið sem valin hefur verið til bráðabirgða í þessu máli, sem er að meginstofni til sú að hækka tekjuskatt um 1,5%. Það er leið sem er mjög umdeilanleg, að velta þessu frá atvinnurekstri yfir á einstaklinga með svona hætti, og við teljum að í heildarsamhengi þeirrar skattastefnu sem birst hefur í skattafrumvörpum ríkisstjórnarinnar sé þessi leið í raun og veru ekki mjög vænleg.
    Eitt er það sem er auðvitað óvissuatriði og það er ákvæði í I. bráðabirgðaákvæði frumvarpsins um að það eigi að leggja á aðstöðugjald á árinu 1993, en í stað þess að innheimta það þá ætlar ríkið að borga hverju og einu sveitarfélagi sem nemur 80% af þeirri álagningu. Talan 80% er væntanlega tilkomin eftir viðræður milli Sambands ísl. sveitarfélaga og stjórnvalda en í raun og veru liggur ekkert fyrir að ígrundaðri athugun hvort að sú tala er einhver sannleikur um innheimtu sveitarfélaga eða tekjur af þessari álagningu. Og því miður liggja ekki fyrir upplýsingar um það, sundurliðaðar eftir sveitarfélögum, hvernig þeim hefur tekist á undanförnum árum að innheimta sitt aðstöðugjald, þannig að við erum í nokkurri óvissu um það hvort þessi tala, 80%, dugi í öllum tilvikum til að mæta þeim tekjum sem sveitarfélögin hafa haft. Það er eðli málsins samkvæmt mjög mismunandi eftir byggðarlögum hvað þeim hefur tekist að innheimta af sínu álagða aðstöðugjaldi, og eflaust eru sum sveitarfélög þannig sett að þau hafa innheimt minna og önnur innheimt meira, og með þessari leið hætta menn á það að sum sveitarfélög, þ.e. þau sem hafa náð betri innheimtu, fái minni tekjur en þau ella hefðu haft. En því miður er ekkert hægt að segja um þetta með neinni vissu þannig að það er ákveðin óvissa í þessu máli og þessar upplýsingar liggja ekki fyrir þannig að við erum í raun og veru að benda á þetta til þess að taka það fram að við teljum okkur ekki geta borið ábyrgð á þessari prósentutölu þó að við viljum styðja þetta bráðabirgðaákvæði I.
    Það hafa komið fram mótmæli frá sveitarfélögum eins og Sauðárkróki og Vestmannaeyjum. Þau sveitarfélög telja sig hafa innheimt hærra hlutfall á undanförnum árum en 80% og eflaust fleiri sveitarfélög. En fleiri upplýsingar liggja ekki fyrir hjá nefndinni a.m.k. þannig að það er erfitt að fullyrða um þetta. Eitt er líka sem getur skekkt myndina og það eru þau sveitarfélög sem hafa á undanförnum árum verið að leggja fram fé í atvinnulífið. Það hefur verið tekið saman að á undanförnum fimm árum hafi sveitarfélög lagt fram að jafnaði sem svarar 700 millj. kr. á ári til atvinnurekstrar í formi hlutafjárkaupa eða lánsfjár eða ábyrgða, og auðvitað eru nokkur dæmi um það að í slíkum tilvikum hafi peningarnir eða lánin verið notuð til að gera upp gjöldin gagnvart viðkomandi sveitarfélagi þannig að það hefur náð hærra innheimtuhlutfalli með þessari aðgerð, og í slíkum tilvikum er það auðvitað dálítið súrt í broti fyrir þau sveitarfélög að þurfa að sætta sig við minni tekjur en ella hefði orðið, sérstaklega þar sem þau hafa sett sig í ábyrgð á undanförnum árum og þurfa þá enn frekar en áður að fá fullar tekjur af sínum tekjustofnum. Þarna eru sveitarfélögin í afar mismunandi stöðu, en einkum eru þetta sveitarfélög á landsbyggðinni sem hafa lagt fram fé, ábyrgðir og lán í útgerðar- og sjávarútvegsfyrirtæki á sínum stöðum.
    Í þriðja lagi vekjum við athygli á því að það er talinn leika vafi á að það standist jafnræðisreglur stjórnarskrárinnar að viðhalda því sem eftir stendur af aðstöðugjaldinu.

Þetta heitir landsútsvar. Þar hefur Vinnuveitendasamband Íslands gert mjög ákveðnar athugasemdir og eftir því sem mér skilst mun það samband ætla að höfða dómsmál við fyrsta tækifæri verði þetta að lögum, og einmitt á þessari forsendu, að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar sé ekki virt með þessari lagasetningu, sem afnemur aðstöðugjald en viðheldur landsútsvari, þannig að þau fyrirtæki sem bera landsútsvar njóti ekki jafnræðis á við annan atvinnurekstur sem hefur verið látinn greiða aðstöðugjald.
    Ég vil, virðulegi forseti, vitna aðeins til bréfs Vinnuveitendasambands Íslands til fjmrh. sem dagsett er 3. des. sl., og fjallar einmitt um þetta efni, en mönnum til glöggvunar skal þess getið að á síðasta ári, 1991, var álagt landsútsvar um 580 millj. kr. og skiptist þannig að ÁTVR greiddi 303 millj., Áburðarverksmiðjan 15 millj. og Sementsverksmiðjan 10 millj., Sala varnarliðseigna 1,3 millj., Íslenska járnblendifélagið 13 millj. Olíufélögin lögðu til 128 millj. kr. og bankar og sparisjóðir 111 millj. Og í bréfi Vinnuveitendasambandsins segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Vinnuveitendasambandið hefur talið ótvírætt að niðurfelling veltuskattsins, aðstöðugjalds eða landsútsvars hlyti að gilda um öll fyrirtæki og telur fráleitt að til álita geti komið að halda uppi slíkri sértækri skattheimtu á rekstur fáeinna tiltekinna fyrirtækja. Álagning aðstöðugjalds/landsútsvars á þessi örfáu fyrirtæki bryti svo gróflega í bága við viðurkenndar jafnræðisreglur að það fengi með engu móti staðist. Það hefði sömu óheppilegu áhrifin á atvinnustarfsemina, skerti samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á umræddum sviðum og ylli hærri kostnaði við þá þjónustu og framleiðslu sem umrædd fyrirtæki stunda. Er í þessu sambandi sérstaklega minnt á brýna þörf á að styrkja samkeppnishæfni íslenska bankakerfisins með lækkun rekstrarkostnaðar og þar af leiðandi lækkun vaxtamunar. Afnám aðstöðugjalds/landsútsvars af starfsemi banka og sparisjóða er þannig ein af forsendum fyrir lækkun vaxta og styrkari stoðum innlendra fjármálafyrirtækja á opnum markaði EES.
    Vinnuveitendasambandið væntir þess því fastlega að landsútsvar verði fellt niður frá næstu áramótum að telja eins og aðstöðugjaldið að öðru leyti.``
    Það voru af hálfu félmn. gerðar tilraunir til þess að fá lögfræðilegar álitsgerðir um þetta efni en af skiljanlegum ástæðum voru lögfræðingar ekki reiðubúnir að skila nefndinni skriflegum álitsgerðum um þetta efni með svona skömmum fyrirvara. Og sá tími sem við höfðum málið til meðferðar var ekki það mikill að við gætum beðið eftir því. Við teljum nauðsynlegt áður en farið er lengra í þessu og stutt bráðabirgðaákvæði III að nauðsynlegt sé að hafa fyllri upplýsingar um þetta efni og við viljum ekki bera ábyrgð á lagasetningu sem er ekki á traustari grunni en fram hefur komið, og munum því sitja hjá við þetta ákvæði.
    Nú, að lokum, virðulegi forseti, er það bráðabirgðaákvæði IV í frv. sem fjallar um það að svipta Jöfnunarsjóð sveitarfélaga 110 millj. kr., að skerða framlag ríkissjóðs til jöfnunarsjóðsins sem því nemur, um 110 millj. kr. Þarna er í raun verið að fella niður árlegt framlag ríkissjóðs til jöfnunarsjóðsins, sem endar hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Það er sjóður sem vissulega er nokkuð öflugur og þarf að vera það því að hann hefur í vaxandi mæli á undanförnum árum lánað sveitarfélögum, ekki bara fyrir framkvæmdum heldur einnig til skuldbreytinga og fjárhagslegrar endurskipulagningar á fjárreiðum viðkomandi sveitarfélags. Og því miður er það svo að m.a. vegna vaxandi kröfu og nauðsynjar á því að sveitarfélög hafi afskipti af atvinulífinu í sínu byggðarlagi þá hefur fjárhagur margra sveitarfélaga versnað mjög á undanförnum fjórum, fimm árum, og lánasjóðurinn hefur verið mjög gagnlegur skuldugum sveitarfélögum, til þess að greiða fyrir þeirra lánveitingum og líka til þess að lána þeim til að skuldbreyta sínum skuldum og lengja afborgunartíma á þeim þannig að þau ráði við greiðslubyrði þeirra lána með skaplegum hætti. Það er því afar bagalegt að ráðast á þennan sjóð og verður að segjast að þessi hæstv. núv. ríkisstjórn má helst ekki vita af nokkrum sjóði sem fráfarandi ríkisstjórn hefur byggt upp í sinni tíð, án þess að seilast í hann með krumluna sína. Það eru þekkt dæmin um Verðjöfnunarsjóðinn sem ríkisstjórnin tæmdi til þess að létta sjávarútveginum tapið sem var fyrr á þessu ári og fleyta þeim fram á haustið, og það voru síðsumars uppi áform um það að seilast í Fiskveiðisjóð og núna er það Lánasjóður sveitarfélaga sem fær að vita af því að ríkissjóður rennir hýru auga til hans. Og því miður, miðað við reynsluna af þessari ríkisstjórn, er ekki ástæða til þess að trúa því mjög að það verði látið duga að skerða framlagið þetta árið heldur miklu fremur að óttast að þetta verði endurtekin aðgerð sem muni auðvitað höggva skarð í eiginfjárstöðu þessa sjóðs.
    Þetta ákvæði kom líka sérstaklega á óvart þar sem sveitarfélögin voru nýlega búin að semja við ríkisstjórnina, með hæstv. félmrh. í broddi fylkingar sem ráðherra sveitarstjórnarmálefna, um samskipti á milli þessara tveggja aðila. Eins og menn muna greip ríkissjóður til þess ráðs að sækja fé til sveitarfélaga og gera sveitarfélögin að skattstofni fyrir ríkissjóð með beinum höfðatölugreiðslum á íbúa. Sveitarfélögin undu þessu illa, þessu gerræði ríkisstjórnarinnar, og eftir nokkuð harða rimmu nú í haust var það niðurstaðan að gert var samkomulag milli stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga og ríkisstjórnarinnar um að sveitarfélögin legðu fram 500 millj. í ríkissjóð gegn því að hin fyrri skattheimta, svonefndur lögguskattur, félli niður, og gegn sérstöku ákvæði um það að framvegis mundu samskipti milli ríkisins og sveitarfélaga vera með skaplegum hætti og samráð yrði haft við sveitarfélögin áður en lögð yrði til einhver breyting á fjárhagslegum högum sveitarfélaga. En það var ekki orðið ýkja gamalt þetta samkomulag þegar það var svikið. Það verður nú að segja að það er alveg með ólíkindum hvað núv. ríkisstjórn er ólánsöm í samskiptum við sveitarfélögin, eða öllu heldur má segja ófyrirleitin, og virðist ekki virða mikils eigin yfirlýsingar og undirskriftir undir samkomulag við Samband ísl. sveitarfélaga. Ég hefði nú seint trúað því, virðulegi forseti, að hæstv. félmrh. gengi svona langt í framkomu sinni gagnvart sveitarfélögum, en e.t.v. getur ráðherrann skýrt afstöðu sína frekar við þessa umræðu.
    Virðulegi forseti. Ég hef stiklað á stóru í áliti minni hluta félmn. um þetta frv. um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Hér er um að ræða mál sem er mjög viðamikið og hægt að ræða út frá ýmsum sjónarhornum í ítarlegu máli. E.t.v. kem ég hér aftur síðar í umræðunni til þess að fjalla um aðra þætti í þessu máli en ég hef vikið að fram til þessa. En ég læt framsöguræðunni fyrir þessu nál. lokið, virðulegi forseti.