Tekjustofnar sveitarfélaga

88. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 02:56:50 (4116)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég er þeirrar skoðunar að mjög mikilvægt sé að undirbúa íslenskt bankakerfi fyrir þessa auknu samkeppni. Ég held að það sé alveg ljóst að eiginfjárstaða okkar banka er með þeim hætti að ekki muni af veita. Það er nauðsynlegt að fella niður skatta af þessum stofnunum til jafnvægis við það sem gengur og gerist í löndunum í kringum okkur.
    Í framhaldi af þessu, virðulegur forseti, vildi ég endurtaka spurningar mínar til hæstv. iðnrh.: Telur hann eðlilegt að leggja landsútsvar á Sementsverksmiðjuna á sama tíma og hér liggur fyrir frv. um að breyta því fyrirtæki í hlutafélag en við það mundi landsútsvarið falla niður? Og telur hæstv. ráðherra eðlilegt að á sama tíma og viðhalda á landsútsvari á Íslenska járnblendifélaginu liggja fyrir erindi, sem m.a. hafa verið kynnt efh.- og viðskn., um nauðsynlegar aðgerðir í sambandi við það félag?
    Það er að mínu mati mjög furðulegt að hæstv. ríkisstjórn skuli leggja það til að viðhalda þessu gjaldi á félaginu en vera síðan með á sínu borði upplýsingar um nauðsyn þess að gera þar í verulegar ráðstafanir. Þannig stangast hvað á annars horn í þessu sambandi hjá hæstv. ríkisstjórn. Ég er þeirrar skoðunar að hægt hefði verið að komast hjá þessari gjaldtöku og ná tekjunum með öðrum hætti. Ég geri mér grein fyrir því að auðvitað þarf ríkissjóður á sínum tekjum að halda. Það var vilji til þess í hv. efh.- og viðskn. og ég tel að meiri hluti nefndarinnar hafi viljað það en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, hæstv. viðskrh., var engin leið að tala um það og virtist sem um væri að ræða samkomulag stjórnarflokkanna sem stæði í vegi fyrir þeim skynsamlegu ákvörðunum sem annars hefði verið hægt að taka.