Tekjustofnar sveitarfélaga

88. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 02:59:38 (4117)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Mér þykir ánægjulegt að hv. 1. þm. Austurl. lýsir stuðningi við að undirbúa íslenska bankakerfið undir samkeppni. Ég fullvissa hann um að þeim skoðunum deili ég með honum. Ég bendi hins vegar á, eins og ég sagði áðan, að við höfum nokkurn tíma til þess að stilla skattkerfi okkar inn á það sem þarf að verða í framtíðinni.
    Vegna spurninganna sem hv. 1. þm. Austurl. beindi til mín varðandi landsútvar á Sementsverksmiðjuna annars vegar og Járnblendiverksmiðjuna hins vegar vildi ég segja það fyrst um Sementsverksmiðjuna að það mál leysist af sjálfu sér þegar frv. um að breyta henni í hlutafélag verður samþykkt. Það er því engin ástæða til að hafa áhyggjur af því.
    Um seinna málið vil ég segja það eitt að auðvitað væri æskilegt að taka þetta skref allt í einu en hins vegar kemur þar á móti einfaldlega fjáröflunarsjónarmiðið. Þar hafa stærri hagsmunir verið látnir víkja fyrir smærri. Það þýðir í þessu tilfelli að þær tekjur sem ríkissjóður hefur af landsútsvari af lánastofnunum, olíuverslun og nokkrum landsfyrirtækjum í opinberri eigu hafa verið taldar vega þyngra. Það er hins vegar tímabundið ástand, eins og kom fram hjá hæstv. fjmrh., og að því stefnt á næsta ári að undirbúa nýtt tekjuöflunarkerfi, nýja skattlagningu, í stað aðstöðugjaldsins. Þá er ég viss um að tekið verður tillit til þeirra sjónarmiða sem hv. 1. þm. Austurl. hreyfir hér réttilega.