Tekjustofnar sveitarfélaga

88. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 03:10:28 (4123)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. 8. þm. Reykn. að þegar um næstu áramót verða nokkur tímamót í gjaldeyris- og bankamálum á Íslandi. Hins vegar stendur eftir sem áður að það er ekki fyrr en 1995 að frelsi til fjármagnshreyfinga og gjaldeyrisviðskipta verður að öllu leyti innleitt. Þetta er í samræmi við stefnumótun sem þegar var ákveðin á árinu 1990, og reyndar á grundvelli nýsettra laga um gjaldeyrismál, sem mjög víðtæk samstaða náðist um í þinginu.
    Það er hins vegar svo að bæði með vísun til þeirra samningsákvæða, sem eru í fyrirliggjandi EES-samningum og þeirra áforma sem við höfum sjálfir út frá okkar eigin sjónarmiðum um það í hvaða áföngum við ætlum að innleiða þetta frelsi, er það ekki fyrr en 1995 að við væntum þess að starfa hér á fullkomlega opnum markaði. Heimildin til þess að erlendir bankar starfræki hér útibú er að sjálfsögðu eldri ákvörðun, eins og hv. þm. vitnaði til. En þær stofnanir munu að sjálfsögðu starfa eftir íslenskum lögum, samkvæmt íslenskum skattareglum og samkvæmt íslenskum bankaeftirlitsreglum.