Tekjustofnar sveitarfélaga

88. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 03:12:00 (4124)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Aðeins örstutt. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svörin. En að því er varðar jafnræðisregluna þá tel ég ekki alveg sambærilegt að bera saman aðstöðugjald og tryggingagjald. Ég er ekki að fullyrða, hæstv. viðskrh., að þessi lagasmíð standist ekki 67., 70. og 71. gr. stjórnarskrárinnar. En ég tel að hér sé tekin veruleg og óþörf áhætta. Það er að sjálfsögðu dómstóla að kveða upp þann úrskurð.
    Að því er varðar mismunandi tryggingagjöld er lægra tryggingagjald á samkeppnisgreinum og útflutningsgreinum en svipað tryggingagjald á flestum öðrum greinum, sérstaklega þjónustugreinum. Aðstöðugjaldið á sér ákveðinn uppruna og annan uppruna en tryggingagjaldið. Það var sama gjaldið á sínum tíma. Síðan breyttist það í áranna rás og nú standa menn uppi með aðstöðugjald og landsútsvar sem á sér alveg sambærilegan uppruna. Síðan er ákveðið að fella aðstöðugjaldið niður en landsútsvarið ekki vitandi það að

hér er um tilviljanakenndar aðstæður að ræða. T.d. sagði hæstv. viðskrh. áðan að ef löggjöf um Sementsverksmiðju ríkisins yrði samþykkt þá leystist það mál sjálfkrafa. Ef Sementsverksmiðju ríkisins verður breytt í hlutafélag fellur landsútsvarið á Sementsverksmiðjuna niður. Ekkert mál. Ef Áburðarverksmiðju ríkisins verður breytt í hlutafélag þá fellur landsútsvarið á Áburðarverksmiðju ríkisins niður. Ekkert mál.
    Eftir því sem mér skilst ætlar Áburðarverksmiðja ríkisins sér í málaferli við ríkissjóð til þess að fá þetta fellt niður. Í sjálfu sér væri miklu einfaldara fyrir Áburðarverksmiðju ríkisins að leita til ríkisstjórnarinnar og biðja um að fyrirtækinu yrði breytt í hlutafélag. Mér skilst að hæstv. ríkisstjórn sé mjög áköf í þeim efnum og vilji breyta sem flestum fyrirtækjum í hlutafélög. Það er stefna út af fyrir sig.
    Þessi málflutningur er því ekki alveg rökheldur, hæstv. viðskrh. Ég tel því að þarna sé tekin veruleg áhætta og ekki skynsamlegt að leggja út á slíka braut og ég vara mjög við því.
    Að því er varðar liðsinni stjórnarandstöðunnar í þessu máli þá erum við í sjálfu sér ekkert vanir því að mikið sé hlustað á okkar röksemdafærslur af hæstv. núv. ríkisstjórn. Ég heyri það að hæstv. viðskrh. hlustar grannt á þessar umræður klukkan rúmlega þrjú að nóttu og vonandi skilar þessi umræða einhverjum árangri. Það er mögulegt, hæstv. viðskrh., að breyta þessu máli milli 2. og 3. umr. eins og mikill vilji var til í hv. efh.- og viðskn. Ég veit að ef hæstv. viðskrh. talar við formann nefndarinnar þá er alveg ljóst að hann vildi breyta þessu. Ég held satt best að segja að það sé langbest að samráð um þetta mál fari fram á morgun eða næstu daga til þess að koma í veg fyrir þetta slys.
    Að það skuli liggja fyrir að ríkisstjórnin ætli sér að fella niður landsútsvar af Sementsverksmiðju ríkisins með þeirri einföldu aðgerð að breyta fyrirtækinu í hlutafélag sýnir það ljóslega að hér er ekki jafnræði. Sú staðreynd mundi áreiðanlega verða til þess að færa þeim aukin rök sem hyggjast leggja í málaferli. Það verður síðan að koma í ljós hvernig þeim gengur.
    Ég minni á í þessu sambandi að ekkert atvinnufyrirtæki hefur t.d. lagt í málaferli út af skattinum á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Þó er ljóst að sá skattur leggst eingöngu á tiltekið húsnæði, og hafa verið uppi efasemdir um hvort það stenst jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. En menn hafa einhverra hluta vegna ekki lagt í málaferli af þeim sökum. Þeir sem að þeim skatti hafa staðið 15 sinnum, þar á meðal sá sem hér stendur, hafa talið að þar væri ekki mjög mikil áhætta. Áhættan er samt nokkur. Ég geri mér grein fyrir því. En í öll þessi 15 skipti hafa menn ekki lagt í málaferli.
    Ég hef ekki trú á því að Vinnuveitendasambandið ætli sér í málaferli út af þessu að ástæðulausu. Þeir hljóta að hafa einhverja von. Við báðum um lögfræðilegt álit og vildum fá sjálfstætt lögfræðilegt álit utanaðkomandi aðila en það var um það eins og margt annað að ekki var tími til þess. Það var ekki hægt að athuga það betur og enginn tími til að kalla á utanaðkomandi lögfræðing. Ef við náðum í einhverja var því borið við að þeir gætu ekki ráðið við málið á nokkrum klukkutímum, því það var eingöngu ráðrúm til að bíða eftir slíku áliti innan nokkurra klukkutíma.
    Það var því með þetta eins og eiginlega flest annað í skattamálum að það var engin leið að fara ofan í þau með skipulegum hætti og reyna að gera sér grein fyrir afleiðingum hinna ýmsu tillagna í þessum málum, hvorki að því er varðar virðisaukaskattinn eða annað. Þetta eru ákveðnar staðreyndir, hæstv. viðskrh. Við erum að sjálfsögðu tilbúin til að halda áfram að fjalla um þessi mál þótt ég geri mér ekki miklar vonir um að þá fremur en endranær verði hlustað á okkar rök.