Tekjustofnar sveitarfélaga

88. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 03:29:08 (4129)

     Frsm. minni hluta félmn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég skil ræðu hæstv. iðnrh. þannig að verði af því að breyta þessum tveimur tilteknu fyrirtækjum í hlutafélag þá verði fyrir því séð að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga skaðist ekki vegna þeirra breytinga. Ég minni á að þó að tölur séu ekki háar, taldar í milljónum tuga í þessum tilvikum, er jöfnunarsjóðurinn ákaflega viðkvæmur fyrir breytingum og ég teldi það ekki rétt og hafa nokkuð slæm áhrif ef sjóðurinn fengi ekki bætur fyrir það sem hann missti af landsútsvari.
    Hins vegar er það alveg rétt hjá hæstv. iðnrh. að sá málflutningur hefur verið settur fram af hálfu stjórnarandstæðinga að leggja landsútsvarið alveg af, en það hefur auðvitað verið með því hugarfari af okkar hálfu að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga yrði það þannig bætt að hann væri jafnsettur á eftir þrátt fyrir þá breytingu.