Almannatryggingar

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 10:03:42 (4132)

     Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Sigbjörn Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta heilbr.- og trn. um frv. til laga um breytinu á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1991, með síðari breyt ingum, og um stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum.
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund til viðræðna um það Pál Sigurðsson, Þorkel Helgason, Jón Sæmund Sigurjónsson, Guðjón Magnússon, Dögg Pálsdóttur, Magnús R. Gíslason og Einar Magnússon frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands, Ögmund Jónasson og Ragnhildi Guðmundsdóttur frá BSRB, Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Árna Guðjónsson frá Innheimtustofnun sveitarfélaga, Birnu Hreiðarsdóttur frá Jafnréttisráði, Þuríði Jónsdóttur frá Neytendasamtökunum, Finnboga Rút Hálfdánarson frá Lyfjafræðingafélagi Íslands, Guðmund Reykjalín frá Apótekarafélagi Íslands, Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Önnu Ragnarsdóttur frá Félagi einstæðra foreldra, Andra Árnason og Runólf Ólafsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Ingólf Finnbjörnsson frá Samtökum landflutningamanna, Hilmar Björgvinsson og Kristján Guðjónsson frá Tryggingastofnun ríkisins, Jón Ásgeir Eyjólfsson og Svend Richter frá Tannlæknafélagi Íslands, Skúla G. Johnsen frá héraðslæknisembætti Reykjavíkur, Ingimar Sigurðsson frá Heilsuverndarstöð Reykjavíkur, Guðmund Eyjólfsson og Högna Óskarsson frá Læknafélagi Reykjavíkur, Kristján Erlendsson frá Læknafélagi Íslands, Unni Halldórsdóttur frá Heimili og skóla, Sigurbjörn Sveinsson frá Félagi heimilislækna, Ólaf F. Magnússon frá Félagi sjálfstætt starfandi heimilislækna og Tómas Jónsson og Víglund Þór Þorsteinsson frá Sérfræðingafélagi íslenskra lækna.
    Þá fékk nefndin á fund sinn starfsstjórn úr Félagi forsjárlausra foreldra, en það félag var stofnað meðan á störfum nefndarinnar að þessu máli var unnið.
     Þá bárust nefndinni gögn og erindi um málið frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Félagi einstæðra foreldra, stjórn Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur, Félagi skólatannlækna, Öryrkjabandalagi Íslands, Landssamtökunum Heimili og skóli, Félagi sjálfstætt starfandi heimilislækna, Félagi íslenskra heimilislækna, héraðslækninum í Reykjavík, Skólatannlækningum Reykjavíkur, Tryggingastofnun Reykjavíkur, fimm félagsmönnum í Læknafélagi Reykjavíkur og Sérfræðingafélagi íslenskra lækna.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Breytingar meiri hlutans eru eftirfarandi:
    1. Við 1. gr. Lagt er til að árlegur barnalífeyrir verði 123.600 kr. í stað 135.600 kr. Meðlagsgreiðslur verða því 10.300 kr. á mánuði í stað 11.300 kr. sem gert var ráð fyrir í frv.
    2. Við 2. gr. Lagt er til að mæðra- og feðralaun verði greidd með einu barni, en samkvæmt frv. átti að fella slíkar greiðslur niður. Þá er lagt til að árleg greiðsla með einu barni verði 12.000 kr., með tveimur börnum 60.000 kr. í stað 36.000 kr. samkvæmt frv. og með þremur börnum eða fleiri 129.600 kr. í stað 93.600. Þá er einnig kveðið á um að heimilt sé að skilyrða greiðslu mæðra- og feðralauna við að meðlagsúrskurður hafi verið kveðinn upp eða fyrir liggi staðfest samkomulag um greiðslu framfærslueyris.
    3. Lagt er til að á eftir 4. gr. komi ný grein er feli í sér breytingu á c-lið 35. gr. laganna og er sú breyting gerð til samræmis við þær breytingar sem felast í 1. gr. frv.
    4. Við 5. gr. Lögð er til breyting á 36. gr. laganna sem láðst hafði að gera þegar greininni var breytt í frv.
    5. Við 6. gr. Lögð er til breyting á ákvæði greinarinnar um tilvísanir til lækna. Samkvæmt breytingunni er ráðherra veitt heimild til að ákveða með reglugerð að skilyrði fyrir greiðslu sjúkratrygginga skuli háð tilvísun heilsugæslulæknis eða heimilislæknis. Í frv. hafði verið gert ráð fyrir að sjúkratryggingar greiddu ekki fyrir sérfræðingahjálp og rannsóknir nema sjúklingur hefði tilvísun frá heimilislækni eða heilsugæslulækni.
    6. Við 7. gr. Lögð er til sú breyting að börn og unglingar, 15 ára og yngri, skuli eiga kost á einni skoðun á ári hjá tannlækni sér að kostnaðarlausu. Með þessari breytingu er verið að stuðla að ákveðnu forvarnastarfi til að bæta tannheilsu barna og unglinga. Skoðun þessi gæti farið fram hjá hvort sem væri skólatannlækni eða á einkastofu. Tannskoðunin felur í sér að aðstandendur barns eða unglings fengju upplýsingar um tannheilsu hlutaðeigandi en það væri síðan ákvörðun aðstandenda barns eða unglings að ákveða hvort þau vilji eða telji ástæðu til að tannlæknir fylgi tannskoðuninni eftir með tannviðgerð og færi þá um greiðslur fyrir slíka þjónustu samkvæmt 44. gr. laganna.
    7. Við 10. gr. Breytingarnar á greininni leiða af ákvæðum frv. um að fella niður slysatryggingu ökumanns úr ákvæðum laga um almannatryggingar.
    8. Lagt er til að II. kafli frv., er fjallar um stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, falli brott. Ástæða þessa er sú að nefndinni hefur ekki gefist tími til að fjalla til fullnustu um þennan kafla frv. Af lagatæknilegum ástæðum er talið heppilegast að fella greinar kaflans brott en með þeirri tillögu er engin afstaða tekin til efnis kaflans. Meiri hluta nefndarinnar er jafnframt kunnugt um að ráðherra hyggst flytja sjálfstætt frv. síðar með þeim efnisatriðum sem fram koma í kaflanum.
    9. Gerðar eru breytingar á gildistökuákvæði frv. með hliðsjón af því að II. kafli frv. er felldur brott. Þá er jafnframt kveðið á um að þær greinar er varða slysatryggingu ökumanns taki ekki gildi fyrr en 1. jan. 1994. Ástæða þess að ekki er heppilegt að fella niður slysatryggingu ökumanns 1. jan. 1993 er sú að meiri undirbúnings er þörf áður en breytingin getur tekið gildi. Þær greinar sem um er að ræða eru 3.--5. gr. og 10. gr., sem að tillögu meiri hlutans verður þrjár greinar, 10.--12. gr.
    Meiri hluti nefndarinnar vill benda á að við umfjöllun málsins í nefndinni hefur komið fram að verulegur ágreiningur er um notkun tilvísana til sérfræðinga bæði meðal lækna og almennings. Meiri hlutinn leggur því á það áherslu að mikilvægt sé að ráðherra láti fara fram nákvæma athugun á því hvort heppilegt sé að gera notkun tilvísana til sérfræðinga að reglu áður en hann beitir því heimildarákvæði sem kveðið er á um í breytingartillögu meiri hlutans. Lára Margrét Ragnarsdóttir skrifar undir álit meiri hlutans með fyrirvara þar sem hún er andvíg hugmyndum um að skilyrða greiðslu sjúkratrygginga fyrir sérfræðilæknishjálp og rannsóknir við að sjúklingar hafi tilvísun frá heimilislækni eða heilsugæslulækni.``
    Undir þetta rita Sigbjörn Gunnarsson, Sigríður A. Þórðardóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Árni M. Mathiesen og Lára Margrét Ragnarsdóttir með fyrirvara.
    Virðulegi forseti. Að lokum er mér ljúft og skylt að þakka samnefndarmönnum mínum í hv. heilbr.- og trn. fyrir gott samstarf að þessu máli sem og öðrum sem starfað hefur verið að á þessum vetri.