Almannatryggingar

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 11:03:16 (4134)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Þegar við ræddum þetta mál við 1. umr. í þinginu gerði ég vinnubrögðin almennt við þetta mál nokkuð að umtalsefni. Í sjálfu sér er kannski ekki ástæða til að fara ofan í það aftur. Þó vil ég halda því til haga að vinnubrögðin öll í sambandi við þetta frv. hafa að mínu mati verið mjög slæm, ekki síst frá hendi heilbr.- og trmrn. Þetta mál var mjög illa undirbúið þegar það kom til þingsins og menn þurfa ekki lengi að fletta frv. til að sjá það. Hér er verið að gera nokkuð gagngerar breytingar á ýmsu því sem varðar tryggingamálin. Frv. er í 18 greinum og útskýringar með einstökum greinum mjög af skornum skammti. Það eru örfáar línur um hverja lagagrein og þar að auki fylgdu frv. engir útreikningar eins og ég hef áður bent á.

    Þegar til átti að taka og farið var að fjalla um málið í heilbr.- og trn. kom fram að það var svo sem ekki af ástæðulausu að svona litlir útreikningar og svona litlar upplýsingar fylgdu frv. vegna þess að í rauninni höfðu menn mjög takmarkaðar hugmyndir um útfærsluna á frv. í ráðuneytinu. Þannig virtust engar hugmyndir vera uppi um það í ráðuneytinu hvernig framkvæma eigi tilvísanakerfið. Þær hugmyndir hafa enn ekki skýrst í þeirri umræðu sem verið hefur í nefndinni. Ekki var búið að ganga frá hugmyndum um lyfjareglugerð. Það gátu þingmenn heyrt þegar ráðherra var hér að tala um kostnaðarhlutdeild sjúklinga sem hann sagði að færi ekki yfir Evrópubandalagsmeðaltalið. Það var eina hugmyndin sem var þar á floti að fara ekki yfir þetta Evrópubandalagsmeðaltal. Að öðru leyti vantaði alla útfærslu á reglugerð. Auðvitað ætti reglugerð að liggja fyrir þegar verið er að fjalla um svona hluti.
    Þá var mjög óljóst hvernig ætti að leggja af slysatryggingu ökumanns. Menn höfðu bara hugmyndir um að gera það og flytja þetta til tryggingafélaganna og spara 50--100 millj. kr. en útfærslan öll var óhugsuð.
    Þá var ljóst að mikill ágreiningur var uppi um það milli stjórnarflokkanna hvernig eignarhaldi ríkisins á Samábyrgð fiskiskipa væri háttað og hvort ríkið ætti yfirleitt þetta fyrirtæki.
    Það var því fátt í þessu frv. sem stóðst skoðun í raun og veru. Enda hefur komið á daginn að það er ýmist búið að frysta, fresta eða breyta því sem lagt var til með frv. Þetta lýsir ótrúlegum hringlandahætti í heilbrigðis- og tryggingamálum eins og hér hefur margsinnis verið bent á áður.
    Nú ætla ég að taka það fram að ég er í sjálfu sér ekki andvíg því að gerðar séu gagngerðar breytingar á frv. í meðförum þingsins. Mér hefur stundum fundist brenna við að þingmönnum fyndist að þannig ætti ekki að vinna í þinginu. Það ætti ekki að gera miklar breytingar á frv. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Mér finnst ekki að frv. frá ráðherrum eigi að vera skotheld eða heilög. Þau eiga alls ekki að vera það. Og það er sjálfsagt að nefndir geri á þeim breytingar. Til þess er jú löggjafarsamkunda, að setja lög og semja lög og breyta því sem kemur úr ráðuneytunum. Hins vegar mega menn ekki henda hér inn hálfköruðum frv. sem þeir hafa í raun ekki hugsað til enda og láta síðan þingmenn liggja yfir ónothæfum texta. Maður hefur látið sig hafa það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að liggja yfir nánast ónothæfum texta. Þess vegna er það súrt í broti að fá það síðan framan í sig frá ráðherrum --- nú er ég ekki að tala um hæstv. heilbr.- og trmrh. því hann hefur svo sem ekki verið að hreyta neinum ónotum í þingmenn --- að við þingmenn vinnum ekki verkin okkar á meðan við sitjum og erum að reyna að klambra saman einhverju sem nothæft getur talist í frumvarpsformi. En þessi hrákasmíð er komin til 2. umr. og verður ekki undan því vikist að tala aðeins um hana.
    Meiri hluti heilbr.- og trmrn. flytur brtt. við þetta frv. Ein þeirra brtt. er sú að heldur er dregið úr greiðslubyrði meðlagsgreiðanda. Meðlagið og þar með barnalífeyririnn er lækkaður um 1.000 kr. á mánuði og mæðra- og feðralaunin hækkuð til samræmis við það. Það kom fram í máli mínu við 1. umr. að ég er í sjálfu sér ekki andvíg meðlagshækkunum og þeirri grundvallarhugmynd sem þar býr að baki. En mér finnst súrt í broti þegar stjórnvöld stíga þetta skref og hækka meðlagið og viðurkenna þar með að ábyrgð meðlagsgreiðenda og framfærslukostnað barna skuli sú hækkun ekkert koma börnunum til góða. Það gerist ekki því þetta er einungis tilflutningur frá ríkinu yfir á meðlagsgreiðendur. Ef sú upphæð sem sparast í mæðra- og feðralaunum hefði verið flutt yfir í barnabótaaukann þá hefðu þessir peningar komið börnunum til góða og þá hefði þessi meðlagshækkun held ég ekki mætt jafnmikilli andstöðu úti í samfélaginu og raun ber vitni.
    Það eru margir sem sjá ofsjónum samt yfir því að meðlagið skuli eiga að fara í 10.300 kr. Hugmyndin var þó sú í frv. að það færi í 11.300 kr. og þykir þetta mikill peningur. Ég get ekki tekið undir að þetta sé mikill peningur. Þetta er ekki mikill peningur að fá fyrir þann sem er með framfærslu barnsins. Við skulum hafa það í huga að þetta rétt nær því að dekka leikskólakostnað fyrir barnið sem er á bilinu 9.500--9.700 kr. Og mér finnst meðlagið ekki mega minna vera því þá er auðvitað allt annað eftir, fæði, klæði, tómstundir o.s.frv. --- allt annað. Hins vegar er auðvitað hægt að fallast á það að þarna er um skyndilega hækkun að ræða. Það er yfir 30% hækkun sem verður mjög skyndilega á meðlaginu. Þessi hækkun getur reynst mörgum meðlagsgreiðendum í hópi láglaunamanna erfið, ég tala ekki um ef menn greiða með mörgum börnum. Ég veit að það eru margvíslegar aðferð hafðar við meðlagið í nágrannalöndum okkar. Mér skilst að í Noregi --- ég ætla þó ekki að fullyrða það --- sé þessu þannig háttað að meðlagið sé tekjutengt að vissu marki hjá meðlagsgreiðandanum. Ákveðin lágmarksupphæð er tryggð til forsjáraðila barnsins, við skulum segja að það sé 10.300 kr. Við skulum segja að meðlagsgreiðandinn greiði 10% af launum sínum með hverju barni. Ef meðlagsgreiðandi borgar með 3 börnum og er bara með atvinnuleysisbætur 50 þús. kr. greiðir hann með þessum börnum 30% af 50 þús. kr. sem eru þá 15 þús. kr. á mánuði. Það sem vantar upp á að þetta nái lágmarksframlaginu sem framfærandanum á að vera tryggt leggur ríkið til.
    Þetta er ein leið sem væri hægt að fara og er vinsamlegri þeim sem eru mjög tekjulágir í hópi meðlagsgreiðenda. Jafnframt þýddi það auðvitað að þeir sem eru tekjuháir í hópi meðlagsgreiðenda mundu greiða umtalsvert hærri upphæðir með börnum sínum en þeir gera í dag. Því tekjutengingin á að ná til þeirra líka og börn ættu að njóta þess að eiga efnaða foreldra hvort sem þeir halda heimili með þeim eða ekki.
    Þetta er ein hugmynd sem mætti skoða. Hins vegar var enginn tími til að gera það núna í heilbr.- og trn. ekki síst vegna þess að ekki liggja fyrir upplýsingar um hvernig tekjudreifingu meðlagsgreiðenda er háttað. Með öðrum orðum er ekki hægt að sjá af þeim upplýsingum sem fyrir liggja hvaða tekjur meðlagsgreiðendur hafa, hvernig þær dreifast.
    Það sem kom mér á óvart þegar farið var að fjalla um þessi mál í nefndinni voru ekki síst meðlagsskuldir sem mér finnst miklar samkvæmt upplýsingum frá Innheimtustofnun sveitarfélaga. Þar kemur fram að meðlagsskuldarar eru um 8.572 og samtals skulda þeir um 3 milljarða. Auðvitað eru sumir komnir í þessi vanskil vegna þess að þeir eiga að borga meðlag með mörgum börnum og eiga í erfiðleikum með það en það er samt ástæða til að skoða að um 810 meðlagsgreiðendur skulda meira en 500 þús. kr. með einu barni. Þetta eru meðlagsgreiðendur sem eiga einungis að borga með einu barni. Maður skyldi ætla að það væri engin goðgá að borga með einu barni, ekki síst þegar haft er í huga að þetta voru einungis 7.551 kr. á mánuði. Samt skulda 810 meira en 500 þús. kr. með einu barni. Þetta samsvarar því, ef við reiknum það út, að hver þeirra skuldi um 66 mánaða meðlag. Það eru auðvitað alveg gífurlegar skuldir. Hitt er rétt að hafa í huga þegar ég nefni þessar tölur að þetta eru uppsafnaðar skuldir í tæp 20 ár og vextir inni í þessum tölum. Þær segja því kannski ekki hver höfuðstóll skuldarinnar er. En það er greinilegt að meðlagsskuldir eru mjög miklar og þær eru miklar þó menn eigi bara að greiða með einu barni. Það er mjög illskiljanlegt að mínu mati að menn skuli safna upp svona miklum skuldum eigandi að greiða bara með einu barni. Þetta kemur auðvitað til af því að með einhverjum hætti er hægt að fresta þessu, að atvinnurekendur draga þetta ekki af launum eða menn eru sjálfstæðir atvinnurekendur og taka það ekki af sínum eigin launum. En þetta geta framfærendur barna auðvitað ekki gert. Þeir geta ekki frestað því að borga framfærslu barna sinna. Þeir verða auðvitað að gera það. Það eina sem þeir geta gert er að safna upp annars konar skuldum, vísaskuldum eða bankalánum eða einhverju slíku. En þeir geta ekki frestað framfærslunni. Það geta meðlagsgreiðendur hins vegar gert með því að safna upp skuld hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga. Og mér finnst sumir skulda allt of mikið miðað við það að eiga bara að greiða með einu barni. Mér finnst að það ætti að vera það minnsta sem menn gætu gert.
    Það hefur komið fram í samtölum nefndarmanna við fulltrúa frá Innheimtustofnun sveitarfélaga að þeir hafi miklar áhyggjur af greiðsluskyldu sinni ef þessi hækkun verður að veruleika. Ég tala nú ekki um ef 50% hækkunin hefði orðið að veruleika eins og fyrirhugað var. Þá töldu þeir að vanskil mundu aukast úr, mig minnir, 245 millj. í 600 millj. á ári. Það hefði þýtt að Innheimtustofnunin hefði þurft að bera þau og sótt þau í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem hefði komið niður á jöfnunarframlagi og þjónustuframlagi þess sjóðs og þar af leiðandi niður á minnstu sveitarfélögunum. Nú skilst mér að komið sé eitthvert samkomulag milli Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og ríkisvaldsins um að Innheimtustofnunin beri aldrei nema 300 millj. Þá eru eftir getum við sagt 200 millj. ef þær hugmyndir um vanskil sem eru uppi í Innheimtustofnun standast. Og maður hlýtur að spyrja sig: Hvert á að sækja þessa peninga? Mér vitanlega er ekki í fjárlögum gert ráð fyrir fyrir útgjöldum vegna vanskila. Ef svo er væri sjálfsagt rétt að heilbr.- og trmrh. upplýsti okkur um það hvar gert er ráð fyrir þessum vanskilum á fjárlögum.
    Þessi breyting sem verið er að gera á barnalífeyri og mæðra- og feðralaunum breytir litlu fyrir flestar einstæðar mæður. Greiðslurnar til þeirra hækka ekkert þó meðlagið hækki vegna þess að mæðralaunin falla niður á móti. Þetta er hins vegar til hagsbóta fyrir forsjáraðila barns sem kominn er í aðra sambúð. Þá er um hreina raunhækkun að ræða vegna þess að þessi forsjáraðili hefði, miðað við stöðuna eins og hún var, misst mæðralaunin við að fara í aðra sambúð en heldur meðlagshækkuninni sem væntanlega verður. Það er því um raunhækkun hjá þessum hóp að ræða. Það er ekkert nema gott um það að segja í sjálfu sér að þeirra hagur vænkist því framfærsla barnsins kostar það sama hvort sem verið er í sambúð eða ekki, a.m.k. lækkar framfærslan ekkert. En hagur hinna sem ekki fara í aðra sambúð hefði líka getað vænkast ef menn hefðu hækkað barnabótaaukann eins og ég drap á áðan.
    Það liggja ekki fyrir miklir útreikningar á því hvernig sú breyting sem nú er verið að gera kemur út fyrir barnafólk, ekki síst einstæð foreldri. Þá er ég að hugsa um pakkann allan, þ.e. breytinguna, sem verður eftir að málið hefur verið til umfjöllunar í nefndum þingsins, á meðlaginu, barnabótunum, barnabótaaukaunum og síðan skattahækkunin. Við höfum að vísu fengið einhver línurit yfir þetta frá heilbr.- og trmrn. en það er erfitt að ráða í þau talnalega með einhverri nákvæmni. Þó sýnist mér að í flestum tilvikum verði um skerðingu að ræða frá því sem nú gildir með þeim breytingum sem gerðar verða á þessu kerfi, þ.e. á sköttunum, barnabótaaukanum, barnabótunum, meðlaginu og mæðralaunum. Hvort það kemur beinlínis til vegna skattahækkunar og lækkunarinnar á persónuafslættinum eða hvort aðrir þættir spila þar inn í er ómögulegt að sjá á þessum línuritum. Það er reyndar ástæða til að gagnrýna að þetta skuli ekki liggja fyrir í aðgengilegra formi.
    Um tilvísanakerfið og lyfjamálin er fjallað í 6. gr. frv. Meiri hluti heilbr.- og trn. gerir tillögu til breytinga á því og setur inn að tilvísanir séu heimildarákvæði fyrir ráðherra en ekki að tilvísun sé skilyrði, eins og kemur fram í 1. málsl. 6. gr. Það er í sjálfu sér ágætt enda liggur ekki fyrir á þessari stundu hvernig útfærslan á tilvísanakerfinu á að vera. Þess vegna er heilbrigðiskerfið algerlega vanbúið að taka þetta upp og alveg ljóst að það gerst ekki fyrr en undir mitt næsta ár ef það þá gerist.
    Það hefur komið fram í umræðum í nefndinni að það eru mjög skiptar skoðanir um ágæti tilvísanakerfisins meðal lækna og fer það nokkuð eftir því hvort um sérfræðinga er að ræða eða heimilislækna. Þannig virðast sérfræðingar líta svo á að tilvísanakerfið sé af hinu vonda í aðalatriðum, en heimilislæknar líta svo á að þetta sé kerfi sem geti nýst vel, bæði faglega og sem sparnaður.
    Ég held að flestir séu samt þeirrar skoðunar, hvernig svo sem þeir vilja útfæra það, að frumheilsugæsla sé mjög mikilvæg og hún eigi að vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga þegar þess er einhver kostur og síðan eigi menn að færa sig úr frumheilsugæslunni í sérfræðiþjónustuna þegar frumheilsugæslan dugir ekki lengur. Svo er það bara spurning hvort menn eiga að fá tilvísun úr frumheilsugæslunni í sérfræðiþjónustuna eða hvort hver sjúklingur á að taka um það sjálfstæða ákvörðun hvort hann vill leita sérfræðings eða ekki. Um þetta er kannski ágreiningurinn.
    Þá er líka ágreiningur um það meðal lækna hver kostnaðurinn er hjá sérfræðingum og heimilis- og heilsugæslulæknum. Tölur sem við höfum fengið í nefndinni frá Tryggingastofnun ríkisins benda til þess að kostnaður við hverja komu hjá sérfræðingi sé að meðaltali um 3.000 kr., en kostnaður við hverja komu til heimilislæknis, og þá er ég ekki að tala um heilsugæslulækni heldur heimilislækni samkvæmt gamla númerakerfinu, sé 1.477 kr. og það sé talsvert ódýrara að nýta sér þjónustu heimilislækna heldur en sérfræðinga. Tölur um kostnað við hverja komu á heilsugæslustöð liggja ekki fyrir enda virðist vera um mjög flókið reikningshald að ræða þar sem heilsugæslustöðvarnar sinna margvíslegu forvarnastarfi sem kannski er erfitt að reikna út hver kostnaðurinn er við.
    En af þessum tölum sér maður þó að það hlýtur að borga sig að nýta frumheilsugæsluna þar sem þess er nokkur kostur og takmarka með einhverjum hætti sjálfkrafa aðgang að dýrri sérfræðiþjónustu. Auðvitað vill maður sem neytandi gjarnan eiga þess kost að fara til sérfræðings þegar manni sýnist svo og velja sér hvern þann sérfræðing sem manni hentar. En það er þó ekkert sjálfgefið að maður eigi að eiga þennan rétt vegna þess að þetta er eitthvað sem er borgað úr sameiginlegum sjóðum okkar allra og það fé er ekki ótakmarkað í þessu fremur en öðru. Það verður með einhverjum hætti að búa þannig um hnútana að fjármagnið sé vel nýtt. Það er væntanlega eitt markmiðið með þessu tilvísanakerfi en annað markmið og ekki síður mikilvægt er faglegt markmið, þ.e. að það sé á einhverjum stað samsöfnuð þekking eða upplýsingar um þá læknisþjónustu og lyf sem hver og einn einstaklingur nýtir sér. Það ætti auðvitað að vera hjá heimilislækninum eða í heilsugæslustöðinni sem slíkar upplýsingar lægju fyrir, en það virðist vera að það vanti dálítið upp á að slíkar upplýsingar gangi frá sérfræðingum og yfir til heimilislæknanna eða heilsugæslustöðvanna.
    Á þessu máli eru sem sagt tvær hliðar, annars vegar fagleg og hins vega fjárhagsleg og það er ekki víst að þær fari alltaf saman. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt þegar við erum að fjalla um mál eins og þessi að þá sé ekki fjallað um þau og þau afgreidd í hasti í tengslum við fjárlög heldur séu þau skoðuð þess á milli þannig að tími gefist til þess að fara aðeins betur ofan í málin, ræða við aðila, velta þessu fyrir sér og velta fyrir sér framkvæmd hlutanna.
    Ég vil vekja athygli á því að í þeirri greinargerð sem minni hluti heilbr.- og trn. leggur fram eru mjög athyglisverðar tölur um kostnað við sérfræðiþjónustu á föstu verðlagi. Þar kemur m.a. fram að kostnaðurinn hefur lækkað mjög mikið á árunum 1988--1990 og maður hlýtur að spyrja sig hvað eigi þátt í þessari lækkun, hvort það sé hugsanlegt að þarna komi m.a. inn lækkunin á kostnaði við að heimsækja heilsugæslustöð, ef þeim kostnaði er haldið í algjöru lágmarki þá fari fólk frekar á heilsugæslustöð til heimilislæknis en til sérfræðings einungis ef brýna nauðsyn ber til vegna þess að verðmunurinn sé þar með orðinn talsvert mikill.
    Um lyfjakostnaðinn er það að segja að markmiðið með þeirri breytingu sem gerð er á lögunum og eins reglugerð sem fylgja á í kjölfarið virðist vera að hækka hlut sjúklinga í lyfjakostnaði, úr 26% í 32%. Þetta er bæði gert með því að flytja lyf á milli flokka og með því að auka kostnaðarhlutdeild sjúklings í lyfjum almennt.
    Eins og málum er háttað núna eru svokölluð stjörnumerkt lyf, það eru lyf sem eru greidd að fullu af almannatryggingum og sem fólk fær sér að kostnaðarlausu, sem sagt ef brýna nauðsyn ber til að það nýti lyfin.
    Síðan er annar flokkur sem þannig háttar til um að lyf í þeim flokki eru greidd að fullu gegn lyfjaskírteini. Ef lyfjaskírteini er ekki fyrir hendi þá greiðir sjúklingur 25% af lyfinu upp að 3.000 kr. hámarki.
    Svo virðist vera sem meiningin sé að færa lyf á milli þessara tveggja flokka, þ.e. úr flokknum þar sem greitt er fyrir lyfin að fullu og yfir í flokkinn þar sem sjúklingurinn á að greiða 25% upp að 3.000 kr. Það gerist með því að breyta þessum stjörnumerkta flokki þannig að hann sé ekki lengur fyrir lyf sem brýn nauðsyn er að nota heldur lífsnauðsynlegt er að nota.
    Þá virðist það vera hugmynd manna að leggja niður lyfjaskírteini en lyfjaskírteinið hefur veitt sjúklingum aðgang að ódýrari lyfjum heldur en almennt gerist. Ef lyfjaskírteinin leggjast af eykst kostnaðarhlutdeild sjúklinga aftur.
    Með þessum breytingum á að spara um 430 millj. kr. og eitt af því sem þarna kemur inn í, sem sagt ekki bara það að færa lyf á milli flokka og auka hlut sjúklings í lyfjagreiðslum, er líka sú hugmynd að taka upp 500 kr. gólf, þ.e. þó sjúklingur kaupi lyf sem á að vera ódýrara en 500 kr. þá borgi hann aldrei minna en 500 kr.
    Það hefur komið fram í viðtölum nefndarmanna við apótekara og lyfjafræðinga að þeir óttast að þetta skekki samkeppnina, þ.e. nú skiptir ekki máli hvernig lyf er verðlagt, sem er undir 500 kr., eða hvort hlutdeild sjúklingsins á að vera undir 500 kr., vegna þess að sjúklingur greiðir aldrei minna en 500 kr. og

þar af leiðandi sé þessi mjög vinsæla kostnaðarvitund --- sem alltaf er verið að virkja hér á þingi í hvert eitt sinn sem þessum lögum er breytt, þá er alltaf verið að virkja kostnaðarvitundina, að sögn ráðamanna, --- að með þessari aðgerði yrði þessi svokallaða kostnaðarvitund tekin úr sambandi vegna þess að það skiptir engu máli hversu ódýrt lyf er vísað á, það eru alltaf 500 kr. sem greiddar eru.
    Inn á fund heilbr.- og trn. komu bæði fulltrúar frá ASÍ og BSRB og þeim var þessi breyting í lyfjunum mikill þyrnir í augum og fulltrúi ASÍ hélt því fram, ef ég man rétt, að kostnaðarhlutdeild sjúklings mundi aukast um 65% við þessa breytingu, þ.e. lyfjakostnaður mundi aukast um 65% hjá almenningi við þessa breytingu. Mér fannst vera ansi þungt hljóðið í fulltrúum ASÍ í nefndinni og mikill urgur í þeim og þeir sögðu: Við gengumst inn á það fyrir fjórum mánuðum síðan að vinna með ráðherra að nýrri lyfjareglugerð, það eru ekki nema fjórir mánuðir síðan við gengumst inn á það og við höfum verið að taka þátt í þessu starfi. Núna kemur ráðherra og ætlar að gera á þessu gagngera breytingu og kippir öllum forsendum undan því samstarfi sem við höfum átt. Nú er þetta samstarf orðið einskis virði og til lítils fyrir ASÍ að vera að leggja einhverja vinnu í þessi mál.
    Mér finnst, eftir að hafa hlustað á þennan fulltrúa ASÍ, og eftir að hafa fylgst með hvernig ríkisstjórnin hefur staðið að málum, eins og hún sé vísvitandi að storka verkalýðshreyfingunni í öllu sem hún gerir. Það eru lagðar fram einhverjar hugmyndir um aðgerðir í efnahagsmálum fyrir ASÍ-þing og menn eru að fjalla um þetta. Á síðustu stundu er þessum aðgerðum öllum breytt og gengið m.a. í það að lækka persónuafsláttinn sem er þó kannski eitt af því sem hefur verið heilög kýr hjá verkalýðshreyfingunni. Hún hefur staðið mjög mikinn vörð um hann og lagt mikla áherslu á að skattleysismörkin verði hækkuð vegna þess að það komi hinum tekjulægstu til góða. Því sýnist mér að það sé vísvitandi verið að storka verkalýðshreyfingunni með því að ganga alls staðar gegn því sem í rauninni hefur verið samið um við hana eða hefur verið þegjandi samkomulag við hana um að hrófla ekki við og það sé verið að sýna henni hver valdið hefur.
    Um þessa lyfjareglugerð er annars það að segja að það kom mjög skýrt fram hjá lyfjafræðingum í nefndinni að þeim fyndist að þetta skapaði mikla óvissu. Þessar stöðugu breytingar á lyfjareglugerð gerðu það að verkum að menn færu út í það að hamstra þriggja mánaða lyfjaskammt í hvert eitt sinn sem gerði það aftur að verkum að það væru ýmis lyf sem alls ekki væru notuð en það gæti varla talist hagkvæmt fyrir samfélagið að menn væru að hamstra og kaupa lyf sjálfum sér og Tryggingastofnun til mikils kostnaðar án þess að síðan væri þörf fyrir það eða þau lyf notuð.
    Það kemur fram í nál. okkar, sem mér finnst vera mjög athyglisvert og ég hafði einhvern veginn ekki gert mér grein fyrir eða haldið til haga, að það er búið að breyta lyfjareglugerðinni fimm sinnum á einu og hálfu ári eða frá því að þessi ráðherra sem nú situr á stól heilbr.- og trmrh. settist þar. Það er búið að breyta henni, þ.e. það er búið að setja reglugerð og gera á henni fjórar breytingar á einu og hálfu ári. Þetta er sem sagt fimmta breytingin sem við stöndum núna frammi fyrir á því hvernig fólk á að borga fyrir lyfin sín. Svo eru menn að tala um kostnaðarvitund, að virkja kostnaðarvitundina. Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að halda einhverjum áttum í því hvað hlutirnir kosta þegar verðlaginu er breytt fimm sinnum á einu og hálfu ári? Það átti að vera einn helsti kosturinn að ná niður verðbólgunni að verðlag yrði stöðugt og menn gætu gert sér grein fyrir því hvað hlutirnir kostuðu. Það hefur að vissu marki tekist og menn tala mikið um stöðugleika og það sé mjög mikilvægt að stöðugleiki haldist en á sama tíma róta þeir sífellt í öllum forsendum í heilbrigðiskerfinu, æ ofan í æ. Maður veit ekkert hvað maður á að borga fyrir tannlæknaþjónustu frá einu ári til annars og maður veit ekkert hvað maður á að borga fyrir lyf frá einum mánuði til annars, vil ég segja, og maður veit ekkert hvað maður á að borga fyrir þjónustu lækna frá einu ári til annars. Þannig er sífellt verið að breyta forsendunum og svo er talað um kostnaðarvitund. Það er ekki nokkur leið að halda í þá vitund við þessar aðstæður.
    Tannlækningar er hlutur sem ég gerði nokkuð að umtalsefni í 1. umr. Ég veit ekki hvort þingmenn hafa orðið varir við það að ég hef aðeins verið að hnotabítast við tannlækna og þeir við mig út af þeim ummælum sem ég lét þá falla. Ég get kannski sagt að það var ekki ætlun mín með þeim orðum, þó mér hafi hitnað í hamsi og kannski tekið stórt upp í mig, að gefa, svo maður segi það gróft, út eitthvert veiðileyfi á tannlækna, að öllum væri heimilt að ráðast á þann tiltekna hóp. Ég er í sjálfu sér andvíg því að vera að taka heilar stéttir eða hópa fyrir og vega og meta og dæma og mér finnst allt of mikið gert af því. Ég held að við þingmenn verðum einmitt ansi oft fyrir þeirri reynslu sem er kannski ekkert mjög skemmtileg. Það var ekki ætlun mín í sjálfu sér með þeim ummælum sem ég lét falla. Hins vegar hlýtur það að vekja athygli hversu mikil aukning hefur orðið í hinum svokölluðu skorufyllum hjá tannlæknum, eða um 43% hjá einkatannlæknum á einu ári. Þeir hafa útskýrt þetta með því að það hafi orðið fjölgun hjá þeim í skoðunum um 15%, þ.e. það hafi komið til þeirra fleiri börn en áður, og með því að skorufyllur séu notaðar meira en áður sem forvörn í tannlækningum --- þeir tala um að það sé ekki óeðlilegt að það séu þrjár skorufyllur á nýjan sjúkling --- og þar af leiðandi ef það er 15% aukning í sjúklingum þá sé ekki óeðlilegt að það sé 43% aukning í skorufyllum.
    Þetta kann út af fyrir sig að vera eðlilegt og það sýnir sig að það er sama tilhneiging í gangi hjá skólatannlæknum, eða svo virðist vera. Þar hefur orðið lítils háttar aukning samkvæmt úttekt sem gerð var í þremur skólum á skoðunum, en það hefur orðið 36% aukning í skorufyllum í þessum þremur skólum. Reyndar átta ég mig ekki alveg á þessum tölum vegna þess að ég get ekki alveg skilið hvernig það getur bæði orðið fjölgun hjá skólatannlæknum í Reykjavík og fjölgun hjá einkatannlæknum. En ég tek það fram að þessi úttekt varðar aðeins þrjá skóla og það getur verið að heildarmyndin líti öðruvísi út ef hún er öll skoðuð og það hafi orðið einhver fækkun í heildina. En a.m.k. er alveg óskiljanlegt ef fjölgar svona skoðunum bæði hjá skólatannlæknum og tannlæknum sem skoða skólabörn úti í bæ vegna þess að ekki hefur börnunum fjölgað, svo mikið er víst.
    En það er greinilegt að það er miklu meira farið að nota þessar svokölluð skorufyllur en áður og þá hlýtur maður líka að spyrja sig þeirrar spurningar hvort þessar skorufyllur séu nauðsynlegar. Það virðist vera í læknisfræðinni, hvort sem það eru tannlækningarnar eða annars staðar, að um leið og einhver tækninýjung kemur til sögunnar þá verði sjálfkrafa að nota hana og þá er greinileg tilhneiging í þá átt að nota þessar aðgerðir allt of mikið. Mér sýnist það vera með skorufyllurnar vegna þess að við sjáum að það hefur orðið bylting í tannheilsu í landinu á undanförnum árum og það hefur ekki síst orðið fyrir tilstilli tannhirðu, fræðslu og flúornotkunar. En þessi gjörbylting gerist í raun áður en farið er að nota þessar svokölluðu skorufyllur í sama mæli og nú er.
    Þetta kemur m.a. fram í bréfi frá borgarlækni í Reykjavík, Skúla Johnsen, en hann leggur þar mikla áherslu á að þessi gjörbylting sem hafi orðið í tannheilsu sé ekki síst þessum þáttum að þakka. Hann segir sem sagt að flúorlökkun og skorufyllur hafi ekki komið til notkunar hér á landi sem nokkru nemi fyrr en árin 1987 og 1988 og hann segir að það hafi ekki valdið þessum straumhvörfum í tannheilsu sem þegar hafi verið farið að gæta. Ég held að það skipti verulegu máli í þessu sambandi að ná niður tannskemmdum og það eru forvarnirnar og þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að forvarnir séu ókeypis. Mér finnst það vera rétt pólitísk stefnumörkun að forvarnir séu ókeypis en það sé síðan greitt fyrir viðgerðarþáttinn.
    Mér finnst mjög miður að það skuli nú vera komið hér og gerð breyting á lögum sem samþykkt voru á þingi fyrr á þessu ári um kostnaðarþátttöku foreldra í tannlækningum, vegna þess að það er ekkert farið að reyna á þessi lög. Það má segja að þau hafi varla komist til framkvæmda fyrr en sl. haust og þetta eru þá orðnir 3--4 mánuðir sem reynt hefur á þessi lög sem menn ætla nú að breyta öðru sinni. Og aftur kem ég að þessum hringlandahætti í heilbrigðis- og tryggingakerfinu. Hvernig á maður að skilja það sem foreldri barns í grunnskólum Reykjavíkur þegar barnið kemur heim með bréf í haust þar sem er nákvæmlega tíundað hvernig skólatannlækningum sé háttað, hvað maður eigi að borga, hvernig maður eigi að ákveða hvar barnið eigi að vera í tannlækningum, hvort það er hjá skólatannlækni eða á einkastofu úti í bæ og hver kostnaðarþátttakan sé þá í hvoru tilviki. Þetta gerðist í september í haust að barn kom heim með svona bréf. Núna aftur um áramótin þá á að breyta þessu og á að senda öll börn aftur heim með ný bréf. Eiga foreldrar allir aftur að ákveða hvernig þeir ætla að skrá börnin sín? Hvað ætla menn að gera við þá skráningu sem þegar hefur átt sér stað? Hún er þá væntanlega ónýt og það þarf að byrja allt upp á nýtt. Þetta verður auðvitað til þess að fólk hættir bara að treysta þessu kerfi. Hvaða þýðingu hefur að vera að senda inn einhver bréf um það hvar maður ætlar að hafa barnið sitt í tannlækningum? Það þjónar ekki nokkrum einasta tilgangi, það er alltaf verið að breyta þessu. En það hlýtur að vera mikið atriði, einmitt fyrir tryggingakerfið og heilbrigðiskerfið, að þessi skráning sé í lagi, að það sé alveg ljóst hvar barnið á að vera í tannlækningum. En það er sem sagt búið að kippa þessari skráningu úr sambandi og fólk þarf að ákveða upp á nýtt hvernig það ætlar að haga þessum hlutum.
    Áður en ég vík hér úr ræðustól, virðulegi forseti, þá langar mig aðeins að nefna aldraða, vegna þess að mér finnst það hafi kannski ekki verið nægileg áhersla á það hér að það er líka verið að auka tannlæknakostnað á öldruðum. Áður fengu allir sem njóta tekjutryggingar greitt 75% af tannlæknakostnaði sínum við annað en brýr og gullfyllingar og annað slíkt. Aðrir fengu 50% greitt af þessu. Núna er gerð sú breyting að bara þeir sem njóta óskertrar tekjutryggingar fá 75% greitt niður, þeir sem njóta skertrar fá 50%, en aðrir verða að greiða sínar tannlækningar að fullu. Þá gildir þetta ekki um gullfyllingar eða brýr og það er í sjálfu sér ekkert nýtt við það í þessu máli. En mér finnst að þetta sé hlutur sem verður að fara að taka til endurskoðunar vegna þess að í rauninni nýtist þessi niðurgreiðsla mjög takmarkað því fólki sem hefur barist við og tekist að halda í sínar eigin tennur. Ef það lætur rífa úr sér og fær sér falskar tennur þá fær það niðurgreiðslu en ef það rembist við að halda í sínar tennur og lappa upp á þær með gullfyllingum og brúm og ýmsu slíku sem tilheyrir þá er engin niðurgreiðsla.
    Það eru náttúrlega alltaf að koma fleiri og fleiri inn í hóp aldraðra sem eru með sínar upprunalegu tennur, sem betur fer, og þá hljóta menn að þurfa að fara að taka á þessum hlutum líka.
    Almennt vil ég segja um þetta frv., forseti, að mér finnst að á bak við það búi engin göfug heilbrigðismarkmið heldur sé þarna fyrst og fremst um það að ræða að reyna að spara einhverja aura. Það þarf í sjálfu sér alls ekkert að vera vanheilagt að vilja að spara, síður en svo, en eins og ég sagði áðan þá sakna ég þess að aldrei skuli tekið uppbyggilega á þessum heilbrigðis- og tryggingamálum milli fjárlaga. Það er alltaf verið að gera breytingar í þessum málaflokki í einhverju hendingskasti rétt fyrir afgreiðslu fjárlaga, lítt hugsaðar og lítt unnar. Slíkar breytingar, eins og mér finnst ég hafa séð í þessum málaflokki undanfarin tvö ár, leiða ekki til sparnaðar fyrir samfélagið í heild heldur fyrst og fremst til sparnaðar fyrir ríkissjóð. Breytingarnar felast öðru fremur í því að flytja kostnaðinn frá ríkissjóði, í þessu tilviki yfir á fjölskyldurnar í landinu og þar af leiðandi er ekki um heildarsparnað að ræða.
    Þær aðgerðir sem upphaflega voru lagðar til í frv. hafa nú verið mildaðar í nefnd en engu að síður finnst mér ekki hægt að fallast á þær breytingar sem meiri hlutinn leggur til vegna þess að þar með væri

maður að gangast inn á þau vinnubrögð að fyrst geti ráðherrar komið og gert verulegan usla í einhverjum málaflokki og hrætt alla upp úr skónum. Síðan koma einhverjir góðir menn í einhverri nefnd í þinginu og lappi aðeins upp á þetta og þá verða allir svo fegnir að eitthvað hafi verið gert til að lagfæra þessa vonsku ráðherrans að það sé um að gera að sætta sig við það sem út úr því kemur og una við þá niðurstöðu sem þó er ekki góð. Ég get ekki tekið þátt í slíkum vinnubrögðum og ég styð því hvorki breytingartillögurnar sem hér eru lagðar fram né frv. Ég hlýt að segja það að lokum, ég ætla að leyfa mér það, nú eru allir kjarasamningar lausir um áramót eða menn eru óðum að segja upp kjarasamningum og það kemur vonandi til samningaviðræðna fljótlega, að verkalýðshreyfingunni takist nú að hrinda einhverjum þeim árásum sem gerðar hafa verið á kjör almennings í landinu að undanförnu. Ekki bara með þessu frv., það er kannski ekki stóri þátturinn í þessu, heldur ekki síður og enn frekar með skattfrumvarpinu sem hér hefur verið samþykkt.