Almannatryggingar

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 12:57:26 (4142)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin við spurningum sem fram voru bornar. Hann svaraði a.m.k. þeirri spurningu sem ég beindi til hans. Ég skil svar hans þannig að ekki séu áform um að ríkissjóður leggi fram fé til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fari vanskil við Innheimtustofnun sveitarfélaga fram úr 300 millj. heldur sé meiningin að grípa til aðgerða sem auka innheimtu eftirstöðva og gætu jafnvel þýtt lagabreytingar eins og hæstv. ráðherra kom inn á. Meiningin sé þá að ná inn því sem vantar upp á umfram 300 millj. með innheimtu á vanskilaskuldum með samningum og eftirgjöf skulda að einhverju leyti. Þannig skildi ég svar hæstv. ráðherra og er það alveg skýrt.
    Ég vil hins vegar segja við hæstv. ráðherra að hann þarf ekki að hafa áhyggjur af því þó að ég taki til máls um hans mál. Þau eru yfirleitt það áhugaverð og illa unnin að það er nauðsynlegt að ræða þau nokkuð til þess að snúa þeim til betri vegar ef þess er nokkur kostur. Ég hygg að hæstv. ráðherra ætti frekar að hafa áhyggjur af þingmönnum í sínum eigin flokki sem virðast ekki hafa mikið til málanna að leggja.