Framleiðsla og sala á búvörum

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 13:52:54 (4150)

     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. landbn. um frv. til laga um framleiðslu og verðlagningu á landbúnaðarvörum. Undir þetta nál. skrifa, eins og venjur standa til, allir nefndarmenn í landbn., en þeir sem skipa stjórnarandstöðuna eru með fyrirvara um sína afstöðu og gera væntanlega grein fyrir henni hér í umræðunum.
    Ég vísa til þess að nefndarálitið er ítarlegt og skýrir öll málsatvik sem hér er um að ræða, ekki einvörðungu tillögurnar sjálfar sem landbn. flytur, heldur einnig ýmsa þætti er snerta frumvarpið sjálft. Ég ætla hins vegar að fara hér í örfáum atriðum yfir meginþætti þeirra brtt. sem hér eru lagðar fram.
    Það er vert að geta þess að aðstoðarmaður landbrh. starfaði lengst af með nefndinni og einnig leitaði nefndin til Tryggva Gunnarssonar lögmanns. Um afgreiðslu málsins var líka fjallað við formann Stéttarsambands bænda. En eins og gefur að skilja þá stóðu ekki efni til víðtækara samráðs þar sem tíminn var naumur.
    Fyrsta meginbreytingin sem nefndin leggur til er að 6. gr. frv. falli niður. Hún er, eins og fram kemur í frv., viðauki við 19. gr. búvörulaganna en sú grein fjallar um ýmsa þætti verðmiðlunar. Við nánari athugun kom í ljós að efnislega falla undir 19. gr. laganna þau ákvæði sem 6. gr. frv. kveður á um og þar af leiðandi var óþarft talið að fella hana inn í lögin. Ég vil hins vegar taka það sérstaklega fram, eins og reyndar kemur skýrlega fram í nál., að við þessar breytingar á grundvelli búvörusamningsins fellur niður eða verður hætt verðmiðlun með sama hætti og áður var og heimildir standa nú einungis til þess að leggja á 1% verðjöfnunargjald til flutningsjöfnunar og til þess að styðja mjólkursamlög sem hafa takmarkaðan markað að baki sér en eru hins vegar nauðsynleg fyrir þær byggðir sem þau eru staðsett í. Þannig á að vera tryggt að mjólkursamlög, sem hafa þessu mikilvæga hlutverki að gegna, geti haldið rekstri sínum áfram.
    Eins og samkomulagið gefur til kynna og samningurinn sem staðfestur var í ágúst sl. þá hefur hins vegar Verðmiðlunarsjóðnum verið fengið ákveðið hlutverk, sem fram kemur í b-, c- og d-liðum, en þeir eru allir til bráðabirgða meðan verið er að fella saman þá nýju hætti sem nú eru upp teknir í búvörusölunni. Heimildir eru enn fyrir hendi, ef á þarf að halda, að innkalla verðmiðlunargjöld til þess að ljúka þeim verkefnum.
    Annað atriði, sem ég vildi minnast á og hefur valdið dálítilli umræðu í umfjöllun málsins, varðar heimildir til verðskerðingar á framleiðsluvörum nautgripa og sauðfjár. Eins og margkunnugt er þá eru nú ekki lengur heimildir til þess að flytja út umframframleiðsluna sem áður var verðtryggð eins og kunnugt er og ríkissjóður styrkti. Nú er allur slíkur útflutningur, ef af verður, og birgðasöfnun á ábyrgð bændanna sjálfra. Af því leiðir að það þurfa að vera fyrir hendi tiltæk ráð til þess að afsetja þá birgðasöfnun ef af verður. Raunar er þessi heimild inni í lögunum frá því í fyrra eins og þá var kveðið á um í samningnum um sauðfjárframleiðsluna og í samningnum um mjólkurframleiðsluna er líka kveðið á um þetta sama.
    Í samningnum um mjólkurframleiðsluna segir, með leyfi forseta, í 6. gr.:
    ,,Verði um óæskilega birgðasöfnun að ræða eða að markaðsaðstæður krefjast getur landbrh., að fenginni tillögu Framleiðsluráðs landbúnaðarins, ákveðið töku verðjöfnunargjalds af afurðaverði til bænda, til að standa straum af kostnaði við sölustarfsemi og afhendingu birgða. Gjald þetta má ekki koma til hækkunar á útsöluverði mjólkurvara.``
    Þetta er um mjólkurframleiðsluna, en um sauðfjárframleiðsluna segir í 6. gr.:
    ,,Leiði markaðssamdráttur til þess að sala nái ekki heildargreiðslumarki og birgðir kindakjöts verða umfram þriggja vikna sölu 1. sept. skulu þær birgðir seldar á innlendum markaði með markaðsstuðningi sem fjármagnaðar skal með lækkun á greiðslum afurðastöðva vegna innleggs á því hausti.``
    Hér er sem sagt um samningsbundin ákvæði að ræða og það sem hér er verið að gera er einungis að játa þá staðreynd. Mér er það fullkomlega ljóst og hef reyndar orðið þess víða var í samræðum mínum við bændur landsins að þeir hafa af þessu nokkurn beyg, þótt þeim séu hins vegar væntanlega fullkomlega ljós þessi samningsákvæði. Ég er einn í þeirra hópi sem tel að hér þurfi að fara með afar mikilli gát því að það er náttúrlega kannski auðleystast að koma vörunni út með því að lækka hana í verði og afhenda hana þannig til sölu. Ég er í hópi þeirra sem tel að það beri að leggja á það grundvallaráherslu að reyna svo sem framast er kostur að treysta markaðinn og þannig að stuðla að því að ekki verði birgðasöfnun.
    Í tillögum nefndarinnar er hins vegar kveðið skýrar á um þessa þætti og það tel ég afar mikilvægt. Það er gert með því móti að treysta áhrif bændanna sjálfra sem allra best í þessari umfjöllun. Þannig er núna samkvæmt tillögunum kveðið á um að því aðeins sé heimilt að beita þessum verðskerðingarákvæðum að um það hafi verið fjallað á aðalfundi eða á fulltrúafundum Stéttarsambandsins, aðalfundi eða aukafundi, eftir því sem kann að reynast þörf á, og tillögur hér að lútandi verði sendar í fundarboði svo að fulltrúum gefist kostur á að ræða þessi mál í héraði áður en lagt er til Stéttarsambandsfunda. Hér eru því tryggð með skýrum hætti forræði bændanna sjálfra að þessum ákvörðunum og það tel ég vera mikið til bóta.
    Þá vil ég í þriðja lagi geta þess að í frv. er lagt til að Stéttarsambandi bænda verði heimilt að semja við afurðastöðvar um umsýsluviðskipti. Á þessa heimild er ekki fallist og greinin verður væntanlega felld brott við afgreiðslu málsins. Ég tel það afar mikilvægt að þessi grein skyldi koma inn í frumvarpið því að með því hefur Alþingi gefist kostur á því að taka afstöðu til þessa máls. Það var hvergi hægt að finna stuðning við þessa tillögu, formaður Stéttarsambands bænda t.d. lýsti því yfir að hann teldi að það væri æskilegur kostur að þessi heimild væri ekki fyrir hendi.
    Þetta eru þær grundvallarbreytingar sem hér eru lagðar til. Reyndar ýmsar fleiri, en ég sé ekki ástæðu til þess að rekja það nánar. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjalla um nefndarálitið eða flytja hér þann texta sem þar er skráður því að hann skýrir sig að sjálfsögðu fullkomlega og er því ástæðulaust að endurtaka hann hér.
    Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 3. umr.