Grunnskóli

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 14:29:04 (4155)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þegar fjárlagafrv. var lagt fram í haust var gert ráð fyrir því að skera niður framlög til grunnskóla allt skólaárið 1992--1993 með sama hætti og ákveðið var í lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem voru samþykkt í janúar sl., lögum nr. 1/1992, svokölluðum bandormi. Þess vegna er það þannig að í fylgiskjölum fjárlagafrv. var m.a. nefnt að grunnskólafrv. þyrfti að leggjast fram til að fullnægja forsendum fjárlagafrv. og síðar fjárlaga.
    Nú hafa fjárlögin verið samþykkt og þar er gert ráð fyrir þessum niðurskurði. Við alþýðubandalagsmenn fluttum tillögu við meðferð fjárlaganna í gær um að grunnskólinn fengi til ráðstöfunar 100 millj. kr. til að koma í veg fyrir þennan niðurskurð á starfsemi skólanna. Á móti fluttum við tillögu um að sparað yrði fjárframlag til húsbyggingar í þágu Hæstaréttar upp á 100 millj. kr. Þessar tillögur okkar voru því miður felldar og eftir stendur að fjárlögin fyrir árið 1993 gera ráð fyrir að um verði að ræða sams konar niðurskurð til skóla á þessu skólaári öllu eins og verið hefur á þessu almanaksári.
    Þetta frv. er lagt ótrúlega seint fyrir miðað við að það hefur legið fyrir mjög lengi að það væri ætlun ríkisstjórnarinnar að flytja þetta frv. Ekki þannig að við höfum saknað þess. Frv. gerir ráð fyrir þrennu. Í fyrsta lagi er frestað framkvæmd ákvæðis um að nemendur skuli eiga kost á málsverði á skólatíma. Þetta er mjög sérkennilegt ákvæði í frv. um ríkisfjármál vegna þess að samkvæmt lögum um grunnskóla er það á ábyrgð sveitarfélaga að tryggja málsverði í skólum. Þess vegna er að mínu mati fullkomlega óeðlilegt þó ekki sé nema af þessum ástæðum að hafa þetta ákvæði inni í lagabreytingum um grunnskóla eins og þær eru fluttar hér.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að fresta að lengja kennslutíma nemenda í grunnskólum að því marki sem gert er ráð fyrir í 1. mgr. 46. gr. og verður miðað við þann kennslutíma, segir í greinargerð, sem gert er ráð fyrir í fjárlögum 1992 og frv. til fjárlaga fyrir 1993. Enn fremur er frestað framkvæmd á 6. mgr. 46. gr. þar sem kveðið er á um að komið skuli á skólaathvörfum fyrir hvern grunnskóla.
    Loks er frestað til loka skólaársins 1993--1994, þ.e. til vorsins 1994, að fækka nemendum í bekkjum í samræmi við ákvæði 75. gr grunnskólalaga, en sú grein var mikið rædd vorið 1991 þegar grunnskólalögin voru sett. M.a. var það fyrir mjög eindregnar kröfur fulltrúa Sjálfstfl. í menntmn. efri deildar, einkum hæstv. forseta Alþingis, þeim sem skipar það embætti nú, að tekin voru inn mjög skýr ákvæði í grunnskólalög um fjölda nemenda í bekkjum. Niðurstaðan varð sú að grunnskólafrv. var breytt frá þeim tillögum sem komu frá þáv. hæstv. ríkisstjórn til samræmis við þær óskir sem Sjálfstfl. lagði fram. Hins vegar hefur það síðan orðið hlutverk Sjálfstfl., örlög hans, að skerða þessi ákvæði, sem hann sjálfur flutti tillögur um fyrir kosningarnar. Kemur þá að því í þessu máli eins og öllum öðrum, hvort sem það eru skattamál, gjöld til kirkjunnar eða hvað það nú er, að það er ekki orð að marka af því sem Sjálfstfl. segir fyrir kosningar. Það er alveg sama hvaða málaflokkur það er, hvort það eru kirkjumál, skólamál skattamál, EES-mál eða hvað það nú er. Sjálfstfl. snýr öllu á haus um leið og hann er kominn í stjórnarstóla.
    Með hliðsjón af því, virðulegi forseti, að það mun hafa verið gert samkomulag um að greiða fyrir þingstörfum eins og kostur er og því að þetta mál kemur til menntmn. þar sem ég á sæti, hef ég ekki í hyggju að hefja langar ræður um þetta mál núna þó að full ástæða væri til þess í sjálfu sér því hér er um að ræða stórt og þýðingarmikið mál.
    Ég tók eftir því hér við umræðuna og atkvæðagreiðsluna við fjárlögin í gær að hv. þm., mér liggur við að segja, ruku upp til handa og fóta þegar kom að ýmsum málum í fjárlagaafgreiðslu sem eru auðvitað mikilvæg mál, ég dreg ekkert úr því. Ég tel mikilvægt t.d. hvernig háttað er framlögum til vetrarsamgangna svo eitthvað sé nefnt. Hins vegar tók ég líka eftir því að áhuginn í atkvæðagreiðslunni, í kringum þá staðreynd að verið var að skera niður framlög til grunnskóla, til barnafræðslunnar í landinu um 100 millj., var ótrúlega lítill í salnum á sama tíma. Þarna komum við að þeim mikla vanda sem við stöndum frammi fyrir og gjöldum sem þjóð aftur og aftur, að það er erfitt að halda hér uppi málstað þess fólks sem er í skólum, barna og unglinga. Það er stundum þannig þegar kemur að úrslitastundum að það er eins og þetta fólk eigi sér ótrúlega fáa málsvara í landinu og í þessum sal. Má þar kannski helst nefna til viðmiðunar og umhugsunar frv. um umboðsmann barna sem hefur verið flutt eins lengi og ég man eftir mér á Alþingi, aftur og aftur og aftur og það er loforð og loforð og enn loforð um að það verði einhvern tíma afgreitt og svo gerist ekkert.
    Þessum veruleika mætti ég oft t.d. í sambandi við grunnskólann og barnafræðsluna í landinu. Það var mjög erfitt að halda uppi málstað barna. Það þykir mjög sérkennilegt að setja hér á ræður í þágu barna og barnauppeldis í landinu og uppeldismála yfirleitt. Þegar aftur kemur að hinum hörðu gildum hinna beinhörðu peningahagsmuna sem menn sjá birtast í fjárlögum eða fjárlagafrv. eða efnahagsráðstöfunum geta menn þanið sig hér daglangt og náttlangt. En þegar um það er að ræða hvort haldið er uppi eðlilegri barnafræðslu í landinu eða ekki eru menn furðu daufir í dálkinn hér í salnum.
    Þetta er ekki síst alvarlegt vegna þess líka, hæstv. forseti, að barnafræðsla hér á landi og grunnskóli er lakar á sig kominn en í grannlöndum okkar. Það liggur fyrir að sú þjónusta sem skólarnir veita hér er lakari en í grannlöndum okkar.
    Að lokum, virðulegi forseti. Þetta er sérstaklega alvarlegt vegna þess að vanræksla við börn er vanræksla á forsendum framtíðarinnar. Ef við vanrækjum skólana og uppeldi barnanna með einhverjum hætti erum við í raun og veru að ákveða að sú framtíð sem blasir við verði ekki eins góð og hún ella yrði. Þess vegna er hér um að ræða stórkostlegt alvörumál þó menn í þessari virðulegu stofnun kjósi iðulega að afgreiða grunnskólamál og barnafræðslu með léttúð. Það verður hins vegar ekki gert þegar þetta mál kemur til nefndar þar sem það mun verða skoðað rækilega og vonandi rætt mjög rækilega þegar það kemur til 2. og 3. umr.