Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 14:40:07 (4157)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Kristín Ástgeirsdóttir ):
    Virðulegi forseti. Þá er komið að 3. umr. um skattaorminn langa sem enn lengist við þessa umræðu Minni hluti efh.- og viðskn. fannst ástæða til að skila frhnál. til þess að gera grein fyrir því sem gerðist milli 2. og 3. umr., til að lýsa skoðun sinni á þeim viðbótartillögum sem fram komu og einnig því að okkur hafa verið að berast ályktanir og viðbrögð af ýmsu tagi við því sem samþykkt var við 2. umr. Því mæli ég fyrir frhnál. minni hluta efh.- og viðskn. á þskj. 555. Það er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Ekki er ein báran stök í fálmkenndri glímu ríkisstjórnarinnar við ríkisfjármálin. Eftir 2. umr. um skattafrumvarpið kom í ljós svo sem vænta mátti að sitthvað vantaði upp á til að hægt væri að loka skattadæminu. Eftir var að uppreikna skattvísitölu eignatengdra skatta svo og að svara erindi bænda varðandi skattalega meðferð á kostnaði þeim sem fylgir kaupum á framleiðslurétti í landbúnaði. Nefndin tók þessi atriði til umfjöllunar milli umræðna og afgreiddi frá sér breytingartillögur sem ræddar verða við 3. umr.
    Nefndin fékk á sinn fund Gylfa Arnbjörnsson, hagfræðing ASÍ, og Halldór Björnsson, varaformann verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Þeir greindu nefndinni frá harðorðri ályktun miðstjórnar ASÍ frá 16. des. og fjölmennum fundi Dagsbrúnarmanna sem mótmæltu aðgerðum ríkisstjórnarinnar og kröfðust þess að ríkisstjórnin færi frá linnti ekki árásum hennar á launafólk. Þeir sögðu tillögur ríkisstjórnarinnar ýta undir vaxandi atvinnuleysi og nefndu sem dæmi um það hve alvarlegt ástandið væri að sl. föstudag bættust 100 nýir Dagsbrúnarmenn við á atvinnuleysisskrá. Dagsbrún ákvað nýlega að greiða atvinnulausum félögum sínum sérstaka jólauppbót úr eigin sjóðum til marks um þá alvarlegu stöðu sem þeir standa frammi fyrir.
    Þessar lýsingar árétta þá niðurstöðu sem minni hluti efh.- og viðskn. komst að í fyrra nefndaráliti. Ríkisstjórnin er að efna til ófriðar á vinnumarkaði og ljóst er að verkalýðshreyfingin mun ekki láta óréttlátar skattaálögur hennar yfir sig ganga án þess að snúast til varnar.
    Efh.- og viðskn. flytur sameiginlega breytingartillögur varðandi skattalega meðferð á framleiðslurétti í landbúnaði, enda um nauðsynjamál að ræða. Minni hluta efh.- og viðskn. þykir rétt að ríkisstjórnarflokkarnir beri ábyrgð á útreikningi skattvísitölunnar, en þess ber að geta að ASÍ heldur því fram að núverandi ríkisstjórn hafi í raun lækkað skattleysismörkin um 6.000 kr. á mánuði. Um þetta atriði deila fjmrn.

og ASÍ.
    Samkvæmt útreikningum ASÍ voru skattleysismörkin rúmar 72 þús. kr. á mánuði samkvæmt núverandi verðlagi þegar staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp 1988. Eftir þær breytingar sem samþykktar voru við 2. umr. um skattafrumvarp ríkisstjórnarinnar eru þau komin niður í rúmar 57 þús. kr. og voru nú síðast lækkuð um 400 kr. á mánuði. Þessu mótmælti stjórnarandstaðan harðlega og ítrekar þau mótmæli hér, enda er það álit hennar að heldur beri að skattleggja þá sem meira bera úr býtum, en að að rýra kjör þeirra sem lægst hafa launin.
    Minni hluti efh.- og viðskn. ítrekar það álit sitt (sjá þskj. 495) að skattafrumvarpið hafi komið allt of seint fram. Það tók sífelldum breytingum dag frá degi og allt of lítill tími gafst til að fara ofan í einstök atriði þess. Þó er ljóst að áhrif þessa frv., ef að lögum verður, geta orðið afdrifarík bæði fyrir afkomu fjölda heimila í landinu og ekki síður fyrir ferðaþjónustu, prentiðnað, bóka- og blaðaútgáfu. Að mati Þjóðhagsstofnunar geta tapast allt að 170 störf vegna 14% virðisaukaskattsins sem stendur til að leggja á þessar greinar.
    Með tilliti til þeirra efasemda sem uppi eru varðandi útreikninga á skattvísitölunni og þeirra margvíslegu óréttlátu skatta sem lagðir verða á almenning og einstaka atvinnugreinar, nái frv. fram að ganga, leggur minni hluti efh.- og viðskn. til að það verði fellt.``
    Undir nál. rita Halldór Ásgrímsson, Steingrímur J. Sigfússon, Jóhannes Geir Sigurgeirsson og Kristín Ástgeirsdóttir.
    Við 1. umr. þessa máls gerðum við stjórnarandstæðingar nokkra grein fyrir þeim mótmælum sem fram hafa komið við skattafrv. ríkisstjórnarinnar. M.a. barst mér í hendur nýsamþykkt ályktun ASÍ í þann mund sem ég stóð hér í ræðustóli. Þar komu einmitt fram útreikningar ASÍ varðandi persónuafsláttinn. Eins og fram kemur í frhnál. álítur ASÍ að persónuafsláttur hafi lækkað um 6 þús. kr. á valdatíma þessarar ríkisstjórnar og þó nokkuð á tíma þeirrar síðustu. Þetta er afar athyglisvert en fjmrn. er, eins og fram kom í máli mínu, ekki sammála þessum útreikningum. En það er alla vega ljóst að með þessu frv. er verið að skerða persónuafsláttinn um 400 kr. á mánuði auk þess sem tekjuskattur hækkar um 1,5%.
    Þegar fulltrúar Alþýðusambandsins komu á fund efh.- og viðskn. lögðu þeir fram minnisblað um skattheimtu ríkisstjórnarinnar. Það er mjög fróðlegt að sjá það svart á hvítu saman tekið hvað þarna er á ferðinni því sannleikurinn er sá að þó að maður hafi gert sér grein fyrir því um hvað málið snýst í einstökum liðum, þá er dæmið mjög svart þegar búið er að leggja allt saman. Það er full þörf á að rifja þessar staðreyndir upp fyrir þingmönnum áður en endanlega verður gengið til atkvæða um þetta mál í þeirri von að einhverjum snúist hugur og að þeir sem eru fullir efasemda vegna þessara aðgerða geri upp hug sinn og standi með okkur í stjórnarandstöðunni að því að stöðva þau slæmu verk sem hér er verið að vinna.
    Ég ætla að rifja það upp hér, virðulegi forseti, að hækkun tekjuskatts um 1,5% skilar 2.900 millj. kr. Lækkun persónuafsláttarins skilar 700 millj. en við minnumst þess að það var meiningin að skerða barnabætur um 500 millj. Hér er því krækt í nokkuð meira. Hátekjuskatturinn skilar 400 millj. kr. sem er harla lítið miðað við það sem verið er að ná í af öllum almenningi í landinu, þar með talið þeim sem lægst hafa launin, en samtals skilar þessi aukni tekjuskattur 4.000 millj. kr., 4 milljörðum. Það var einmitt upphæðin sem ríkisstjórnin ætlaði að létta af atvinnuvegunum og færa yfir á almenna skattgreiðendur.
    Þar með er ekki öll sagan sögð því að fækkun undanþága í virðisaukaskatti skilar 1.800 millj. og þegar vaxtabæturnar verða skornar niður eiga þær að skila 500 millj. Hækkun viðmiðunarmarka sjálfstæðra atvinnurekenda á að skila 300 millj., hækkun bensíngjalds um 1,50 kr. ofan á aðrar hækkanir vegna gengisfalls og sérstaks bensíngjalds, á að skila 375 millj. Þetta gerir samtals 2 milljarða 975 millj. kr. Þá erum við komin samtals upp í 6 milljarða 975 millj. kr. Ég minni á að það var talað um að létta 4 milljörðum af atvinnulífinu. Þar af er almenn skattheimta 6 milljarðar 275 millj. en það sem ASÍ kallar sértæka skattheimtu er upp á 700 millj. Útgjöld ríkissjóðs vegna afnáms aðstöðugjalds eru 4 milljarðar 250 millj. og útgjöld vegna lækkunar tryggingagjalds í ferðaþjónustu 250 millj.
    Þegar þessar tölur eru bornar saman kemur í ljós að þarna munar býsna miklu. Nokkur hluti rennur í ríkissjóð og er til þess ætlaður að lækka hallann. En því miður er verið að taka þessa peninga að hluta til frá þeim sem lægst hafa launin og eins og margoft hefur verið bent á í þessari umræðu þá hefði verið nær að sækja meira í vasa þeirra sem hærri hafa launin. Ég endurtek það að mér finnst þessi lækkun á persónuafslætti vera algjört siðleysi af hálfu ríkisstjórnarinnar.
    Í gær bárust okkur mótmæli frá fundi Verkamannafélagsins Árvakurs á Eskifirði en í þessari ályktun segir, með leyfi forseta:
    ,,Almennur fundur Verkamannafélagsins Árvakurs á Eskifirði mótmælir harðlega tillögum meiri hluta efh.- og viðskn. Alþingis um lækkun skattleysismarka. Með því eru svikin loforð allra þeirra sem buðu fram í síðustu alþingiskosningum. Þessi atlaga gegn láglaunafólki í landinu er sú síðasta af fjölmörgum sem á launafólki hafa dunið síðustu mánuði. Fundurinn hefur fullan skilning á því að mikil efnahagsleg áföll, sem dunið hafa á Íslendingum á síðustu missirum, gera það að verkum að lífskjör hljóta að versna. Það á hins vegar að vera skýlaus krafa til ríkisstjórna á hverjum tíma að þær séu þeim vanda vaxnar að jafna slíkum áföllum af réttlæti á þegnana. Þessari skyldu hefur núv. ríkisstjórn brugðist. Hún hefur m.a. þverbrotið öll loforð sem gefin voru í síðustu kosningum um réttlátari skattlagningu. Verði ekki þegar snúið af þessari braut sem leiðir beint til aukinnar fátæktar í landinu og tekin upp samvinna við verkalýðshreyfinguna

um úrlausnir, sem taka mið af hagsmunum hinna verst settu, þá ber þessari ríkisstjórn að fara frá og gefa öðrum tækifæri til að leysa aðsteðjandi vandamál.``
    Þetta var samþykkt Verkamannafélagsins Árvakurs á Eskifirði en eins og menn muna þá er formaður þess félags varaþingmaður Sjálfstfl. í Austurlandskjördæmi. ( EgJ: Sem betur fer.) Þannig að það er farið að hitna undir ríkisstjórninni heldur betur. ( Gripið fram í: Og Agli.)
    Þessi mótmæli sýna betur en flest annað hvert andrúmsloftið er orðið úti í þjóðfélaginu og ég get heils hugar tekið undir hvert orð í þessari ályktun.
    Önnur ályktun hefur borist frá Starfsmannafélaginu Sókn og ég ætla að lesa hans líka, með leyfi forseta, og í þessari ályktun segir:
    ,,Stjórn Starfsmannafélagsins Sóknar mótmælir harðlega fyrirhugaðri lækkun á persónuafslætti og hækkun skatta og auknum álögum á lágtekjufólk. Hin breiðu bök þjóðfélagsins finnast ekki meðal fólks með 50--60 þús. kr. mánaðarlaun, heldur meðal fjármagnseigenda og hátekjufólks.
    Stjórn Starfsmannafélagsins Sóknar krefst þess að ríkisstjórnin hætti við fyrirhugaðar skattabreytingar sem leiða eingöngu til frekari gjaldþrota alþýðuheimila landsins en beini þess í stað atlögum sínum að þeim sem meira mega sín, fjármagnseigendum og hátekjufólki, sem hér eftir sem hingað til eiga að sleppa frá vandanum.
    Með versnandi atvinnuástandi fjölgar því fólki dag frá degi sem býr við kjör langt undir fátæktarmörkum. Stjórn Starfsmannafélagsins Sóknar krefst þess að ríkisvaldið og aðrir ráðamenn þjóðfélagsins komi til móts við verkalýðshreyfinguna og leiti allra leiða til að vinna bug á ógnvænlegu atvinnuleysi sem þjóðfélagið er í engu tilbúið til að halda úti eða búa við og auka jöfnuð í þjóðfélaginu í stað þess að ráðast alltaf á garðinn þar sem hann er lægstur.``
    Þetta sagði stjórn Starfsmannafélagsins Sóknar og ég gæti haldið áfram að lesa ályktanir sem allar fjalla um það sama að þessum álögum ríkisstjórnarinnar á láglaunafólk í landinu er harðlega mótmælt.
    Ég get ekki yfirgefið þennan ræðustól án þess að minnast aðeins á 14% virðisaukaskattinn sem leggst á ferðaþjónustu, húshitun, bækur, blöð, tímarit, útvarp og sjónvarp og fólksflutninga. Þessi virðisaukaskattur er að mínum dómi mjög alvarlegt mál. Þau eru mörg alvarlegu málin í þessu frv. og afleiðingarnar eiga eftir að koma í ljós, og því miður mjög til hins verra, í okkar samfélagi. En ég hlýt að minna á að það var yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að létta sköttum af atvinnulífinu eins og reyndar er gert að hluta til með afnámi aðstöðugjaldsins og lækkun tryggingagjaldsins en jafnframt eru lagðir nýir skattar á ákveðnar atvinnugreinar í formi þessa 14% virðisaukaskatts. Ef við rifjum enn á ný upp mat Þjóðhagsstofnunar þá þýðir þetta samdrátt, hugsanlega gjaldþrot, hugsanlega flutninga á verkefnum úr landi og fækkun starfa um allt að 170. Sumir halda því fram að þau munu verða fleiri.
    Þetta er mjög alvarlegt í ljósi þeirra aðstæðna sem við búum við og í ljósi þess að atvinnuleysi vex því miður með hverjum mánuðinum sem líður og þessar aðgerðir ganga auðvitað þvert á yfirlýst markmið um að draga úr atvinnuleysi og efla nýsköpun í atvinnulífinu. Hér gildir það að það sem er gefið með annarri hendinni er tekið með hinni. Þessu mótmæli ég harðlega. Ég tel að hér sé verið að vinna mikið tjón og ég minni enn og aftur á þá atlögu sem hér er gerð að menningarstarfsemi í landinu og getur orðið til þess að valda óbætanlegu tjóni. Hér getur orðið um óbætanlegt tjón að ræða. Þetta er hörmung á að horfa.
    Það var frá upphafi ljóst þegar umræða hófst um efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar að sköttum yrði velt yfir á almenning í landinu en við höfum alltaf sagt að það væri ekki sama hvað væri gert eða hvernig það væri gert. Hér er einmitt um það að ræða að það er skattlagt á alla línuna, engum hlíft, og þetta mun verða til þess, það er algjörlega augljóst, að kjör alls þorra almennings munu versna og bætist ofan á atvinnuleysi og félagsleg vandamál sem þegar er við að glíma. Eins og ég rakti í tölunum frá Alþýðusambandinu er hér um það að ræða að ríkisstjórnin er að stórauka skattaálögur, langt umfram það sem þurfti til að létta sköttum af atvinnulífinu. ( Fjmrh.: Rangt.) Rangt, kallar hæstv. fjmrh. hér fram í. Það má vera að það vanti eitthvað í útreikninga Alþýðusambandsins en hér er auðvitað um það að ræða að það er verið að auka mjög skattaálögurnar. Ég skil ekki hvernig fjmrh. getur hrist hausinn yfir þessu, hann getur bara komið í ræðustólinn á eftir og svarað þessu. ( Fjmrh.: Ég er búinn að biðja um orðið og mun svara þessu.) Þá kemur hann hér og svarar þessu. Ég skil ekki hvernig hann getur hafnað því að það sé verið að auka skattheimtu, það er svo augljóst mál. ( GÁ: Atvinnulausum fjölgar og tekjur minnka.) Það sem af þessu mun leiða er auðvitað eins og ég nefndi áður verri kjör alls almennings í landinu, vaxandi atvinnuleysi og það er enn og aftur verið að ýta undir samdráttinn í þjóðfélaginu. Ég vil minna á það sem fram kom á fundi efh.- og viðskn. í gær þegar þeir mættu þar fulltrúar Alþýðusambandsins og Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, að það væri verið að stefna í bullandi átök á vinnumarkaði. Þessar aðgerðir munu leiða af sér botnlaus átök á vinnumarkaði, sagði varformaður Dagsbrúnar.
    Við eigum þegar við mikil og alvarleg efnahagsvandamál að glíma, því neitar enginn, en aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru ekki til þess að leysa þann vanda, þær auka hann.