Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 14:59:18 (4158)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Í tilefni af ræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur, vil ég aðeins fjalla um þetta minnisblað sem kom frá Alþýðusambandinu um aukna skattheimtu. Það er gert upp á grundvelli þess að þessir skattar mundu gilda í heilt ár en eins og hv. þm. veit, vegna þess að hún hefur

fjallað um þetta mál og væntanlega lesið það frv. sem við vorum að fjalla um, þá byrjar ekki virðisaukaskattur á bækur og afnotagjöld og þess háttar fyrr en um mitt ár. Virðisaukaskattur af ferðaþjónustu byrjar ekki fyrr en 1. jan. 1994. Síðan hefur líka Alþýðusambandinu láðst að geta þess að það er verið að lækka tekjuskatt fyrirtækja. Eins er verið að lækka skatt af gengismun eða umboðsþóknun bankanna sem hækkar það verð sem þeir geta greitt fyrir gjaldeyri frá útflytjendum. Eins var fellt niður jöfnunargjald á síðasta ári. Þannig að það minnisblað sem þeir drógu fram og sýndi það að ríkissjóður væri að stórgræða á þessu öllu saman, það er stórkostlega orðum aukið og hreint og beint villandi vegna skatttekna ríkissjóðs fyrir næsta ár.
    Ég held að ef að menn færu bara yfir þetta og læsu þetta mundu menn sjá þetta.
    Í annan stað mundi ég vilja spyrja hv. þm. að því þegar hann leggur til að frv. sé fellt hvort hann sé þá líka að leggja til að það sé hætt við að fella niður aðstöðugjaldið og bara öllu málinu gleymt yfirleitt þangað til einhvern tímann eftir dúk og disk.