Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 15:03:07 (4160)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil bara vekja athygli hv. þm. á því til viðbótar að samkvæmt tillögum sem hér voru reyndar felldar í gær var reiknað með því að leggja til viðbótar á 1.600 millj. í hátekjuskatt og 2.000 millj. í vaxtatekjuskatt og ef menn hefðu farið í þetta samkvæmt þeim tillögum sem hagfræðingur Alþýðusambandsins var með, að taka upp vaxtatekjuskatt í framhaldi af niðurfellingu aðstöðugjaldsins, þá hefði slíkur skattur á vaxtatekjur, brúttóvaxtatekjur, þurft að fara upp í 35% og ég held að það hefði ekki verið sérstaklega gæfulegt.
    Ég held að ef menn fara að skoða þetta í rólegheitunum og bera saman þessar stærðir hvað hefði í raun þurft að hækka hina almennu prósentu í tekjuskattinum ef menn hefðu viljað fara aðra leið eða hvað menn hefðu þurft að fara með hátekjuskattinn í, sem hefði kannski verið 10--15% til viðbótar af þeirri prósentu sem nú gildir, þá held ég að menn kæmust fljótt að raun um að það mundi vera algjör ófæra.