Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 15:06:29 (4162)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. (Gripið fram í.) Ég vil reyna að fara að ráðum hv. frammíkallanda og lengja ekki þessar umræður, en vegna þess að hér eru nefndar tölur frá Alþýðusambandi Íslands og menn eru nokkuð að velta fyrir sér skattbyrði og kaupmætti á næsta ári, þá held ég að það sé gagnlegt fyrir umræðuna að nú þegar komi fram mín viðhorf þannig að þeir ræðumenn sem eiga eftir að tala geti tekið tillit til þeirra upplýsinga sem ég mun fara með í minni ræðu.
    Í fyrsta lagi harma ég það að Alþýðusambandið skuli senda frá sér þann pappír sem er dagsettur 21. des. 1992. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hefur reyndar sýnt fram á hvernig sá pappír er uppbyggður. Hann byggist á því að telja saman alla hugsanlega skatta, ekki einungis á næsta ári heldur líka á árinu 1994, en tekur ekkert tillit til þess hvaða skattar hafa verið felldir niður á yfirstandandi ári, né heldur að það er ætlunin að breyta aftur skattheimtunni á árinu 1994 því allir vita að það er aðeins millibilsástand sem myndast vegna aðstöðugjaldsins.
    Þá er einnig blandað saman betri skattskilum og ekki tekið tillit til hluta sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson minntist á. Ég vil bæta því við að jöfnunargjaldið féll niður á þessu ári, í haust, og minna á að jöfnunargjaldið skilaði hvorki meira né minna en einum milljarði á sl. ári.
    Þá minntist hv. þm. auðvitað á gjaldeyrisskattinn og tryggingagjaldið sem hefur lækkað.
    Það sem mér finnst vera alvarlegt í þessu það er að Alþýðusambandið, sem eru samtök launamanna á almennum vinnumarkaði, skuli senda þetta frá sér og jafnframt vil ég að það komi skýrt fram að upplýsingar þess efnis að kaupmáttur ráðstöfunartekna lækki um 7,5% á næsta ári er auðvitað gjörsamlega út í loftið. Ég get giskað á að talan sé að minnsta kosti helmingi lægri, jafnvel innan við helmingi lægri.
    Við þurfum að rifja það upp að gildistökudagarnir á sköttunum eru misjafnir. Við þurfum að rifja það upp að árið 1994 er reiknað með að tekjuskatturinn lækki á fyrirtækjum, það er reyndar lögbundið ef þetta verður að lögum, þetta frv. sem hér er til umræðu, og það auðvitað rýrir tekjur ríkissjóðs og enginn veit á þessari stundu um aðstöðugjaldið. Það sem er kannski alvarlegast við þetta --- því auðvitað er það svo að við erum að fara í gegnum mjög erfiða hluti í okkar efnahagsmálum, við erum að skófla til sköttum í stórum stíl og ástæðan fyrir því að til þess er gripið er að Alþýðusambandið og Vinnuveitendasamband Íslands hófu viðræður við ríkisstjórnina um þetta mál. Ég er með undir höndum blað sem er merkt Alþýðusambandi Íslands og var lagt fram við þær viðræður og þar kemur fram, því það er ekkert leyndarmál lengur, hvað Alþýðusambandið lagði til að gert yrði. Þar er að finna til að mynda stórfellda lækkun á tryggingagjaldi, á hafnagjöldum, en síðan átti að hækka bifreiðagjöld um hvorki meira né minna en 50% til að fá peninga í ríkissjóð. Það átti að hækka bensíngjald um 3 kr., það skilaði 750, það átti að hækka virðisaukaskattprósentuna almennt, líka á matvælum. Það var ekki verið að tala um lúxus heldur matvæli þar á meðal. Það átti að skila 850 millj. Það átti að setja skatt á nafnvexti, það átti að skila 1.500 millj. Það var ekkert farið í mannamun, sá sem átti 10 kr. hann átti að borga líka og hinn sem átti milljón átti að borga líka af sínum fjármunum. Það átti að hækka skatt af viðmiðunartekjum sjálfstæðra atvinnurekenda upp á tæplega 1.700 millj. kr. Að vísu kom í ljós að það var ekki hægt og síðan var hert skattaeftirlit og fleira og fleira. Með öðrum orðum: Hefði Alþýðusambandið ráðið ferðinni þá hefði verið um storkostlegar skattahækkanir að ræða ef dæma má af þeirra eigin orðum sem þeir viðhafa nú um það sem gerst hefur í frv. ríkisstjórnarinnar.
    Það sem gerist og menn verða að átta sig á er að gengisfellingin hefur sín áhrif og við höfum tekið tillit til þess í okkar útreikningum. Það sem skiptir einnig máli er að veltusamdrátturinn í þjóðfélaginu gerir það að verkum að það dregur úr innflutningi sem hefur þau áhrif að skatttekjur ríkissjóðs rýrna. En er þá eitthvert gagn að þessu að draga svona úr innflutningi? Jú, gagnið lýsir sér í því að þegar innflutningurinn minnkar þá dregst viðskiptahallinn saman, en eitt stærsta böl hér á landi hefur verið uppsöfnun á erlendum skuldum. Það er það sem við erum að koma í veg fyrir og hlýtur öðrum þræði að bitna á ríkissjóði. Samt sem áður er talið að hallinn á ríkissjóði á Íslandi sé með því minnsta sem nú þekkist í Vestur-Evrópu, fyrst og fremst vegna þess að ríkisstjórnin brást við þessum vandamálum svo snemma. Síðan koma menn og segja að skatttekjur ríkissjóðs séu að hækka. Þeir sem lesa fjárlagafrv. og bera saman niðurstöðutölur fjárlagafrv., sem eru auðvitað ekkert annað en uppsöfnun þeirra talna sem koma fram í tekjuöflunarfrv. ríkisins, sjá það strax að skatttekjurnar á næsta ári verða svipaðar og á yfirstandandi ári en á yfirstandandi ári eru skatttekjurnar talsvert lægri heldur en 1991, lægri en 1990, lægri en 1989 þannig að það verður að fara allt aftur til ársins 1988 til að finna skatttekjur sem eru jafnlágar --- heildarskatttekjur ríkisins --- og verða á næsta ári og eru á yfirstandandi ári. Ég bið hv. þm. um að taka tillit til þessa þegar verið er að ræða um skatta. Það er hins vegar alveg hárrétt, og það hefur enginn reynt að draga fjöður yfir það, að skattbyrði einstaklinganna verður mun meiri. En þá bið ég hv. þm. um að sýna þá lágmarkssanngirni að segja að hún hækki vegna þess að það er verið að flytja til skattbyrðina í landinu. Og til hvers er það gert? Það er gert til að létta sköttum af atvinnufyrirtækjunum til að tryggja stöðu þeirra og tryggja að atvinnulífið geti starfað með eðlilegum hætti og til að hamla gegn atvinnuleysi í landinu.
    Þetta vildi ég, virðulegur forseti, að kæmist rækilega til skila í þessari umræðu. Því þó vissulega sé það gott að menn geri sér grein fyrir því hve alvarlegt ástand er um að ræða hér á landi og hve róttækar efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar eru í raun, þá megum við ekki grípa til þess ráðs að taka upplýsingar sem við vitum þegar þær eru lesnar hér upp í ræðustól að eru ekki réttar, ekki réttar í þeim skilningi að þar er ekki tekið tillit til þátta sem augljóslega hafa áhrif á niðurstöðutölurnar. Þær tölur sem ég hef farið hér með höfum við reiknað út, þær koma fram í fjárlagafrv., og ég efast um að það sé hægt að hrekja þær. En það er hins vegar alvarlegt þegar samtök út í bæ, sem senda inn upplýsingar, gera ekki reikninginn upp með réttum hætti og taka ekki tillit til þeirra skatta sem hafa fallið niður á þessu ári né heldur þeirra skatta sem munu falla niður á árinu 1994 samkvæmt frv. en leyfa sér í staðinn að taka inn tekjurnar á því ári.

    Ég get ekki komist hjá því hér í lokin, hæstv. forseti, að leiðrétta eina missögn sem var sögð hér í ræðustól um daginn og hefur aftur og aftur verið farið með í sjónvarpi og útvarpi og það er um virðisaukaskatt á húshitun. Þar var sagt að það mundu nást 900 millj. kr. af þessum skatti. Sannleikurinn er að það er á milli 560--570 millj. kr. sem nást inn, þar af mun Hitaveita Reykjavíkur borga yfir 60%.