Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 15:15:49 (4163)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. fjmrh. biður alþingismenn og aðila í þjóðfélaginu að sýna sanngirni í útreikningum. Ég minni hæstv. fjmrh. á það að þegar verið var að skerða barnabætur á sl. ári og þegar var verið að skerða vaxtabætur þá taldi hæstv. fjmrh. ekki rétt að tala um það sem skattlagningu. Við töldum að það væri rétt. Var það sanngirni af hæstv. fjmrh. að neita því? Við minntum hæstv. fjmrh. á að það væri fjöldinn allur af gjöldum sem kom inn í fjárlagafrv. sem væri jafnframt skattheimta. Hæstv. fjmrh. neitaði því og sýndi ekki sanngirni þá.
    Auðvitað er hægt að viðurkenna að það er viss ósanngirni í því að stilla þessu þannig upp að það sé verið að hækka skatta á næsta ári sem þessu nemur. Þannig ber ekki að skilja þetta skjal Alþýðusambands Íslands. Það ber að skilja það hvað skattarnir koma til með að hækka á ársgrundvelli ef engin önnur lækkun kemur á móti. Hæstv. fjmrh. hefur ekki tilkynnt um það hvaða lækkanir eigi að koma á árinu 1994. En hæstv. ríkisstjórn ætlar að hafa samskipti við aðila vinnumarkaðarins með þessum hætti, eins og hæstv. fjmrh. gerði hér áðan, að halda því fram að verkalýðshreyfingin hafi í reynd viljað leggja á miklu hærri skatta en ríkisstjórnin. Verkalýðshreyfingin sé miklu skattaglaðari en ríkisstjórnin og ríkisstjórnin ætli að ná sér í vörn með því að kenna verkalýðshreyfingunni í landinu um alla þessa hluti.
    Hvernig væri nú, hæstv. fjmrh., að fjmrn. og hagfræðingar Alþýðusambandsins töluðu saman og reyndu að komast að sameiginlegri niðurstöðu í stað þess að hæstv. fjmrh. sendi hreyfingunni tóninn með þessum hætti hér á Alþingi. Heldur hæstv. fjmrh. að það skapist einhver friður hér í þjóðfélaginu með þessu háttalagi ríkisstjórnarinnar?