Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 15:52:55 (4172)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. forsrh. fer jafnan eins. Þegar hann kemst í kastþröng þá flýr hann á vit fortíðarinnar og byggir málsvörn sína á því að hlutirnir hafi verið svona eða hinsegin, menn hafi verið vondir eða verri í gamla daga og víkur sér auðvitað undan því að svara fyrir stefnu sinnar eigin ríkisstjórnar og nútíðina. Þetta er auðvitað ekki merkilegur málflutningur. Ef hæstv. forsrh. hefur kynnt sér málið veit hann væntanlega og getur þá fengið um það upplýsingar hjá vini sínum hæstv. fjmrh. að þetta mál, skattlagning fjármagnstekna, var komið mjög langt. Fjmrn. hafði í raun og veru unnið alla þá tæknivinnu sem til þurfti og kom út í hvítri bók haustið 1990. Hitt hefur ekki verið neitt leyndarmál að í ríkisstjórn voru að nokkru leyti skiptar skoðanir um það mál og flokkur er nefnist Alþfl. stóð fyrst og fremst gegn þessari breytingu þá og hafði að vísu kannski til þess stuðning víðar að þannig að Alþb. fékk því miður ekki eitt ráðið. En það er alveg ljóst að undir forustu fyrrv. fjmrh. var þetta mál mjög langt á veg komið, tæknilega unnið og ríkisstjórnin þarf að fá þessa hvítbók til þess að nýta sér þann árangur sem þá lá fyrir. Enginn vafi er á því að það hefði átt að vera auðvelt verk á grundvelli þeirra vinnu að koma á skattlagningu fjármagnstekna veturinn 1991--1992.
    Um skuldir heimilanna og húsbréfin og húsnæðismálin þá er það auðvitað ljóst að stóraukið fjármagn í húsnæðiskerfinu frá og með 1986 á þarna hlut að máli. Ég er sammála hæstv. forsrh. um það. En Seðlabankann segir líka á bls. 4 í skýrslu sinni að aðgerðir ríkisins á sviði skattamála spili þarna stórt hlutverk. Það er sú hliðin sem ekki síst snýr að ríkisstjórninni núna og menn eiga að hafa í huga. Hvar enda þessir auknu skattar annars staðar en í auknum skuldum heimilanna? Ég spái því miður að að stærstum hluta lendi þessar nýju álögur í aukinni skuldasöfnun heimilanna vegna þess að kaupið er lækkandi, atvinnan er minnkandi, og hvar á þá fólkið að taka peningana til þess að borga þessa auknu skatta? Þetta mun því miður lenda í auknum skuldum og talan næsta ár verður e.t.v. 20 milljarðar í staðinn fyrir 15.