Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 15:55:14 (4173)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil aðeins fjalla um nokkur atriði sem minn ágæti félagi í efh.- og viðskn. hefur rætt hér um. Í fyrsta lagi ef á að ná rúmlega 4 milljörðum inn í tekjuskatt með óbreyttum skattleysismörkum en aðeins með því að hækka prósentun þá slæ ég svo á að það er verið að hækka hana um 4,5% upp í 44--45%. Við getum skoðað þetta betur eftir áramótin.
    Í öðru lagi vil ég benda á það að þær tillögur sem Alþb. lagði fram við fjárlagaumræðuna um hátekjuskatt upp á 1.600 millj. mundu þýða hátekjuskatt upp á 20% þar til viðbótar fyrir tekjur yfir 200 þús. á einstaklinga og 400 þús. á hjón þannig að þá erum við komin í 64--65% með skattprósentuna. Þetta er nú allt og sumt.
    Í þriðja lagi vil ég benda á að verið er að fella niður aðstöðugjald eins og virðist hafa farið fram hjá sumum og það þýðir að ríkið er að taka það á sig núna, en mun væntanlega lækka skatta um næstu áramót þegar sveitarfélögin taka þetta á sig með öðrum hætti og þá verður sjálfsagt skemmtilegra að vera í efh.- og viðskn. en núna.
    Í fjórða lagi vil ég benda á það að tekjur ríkissjóðs í heild verða nánast óbreyttar milli 1992--1993.
    Í fimmta lagi vil ég benda á það að Alþb. lagði líka fram tillögu um sérstakan fjármagnstekjuskatt sem hefði þýtt 20% skatt á brúttótekjur sem hefði hækkað vexti og eytt atvinnu.
    Í sjötta lagi vil ég benda á það að skuldsetning fyrirtækja var 50% af landsframleiðslunni 1980 en er 75% núna.
    Í sjöunda lagi vil ég benda á það að á ferðinni eru tölur um 7% lækkun á kaupmætti ráðstöfunartekna sem er algerlega út í hött vegna þess að það þýddi að tekjur þyrftu að lækka um 16 milljarða eða kaupmáttur lækkaði sem svaraði 16 milljörðum. Hvernig menn geta galdrað upp slíkar tölur er mér alger ráðgáta enda er það alls ekki hægt. Aðalverkefnið sem við stöndum frammi fyrir er að treysta atvinnuna. Það höfum við verið að reyna að gera, m.a. með gengisfellingunni og það er láglaunafólkinu mest í hag að hafa vinnu.