Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 16:25:43 (4186)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegi forseti. Það er kannski í upphafi ræðu minnar rétt að vitna í dagblað, með leyfi hæstv. forseta, Dagblaðið í dag vegna þess að þar er fjallað um stjórnarandstöðuna og haft eftir hæstv. utanrrh. eftirfarandi fáeinar línur í lok umfjöllunarinnar:
    ,,Ríkisstjórnin náði því fram sem henni var nauðsynlegt, fjárlögum, tekjuöflunarfrv. og öðru sem fylgir. Trúlega hefur mörgum stjórnarliðanum verið ósárt um þó mas stjórnarandstöðunnar um skattamál dyndi ekki í eyrum fólks milli hátíða, sagði Jón Baldvin.`` ( Gripið fram í: Hvar er Jón Baldvin?) Ég veit ekki hvar Jón Baldvin, hæstv. utanrrh., er og ætla ekki að óska eftir að hann mæti í salinn, ( Gripið fram í: Það mundi greiða fyrir þingstörfum.) þó svo það væri kannski fóðlegt að sjá ásjónu hans þennan daginn. Ég hef ekki séð hann í dag. En auðvitað hefði stjórnarandstaðan um nóg að tala milli hátíða og vitanlega hefðu verið full efni til þess að halda umræðunni um skattamál lengur áfram en hér er gert. Það væru ansi undarlegar samlíkingar að taka ef menn ætluðu að fara að halda því fram að það væri um málþóf að ræða þó að teknir væru tveir eða þrír dagar til að ræða þær álögur sem eru á ferðinni og hvernig þeim dreift á fólkið í landinu.
    Ýmis orð hafa fallið um réttlæti og sanngirni en eitt er ég sannfærður um að það er útilokað að finna nokkru réttlæti eða sanngirni stað í þeim ákvörðunum sem liggja hér til grundvallar því að fella niður aðstöðugjald og setja þær álögur á launafólk í landinu. Ég verð að segja alveg eins og er að mér þykir það mikið slys einfaldlega vegna þess að menn voru sammála um að það þyrfti að losna við aðstöðugjaldið og að það þyrfti að fá einhverja aðra tekjustofna í staðinn fyrir sveitarfélögin að ganga það mál ekki til enda. Halda menn virkilega eftir reynslu fyrri ára að það verði auðvelt verk á því ári sem er að koma að finna tekjustofna í staðinn fyrir aðstöðugjaldið? Ég spái því að það verði kannski um þetta leyti næsta ár svipuð staða í málinu og núna og að það verði eingöngu um að ræða einhverjar málamyndatillögur um hækkanir á gjöldum eða nýjum sköttum til sveitarfélaganna af bílum eða einhverju því um líku sem muni ekki draga nema hluta af því sem þarf upp í aðstöðugjaldið. Ég held því miður að það að menn báru ekki gæfu til þess að ganga málið til enda muni þýða í framtíðinni hærri skatta á láglaunafólk í landinu. Þannig held ég að það verði.
    Annars var merkilegt að heyra í hv. 5. þm. Norðurl. v. og formanni hv. efh.- og viðskn., Vilhjálmi Egilssyni, þegar hann var að tala um að það mætti ekki setja skatta á fjármagnstekjur einfaldlega vegna þess að það þýddi aðeins hærri skatta og hærri vaxtagjöld. Það kæmi strax fram í vaxtagjöldum. Er hann svo bláeygður að hann haldi það að hækkaðir skattar á almenning muni ekki koma einhvers staðar fram? Að verkalýðshreyfingin í landinu verði ekki að ná því til baka sem þarna er tekið? Hvers vegna dettur manninum í hug að fjármagnseigendur muni fá þetta allt til baka í hækkuðum vöxtum en fólkið í landinu sem fær á sig hækkaða skatta muni ekki bregðast við á nokkurn hátt? Hvað kemur mönnum til að halda slíkt? Það er ástæða til að halda annað eftir yfirlýsingar aðila vinnumarkaðarins.
    Þar kem ég að því sem mér finnst sárast og erfiðast í þessu máli öllu saman og það er að horfa upp á hvernig hæstv. ríkisstjórn hljóp frá samningum við aðila vinnumarkaðarins. Hún lagði bókstaflega á flótta frá þessum samningum. Það er ekki nema ein skýring á því. Ríkisstjórnin óttaðist að henni yrði spilað út í horn, það yrðu teknar ákvarðanir, það mundi liggja fyrir þannig hlutir í þeim samningum að það væri óhjákvæmilegt að taka ákvarðanir um samninga til lengri tíma um þessi mál öll og að ríkisstjórnin hefði þá hreinlega verið svipt völdum. Þetta hlýtur að vera ástæðan. Því ef menn hefðu haft fulla ábyrgð í þessu máli öllu saman þá hefðu menn auðvitað sest niður ákveðnir í því að ganga þetta til enda með aðilum vinnumarkaðarins og auðvitað hefði þurft að vera samkomulag til lengri tíma en undanfarandi þjóðarsáttir hafa verið. Það hefði þurft að gera samkomulag til tveggja ára þar sem allt hefði verið tekið inn í. Auðvitað hefði orðið að taka inn í komandi kjarasamninga og leysa þau mál. Í staðinn stöndum við frammi fyrir því að hér verður órói á vinnumarkaði og allt mun verða upp í loft í sambandi við kjarasamninga. Ríkisstjórnin hefur kastað þeim möguleikum frá sér að ná sátt í þjóðfélaginu. Ég efast um að nokkur ríkisstjórn hafi verið í viðlíka sporum og þessi að aðilar vinnumarkaðarins væru tilbúnir að teygja sig eins langt og greinilegt var.
    Það var furðulegt að hlusta á það sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan. Mér fannst hann tala með óvirðingu um aðila vinnumarkaðarins. Talaði um samtök út í bæ og í þingsalnum um falsaða útreikninga. Ég tel að það sé ekki gott til afspurnar þegar ráðamenn þjóðarinnar tala í slíkum tón til aðila vinnumarkaðarins, allra síst þegar fram undan eru samningaviðræður eins og núna. Ég held að ríkisstjórninni væri nær að hugsa sig vel um yfir áramótin og nota allan þann tíma til að velta því fyrir sér hvernig hún eigi að rétta fram höndina aftur til aðila vinnumarkaðarins til þess að reyna að koma einhverju viti í þau samskipti því að þar stefnir í óefni.
    Ég ætla ekki að taka langan tíma í umræðunum. Hér hefur verið gerð grein fyrir afstöðu minni hlutans til þeirra frv. sem liggja fyrir og þeirra efnahagsráðstafana sem ríkisstjórnin hefur staðið að. Þó get

ég ekki setið á mér að nefna tvö eða þrjú atriði. Í fyrsta lagi er það skatturinn á húshitun sem er einhver fáránlegasti skattur sem hefur verið tekinn upp og rökstuddur á alveg sérkennilega furðulegan máta. Því er haldið fram að það þurfi að leggja þessa skatta á til að samræmi sé í skattlagningu. Hvað þarf svo að gera í framhaldinu? Það sem þarf að gera í framhaldinu er að búa til endurgreiðslukerfi. Ein af röksemdunum fyrir því að skattarnir yrðu að vera svona var að það væri til einföldunar. Halda menn að það verði til einföldunar að búa til endurgreiðslukerfi á húshitun í landinu með þessum hætti sem þarna er þar sem engu er jafnað nema einmitt skattinum? Úr virðisaukaskattinum er verið að búa nefskatt á húseigendur í landinu sem þurfa að kynda hús. Nefskatt upp á ákveðna upphæð og allir eiga að borga sömu upphæð ef þeir eru með kostnað yfir eitthvað visst af húshituninni. Þannig lítur þetta út. Þeir einu sem sleppa betur eru þeir sem hafa lægri húshitunarkostnað og borga lægri skatt. Því lægri húshitun sem menn greiða þeim mun lægri skatt eftir að þeir eru komnir niður fyrir mörkin. Þarna er á ferðinni ótrúlega vitlaus aðgerð og mjög ósanngjörn vegna þess að nóg eru þyngslin af húsakyndingu fólks þar sem hún er dýr þó ekki sé verið að bæta þar ofan á. Bjargráð eins og þessi hefðu ekki átt að koma frá ríkisstjórninni sem hefur lýst því yfir að hún vilji draga úr orkukostnaði heimilanna.
    Ég nefni líka lækkun endurgreiðslu á virðisaukaskatti af vinnu iðnaðarmanna. Ég held að það sé mjög heimskuleg ráðstöfun. Út af fyrir sig er ekkert rangt við það að hafa virðisaukaskatt á vinnu iðnaðarmanna en menn verða bara að horfast í augu við þær staðreyndir sem eru. Mjög erfitt er að passa upp á að þessi svokallaða svarta atvinnustarfsemi aukist ekki í landinu. Hættan er hvað mest í sambandi við viðgerðir og húsbyggingar þar sem verið er að vinna fyrir einstaklinga. Þar liggja þessir gífurlegu hagsmunir saman. Annars vegar er um að ræða staðgreiðsluskatt þess manns sem vinnur verkið. Hins vegar er um að ræða virðisaukaskatt á verkið. Freistingin að láta bæði þessi gjöld falla niður og gefa ekki nótu fyrir vinnunni er óskaplega mikil og með þessu er hún aukin. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég held að það þurfi að ráða býsna marga --- og ekki ætla ég að draga úr því að bætt verði við fólki í vinnu hjá því opinbera við skatteftirlit --- ef menn ætla að ná árangri í því að koma í veg fyrir undandrátt af þessum ástæðum, sérstaklega eftir að menn eru búnir að breyta þessu.
    Ég get ekki stillt mig um að nefna bensíngjaldið vegna þess að út af fyrir sig hef ég ekki á móti því að það lögð séu gjöld á eldsneyti vegna umferðarinnar en ég tel að það sé alfarið rangt staðið að þessum málum. Ég tel að þessi gjöld eigi að nýta til vegagerðar. Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið annars vegar að setja verulega hærri gjöld á bensín, nýta sér síðan þennan markaða tekjustofn af bensíni og þungaskatti í ríkissjóð en setja sérstakt bensíngjald upp á 780 millj. kr. í ríkissjóð líka þannig að það er komið yfir milljarð sem rennur til ríkissjóðs af orkunni til umferðarinnar. Á sama tíma er Vegasjóði ætlað að taka lán upp á 1.550 millj. kr. Þetta finnst mér mjög heimskuleg aðferð. Ég tel að bíleigendur hefðu verið miklu ánægðari og þeim hefði fundist miklu eðlilegra að þetta bensíngjald hefði verið sett á til að gera þetta umrædda átak í vegamálum og þeir peningar verið notaðir í það en lánsfé hefði þá verið notað til annarra þarfa.
    En mig langar, virðulegi forseti, til að óska eftir því áður en ég lýk ræðu minni að hæstv. forsrh. verði beðinn að mæta í þingsalinn og gjarnan hefði ég viljað að hæstv. fjmrh. væri hér líka vegna þess að í þeim plöggum sem ég hef séð bæði tilheyrandi fjárlögunum og skattamálum hef ég hvergi séð að það væri gert ráð fyrir peningum sem ríkisstjórnin eða ráðherrar úr ríkisstjórninni hafa lofað þeim sem hafa orðið fyrir mestum skerðingum vegna samdráttar í þorskveiðum. Mig langar að vitna í nokkrar blaðaúrklippur um það mál en ég vil gjarnan að hæstv. forsrh. verði hér við því að ég óska eftir að hann svari því með hvaða hætti og hvenær þessar bætur verða reiddar fram. Ég hef orðið mjög var við það að útgerðarmenn allt í kringum landið eru að spyrja eftir þessu. Einmitt þessir menn sem hafa orðið fyrir mestum skerðingum eru í miklum erfiðleikum, hafa verið að bíða eftir því að ríkisstjórnin og ráðherrar hennar standi við loforðin. Það mun hafa verið á fundi á Flateyri sem var haldinn fyrri hluta ágústmánaðar sem hæstv. forsrh. kynnti fyrir fundarmönnum hugmyndir sínar um það hvernig ætti að bæta mönnum þessa skerðingu á þorskveiðiheimildum sínum. Virðulegi forseti. ( Forseti: Þegar hafa verið gerðar ráðstafanir. Hæstv. fjmrh. er kominn í salinn og óskað hefur verið eftir hæstv. forsrh.)
    Já, virðulegur forseti. Ég óska sérstaklega eftir því að hæstv. forsrh. sé hér vegna þess að hæstv. sjútvrh. sagði það mjög skýrt og ákveðið að þetta mál væri á forræði forsrh. Annars hefði ég kannski getað óskað eftir skýringum sjútvrh. á þessu máli hvernig það stendur. En mig langar til þess að vitna í fáeinar blaðaúrklippur, með leyfi forseta. Þessi fundur á Flateyri var fyrri part ágústmánaðar eins og ég sagði áðan. Á honum kom fyrst fram þessi hugmynd um það hvernig ætti að bæta skerðinguna vegna þorskveiðiheimildanna. Forsrh. gerði grein fyrir þeim hugmyndum. Í framhaldi af því var fjallað mikið um þetta mál í blöðum og til þess að gera langa sögu stutta vil ég vitna hér, með leyfi forseta, í Morgunblaðið þann 11. ágúst, en þar kemur fram eftirfarandi:
    ,,Heimildir Morgunblaðsins herma að starfsmenn Byggðastofnunar hafi lagt til við forsrh. að styrkirnir verði fjármagnaðir að þriðjungi með 150 millj. kr. úr Fiskveiðasjóði með vísan til þess að eiginfjárstaða sjóðsins sé góð og hann eigi mikið undir því að sjávarútvegsfyrirtæki þau, sem verði styrkt, verði áfram í rekstri. Að þriðjungi verði fjárframlagið greitt með 150 millj. úr Atvinnutryggingarsjóði Byggðastofnunar en þeir peningar komu inn er sjóðurinn setti það skilyrði fyrir framlengingu lána sinna til útgerðarfélaga að þau gerðu upp eldri vanskil. Í þriðja lagi á ríkissjóður sjálfur að leggja til 150 millj. kr.

samkvæmt tillögunum.`` Ég hef ekki orðið var við að neins staðar kæmi fram hvernig ríkissjóður eigi að leggja þessa peninga til og hvar eigi að afla þess fjár.
    Þá langar mig til að vitna í Tímann 12. ágúst. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Ríkisstjórnin fjallaði á fundi sínum í gær um skýrslu Byggðastofnunar. Eftir fundinn sagði Davíð Oddsson forsrh. að gengið væri út frá að 450 millj. kr. yrði varið til styrktar illa stöddum fyrirtækum í sjávarútvegi. Þessar krónur væru alls ekki ætlaðar til að kaupa kvóta Hagræðingarsjóðs og að enn væri ekki vitað hvaðan þessir peningar ættu að koma.
    Nánar tiltekið miðast tillögurnar við að skerðing hvers skips í þorskígildum umfram 5% sé umreiknuð í krónur miðað við 40 kr. á kíló. Viðkomandi útgerð fái þá upphæð bætta svo hún geti leigt sér aflaheimildir þannig að ekkert skip og þar með ekkert byggðarlag þurfi að þola meira en u.þ.b. 5% skerðingu í aflaheimildum.``
    Að síðustu, virðulegur forseti, langar mig að vitna hér til Morgunblaðsins þann 12. ágúst. Þar segir Friðrik Sophusson fjmrh. að ,,tillögur Byggðastofnunar um að jafna áfall vegna þorskskerðingar, sem voru til umfjöllunar á ríkisstjórnarfundi í gær, séu ekki bundnar skilyrðum um kaup á kvóta Hagræðingarsjóðs. Aðgerðirnar geti hjálpað einstökum fyrirtækjum til að neyta forkaupsréttar síns hjá sjóðnum en þau geti jafnframt keypt kvóta á almennum markaði. Þorsteinn Pálsson sjútvrh. segist vera ánægður með að samstaða sé orðin um að koma fram með jöfnunaraðgerðir vegna niðurskurðar á þorskveiðiheimildum en engar tillögur hafi verið settar fram á fundinum um hvernig eigi að standa að fjármögnun aðgerðanna.``
    Virðulegur forseti. Ég er ekki að gera það að gamni mínu að koma í ræðustól á þessum tíma til þess að taka þetta mál upp. Hringt hefur verið í mig og ég hef hitt marga menn undanfarna daga og undanfarnar vikur og mánuði sem hafa spurt eftir þessu. Spurt hvenær þeir fái þessa peninga sem búið er að lofa þeim með opinberum hætti eins og hér hefur verið gert og ég hef vitnað í. Ríkisstjórnin talaði um það eins og hún væri búin að taka fullnaðarákvörðun um þetta, þ.e. ráðherrarnir sem ég nefndi hér. A.m.k. þrír töluðu um að þeir væru búnir að taka um þetta ákvarðanir og þetta væri aðeins handavinna. Eftir því sem oftar var spurt kom oftar svarið: Þetta kemur í ljós næsta föstudag. Nú eru liðnir nokkuð margir föstudagar síðan þetta mál kom fyrst til umræðu. En ég hef ekki orðið var við að niðurstaða væri komin. Ég tel að þeir aðilar sem eiga hlut að máli eigi rétt á því að fá að vita það fyrir áramót hverju þeir eiga von á. Hvort það sé kannski ávísun í jólapóstinum eða með hvaða hætti eigi að ganga þetta til enda sem ráðherrarnir lofuðu. Mér er vel kunnugt um að margir af þessum útgerðarmönnum og útgerðaraðilum og þeim sem tengjast þeim eru í miklum erfiðleikum. Þessir aðilar hafa sumir hverjir tapað einum þriðja, 33% af veiðiheimildum sínum á sl. tveimur árum. Það er högg sem ekki er gott að bæta og verður auðvitað ekki bætt með þessum 5%. En það mundi hjálpa þeim að fá þá peninga sem talað var um.
    Áður en ég lýk máli mínu vil ég þó segja það að mér finnst að þessar ákvarðanir ráðherranna um hvernig hafi átt að standa að málinu hafi frá upphafi verið kolvitlausar. Auðvitað átti ekki að fara með Hagræðingarsjóðinn eins og gert var. En ekki er tími til að fara yfir það mál hérna. En það er tími til að fá svör við því hvort þeir aðilar sem búið er að lofa þessum fjármunum eigi að fá þá og það hlýtur að vera hægt að gera það skýrt.
    Ég óska eftir því, vegna þess að hæstv. forsrh. hefur ekki komið í salinn, að hæstv. fjmrh. svari þessu, ég geri ráð fyrir að hann viti allt um málið. ( Forseti: Hæstv. forsrh. er því miður upptekinn hér í húsinu og gat ekki komið því við að koma. Ég vildi að hv. þm. vissi af því.) Já, virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera mál úr því þó mér þyki það auðvitað slæmt að forsrh. skuli ekki vera hér, sérstaklega vegna þess að hæstv. sjútvrh. var hafði sérstaklega búinn lýst því yfir að málið væri á forræði forsrh. og þess vegna taldi ég eðlilegast að hann svaraði fyrir málið en úr því að hann er ekki hér til staðar þá mun fjmrh. auðvitað gera grein fyrir hvernig á að standa að þessu máli. Ég hef lokið máli mínu.