Almannatryggingar

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 17:20:43 (4197)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það væri skynsamlegt að byggja heilbrigðisþjónustuna þannig upp að sem allra flest vandamál væru leyst á frumstigi heilsugæslu. Ég tel þess vegna að eitthvert fyrirkomulag af því tagi sem fólst í gamla tilvísanakerfinu eða ætlunin er að taka upp hér, fyrir því séu ýmis fagleg rök. Ég tek það skýrt fram að ég er ekki þar með að styðja í sjálfu sér áform hæstv. ríkisstjórnar um sparnað með þessari aðgerð sem slíkri og ég hef auðvitað fyrirvara á um það að útfærslan að þessu leyti verði skynsamleg. En þar sem ég er og hef lengi verið þeirrar skoðunar að kerfi af þessu tagi sé faglega skynsamlegt, að beina fólki sem mest inn á frumstig heilsugæslunnar og reyna að leysa þar sem flest vandamál áður en þau fara upp í gegnum dýrara ferli í heilbrigðisþjónustunni, þá væri ég ekki sjálfum mér samkvæmur ef ég styddi ekki þetta ákvæði. Ég geri það því og mun greiða því atkvæði mitt, en ég tek það skýrt fram að á því eru þessir tveir fyrirvarar, þ.e. að útfærslan takist skynsamlega og ég geri það ekki í því skyni að með því eigi að spara ríkissjóði peninga heldur vegna þess að ég tel þetta skynsamlega ráðstöfun af faglegum ástæðum. Ég segi já.