Almannatryggingar

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 17:29:24 (4201)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Minni hlutinn í heilbr.- og trn. hefur lýst andstöðu sinni við þá breytingu sem hér er verið að gera á 44. gr. almannatryggingalaganna. Andstaða minni hlutans hefur aðallega verið tvíþætt. Í fyrsta lagi er með þessari breytingu verið að velta auknum kostnaði á barnafólk og aldraða. Í þessari tillögu felst enginn samfélagslegur sparnaður nema síður sé og það má segja að það sé verið að setja

þann ávinning sem náðst hefur í betri tannheilsu landsmanna í hættu með þessari aðgerð.
    Í öðru lagi byggist andstaðan á því að þarna sé um ranga stefnumörkun að ræða í tannlækningum, það sé með öðrum orðum rangt að taka upp greiðslur fyrir forvarnir eins og viðgerðir heldur beri að halda forvörnum fólki að kostnaðarlausu en láta greiða fyrir viðgerðarþáttinn.
    Þá viljum við minna á að það er engin reynsla komin á þá breytingu sem gerð var á lögunum í fyrra og segja má að aðeins hafi fengist þriggja mánaða reynslutími þar sem skólatannlækningar í breyttu formi voru ekki teknar upp fyrr en í haust. Við munum því greiða atkvæði gegn þessari grein.