Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 17:51:12 (4210)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Í atkvæðaskýringum hefur almennum ákvæðum þessa frv. verið mótmælt en ég vil sérstaklega staldra við eitt atriði sem er ákvæðið um að leggja á ný virðisaukaskatt á bækur. Á síðasta kjörtímabili var tekin um það ákvörðun að fella niður virðisaukaskatt á bókum og á menningarstarfsemi yfirleitt. Ástæðan til þess var fyrst og fremst sú að menn sáu það fyrir að íslensk menning mundi með afgerandi hætti verða að taka á sig þátttöku í alþjóðlegu menningarsamstarfi á komandi árum. Það er alveg ljóst að með þeirri ákvörðun að leggja virðisaukaskatt á bækur er verið að veikja samkeppnismöguleika íslenskrar menningar á alþjóðlegum vettvangi og það er verið að veikja menningarlegan grundvöll þjóðarinnar. Menningin er undirstaða íslensks þjóðlífs umfram allt annað. Þess vegna tel ég, virðulegi forseti, að þessi tillaga um að leggja á bókaskatt sé ein ljótasta tillagan í þessu frv., í henni felist atlaga að íslenskri menningu og ég óttast að þessi skammsýna ákvörðun eigi eftir að koma niður á okkur í framtíðinni, ekki aðeins í lakari menningarstarfsemi heldur einnig almennt í verri lífskjörum. Ég segi nei af öllu afli við þessu frv., virðulegi forseti.