Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 17:56:55 (4214)


     Guðjón Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Með niðurfellingu aðstöðugjalds og jöfnunargjalds er létt milljarðagjöldum af atvinnulífinu í þeim tilgangi að styrkja stöðu þess og draga úr atvinnuleysi í landinu. Til að þetta sé mögulegt verður að afla aukinna tekna. Út á það gengur þetta frv. Stjórnarandstaðan hefur lagst gegn öllum þeim tekjuöflunarleiðum sem kveðið er á um í frv. Á sama tíma svigna borð þingmanna hér í salnum undan brtt. stjórnarandstöðunnar við útgjaldahlið fjárlagafrv. sem flestar gera ráð fyrir auknum útgjöldum ríkisins. Þar er ekki bara um að ræða milljónir eða tugi milljóna heldur hundruð milljóna í auknum ríkisútgjöldum á sama tíma og þjóðartekjur minnka og verið er að létta milljarðagjöldum af atvinnulífinu til að draga úr atvinnuleysi. Þetta kalla ég lýðskrum. Ég segi já.