Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 17:58:00 (4215)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Hér er skattahækkunarríkisstjórn Davíðs Oddssonar að leggja drápsklyfjar á heimilin í landinu. Launafólkið skal greiða skattana fyrir stórgróðafyrirtækin, Dagsbrúnarmenn fyrir Eimskip o.s.frv. Persónuafsláttur er lækkaður til að sækja 700 millj. til láglaunafólksins. Á húshitunina er settur skattur, á bækurnar, ferðaþjónustuna, feðurna einstæðu. Ríkissjóður mun bíða tjón vegna þessa frv. Atvinnulausum mun fjölga vegna aðgerðanna, atvinna mun flytjast í hendurnar á erlendum mönnum vegna þessara aðgerða. Ríkisstjórn sem hvorki skilur atvinnulífið né fólkið er trausti rúin og þessi langavitleysa í skattaformi kallar á vantraust þings og þjóðar. Ég segi að sjálfsögðu nei.