Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 17:59:36 (4216)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Þótt formaður efh.- og viðskn. telji Alþb. vera áhrifamikinn flokk, þá er ég ekki þeirrar skoðunar að tillöguflutningur þeirra geti komið af stað heimsstyrjöld. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þær tillögur sem ríkisstjórnin er hér að fá samþykktar muni leiða til átaka á vinnumarkaði og átaka í þjóðfélaginu. Við framsóknarmenn leggjum ekki til að leggja á meiri skatta. Við teljum hins vegar að það þurfi að jafna skattbyrðina mun betur. Það er verið að þyngja skattbyrðina hjá þeim sem minnstar tekjur hafa. Því hefur hæstv. fjmrh. ekki mótmælt og það er þessi staðreynd sem kallar á þau miklu mótmæli sem nú eru í þjóðfélaginu.
    Það er einnig svo með marga þá skatta sem eru lagðir á, t.d. hækkun virðisaukaskatts, að þeir munu draga úr umsvifum í samfélaginu og virka lamandi á þjóðartekjur. Þeir munu þess vegna auka atvinnuleysi og verða til þess að minnka tekjur ríkissjóðs og tekjur samfélagsins. Við megum ekki við þessu og ég segi nei við þessu frv.