Samningur um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Íslands, Jan Mayen og Grænlands

90. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 19:20:16 (4229)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Aðeins fáein orð af minni hálfu. Ég get vísað í margt af því sem hv. 1. þm. Austurl. sagði um þennan samning. Ég vil láta það koma fram að ég tel að hann sé Íslendingum hagstæður og það hafi verið gæfuspor í samstarfi þessara þjóða þegar samningar náðust, fyrst milli Norðmanna og Íslendinga um sameiginlega nýtingu loðnustofnsins og síðan þegar Grænlendingar komu inn í þann samning á árinu 1989. Það var að mínu mati ekki síður mikilvægt að ná fyrsta samningnum við þá um nýtingu á sameiginlegum stofnum þó því miður hafi ekki orðið það framhald á slíku sem þá voru bundnar vonir við, þ.e. að í kjölfarið mundu sigla samningar við Grænlendinga um fleiri sameiginlega stofna, svo sem karfa og rækju.
    Það er enginn vafi á því að ákvæði samningsins eru Íslendingum hagstæð. Í raun og veru er nær að segja að þau séu skynsamlega úr garði gerð hvað það snertir að ef hegðun loðnunnar veldur því að hún veiðist lítt eða ekki í lögsögu hinna ríkjanna, þá kemur það í okkar hlut að reyna að nýta þann hlut sem eftir er. Og eins og reynslan sýnir hefur útkoman á grundvelli þessa samnings sl. ár verið Íslendingum sérlega hagstæð en frá og með vertíðinni 1987--1988 hafa Íslendingar á hverju einasta ári fengið yfir 80% af loðnuveiðinni í sinn hlut, frá 81% á þeirri vertíð sem ég nefndi, 1987--1988, og upp í yfir 90% nú á tveimur síðustu loðnuvertíðum. Reynslan er auðvitað ólygnust um það að þessi ákvæði samningsins eru svona og þetta hefur skilað Íslendingum þessum hlut.
    Ég vil taka það fram að ég er sammála túlkun hv. 1. þm. Austurl. á 6. gr. samningsins. Það er afar mikilsvert atriði að enginn vafi leiki á þeirri túlkun, með öðrum orðum að veiðiréttur grannþjóðanna í íslenskri lögsögu sé ekki framseljanlegur og þá á það fyrst og fremst við um Grænlendinga sem selt hafa sinn kvóta undanfarin ár. Reynslan sýnir svo ekki verður um það villst og það er þegar komin á það reynsla í framkvæmd að við höfum það í hendi okkar að viðurkenna ekki veiðirétt á grundvelli heimilda sem Grænlendingar hafa selt ef um er að ræða aðra þjóð. Á síðustu vertíð var Færeyingum sem keypt höfðu kvóta af Grænlendingum snúið frá veiðum í íslenskri lögsögu. Ég er sem sagt sammála þeirri túlkun sem hv. 1. þm. Austurl. lýsti hér að þetta eigi við um hvaða þjóð sem er, þar með talið Norðmenn. Þó að þeir séu aðilar að samningnum, þá teldust þeir önnur þjóð í skilningi samningsins í viðkomandi grein. Þetta er auðvitað mikilvægt að liggi alveg ljóst fyrir þegar kemur að því síðar á þinginu í vetur að ræða frekar málefni tvíhliða samnings við Evrópubandalagið um fiskveiðar.
    Varðandi áhyggjur manna af því að í samningnum er ekki í sjálfu sér ákvæði eða yfirlýsing sem gerir ráð fyrir sérstökum takmörkunum á veiðum grænlenskra skipa í íslenskri lögsögu, þá hefur það ekki verið efni til að hafa áhyggjur af. Komi til þess að Grænlendingar eignist loðnuflota sem ég gæti sannarlega unnt þeim, þá hef ég engar áhyggjur af því að ekki muni reynast unnt að ná sambærilegum ákvæðum um takmarkanir á veiðum þeirra hér í landhelginni og reyndar stendur svo á þessa dagana að Grænlendingar munu vera að eignast sitt fyrsta loðnuskip.
    En það er enginn efi í mínum huga að þessi samningur er okkur Íslendingum hagstæður og það var gæfuspor í samskiptum þessara þjóða um mikilsverð sameiginleg hagsmunamál að gera hann og að hann hefur verið síðan framlengdur og ég styð því að afgreiðslu hans verði lokið. Það er nauðsynlegt vegna framgangs málsins að ekki ríki nein óvissa þegar loðnuvertíð hefst á nýjan leik í upphafi næsta árs.