Alþjóðasamningur um viðbúnað gegn olíumengun

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 19:27:39 (7145)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegur forseti. Með þingsályktunartillögu þessari fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili fullgildingu alþjóðasamnings frá 1990 um viðbúnað og viðbrögð gegn olíumengun og samstarf þar um.
    Árið 1989 samþykkti aðalþing Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) ályktun þess efnis að haldin skyldi alþjóðleg ráðstefna um viðbúnað og viðbrögð við olíumengun á sjó. Ályktun þessi var samþykkt í ljósi undanfarinna olíumengunaróhappa sem mörg hver voru mjög alvarleg. Í kjölfar ályktunarinnar var umhverfisnefnd stofnunarinnar (MEPC) falið að gera drög að alþjóðasamningi. Drögin voru lögð fyrir ráðstefnu á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar árið 1990. Samningurinn sem hér um ræðir var samþykktur á ráðstefnunni og var hann undirritaður af hálfu flestra aðildarríkja Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar.
    Markmið samningsins er að stuðla að alþjóðlegri samvinnu um viðbrögð við mengunaróhöppum er stafa af olíu. Með aðild að samningnum getur sérhvert ríki reitt sig á aðstoð frá öðrum aðildarríkjum þegar veruleg mengunaróhöpp eiga sér stað á hafsvæði þess. Helstu skuldbindingar samningsins eru:
    Þess er krafist að sérhver samningsaðili hafi á að skipa áætlunum og lágmarksútbúnaði, þar á meðal fjarskiptabúnaði, til að bregðast við olíumengunaróhöppum.
    Í samningnum eru ákvæði um tilkynningarskyldu í aðildarríkjum um atvik sem hafa eða geta haft í för með sér losun olíu í hafið.
    Enn fremur hefur samningurinn að geyma ákvæði um með hvaða hætti samningsaðilar skuli bregðast við mengunaróhöppum er stafa af olíu og hvenær eðlilegt sé að tilkynna slík óhöpp til annarra ríkja.
    Í samningnum eru ákvæði um samstarf samningsaðila á sviði rannsókna og þróunar í því skyni að draga úr áhrifum olíumengunar og óhappa.
    Unnið er að því að auka tækjabúnað og þjálfa mannafla til að mæta mengunaróhöppum í íslenskri lögsögu í samræmi við ákvæði samningsins, og verður því lokið á næstu árum. Samkvæmt 4. gr. samningsins er sérhver samningsaðili skuldbundinn til þess að tryggja að tilkynnt sé um mengunaróhöpp í lögsögu sinni. Ákvæði þetta er í samræmi við 20. gr. laga um varnir gegn mengun sjávar, nr. 32/1986. Í 4. gr. samningsins er enn fremur kveðið á um að samningsaðili skuli skylda stjórnendur skipa, sem sigla undir fána þess og eru utan lögsögu þess, að tilkynna um losun eða ummerki olíu til næsta strandríkis sem er aðili að samningnum. Endurskoða verður ofangreind lög um varnir gegn mengun sjávar hvað þetta varðar og miðað verður við að niðurstaða liggi fyrir áður en samningurinn tekur gildi.
    Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að leggja til að till. þessari verði að lokinni umræðunni vísað til síðari umræðu og umhvmn.