Ferill 6. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 6 . mál.


6. Frumvarp til laga



um innflutning.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



1. gr.


    Innflutningur á vöru og þjónustu til landsins skal vera óheftur nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögum eða milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að.
     Séu í gildi innflutningstakmarkanir á einstöku sviði skal þó heimilt að flytja til landsins vörur sem ætlaðar eru fyrir sendiráð erlendra ríkja og aðra sem samkvæmt lögum, milliríkjasamningum eða venju njóta hér tollfrelsis. Ákvæði þetta á þó ekki við um vörur sem hætta telst á að smitefni geti borist með til landsins.

2. gr.


    Þegar undanþágur eru veittar frá innflutningshömlum skal innheimt sérstakt 1% gjald af þeirri fjárhæð sem um ræðir hverju sinni. Gjaldið skal innheimt af þeim aðila sem hefur milligöngu um gjaldeyrissölu vegna innflutningsins. Tekjur af gjaldinu renna í ríkissjóð.

3. gr.


    Óheimilt er að tollafgreiða vöru eða hafa milligöngu um greiðslu til útlanda fyrir vöru eða þjónustu sem háð er innflutningstakmörkunum nema undanþága hafi fengist fyrir innflutningnum.

4. gr.


    Brot á lögum þessum varða sektum. Sé brot framið í þágu lögaðila er heimilt að beita stjórnendur lögaðilans framangreindum viðurlögum og einnig er heimilt að gera lögaðilanum sekt eða sviptingu starfsréttinda.
     Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum eru refsiverðar eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.
     Með brot á lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.

5. gr.


    Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Hann getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd þeirra.

6. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 1. gr. er viðskiptaráðherra heimilt að ákveða með reglugerð að innflutningur á burstum og öðrum hliðstæðum vörum, sem framleiddar eru á vinnustofum blindra hér á landi, sé háður takmörkunum og að undanþágur frá þeim séu háðar leyfi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


     Frumvarp þetta er flutt samhliða frumvarpi til laga um gjaldeyrismál. Lagt er til að þau komi í stað núgildandi laga um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, nr. 63 31. maí 1979. Í þeim lögum er bæði fjallað um gjaldeyrismál og innflutningsmál enda hafa gjaldeyrisverslun og gjaldeyrishöft löngum verið nátengd innflutningsverslun og innflutningshöftum. Nú er lagt til að þessir tveir málaflokkar verði aðskildir í lögum þar sem gjaldeyrismál tengjast í æ ríkara mæli ýmiss konar fjármagnshreyfingum fremur en greiðslum fyrir innflutning og lántökum vegna hans.
     Frumvörpin voru fyrst lögð fram á 115. löggjafarþingi. Þau voru ekki tekin til umræðu. Þau eru nú lögð fram að nýju með örlitlum breytingum.
     Gjaldeyris- og innflutningsreglur hér á landi hafa smám saman verið rýmkaðar og stærsta skrefið í þá átt síðan 1960 var stigið 1. september 1990 þegar ný reglugerð um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála tók gildi og 15. desember 1990 þegar reglur Seðlabanka Íslands um viðskipti með verðbréf í erlendri mynt tóku gildi.
     Gjaldeyrisreglurnar, sem giltu hér á landi fram að þeim tíma, mátti í ýmsum atriðum rekja til kreppuáranna á fjórða áratugnum og fyrstu áranna eftir síðari heimsstyrjöldina. Á þeim tíma þótti nauðsyn bera til að taka upp strangt eftirlit á sviði gjaldeyrismála og hafa hönd í bagga með því hvernig erlendum gjaldeyri, sem þjóðin aflaði, var ráðstafað.
     Þegar ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, „viðreisnarstjórnin“, komst til valda árið 1960 urðu umskipti í gjaldeyrismálum þjóðarinnar þegar gjaldeyrisleyfi vegna innflutnings voru að stórum hluta afnumin og komið á fót því innflutningsfrelsi sem ríkt hefur síðan.
     Í lögunum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála frá 1979 kemur fram sú meginregla að innflutningur skuli ekki háður leyfum nema annað sé ákveðið í sérstökum lögum, reglugerðum eða auglýsingum. Listi yfir þær vörur, sem háðar eru innflutningsleyfi, hefur styst smátt og smátt. Landbúnaðarvörur hafa löngum verið meginuppistaða hans. Á síðari árum hafa einnig verið á listanum ýmsar olíuvörur, bensín og ýmiss konar burstar. Hinn 1. janúar 1991 var bensín fellt út af listanum. Í október 1991 hurfu nokkrar tegundir bursta og pensla. Frá og með 1. janúar 1992 voru brennsluolíur, gasolíur og jarðolíur felldar út af listanum. Eftir eru á listanum fjölmargar landbúnaðarvörur auk tveggja vöruflokka af burstum. Með innflutningstakmörkunum á burstum er verið að vernda framleiðslu Blindrafélagsins.
     Efnisatriði þessa frumvarps eru nánast þau sömu og innflutningsákvæðanna í lögum nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Þó hefur verið fellt niður ákvæði þess efnis að við setningu reglugerða eða auglýsinga um innflutningsmál skuli haft samráð við Seðlabanka Íslands, enda falla innflutningsmál ekki undir starfssvið hans eftir að skilið hefur verið á milli gjaldeyris- og innflutningsmála.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Efni þessarar greinar samsvarar 1. málsl. 1. gr. laga nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Með henni er innflutningsfrelsi lögfest. Í lögunum frá 1979 er einungis fjallað um innflutning á vöru en nú þykir rétt að leggja til að einnig verði lögfest að innflutningur þjónustu til landsins sé óheftur. Þá hefur verið fellt niður ákvæði í lögunum frá 1979 um að við setningu reglugerða eða auglýsinga um innflutningsmál skuli haft samráð við Seðlabanka Íslands, enda falla innflutningsmál ekki undir starfssvið hans eftir að innflutningsmál hafa verið skilin frá gjaldeyrismálum.
     Lagt er til að einungis verði unnt að víkja frá meginreglunni um innflutningsfrelsi með stoð í lögum eða milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Dæmi um þetta eru ákvæði um innflutningstakmarkanir á búvöru og dýrum í lögum nr. 46/1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, og í lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, svo og innflutningstakmarkanir í lögum nr. 11/1928, um varnir gegn því, að gin- og klaufaveiki og aðrir alidýrasjúkdómar berist til landsins.
     Í 2. mgr. er kveðið á um að innflutningsleyfis sé ekki þörf þegar um er að ræða innflutning á vöru fyrir sendiráð erlendra ríkja og annarra sem samkvæmt lögum eða venju njóta hér tollfrelsis. Ákvæði þessa efnis hefur hingað til verið í reglugerð, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 312/1990 um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Rétt þykir hins vegar að lögfesta undanþágu af þessu tagi. Það er þó tekið fram að ákvæðið eigi ekki við um vörur sem hætta telst á að smitefni geti borist með til landsins.

Um 2. gr.


    Efnisatriði þessarar greinar samsvarar 14. gr. laga nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Í þeim lögum er þó kveðið á um að gjaldið geti numið allt að 2% af fjárhæð leyfa og að ríkisstjórnin ákveði hvernig tekjum af því skuli varið. Gjaldið hefur um langt skeið verið 1% og hér er lagt til að það hlutfall verði lögfest. Þriðjungur af tekjum af gjaldinu ásamt þriðjungi af tekjum af gjaldi fyrir gjaldeyrisleyfi hefur á undanförnum árum runnið til samstarfsnefndar um gjaldeyrismál til að standa undir ýmsum kostnaði við útgáfu og skráningu leyfa, skýrslugerðir og þróun hugbúnaðar en afgangurinn hefur runnið í ríkissjóð. Hér er lagt til að tekjur af gjaldinu renni beint í ríkissjóð.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 6. gr.


    Í frumvarpi til laga um gjaldeyrismál er kveðið á um brottfall laga nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála.

Um ákvæði til bráðabirgða.


     Í ákvæði til bráðabirgða er viðskiptaráðherra heimilað að víkja frá meginreglu laganna um innflutningsfrelsi og setja í reglugerð takmarkanir á innflutningi bursta og hliðstæðra vara sem framleiddar eru í vinnustofum blindra hér á landi. Innflutningstakmarkanir af þessu tagi hafa tíðkast um langt skeið og í samningsdrögum um Evrópskt efnahagsvæði er Íslandi heimilað að viðhalda slíkum takmörkunum þrátt fyrir meginreglu samningsins um innflutningsfrelsi.



Fylgiskjal.



Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um innflutning.


    
Ekki verður séð að frumvarpið hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.
     Gjaldtaka skv. 2. gr. frumvarpsins er samhljóða núgildandi framkvæmd á 14. gr. laga nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, en þau lög falla úr gildi þegar frumvarp þetta verður að lögum.