Ferill 26. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 26 . mál.


27. Frumvarp til laga



um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, og lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



I. KAFLI

Breytingar á ákvæðum tollalaga, nr. 55/1987, með síðari breytingum.


1. gr.

    Á 6. gr. laganna verða eftirfarandi breytingar:
    1. tölul. 1. mgr. orðast svo: Að lækka eða fella niður tolla í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Jafnframt að láta að öðru leyti koma til framkvæmda ákvæði í slíkum samningum, bókunum og viðaukum við slíka samninga sem teljast óaðskiljanlegur hluti þeirra, svo og breytingar sem kunna að verða gerðar á slíkum samningum og bókunum og viðaukum við þá. Þegar heimild þessari er beitt skal jafnframt heimilt að fella niður almennan toll í dálki A í tollskrá af hráefni eða efnivörum til innlendrar framleiðslu og lækka toll í allt að 7,5% í öðrum tilvikum. Falli fríverslunar- eða milliríkjasamningur úr gildi eða ákvæðum þeirra er breytt með þeim hætti að forsendur til lækkunar eða niðurfellingar tolla eru ekki lengur til staðar skal almennur tollur í dálki A í tollskrá taka gildi.
    13. tölul. 1. mgr. orðast svo: Að fella niður eða endurgreiða tolla af hráefni, efnivörum og hlutum í innlendar framleiðsluvörur ef tollar á sams konar erlendri framleiðsluvöru eru jafnháir eða lægri en af efnivörunum. Sama gildir um vélar, vélarhluta og varahluti sem notaðir eru til aðvinnslu slíkra vara.

2. gr.

    Við XII. kafla laganna bætist ný grein er verður 120. gr. A og orðast svo:
    Heimilt skal að leggja verðjöfnunargjöld á innfluttar vörur sem unnar eru úr hráefnum úr landbúnaði samkvæmt þeim skilmálum sem kveðið er á um í bókun 3 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, svo og öðrum fríverslunar- og milliríkjasamningum og bókunum við þá. Jafnframt skal heimilt að leggja slík gjöld á vörur sem eigi geta notið tollmeðferðar samkvæmt ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eða ákvæðum annarra fríverslunar- og milliríkjasamninga og skal þá miðað við mismun á því innlenda viðmiðunarkerfi er skilgreint er í bókun 3 og heimsmarkaðsverði.
    Séu verðjöfnunargjöld lögð á skv. 1. málsl. 1. mgr. er óheimilt að leggja jafnframt á gjaldskylda vöru frá samningsaðila tolla eða önnur sambærileg gjöld nema annað leiði af ákvæðum bókunar 3 við EES-samninginn, svo og annarra fríverslunar- og milliríkjasamninga og bókunum við þá.
    Innheimta verðjöfnunargjalda samkvæmt þessari grein hefur eigi áhrif á innheimtu tolls samkvæmt tollskrá af vörum sem eigi geta notið tollmeðferðar samkvæmt ákvæðum samnings um Evrópska efnahagssvæðið eða ákvæðum annarra fríverslunar- og milliríkjasamninga nema þar sé kveðið á um annað.
    Verðjöfnunargjald skal lagt á og innheimt við tollmeðferð vöru.
    Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um verðjöfnunargjöld samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, flokkun til gjaldskyldu, sönnun um samsetningu gjaldskyldra vara svo og annað sem lýtur að álagningu og innheimtu gjaldanna. Jafnframt getur hann með sama hætti mælt fyrir um niðurfellingu tolla og annarra sambærilegra gjalda þegar slík gjaldtaka er óheimil, sbr. 2. mgr. Um lögvernd verðjöfnunargjalda fer skv. 111. gr.

3. gr.

    Á 143. gr. laganna verða eftirfarandi breytingar:
    2. mgr. orðast svo:
                  Ráðherra er einnig heimilt að gera slíkar breytingar á tollskrá til þess að aflað verði nauðsynlegra upplýsinga um innflutning og útflutning á einstökum vöruflokkum. Sama gildir vegna framkvæmdar fríverslunar- og milliríkjasamninga en í því tilviki skal jafnframt heimilt að taka upp nýja dálka fyrir tolla eða gjöld sem þar kann að vera kveðið á um.
    Síðari málsliður 3. mgr. verður 4. mgr. og breytist röð annarra málsgreina í samræmi við það.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á tollskrá í viðauka I við tollalög:
    1. mgr. í viðauka I orðast svo:
                  Dálkur A í tollskránni gildir fyrir allar innfluttar vörur nema um þær gildi sérreglur í dálki E. Dálkur E í tollskránni gildir fyrir vörur sem fluttar eru inn samkvæmt ákvæðum samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Ráðherra er heimilt með þeim skilmálum, sem kveðið er á um í samningnum eða öðrum fríverslunar- og milliríkjasamningum, að ákveða með reglugerð eða öðrum fyrirmælum sérstaka tollmeðferð á vörum sem flokkast undir 1.–24. kafla tollskrárinnar.
    Tolltaxti í dálki E í 25.–97. kafla tollskrárinnar verður 0%.
    Tollur á vörum í tollskrárnúmerunum 2710.0012, 2710.0019, 8431.4200, 8431.4300, 8451.1001, 8716.1000 –8716.8009 og 8716.9002 fellur niður.
    Tollur á vörum í eftirtöldum vöruliðum fellur niður: 8426, 8701, 8702, 8703, 8704, 8705, 8706 og 8707.

II. KAFLI

     Breytingar á ákvæðum laga nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.

5. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Gjaldflokkar vörugjalds skulu vera eftirfarandi, sbr. upptalningu tollskrárnúmera gjaldskyldrar vöru í viðauka I við lög þessi:
    Af vörum í gjaldflokki A skal greiða 6% vörugjald.
    Af vörum í gjaldflokki B skal greiða 9% vörugjald.
    Af vörum í gjaldflokki C skal greiða 16% vörugjald.
    Af vörum í gjaldflokki D skal greiða 20% vörugjald.
    Af vörum í gjaldflokki E skal greiða 25% vörugjald.
    Af vörum í gjaldflokki F skal greiða 30% vörugjald.

6. gr.

    Í stað 5. mgr. 8. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Álag skv. 4. mgr. skal vera 2% af þeirri upphæð, sem vangreidd er, fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 20%.
    Sé vörugjald ekki greitt innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Dráttarvextir eru þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður samkvæmt lögum nr. 36/1986.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
    Í stað orðanna „laga nr. 10/1960, um söluskatt“ í 1. mgr. koma orðin: laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
    2. mgr. fellur brott.

III. KAFLI

Gildistaka o.fl.


8. gr.

    Lög þessi öðlast gildi um leið og samningur um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi að því er Ísland varðar. Ákvæði þeirra skulu taka til allra þeirra vara sem þá eru ótollafgreiddar, þó ekki vara sem afhentar hafa verið með bráðabirgðatollafgreiðslu.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Allir þeir, sem stunda starfsemi sem skattskyld er samkvæmt lögum um vörugjald og eru ekki skráðir á vörugjaldsskrá við gildistöku laga þessara, skulu tilkynna fyrir 15. janúar 1993 um rekstur sinn og starfsemi til skattstjóra þar sem þeir eru heimilisfastir.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Inngangur.


    Frumvarpi þessu, sem lagt er fram í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, er ætlað að tryggja að álagning gjalda á upprunavörur frá ríkjum EES verði í samræmi við ákvæði samningsins. Er hér einkum átt við II. kafla samningsins um frjálsa vöruflutninga ásamt bókun 3 um framleiðsluvörur sem leggja má verðjöfnunargjald á.
     Samkvæmt 10. gr. samningsins eru tollar á innflutning og útflutning, svo og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif, bannaðir á milli samningsaðila. Sambærileg ákvæði eru í stofnsamningi EFTA, Stokkhólmssamningnum, og fríverslunarsamningi Íslands og Evrópubandalagsins. Ísland hefur hingað til haft sérstaka undanþágu til að leggja fjáröflunartolla á vörur frá þessum samningsaðilum sínum á meðan vörur þessar eru ekki framleiddar hér á landi.
    Þessar undanþágur falla úr gildi með samningnum um EES. Hins vegar er ekkert í samningnum því til fyrirstöðu að í staðinn komi skattheimta er fullnægir skilyrðum samningsins og þá sérstaklega 14. gr. um að innlenda skatta megi ekki leggja af meiri þunga á framleiðsluvörur annarra samningsaðila en lagðir eru á sams konar innlenda framleiðslu.
    Í frumvarpi þessu er að finna breytingar á tollalögum til að uppfylla ákvæði samningsins um niðurfellingu tolla og ákvæði um vörugjöld á almennar iðnaðarvörur. Í sérstöku frumvarpi, sem lagt er fram samhliða þessu, eru tillögur um vörugjöld á ökutæki og eldsneyti. Frumvörp þessi miðast við að tekjur ríkissjóðs af tollum og vörugjöldum séu að mestu óbreyttar og að verðhlutföll milli vörutegunda raskist sem minnst.

2. Helstu breytingar.


    Þeir vöruflokkar, sem frumvarp þetta tekur til, eru þær iðnaðarvörur í köflum 25–97 í tollskrá sem í dag bera fjáröflunartolla. Undanskilið er bensín og ökutæki sem fjallað verður um í sérstöku frumvarpi. Sérstök heimildarákvæði eru í frumvarpinu til álagningar verðjöfnunargjalda á framleiðsluvörur úr landbúnaðarhráefnum, auk þess sem tollar verða felldir niður af tilteknum suðrænum landbúnaðarvörum í samræmi við tvíhliða samning Íslands og EB um landbúnaðarmál en tollur á öðrum vörum, sem samningurinn tekur til, hefur þegar verið felldur niður.
    Á árinu 1991 voru vörur þessar fluttar inn fyrir tæplega 3,9 milljarða króna. Þar af komu vörur fyrir rúmlega 2 milljarða króna eða um 54 % innflutningsins frá löndum innan EES. Tollar á framangreindum iðnaðarvörum eru á bilinu 10–30% og á sumum þeirra er enn fremur 9% vörugjald. Tekjur af vörugjaldi og tollum á þessum vörum voru á árinu 1991 um 1.050 m.kr. og voru þær eins og fram kemur í eftirfarandi töflu:



         
Tollur
Vörugjald
         
%
%



Ljósmyndafilmur     
20
-
Hjólbarðar     
10
-
Ritföng, gerviblóm, hengilásar o.fl.     
30
-
Eldavélar og annar heimilisbúnaður fyrir gas     
30
9
Heimilistæki (kæliskápar, þvottavélar o.fl.)     
15
9
Rafmagnstæki (sjónvörp, hljómflutningstæki o.fl.)     
15/30
9
Bílavarahlutir     
10/30
0/9
Skotvopn     
30
-
Byggingarkranar o.fl.     
15
-

Áætlaðar tekjur ríkissjóðs 1991, m.kr.     
735
312


    Gert er ráð fyrir að tekjutapi ríkissjóðs vegna lækkunar tolla á iðnaðarvörum verði mætt með viðbót við gildandi vörugjaldskerfi. Vörugjald er nú lagt á í tveimur gjaldflokkum, 9% og 25%, jafnt á innlendar framleiðsluvörur sem innfluttar. Gjaldstofn innlendu framleiðslunnar er heildsöluverð vörunnar en stofn innfluttrar vöru er tollverð (cif-verð) að viðbættum tollum og 25% álagi sem er áætlað ígildi heildsöluálagningar. Á árinu 1991 námu tekjur ríkissjóðs af vörugjaldi 2.405 m.kr. Þar af voru gjöld af innflutningi um 1.380 m.kr. en rúmlega einn milljarður króna af innlendri framleiðslu. Í eftirfarandi töflu er birt áætluð skipting á þessum tekjum eftir helstu vöruflokkum.

Tekjur ríkissjóðs af vörugjaldi árið 1991.



     Vörugjald 1991 Innlent Innflutt
                   %
m.kr.
m.kr. m.kr.



Sælgæti, gosdrykkir og önnur matvæli           54
1.295
805 490
Rafmagnstæki, heimilistæki           21
500
- 500
Byggingarvörur           17
400
200 200
Bílavarahlutir           4
110
- 110
Snyrtivörur           4
110
20 80

Samtals          100
2.405
1.025 1.380


     Ytri tollar.
    Eins og fram hefur komið felur EES-samningurinn í sér þá kvöð að fella niður tolla á vörum frá löndum innan svæðisins. Það er hins vegar ákvörðunarefni íslenskra stjórnvalda hvort eða að hvaða marki tollum á vörum sem koma frá ríkjum utan svæðisins, svokölluðum ytri tollum, verður viðhaldið.
    Ef miðað er við að tekjur ríkissjóðs verði óbreyttar munu ytri tollar leiða til þess að vörur frá löndum utan svæðisins hækka í verði en verð á vörum frá löndum innan svæðisins lækkar. Áhrif ytri tolls á verðhlutföll eru í samræmi við hversu hár hann er. Þannig mun 10% ytri tollur leiða til allt að 10% breytingar á mismun á verði vöru eftir því hvar hún er keypt.
    Helstu rökin fyrir því að viðhalda ytri tollum eru þau að í þeim felst nokkur fjáröflun fyrir ríkissjóð, vernd fyrir innlenda framleiðslu og að þeir veiti hugsanlega betri aðstöðu í samningum við ríki utan fríverslunarsvæðis EES-ríkjanna.
    Fjáröflun með ytri tollum á þeim vörum, sem frumvarpið tekur til, verður takmörkuð vegna þess að innflutningur á þeim frá löndum utan EES er tiltölulega lítill eða rúmlega 1,8 milljarðar króna. Því mundi 10% ytri tollur gefa um rúmlega 180 millj. kr. í tekjur, eða minna, ef tollurinn leiðir til þess að viðskipti færast frá löndum utan EES til landa innan svæðisins.
    Þar sem þær vörur, sem frumvarpið snertir, eru nær eingöngu fluttar inn en ekki framleiddar hér á landi eru verndunaráhrif ytri tolla óveruleg. Eins er óvíst að slíkir tollar hafi veruleg áhrif á samningsstöðu landsins gagnvart „þriðju löndum“ þar sem samningar við þau mundu snúast um lækkun tolla frá þeim bindingum sem fyrir eru og eru aðrar og hærri en virkir tollar. Líklegt er að afstaða þessara ríkja muni fremur mótast af grundvallarviðhorfum til fríverslunar en þeirra takmörkuðu viðskiptahagsmuna sem þau hafa að gæta á íslenskum markaði.
    Á móti háum ytri tollum mælir það fyrst og fremst að þeir leiða eðli sínu samkvæmt til óhagkvæmni. Hafi þeir á annað borð áhrif á viðskipti eru þau fólgin í því að beina þeim til landa þar sem þau eru óhagkvæmari og leiðir það til hærra vöruverðs fyrir neytendur og minni tekna fyrir ríkissjóð. Er því æskilegt að takmarka notkun þeirra.
    Í þeim tilvikum, sem hér um ræðir, er einnig að því að gæta að gert er ráð fyrir að notuð verði tiltölulega há vörugjöld til að vega upp tekjur af þeim álögum sem fyrir voru á þessar vörur. Ytri tollur mundi leggjast við slík gjöld og leiða til þess að heildarálagning á þessar vörur yrði mjög há og miklu hærri en aðrar innfluttar iðnaðarvörur sem nú bera tolla og vörugjald.
    Enn fremur er rétt að hafa í huga að meðal þeirra vöruflokka, sem frumvarpið tekur til, eru vörur sem að stærstum hluta koma frá löndum utan EES, svo sem bílavarahlutir. Ytri tollar mundu leiða til þess að verð á þessum vörum hækkar almennt þar sem tilfærsla viðskipta með þær milli svæða er aðeins möguleg að takmörkuðu leyti þegar um er að ræða sérhæfða vöru.
    Í núgildandi tollalögum er heimild til að færa ytri tolla niður í 10% á þær vörur sem fríverslunarsamningar taka til og er algengast að sú heimild hafi verið notuð. Ytri tollar Evrópubandalagsins á þær vörur, sem frumvarpið tekur til, eru yfirleitt á bilinu 3–9% eða allmiklu lægri en tollar hér á landi.
    Með hliðsjón af framangreindu er í frumvarpinu gert ráð fyrir að heimilt verði að lækka ytri tolla á fullunnar iðnaðarvörur frá löndum utan fríverslunarsvæða nokkuð meira en verið hefur eða niður í 7,5% í stað 10% nú. Er ákvörðun vörugjalda og tekjuáætlun miðuð við það.
    Með þessum forsendum um ytri tolla felur frumvarpið í sér breytingu á vörugjaldskerfinu sem miðast að öðru leyti við að skila ríkissjóði sem næst óbreyttum tekjum og að verðhlutföll raskist sem minnst að öðru leyti. Þó er vikið frá því í einstökum tilvikum þar sem brýn ástæða var talin til samræmingar.

     Breytt vörugjaldskerfi.
    Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að gjaldflokkar vörugjalds verði sex í stað tveggja nú og verði þeir frá 6% til 30%. Vegna þess að vörugjald leggst á tollverð að viðbættu 25% álagi svara þessir vörugjaldsflokkar til 7,5–37,5% tolla. Haft er að leiðarljósi að verðhlutföll milli einstakra vörutegunda raskist ekki um of. Í vissum tilvikum er þó um að ræða samræmingu í álagningu vörugjalds á skylda vöruflokka sem leiðir til breytinga á verðhlutföllum. Á það einkum við um bílavarahluti og rafmagnstæki sem eru nú með mismunandi álögur. Aukið samræmi mun og auðvelda framkvæmd vörugjaldslaganna og draga úr möguleikum á undanskotum.
    Í tillögum þessum felst og að leggja þarf vörugjald á nokkrar nýjar tegundir innlendrar framleiðslu til þess að uppfylla kröfur um sömu álagningu á innlendar og innfluttar vörur. Þar ber helst að nefna hjólbarðasólningu og framleiðslu tengivagna. Þá mun vörugjald á framleiðslu bílavarahluta og yfirbygginga bifreiða hækka. Á móti vegur að tollur á aðföngum til þessarar framleiðslu kann að lækka í einhverjum tilvikum, m.a. á notuðum hjólbörðum, komi þau frá löndum innan EES-svæðisins.
    Ekki liggja fyrir haldbærar upplýsingar um umfang þessara iðngreina hér á landi en giskað er á að innlenda framleiðslan skili ríkissjóði um 15 m.kr. í viðbótartekjur á ári.

     Tekjuáhrif.
    Eins og fram kemur í meðfylgjandi töflu verða áhrif þessara breytinga á tekjur ríkissjóðs í megindráttum þau að tolltekjur af þeim vörum, sem breytingarnar taka til, lækka úr um 735 m.kr. í 137 m.kr. eða um nálægt 600 m.kr. en tekjur af vörugjaldi hækka um 590 m.kr. Samkvæmt framangreindu er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af innflutningi verði um 20 m.kr. lægri eftir breytinguna en þær voru áður en tekjur af innlendri framleiðslu jafni þann mun að mestu. Tekjulækkun af innflutningi er að nokkrum hluta til komin vegna samræmingar og annarra breytinga sem nauðsynlegar þykja en ekki tengjast samningnum. Má t.d. nefna lækkun gjalda af krönum o.fl., svo og niðurfellingu tolla annarra en ytri tolla á hljóðkútum, án þess að taka upp vörugjald í staðinn. Að teknu tilliti til slíkra breytinga eru tekjubreytingar af innflutningi óverulegar.

Vörugjald í stað tolla.



                    Tekjur ríkissjóðs.     
    

Ytri

Fyrir

Eftir


    

Innflutningur

Vörugjald

tollur

breytingu

breytingu


          m.kr.

%

%

m.kr.

m.kr.




0.     Ýmislegt           13      0      0      3      0

I.     Hjólbarðar           581      6     7,5      58      63     


II.     Hljóðdeyfar, álstigar           83      9     7,5      32      11     
    Kranar           209      9      0      31      23

III.    Bílavarahlutir           927     16     7,5      219      239     
    Filmur           104     16     7,5      21      23     

IV.     Heimilistæki           559     20     7,5      168      147     
    Ritföng o.fl           406     20     7,5      122      111     

V.     Skotvopn           52     25     7,5      16      18     

VI.     Rafmagnstæki           932     30     7,5      376      392     


SAMTALS          3.875     -     -     1.047     1.026     
Innlend framleiðsla               6–16     -     -      15     

HEILD               -     -     1.047     1.041     
þar af tolltekjur               -     -      735      137     
- - vörugjald               -     -      312      905     

Forsendur:
1. Tilflutningur á viðskiptum milli svæða áætlaður 20% af viðskiptum við lönd utan EES.



     Verðlagsáhrif.
    Þegar á heildina er litið eru verðlagsáhrif þessara breytinga talin hverfandi. Samkvæmt tillögunni má því reikna með um 3,5% verðlækkun að jafnaði á vörum frá EES-svæðinu en um 4,5% verðhækkun á iðnaðarvörum sem fluttar eru inn annars staðar frá, sbr. meðfylgjandi töflu. Að jafnaði er gert ráð fyrir um 0,4% lækkun á verði innfluttrar vöru. Áhrifin eru hins vegar nokkuð mismunandi eftir vöruflokkum. Það skýrist m.a. af mismiklu vægi EES-viðskipta í einstökum vöruflokkum, auk þess sem gjaldtaka hefur verið samræmd í nokkrum tilvikum eins og áður var komið fram. Þetta á sérstaklega við um bílavarahluti og rafmagnstæki en í eftirfarandi töflu eru sýndar breytingar á álagningu og áætluð áhrif á verð einstakra innfluttra vöruflokka.

Breyttar álögur og verðlagsáhrif


á einstakar innfluttar vörutegundir.




     Tollur og vörugjald     Tollur og vörugjald     Áætluð verðáhrif
    fyrir breytingu 1)     eftir breytingu 1)     Frá     Utan
         EES     Annað     EES     EES     Meðaltal2)
     %      %      %      %      %      %



Bifreiðahjólbarðar          10,0      7,5     15,6      -2,3      5,1      0,8
Ritföng o.fl.          30,0     25,0     34,4      -3,8      3,4      -2,0
Filmur          20,0     20,0     29,0      0,0      7,5      1,3
Heimilistæki, þvottavélar o.fl.          27,9     25,0     34,4      -2,3      5,0      -2,0
Skotvopn          30,0     31,25     41,1      1,0      8,5      3,7
Gaseldavélar o.fl.          44,6     25,0     34,4     -13,6     - 7,1     -10,3
Sjónvörp, útvörp o.fl.          44,6     37,5     47,8      -4,9      2,2      -2,1
Plötuspilarar án hátalara, geislaspilarar o.fl.          27,9     37,5     47,8      7,5      15,5      12,0
Varahlutir í rafkerfi o.fl.          30,0     20,0     29,0      -7,7      -0,8      -3,3
Varahlutir, ýmsir          22,4     20,0     29,0      -1,9      5,4      2,8
Hljóðkútar          44,6     11,25     19,6     -23,1     -17,3     -21,9

Allar vörur      27,0     22,8     32,6     - 3,5      4,5     - 0,4

1)    Álögur á cif-verðmæti. Vörugjaldið er reiknað með 25% álagi á tollverð að viðbættum tolli.
2)    Miðað er við að 20% viðskipta við lönd utan EES færist til landa innan svæðisins.


    Eins og taflan sýnir eru áhrif á verðlag í nokkrum tilvikum veruleg, einkum til lækkunar. Stafar það af samræmingu gjaldtöku. Stærstu frávikin taka til lítilla vöruflokka og hafa því takmörkuð áhrif á heildarútkomuna.
    Tollar og vörugjöld á þær vörur, sem frumvarpið snertir, voru að jafnaði um 27% af cif-verði þeirra. Var þetta hlutfall u.þ.b. hið sama fyrir vörur frá EES-löndum og fyrir vörur frá öðrum löndum. Með þeim breytingum, sem frumvarpið felur í sér, verða álögur þessar í heild um 0,5% lægri eða að jafnaði um 26,5%. Með tilliti til svæða breytast þær hins vegar verulega og verða að jafnaði um 22,8% á vörur frá EES-löndum en að jafnaði um 32,6% á vörur frá öðrum löndum.

     Ýmis atriði.
    Samningar um EES snerta tolla og aðflutningsgjöld umfram það sem hér hefur verið fjallað um og varðar tolltaxta og vörugjöld. Tilgangur samningsins er m.a. að koma á frjálsum vöruflutningum. Í því skyni þarf ekki aðeins að huga að gjöldum sem verið geta til hindrunar og mismunað samningsaðilum eftir því hvar þeir eru búsettir. Tæknilegar viðskiptahindranir og hvernig staðið er að eftirliti með vöruflutningum skiptir einnig máli.
    Í bókun 10 með samningnum eru ákvæði um þær skuldbindingar sem samningsaðilar taka á sig til að einfalda eftirlit og formsatriði vegna vöruflutninga. Tilgangurinn er að auðvelda það og að draga úr töfum og kostnaði þess vegna.
    Meðal þess sem bókunin felur í sér er að jafnaði skuli beitt slembiathugunum en ekki heildarskoðun, stefnt verði að því að einn og sami aðili framkvæmi allt eftirlit með vörum á landamærum og að fyrir hendi verði gagnkvæm viðurkenning tollyfirvalda á skjölum og vottorðum. Í bókun 11 með samningnum eru einnig allítarleg ákvæði um gagnkvæma aðstoð yfirvalda í tollamálum.
    Ljóst er að bókanir þessar kalla á endurskoðun á starfsháttum við tollgæslu og skipulag hennar. Kröfur um einfaldari og hraðvirkari afgreiðslu ásamt því að tekjur ríkissjóðs af tolli fara minnkandi gefa tilefni til að endurmeta verkefni tollkerfisins sem í vaxandi mæli er orðið að mikilvægum innheimtu- og eftirlitsaðila með virðisaukaskatti og vörugjöldum í stað þess að sinna fyrst og fremst tollheimtu eins og áður var.
    Í tollalögum eru nú ákvæði sem heimila ráðherra að setja reglur um greiðslufrest aðflutningsgjalda. Hefur heimildinni verið beitt við greiðslu virðisaukaskatts við innflutning hjá þeim aðilum sem eftir því hafa leitað og uppfylla ströng skilyrði um tryggingar og skilvísi. Við upptöku pappírslausrar tollafgreiðslu, en undirbúningur hennar er nú á lokastigi, verður að auki heimilt að veita greiðslufrest á öllum öðrum aðflutningsgjöldum. Vörugjöld eru á ýmsan hátt áþekk virðisaukaskatti og því gæti komið til álita að heimild til greiðslufrestunar taki einnig til þeirra. Veiting greiðslufrests hefur hins vegar í för með sér allmikla hliðrun á skilum á tekjum ríkissjóðs. Verður því að fara hægt í sakirnar og verði heimild þessi veitt þarf að dreifa áhrifum af henni á 2–3 ár. Mun þetta atriði verða til athugunar á næstunni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Um a-lið.
    Í 1. tölul. 6. gr. tollalaga er að finna heimildarákvæði hliðstætt því sem í a-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að verði tekið upp. Núgildandi ákvæði var síðast breytt með 3. gr. laga nr. 96/1987 en þá var ákveðið að láta tollalækkanir í samningi Íslands og Efnahagsbandalagsins um breyting á tvíhliðasamningi Íslands og EB vegna aðildar Portúgals og Spánar að EB koma þegar að fullu til framkvæmda.
    Þegar tollar eru felldir niður samkvæmt ákvæðum í fríverslunar- eða milliríkjasamningum er heimilt samkvæmt núgildandi ákvæði að lækka jafnframt almennan toll á hráefni og efnivörum til innlendrar framleiðslu í allt að 5% og í allt að 10% af fullbúnum frameiðsluvörum sem koma frá löndum sem standa utan fríverslunarsvæðis. Tollalækkunarheimild þessi tók mið af þeim almennu tollalækkunum sem ákveðnar voru við breytingar á tollskránni 1987 en þá var ytri tollur á svonefndum verndarvörum ákveðinn 5% á hráefni og efnivörum en 10% af fullbúnum vörum, öðrum en fatnaði, sem var ákveðinn 15%.
    Í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið er með frumvarpi þessu lagt til að tollar á vörum frá löndum innan svæðisins verði almennt felldir niður af iðnaðarvörum í 25.–97. kafla tollskrárinnar, svo og af nokkrum iðnaðarvörum úr landbúnaðarafurðum. Kemur sú breyting fram í 2. tölul. 4. gr. þessa frumvarps. Til þess að mæta tolltekjutapinu er gert ráð fyrir að vörugjald verði samhliða tekið upp á nokkra vöruflokka. Ljóst er að verði vörugjaldið tekið upp á þessa vöruflokka án þess að neinar ráðstafanir verði gerðar varðandi ytri tolla mun það hafa umtalsverð áhrif á verðlag vara frá löndum sem standa utan EES og eins og gerð er grein fyrir í almennri greinargerð er lagt til að núgildandi heimild til að lækka ytri tolla verði breytt þannig að heimilt verði að lækka þá af fullbúnum vörum í allt að 7,5% en fella þá niður af hráefnum og efnivörum.
    Gert er ráð fyrir að þeim fríverslunarsamningum, sem nú er unnið að innan EFTA, verði komið til framkvæmda samkvæmt heimildarákvæði þessu auk tvíhliða samnings um niðurfellingu tolla af suðrænum landbúnaðarvörum sem gerður hefur verið við Evrópubandalagið, sbr. fskj. I með frumvarpi þessu.

    Um b-lið.
    Lagt er til að orðalag 13. tölul. 6. gr. verði rýmkað þannig að heimildin gildi almennt um niðurfellingu eða endurgreiðslu tolla á efnivörum og vélum og tækjum sem notuð eru við framleiðslu innan lands á vörum ef tollur á sambærilegum innfluttum vörum er jafnhár eða lægri en á hráefnunum.
    Mikilvægi þessarar heimildar, svo og annarra hliðstæðra, hefur minnkað vegna þeirra umfangsmiklu tollabreytinga sem gerðar hafa verið síðustu áratugina en rétt þykir að ákvæði þetta sé til staðar til að tryggja að ekki geti komið til mismununar milli innlendra framleiðenda og erlendra samkeppnisaðila innlendum framleiðendum í óhag. Í framkvæmd ber þó að gæta takmarkana sem leiða kann af ákvæðum í fríverslunar- og milliríkjasamningum, m.a. vegna framleiðslu á vörum sem njóta upprunarréttinda, sbr. 15. gr. bókunar 4.

Um 2. gr.


    Samkvæmt samningnum um EES er gert ráð fyrir að tekið verði upp sérstakt fyrirkomulag varðandi ýmsar iðnaðarvörur sem unnar eru úr landbúnaðarhráefnum til þess að jafna framleiðslukostnað vegna mismunandi hráefnisverðs innan EES.
    Í þessa grein er lagt til að tekin verði sérstök lagaheimild til álagningar verðjöfnunargjalda. Gert er ráð fyrir að fjármálaráðherra setji nánari reglur um útreikning verðjöfnunargjalda í samræmi við ákvæði í bókun 3 við EES-samninginn til þess að jafna samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda umræddra vara reynist innlent hráefnisverð hærra en verð á sömu hráefnum sem notuð eru til framleiðslu annars staðar á svæðinu. Jafnframt er gert ráð fyrir heimild til álagningar verðjöfnunargjalda samkvæmt ákvæðum annarra fríverslunar- og milliríkjasamninga, svo og til að gæta samræmis í gjaldtöku á vörur frá öðrum löndum. Þá er heimild til álagningar verðjöfnunargjalda á vörur frá löndum sem við höfum gert fríverslunarsamninga við, t.d. þegar þeir samningar gera ráð fyrir þrengra vörusviði verðjöfnunargjalda en greinir í bókun 3 við EES-samninginn.
    Um þær vörur, sem ákvæði þetta tekur til og þær reglur sem byggja ber gjaldtökuna á, er vísað til ítarlegrar greinargerðar um verðjöfnun samkvæmt bókun 3 við EES-samninginn sem fylgir frumvarpi til laga um Evrópska efnahagssvæðið og þegar hefur verið lagt fram. Vegna verðjöfnunargjalda er nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á flokkun vara samkvæmt tollskránni en fyrirhugað er að gera þær breytingar með stoð í 143. gr. tollalaga. Í fskj. II með frumvarpi þessu er gerð grein fyrir þessum breytingum.

Um 3. gr.


    Um a-lið.
    Samkvæmt 143. gr. tollalaga hefur fjármálaráðherra heimild til þess að gera ýmsar breytingar á tollskránni. Breytingar þær, sem heimilaðar eru, eru tæknilegs eðlis og auðvelda m.a. aðlögun hennar að alþjóðlegri fyrirmynd, samræmdri tollskrá Tollasamvinnuráðsins.
    Til þess að auðvelda framkvæmd fríverslunar- og milliríkjasamninga, sem Ísland er eða kann að gerast aðili að, en fríverslunarsamningar m.a. við Austur-Evrópuríki eru nú í sjónmáli, er lagt til með þessari grein að fjármálaráðherra geti tekið upp sérstaka dálka í tollskrá er sýni þá tolltaxta sem slíkir samningar kveða á um.

    Um b-lið.
    Við lagasetningu 1987 urðu þau mistök að málsliðir 3. mgr. 143. gr., sem áttu að vera tvær sjálfstæðar málsgreinar, voru gerðir að einni málsgrein. Breytingin felur í sér leiðréttingu á þessu þannig að síðari málsliðurinn á við öll þau tilvik sem fjallað er um í 143. gr.

Um 4. gr.


    Breytingar þær, sem kveðið er á um í þessari grein, eru þrenns konar.
    Í fyrsta lagi er í 1. og 2. tölul. kveðið á um breytingar á tollskránni sem leiðir beint af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, þ.e. niðurfellingu tolla á iðnaðarvörum frá löndum innan svæðisins. Um þessar breytingar vísast til a-liðar 3. mgr. 8. gr. og 10. gr. EES-samningsins, svo og greinargerðar með frumvarpinu um Evrópska efnahagssvæðið, bls. 85 og 91.
    Enn fremur er hér kveðið á um nokkrar breytingar sem nauðsynlegt er að gera á tollskránni vegna tvíhliða samnings Íslands við Efnahagsbandalagið vegna sérstaks fyrirkomulags í landbúnaði. Ítarleg grein er gerð fyrir inntaki þess samnings í greinargerð með frumvarpi til laga um Evrópska efnahagssvæðið, bls. 238, sem hér með er vísað til. Tollabreytingarnar, sem bundnar eru við aðildarríki EB og að hluta bundnar tímamörkum, munu hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóð.
    Samkvæmt 3. tölul. falla niður almennir tollar á tollnúmerum 2710.0012 og 2710.0019, þ.e. bensíni með eða án blýs. Í stað þessara tolla, sem eru nú 50%, kemur jafnhátt vörugjald sem kveðið er á um í öðru lagafrumvarpi. Einnig er í töluliðnum felldir niður almennir tollar á ýtublöðum og hlutum til bor- eða brunnvéla. Er hér um að ræða samræmingaratriði sem skiptir óverulega máli fyrir tekjuöflun.
    Samkvæmt 4. lið er gert ráð fyrir að almennur tollur verði felldur niður af ökutækjum. Gert er ráð fyrir að tekið verði upp vörugjald af ökutækjum sem skili ríkissjóði sömu tekjum. Ákvæði um það eru í frumvarpi til laga um vörugjald af ökutækjum og eldsneyti sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu. Enn fremur er hér gert ráð fyrir að fella niður almennan toll á krönum og hliðstæðum búnaði. Í stað tollsins er gert ráð fyrir að vörur þessar verði með 9% vörugjaldi. Breytingar þessar eru til að samræma sem unnt er gjaldtöku af þessum vörum og sambærilegum tækjum, svo sem kranabílum.

Um 5. gr.


    
Lagt er til að gjaldflokkum vörugjalds verði fjölgað úr tveimur í fjóra. Auk núverandi gjaldflokka sem eru 9 (11,25) og 25% (31,25) verði gjaldflokkar 6 (7,5), 16 (20), 20 (25) og 30% (37,5). Vegna þess að vörugjald leggst á tollverð að viðbættu 25% álagi vegna áætlaðrar heildsöluálagningar. Svara gjaldflokkarnir til álags á tollverð (cif-verð) sem tilgreint er í sviga. Tollskrárnúmer gjaldskyldrar vöru eru talin upp í viðauka I við lögin en í reglugerð verða vöruheiti einnig tilgreind. Meginatriði þessarar vöruflokkunar eru sem hér greinir.
    Gjaldflokkur A, 6% vörugjald, 7,5% með álagi:
    Í flokk þennan fara hjólbarðar, slöngur og annað gúmmíefni. Vara þessi ber nú 10% toll.
    Gjaldflokkur B, 9% vörugjald, 11,25% með álagi:
    Flokkur þessi er þegar fyrir hendi og eru í honum flestar þær iðnaðarvörur sem framkvæmd fríverslunarsamninga hefur tekið til og framleiddar eru hér á landi. Nýjar vörur í þessum flokki eru kranar og fleiri byggingartæki sem nú bera 15% toll og stigar úr áli sem bera nú 10% toll.
    Gjaldflokkur C, 16% vörugjald, 20% með álagi:
    Í flokk þennan fari bílavarahlutir og filmur. Bílavarahlutir eru nú annaðhvort með 30% tolli en án vörugjalds eða með 10% tolli og með 11,25% vörugjaldi. Er álag á varahluti samræmt. Filmur hafa til þessa borið 20% toll.
    Gjaldflokkur D, 20% vörugjald, 25% með álagi:
    Í flokk þennan fari eldhústæki og fleiri heimilistæki. Þau hafa til þessa borið 15% toll og 11,25% vörugjald, nema gaseldunarbúnaður sem bar 30% toll og 11,25% vörugjald.
    Gjaldflokkur E, 25% vörugjald, 31,25% með álagi:
    Þessi vörugjaldsflokkur er fyrir hendi en hefur ekki verið notaður fyrir iðnaðarvörur í þeim tollskrárköflum sem nú eru til meðferðar. Í þennan gjaldflokk er ætlað að fari skotvopn og fylgivörur sem nú bera 30% toll.
    Gjaldflokkur F, 30% vörugjald, 37,5% með álagi:
    Í flokk þennan er gert ráð fyrir að rafmagnsvörur fyrst og fremst sjón- og hljóðmiðlunartæki fari. Þær eru nú ýmist með 30% tolli og 11,25% vörugjaldi eða með 15% tolli og 11,25% vörugjaldi.

Um 6. gr.


    Lagt er til að ákvæðum um álag vegna vangreiðslu á vörugjaldi og dráttarvexti verði samræmd því sem gildir um virðisaukaskatts.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal I.



    Eftirfarandi breytingar er fyrirhugað að gera með auglýsingu á tollskrá í viðauka I, sbr. 143. gr. tollalaga, vegna tvíhliða samnings Íslands við Efnahagsbandalagið um tollfrjálsan innflutning á nokkrum landbúnaðarvörum Efnahagsbandalagsríkja. Tolltaxti í dálki E við tollskrárnúmerin 0603.1001, 0702.0001, 0703.1001, 0709.6002, 0709.9002, 0710.8001 og 0712.9002 mun eingöngu gilda fyrir vörur upprunnar í ríkjum Efnahagsbandalagsins:

a)     Við 6. kafla. Tolltaxtar
    Undirliðurinn 0603.10 orðast svo: A E
         - Nýtt:
         - - Nellikur, lokaskegg, flamingóblóm, fuglamjólk, og
          paradísarfuglablóm:
    0603.1001     - - - Innfluttar á tímabilinu 1. desember til 30. apríl          30     0     0603.1002     - - - Innflutningur á öðrum tíma          30
    0603.1009     - - Annars          30

b)     Við 7. kafla.
1)     Tollskrárnúmerið 0702.0000 skiptist upp og orðast svo:
    Tómatar, nýir eða kældir:
    0702.0001 - Innfluttir á tímabilinu 1. nóvember til 15. mars      30 0
    0702.0002 - Innflutningur á öðrum tíma          30
2)     Tollskrárnúmerið 0703.1000 skiptist upp og orðast svo:
         - Laukur og skallottlaukur:
    0703.1001 - - Laukur          30 0
    0703.1009 - - Skallottlaukur          30
3)     Tollskrárnúmerið 0705.1000 orðast svo:
         - - Salat, kálhausar (head lettuce):
    0705.1101 - - - Innflutningur á tímabilinu 1. nóvember til 15. mars          30     0
    0705.1102 - - - Innflutningur á öðrum tíma          30
4)     Tollskrárnúmerin 0709.6002, 0709.6003 og 0709.9002 bætist við undirliði
    0709.60 og 0709.90 og orðast svo:
         - - Paprika:
    0709.6002 - - - Innflutningur á tímabilinu 1. nóvember
          til 15. mars          30     0
    0706.6003 - - - Innflutningur á öðrum tíma          30
    0709.9002 - - Kúrbítur (Courgettes)          30     0
5)     Tollskrárnúmerið 0710.8000 skiptist upp og orðast svo:
         - Aðrar matjurtir:
         - - Paprika:
    0710.8001 - - - Innflutningur á tímabilinu 1. nóvember til 15. mars          30     0
    0710.8002 - - - Innflutningur á öðrum tíma          30
    0710.8009 - - Annars          30
6)     Undirliðurinn 0712.90 orðast svo:
         - - Aðrar matjurtir; matjurtablöndur:
    0712.9001 - - - Sykur maís, tómatar og gulrætur, þó ekki matjurtablöndur          30
    0712.9009 - - Annars          30     0



Fylgiskjal II.



    Eftirfarandi breytingar er fyrirhugað að gera með auglýsingu á viðauka I við
tollskrána, sbr. 143. gr. tollalaga, vegna upptöku verðjöfnunargjalda af innfluttum
iðnaðarvörum unnum úr landbúnaðarafurðum, sbr. bókun 3 við EES-samninginn:

1. Við 4. kafla.
    Tollskrárnúmerin 0403.1004 og 0403.9004 bætist við undirliðina
    0403.10 og 0403.90 og orðast svo:
    0403.1004 - - Bragðbætt, ót. a.          0
    0403.9004 - - Bragðbætt, ót. a.          0
2. Við 7. kafla.
    Tollskrárnúmerið 0711.9002 bætist við undirlið nr. 0711.90 og orðast svo:
    0711.9002 - - Sykurmaís          0
3. Við 13. kafla.
    Tollskrárnúmerið 1302.2000 skiptist upp og orðast svo:
         - Pektínefni, pektínöt og pektöt:
    1302.2001 - - Sem innihalda 5% eða meira miðað við þunga
          af viðbættum sykri          0
    1302.2009 - - Annað          0
4. Við 15. kafla.
a)     Tollskrárnúmerið 1517.1000 skiptist upp og orðast svo:
         - Smjörlíki, þó ekki fljótandi smjörlíki:
    1517.1001 - - Sem inniheldur meira en 10% en ekki meira en
          15% af mjólkurfitu miðað við þunga          0
    1517.1009 - - Annað          0
b)     Tollskrárnúmerið 1517.9005 bætist við undirlið nr. 1517.90 og orðast svo:
    1517.9005 - - Sem inniheldur meira en 10% en ekki meira en
          15% af mjólkurfitu miðað við þunga          0
5. Við 19. kafla.
    Tollskrárnúmerið 1902.2003 bætist við undirlið 1902.20 og orðast svo:
    1902.2003 - - Annað en vörur sem innihalda að magni til meira en 20%
          miðað við þunga af pylsum, kjöti, hlutum af dýrum eða
          blóði, eða blöndum af því          0
6. Við 20. kafla.
a)     Tollskrárnúmerið 2001.9002 bætist við undirlið nr. 2001.90 og orðast svo:
    2001.9002 - - Sykurmaís (Zea mays var. saccharata); kínverskar
          kartöflur, sætar kartöflur, og aðrir svipaðir ætir
          plöntuhlutar sem innihalda 5% eða meira af sterkju
          miðað við þunga          0
b)     Vöruliður nr. 2004 orðast svo:
    2004     Aðrar matjurtir, unnar eða varðar skemmdum á annan
         hátt en með ediki eða edikssýru, frystar:
         - Kartöflur:
    2004.1001 - - Fín- eða grófmalaðar eða flögur          0
    2004.1009 - - Aðrar          0
         - Aðrar matjurtir og matjurtablöndur:
    2004.9001 - - Sykurmaís (Zea mays var. saccharata)          0
    2004.9009 - - Annars          0
c)     Tollskrárnúmerið 2005. 2000 orðast svo:
         - Kartöflur:
    2005.2001 - - Fín eða grófmalaðar eða flögur          0
    2005.2009 - - Aðrar          0
d)     Tollskrárnúmer 2008.1100 skiptist upp og orðast svo:
         - Jarðhnetur:
    2008.1101 - - Hnetusmjör          0
    2008.1109 - - Aðrar          0
e)     Tollskrárnúmerið 2008.9202 bætist við undir nr. 2008.92 og orðast svo:
    2008.9202 - - - Að meginstofni úr korni          0
f) Tollskrárnúmerið 2008.9902 bætist við undirlið nr. 2008.99 og orðast svo:
    2008.9902 - - - Maís (korn) annað en sykurmaís
              (Zea mays var. saccharata)          0
7. Við 21. kafla.
a) Tollskrárnúmerið 2101.1001 orðast svo:
         - Kjarni, kraftur, seyði úr kaffi, og framleiðsla að stofni til úr þessum
          kjarna, krafti eða seyði eða að stofni til úr kaffi:
    2101.1001 - - Með 1,5% eða meira af mjólkurfitu, 2,5% eða meira af
          mjólkurprótíni, 5% eða meira af sykri eða 5% af sterkju
          miðað við þunga     20     0
    2101.1009 - - Annað     20     0
b)     Tollskrárnúmerið 2101.2001 orðast svo:
         - Kjarni, kraftur og seyði úr tei eða maté, og framleiðsla
          að stofni til úr þessum kjarna, krafti eða seyði eða
          að stofni til úr tei eða maté:
    2101.2001 - - Með 1,5% eða meira af mjólkurfitu, 2,5% eða meira af
          mjólkurprótíni, 5% eða meira af sykri eða 5% af sterkju
          miðað við þunga          20     0
    2101.2009 - - Annað          20     0
c)     Tollskrárnúmerið 2101.3000 skiptist upp og orðast svo:
         - Brenndar síkóríurætur og annað brennt kaffilíki, og kjarni,
          kraftur eða seyði úr þeim:
    2101.3001 - - Annað brennt kaffilíki en brenndar síkóríurætur, kjarni,
          kraftur og seyði úr öðru brenndu kaffilíki, en brenndum
          síkóríurótum          20     0
    2101.3009 - - Annars          20     0
d)     Tollskrárnúmerið 2102.1000 skiptist upp og orðast svo:
         - Lifandi ger:
    2102.1001 - - Annað en brauðger, þó ekki það sem notað er í
          skepnufóður          0
    2102.1009 - - Annað          0
e)     Tollskrárnúmerið 2102.2003 bætist við undirlið nr. 2102.20 og orðast svo:
    2102.2003 - - Til nota í skepnufóður          0
f)     Tollskrárnúmerið 2103.3000 skiptist upp og orðast svo:
         - Mustarðsmjöl, fín- eða grófmalað, og unninn mustarður (sinnep):
    2103.3001 - - Unninn mustarður (sinnep) sem inniheldur meira en 5%
          af viðbættum sykri miðað við þunga          0
    2103.3009 - - Annað          0
g)     Tollskrárnúmerið 2103.9004 bætist við undirlið nr. 2103.90 og orðast svo:
    2103.9004 - - Mangómauk (Mango Chutney), fljótandi          0
h)     Tollskrárnúmerið 2106.9043 bætist við undirlið nr. 2106.90 og orðast svo:
    2106.9043 - - Bragðbætt og litað sykursíróp          0
8. Við 22. kafla.
a)     Tollskrárnúmerið 2208.9004 orðast svo:
    2208.9004 - - Líkkjörar, ót. a.          0
b)     Tollskrárnúmerið 2208.9005 bætist við undirlið nr. 2208.90 og orðast svo:
    2208.9005 - - Líkjörar sem innihalda meira en 5% af viðbættum
           sykri miðað við þunga          0
c)     Tollskrárnúmerið 2208.9005 bætist við undirlið nr. 2208.90 og orðast svo:
    2208.9006 - - Ákavíti          0
9. Við 35. kafla.
    Tollskrárnúmerið 3505.1000 skiptist upp og orðast svo:
         - Dextrín og önnur umbreytt sterkja:
    3505.1001 - - Sterkja, esterað og eterað          0
    3505.1009 - - Annars          0



Fylgiskjal III.


    Eftirfarandi breytingar er fyrirhugað að gera með auglýsingu á tollskrá í viðauka I, sbr. 143. gr. tollalaga, vegna álagningar vörugjalds.

1)     Við 40. kafla.
    Tollskrárnúmerið 4016.9925 bætist við undirlið nr. 4016.99 og orðast svo:
    4016.9925 - - - Hlutar og fylgihlutar til ökutækja í 8701.8705     10     0     0     X3
2)     Við 70. kafla.
    Tollkrárnúmerin 7007.1100 og 7007.2100 skiptast upp og orðast svo:
         - Hert:
         - - Að stærð og lögun hæft til ísetningar í ökutæki, loftför,
          geimför eða skip:
    7007.1101 - - - Til ökutækja     7,5     0     0     X3
    7007.1109 - - - Annað     5     0     0
    7007.1900 - - - Annað     5     0     0     X2
         - Lagskipað öryggisgler:
         - - Að stærð og lögun hæft til ísetningar í ökutæki, loftför,
          geimför eða skip:
    7007.2101 - - - Til ökutækja     7,5     0     0     X3
    7007.2109 - - - Annað     5     0     0
    7007.2900 - - - Annað     5     0     0     X2
3)     Við 84. kafla.
    Tollskrárnúmerið 8451.1000 skiptist upp og orðast svo:
         - Þurrhreinsivélar:
    8451.1001 - - Vélar sem taka meira en 10 kg af þurru líni     0
    8451.1009 - - Annað     10     0     0     X4
4)     Við 85. kafla.
    Tollskrárnúmerið 8545.9000 skiptist upp og orðast svo:
         - Annað:
    8545.9001 - - Kveikjuraflagnasett og önnur raflagnasett     0               X2
    8545.9009 - - Annars     0