Ferill 31. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 31 . mál.


32. Tillaga til þingsályktunar



um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

Flm.: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Steingrímur Hermannsson,


Ólafur Ragnar Grímsson, Kristín Einarsdóttir, Páll Pétursson, Ragnar Arnalds.



    Alþingi ályktar að aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu skuli borin undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar áður en Alþingi tekur afstöðu til fyrirliggjandi frumvarps til laga um Evrópska efnahagssvæðið.
    Alþingi kjósi sjö manna nefnd sem taki ákvörðun um tilhögun og framkvæmd atkvæðagreiðslunnar. Að öðru leyti fari atkvæðagreiðslan fram samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á.

Greinargerð.


     Víða í Evrópu, ekki síst á Norðurlöndum, hefur það færst í vöxt á undanförnum árum að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem ætla má að skoðanir landsmanna séu skiptar um. Á þetta sérstaklega við þegar um er að ræða mál sem munu hafa afgerandi þýðingu fyrir framtíðarþróun samfélagsins og/eða fela í sér framsal á valdi frá þjóðríkinu til fjölþjóðlegra samtaka eða stofnana. Nægir að nefna sem dæmi þjóðaratkvæðagreiðslu Dana og Norðmanna um inngöngu í EB, Svía um afstöðuna til kjarnorkumála og síðast en ekki síst Dana, Íra og Frakka um Maastricht-samkomulagið.
    Krafan um að samningurinn um EES verði borinn undir þjóðaratkvæði hefur á undanförnum mánuðum komið fram víða í íslensku þjóðfélagi. Þannig hafa fjölmennustu heildarsamtök launafólks í landinu, ASÍ og BSRB, bæði ályktað í þessa veru og sömu sögu er að segja af Neytendasamtökunum, sem og öðrum fjölmennum almannasamtökum.
    Samningurinn um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu er einhver umfangsmesti og afdrifaríkasti milliríkjasamningur sem Íslendingar hafa gert. Hann mun hafa veruleg áhrif á flestum sviðum íslensks þjóðfélags og með honum eru Íslendingar að tengjast með afgerandi hætti samrunaþróuninni í Evrópu. Það er bæði óeðlilegt og ólýðræðislegt að taka slíka ákvörðun með einföldum meiri hluta á Alþingi án þess að nokkuð sé vitað um vilja þjóðarinnar. Það hlýtur bæði að vera pólitískur og siðferðilegur styrkur fyrir þingmenn að vita hver afstaða umbjóðenda þeirra er í þessu máli og það styrkir íslenskt stjórnarfar ef ákvarðanir eru teknar í samræmi við þjóðarvilja.
    Þjóðaratkvæðagreiðsla um EES-samninginn hefur þann ótvíræða kost að hún stuðlar að aukinni umræðu og meiri þekkingu hjá þjóðinni á kostum og göllum samningsins. Því hefur engu að síður verið haldið fram að hann sé of flókinn til að þjóðin geti tekið afstöðu til hans. Hann er þó síst flóknari en Maastricht-samningurinn sem borinn er undir almenning í ýmsum löndum Evrópu. Þá má á það benda að 6. desember nk. greiða Svisslendingar atkvæði um EES-samninginn.
    Ef vel er haldið á málum ættu Íslendingar að geta greitt atkvæði um EES-samninginn í október eða nóvember nk. Hins vegar er ástæða til að hafa í huga að fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem felur í sér breytingu á 21. gr. stjórnarskrárinnar. Nái þetta frumvarp fram að ganga þarf að rjúfa þing og boða til nýrra almennra kosninga. Samhliða slíkum kosningum mætti efna til þjóðaratkvæðis um aðildina að EES. Þar með væru meiri líkur til að sjálfar þingkosningarnar snerust um stjórnarskrárbreytinguna og sjálfvirk tengsl milli þeirra og EES-samningsins væru rofin. Á það ber líka að líta að það er alls ekki sjálfgefið að frambjóðendur einstakra flokka hafi allir sömu afstöðu til samningsins.