Ferill 5. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 5 . mál.


183. Nefndarálit



um frv. til l. um gjaldeyrismál.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund hennar komu frá viðskiptaráðuneytinu Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri, Finnur Sveinbjörnsson skrifstofustjóri, Kjartan Gunnarsson deildarstjóri og Páll Ásgrímsson lögfræðingur. Enn fremur komu Ögmundur Jónasson og Björn Arnórsson frá BSRB, Jóhann Þorvarðarson frá Verslunarráði Íslands, Már Guðmundsson frá Seðlabanka Íslands, Sigurður Hafstein frá Sambandi íslenskra sparisjóða, Þorleifur Jónsson frá Landssambandi iðnaðarmanna, Sveinn Hannesson frá Félagi íslenskra iðnrekenda, Halldór Magnússon frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Hrafn Magnússon frá Sambandi almennra lífeyrissjóða og Þorgeir Eyjólfsson frá Landssambandi lífeyrissjóða. Þá studdist nefndin við umsagnir er bárust á 115. löggjafarþingi frá Verðbréfaþingi Íslands, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Félagi íslenskra iðnrekenda og Landssambandi iðnaðarmanna, Íslenskri verslun, Verslunarráði Íslands, ASÍ, BSRB, BHMR, Neytendasamtökunum, ríkisskattstjóra, Seðlabanka Íslands, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Félagi rækju- og hörpudiskframleiðenda, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Landssambandi íslenskra útvegsmanna.
    Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði sú meginregla að gjaldeyrisviðskipti vegna inn- og útflutnings vöru, þjónustu og fjármagnshreyfinga verði óheft. Þar er og kveðið á um frávik frá þessari reglu. Nefndin leggur áherslu á að vandað verði til framkvæmdar nýrra reglna og hugsanlegra breytinga. Annað gæti orðið til þess að flækja stjórn peningamála og gera hana erfiðari, svo og skapað óstöðugleika í gjaldeyris- og peningamálum. Má í þessu sambandi m.a. nefna að millibankamarkaður með gjaldeyri verður að hafa þróast áður en hömlur á fjármagnshreyfingar til skemmri tíma verða algerlega afnumdar. Þá þarf peningamarkaður að hafa þróast með þeim hætti að Seðlabankinn geti með viðskiptum þar og beitingu peningalegra stjórntækja haft áhrif á skammtímanafnvexti og þar með fjármagnsstreymi til og frá landinu. Loks verður að tryggja að Seðlabankinn hafi nægilega sterk stjórntæki til þess að geta stýrt peninga- og gengismálum við nýjar aðstæður óheftra fjármagnshreyfinga.
    Nefndin leggur til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
    Lagt er til að 1. málsl. 3. gr. taki bæði til stöðvunar og takmörkunar á tilteknum flokkum fjármagnshreyfinga ef talið er að skammtímahreyfingar fjármagns til og frá landinu valdi óstöðugleika í gengis- og peningamálum. Núverandi orðalag þykir of stirt og gefur m.a. ekki innlendum aðilum svigrúm til þess að standa við gerðar skuldbindingar.
    Lagt er til að 1. mgr. 4. gr. verði breytt svo að skýrt sé að ákvæðið taki til gjaldeyrisviðskipta vegna tiltekinna flokka fjármagnshreyfinga. Fram hefur komið sú skoðun að ákvæði þetta sé óþarft þar sem kveðið sé á um efni þess í öðrum lögum. Nefndin telur aftur á móti að fjalla þurfi sérstaklega um þetta í ákvæðinu vegna þess að í 2. gr. frumvarpsins er skilið á milli fjármagnshreyfinganna sjálfra og gjaldeyrisviðskiptanna vegna þeirra.
    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða II falli brott. Bent hefur verið á að efni þess, um að fella niður núgildandi leyfi viðskiptabanka og sparisjóða til gjaldeyrisviðskipta, standist ekki þar sem viðskiptabankar og sparisjóðir hafi almennar heimildir í lögum til að stunda gjaldeyrisviðskipti innan þeirra marka sem Seðlabankinn ákveður. Gert hefur verið ráð fyrir því að í leyfum til gjaldeyrisviðskipta verði sett ákveðin skilyrði og þykir því rétt að 2. mgr. 8. gr. um heimildir til gjaldeyrisviðskipta verði breytt.
     Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með þessum breytingum.

Alþingi, 26. okt. 1992.



Vilhjálmur Egilsson,

Sólveig Pétursdóttir.

Halldór Ásgrímsson.


form., frsm.



Steingrímur J. Sigfússon.

Guðjón Guðmundsson.

Kristín Ástgeirsdóttir.



Jóhannes Geir Sigurgeirsson.

Ingi Björn Albertsson.

Össur Skarphéðinsson.