Ferill 31. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 31 . mál.


226. Nefndarálit



um till. til þál. um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

Frá 2. minni hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um þingsályktunartillöguna og fékk á sinn fund Eirík Tómasson hrl., dr. Gunnar G. Schram prófessor, dr. Magnús K. Hannesson lektor, Sigurð Líndal prófessor og Ólaf Þ. Harðarson lektor.
     Í stjórnarskránni eru ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu, t.d. ef ágreiningur verður milli forseta og þings um staðfestingu laga. Alþingi getur hvenær sem er leitað álits þjóðarinnar og vísað málum til þjóðaratkvæðagreiðslu telji það sérstaka þörf á því. Þjóðaratkvæðagreiðslur hafa farið nokkrum sinnum fram, m.a. tvisvar um breytingar á stjórnskipun landsins. 2. minni hluti telur sérstaka ástæðu til að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Það er í fullu samræmi við þróun síðustu ára og áratuga í löndum Vestur-Evrópu þar sem þjóðaratkvæðagreiðslu hefur í vaxandi mæli verið beitt, sérstaklega við samningana um nánara samstarf Evrópuríkja. Það er lýðræðislegt andsvar við vaxandi áhrifum stofnana og embættismanna.
    Allir eru sammála um að samningurinn er mjög umfangsmikill og hefur áhrif á flest svið þjóðlífsins frá öræfum landsins til ystu marka fiskveiðilögsögunnar og yrði víðtækasti fjölþjóðasamningur sem Íslendingar hefðu gert frá stofnun lýðveldisins. Það er lýðræðisleg krafa að þjóðin fái að segja álit sitt á samningnum áður en Alþingi afgreiðir hann. Þá sanngjörnu kröfu hafa fjölmenn félagasamtök sett fram, svo sem Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Stéttarsamband bænda og Neytendasamtökin ásamt tugum þúsunda kjósenda.
     Til undirbúnings þjóðaratkvæðagreiðslu þarf að fara fram ítarleg kynning á efni samningsins og er það besta andsvarið við fullyrðingunni um að þjóðin hafi ekki næga þekkingu til að taka afstöðu til efnis hans. Slíka hlutlausa kynningu hefur ríkisstjórnin vanrækt hingað til, en hún er nauðsynleg til að gera það sem unnt er til að koma í veg fyrir hörð átök í þjóðfélaginu eftir afgreiðslu málsins, hvort sem samningurinn verður samþykktur eða honum hafnað.
     Undirritaðir nefndarmenn leggja til að þingsályktunartillagan verði samþykkt óbreytt. Það gera einnig nefndarmennirnir Eyjólfur Konráð Jónsson og Ingi Björn Albertsson, en þeir munu skila séráliti.

Alþingi, 3. nóv. 1992.



Jón Helgason,

Kristinn H. Gunnarsson.

Anna Ólafsdóttir Björnsson.


frsm.



Ólafur Þ. Þórðarson.