Ferill 21. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 21 . mál.


356. Nefndarálit



um frv. til l. um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



     Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem felur í sér lögfestingu reglugerðar Evrópubandalagsins um frjálsa flutninga launafólks ásamt þeim breytingum sem leiðir af ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og fylgiskjölum hans. Þá er með frumvarpinu komið á fót nefnd sem skal vera innlendur eftirlitsaðili með því að ákvæði reglugerðar þessarar séu virt. Á fund nefndarinnar komu Berglind Ásgeirsdóttir, Gylfi Kristinsson og Gunnar Sigurðsson frá félagsmálaráðuneytinu, Hrafnhildur Stefánsdóttir og Kristján Jóhannsson frá VSÍ, Hjörtur Eiríksson frá VMSS, Ögmundur Jónasson frá BSRB, Páll Halldórsson, Birgir Björn Sigurjónsson, Björn Arnórsson og Eggert Lárusson frá BHMR og Ari Skúlason og Halldór Grönvold frá ASÍ. Nefndin studdist einnig við umsagnir er bárust á 115. löggjafarþingi frá VMSS, Sambandi byggingamanna, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, BHMR, Jafnréttisráði, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Stéttarsambandi bænda, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, ASÍ, BSRB, VSÍ, Kennarasambandi Íslands, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum og Fjórðungssambandi Vestfirðinga.
     Meiri hluti nefndarinnar leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Í fyrsta lagi hefur reglugerð sú sem lögtaka á skv. 1. gr. frumvarpsins verið aðlöguð samkvæmt þeim fylgiskjölum sem vísað er til (V. viðauka, bókun 1 og öðrum ákvæðum EES-samningsins) og er því ekki lengur þörf á að hafa tilvísun til þeirra í greininni. Þó skal tekið fram að ekki er að öllu leyti hægt að aðlaga reglugerðina þar sem endanlegar ákvarðanir um framkvæmd EFTA-ríkjanna á einstökum þáttum liggja ekki fyrir, sbr. t.d. d-lið 4. tölul. bókunar 1 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Í aðlögun reglugerðarinnar felst að felld hafa verið út þau ákvæði sem ekki skulu gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði og gerðar breytingar á orðalagi hennar. Orðalagsbreytingarnar, sem leiðir af bókun 1, grundvallast á því að verið er að færa reglugerð Evrópubandalagsins inn á svið EES-samningsins. Þessar breytingar fela einkum í sér að orðinu „aðildarríki“ hefur verið breytt í EES-ríki eða EFTA-ríki og orðinu „framkvæmdastjórn“ í fastanefnd EFTA eða eftirlitsstofnun EFTA. Þá hafa síðari breytingar á reglugerðinni verið felldar inn í texta hennar auk þess sem ákvæði hennar eru nú felld inn í sjálfan lagatexta frumvarpsins. Þessar breytingar ættu að leiða til þess að orðalag og frágangur reglugerðarinnar verði aðgengilegri fyrir almenning.
    Þá er lagt til að við 2. gr. frumvarpsins bætist ný málsgrein sem veitir fulltrúum fleiri heildarsamtaka atvinnurekenda og launþega en kveðið er á um í frumvarpinu rétt til að taka sæti í nefnd þeirri sem hefur eftirlit með framkvæmd laganna.
    Loks er lögð til breyting á 3. gr. frumvarpsins sem felur í sér nánari afmörkun þeirrar heimildar sem ráðherra er veitt til reglugerðarsetningar samkvæmt frumvarpinu.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins verði frumvarpið um Evrópska efnahagssvæðið að lögum. Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum er fram kunna að koma. Eggert Haukdal tekur fram að stuðningur hans við frumvarpið sé óháður því hvaða afstöðu hann muni taka við afgreiðslu frumvarps til laga um Evrópska efnahagssvæðið.

Alþingi, 24. nóv. 1992.



Rannveig Guðmundsdóttir,

Ingibjörg Pálmadóttir,

Eggert Haukdal.


form., frsm.

með fyrirvara.



Einar K. Guðfinnsson.

Jón Kristjánsson,

Guðjón Guðmundsson.


með fyrirvara.



Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,

Sigbjörn Gunnarsson.


með fyrirvara.