Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 1 . mál.


372. Nefndarálit



um frv. til l. um Evrópska efnahagssvæðið.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.



    Við afgreiðslu frumvarps til laga um Evrópska efnahagssvæðið hefur utanríkismálanefnd klofnað í afstöðu sinni til málsins. Meiri hluti nefndarinnar, sem skipaður er Birni Bjarnasyni, Árna R. Árnasyni, Geir H. Haarde, Rannveigu Guðmundsdóttur og Tómasi Inga Olrich, leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu að 4. gr. frumvarpsins falli brott og flytur meiri hluti nefndarinnar tillögu um þá breytingu á sérstöku þingskjali. Aðrir nefndarmenn skila sérálitum. Í því áliti, sem hér er birt, gerir meiri hlutinn grein fyrir umfjöllun nefndarinnar um Evrópska efnahagssvæðið og afstöðu sinni til þess.

I. Meðferð málsins í nefndinni.


    Í samræmi við ákvæði þingskapa um að utanríkismálanefnd skuli vera ríkisstjórn til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál hefur nefndin fylgst náið með samningaviðræðum um hið Evrópska efnahagssvæði (EES) alveg frá því að könnunarviðræður hófust um málið í apríl 1989 og þar til formlegum samningaviðræðum lauk með undirritun samningsins um Evrópska efnahagssvæðið í Óportó í Portúgal 2. maí 1992. Á þeim tíma og þar til nefndin afgreiddi málið frá sér á fundi sínum 30. nóvember kom Evrópska efnahagssvæðið til umfjöllunar á 82 fundum nefndarinnar og þar af á 25 fundum frá undirritun samningsins. Óhætt er að fullyrða að ekkert mál hafi fengið eins nákvæma og viðamikla umfjöllun á vegum nefndarinnar. Til samanburðar má geta þess að aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) 1970 var aðeins rædd á tveimur fundum nefndarinnar. Í fylgiskjali I er birt skrá um þá fundi nefndarinnar þar sem fjallað var um Evrópska efnahagssvæðið. Í þessu sambandi má einnig minna á að málefni Evrópska efnahagssvæðisins kom til umfjöllunar í Evrópustefnunefnd Alþingis sem kosin var í maí 1988 og starfaði fram á vor 1990. Um störf Evrópustefnunefndar vísast til skýrslu nefndarinnar sem kom út í maí 1990.
    Við umfjöllun sína um Evrópska efnahagssvæðið hefur nefndin kallað á sinn fund fjölda embættismanna og fulltrúa hagsmunasamtaka sem og fræðimenn sem hafa upplýst nefndina um ýmsa þætti málsins og svarað spurningum nefndarmanna. Þá hafa forsætis-, utanríkis-, sjávarútvegs-, viðskipta- og landbúnaðarráðherra komið á fund nefndarinnar á ýmsum stigum málsins. Nefndin hefur einnig tvívegis fundað með þingmönnum á þingi Evrópubandalagsins (EB) þar sem m.a. hefur verið fjallað um málefni Evrópska efnahagssvæðisins og var fyrri fundurinn í Brussel í febrúar 1991 og sá síðari í Reykjavík í ágúst 1992. Í fylgiskjali I eru tilgreind nöfn þeirra ráðherra, embættismanna, fulltrúa hagsmunasamtaka og fræðimanna sem komu á fund nefndarinnar vegna málsins. Þessu til viðbótar hafa nefndinni borist skriflegar umsagnir 35 aðila um málið og er í fylgiskjali II birtur listi yfir þessa aðila.
    Á þeim tíma sem málefni Evrópska efnahagssvæðisins hafa verið til umfjöllunar í nefndinni hefur hún notið mikillar og góðrar aðstoðar utanríkisráðuneytisins og hafa embættismenn ráðuneytisins gert sitt ýtrasta til að afla þeirra upplýsinga sem nefndarmenn hafa óskað og svara þeim spurningum sem fram hafa komið á fundum nefndarinnar um málið. Í þessu sambandi hefur mikill fjöldi minnisblaða, greinargerða og annarra gagna verið lagður fram af utanríkisráðuneytinu í nefndinni. Þá hafa nefndarmenn geta stuðst við skýrslur og greinargerðir sem íslensk stjórnvöld hafa gefið út og varða ýmsa þætti Evrópska efnahagssvæðisins auk þess sem nefndarmenn hafa getað haft til hliðsjónar nýleg rit íslenskra fræðimanna um Evrópubandalagið og Evrópska efnahagssvæðið. Í fylgiskjali III er birt yfirlit yfir þessi rit og ýmis önnur útgefin gögn er varða EB og EES.
     Það væri of langt mál að tilgreina alla þá aðila sem lagt hafa nefndinni lið í vinnu hennar. Meiri hluti nefndarinnar vill þó láta í ljós sérstakar þakkir til Þorsteins Ingólfssonar, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, Hannesar Hafsteins, sendiherra og aðalsamningamanns Íslands í viðræðum við EB, Gunnars Snorra Gunnarssonar, skrifstofustjóra viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Péturs Gunnars Thorsteinssonar sendifulltrúa og Lilju Ólafsdóttur sendiráðunautar. Þá vill meiri hluti nefndarinnar einnig færa öllum öðrum sem á ýmsum stigum málsins aðstoðuðu nefndina og veittu henni upplýsingar þakkir fyrir þeirra aðstoð.
    Þegar litið er á einstaka þætti samningsins og álitamál sem komið hafa upp við umfjöllun nefndarinnar um Evrópska efnahagssvæðið er óhætt að fullyrða að þau atriði, sem mestan tíma hafa tekið í starfi nefndarinnar, varði ýmsa þætti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála og spurninguna um hvort EES-samningurinn brjóti gegn íslensku stjórnarskránni. Að þessum atriðum og fleirum verður vikið nánar í nefndarálitinu.

II. Samstarf Íslands við önnur Evrópuríki.


    Með þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu (EES) gerist Ísland aðili að sameiginlegum markaði 19 landa þar sem um 380 milljónir manna búa. Samkvæmt samningnum, sem stofnar þetta mikla markaðssvæði, skapast þar frelsi til vöruflutninga, þjónustustarfsemi og fjármagnsflutninga auk þess sem um verður að ræða frjálsa för fólks einkum í atvinnuskyni. Settar eru sameiginlegar reglur um það hvernig einstaklingar og fyrirtæki geta nýtt sér þetta frelsi. Komið er á fót sameiginlegum stofnunum til að tryggja öllum jafnan rétt á grundvelli EES-reglnanna og í því efni er þess sérstaklega gætt að engum sé mismunað vegna þjóðernis.
    Ákvörðun um aðild Íslands að þessu víðtæka samstarfi er eðlilegt framhald á þeirri stefnu sem ríkisstjórnir hér hafa fylgt undanfarna áratugi án tillits til þess hvaða flokkar hafa átt ráðherra í þeim. Verður sú þróun öll rakin í þessum kafla álitsins. Slíkt sögulegt yfirlit auðveldar hverjum og einum að glöggva sig á stöðu þessa máls í stærra samhengi og í ljósi þróunar íslenskra utanríkismála undanfarna áratugi.

*



    Þáttaskil urðu í sögu Evrópu undir lok níunda áratugarins við upplausn samstarfs þeirra ríkja sem lutu stjórn kommúnista. Fyrir þessi tímamót höfðu aðildarríki Fríverslunarsamstaka Evrópu tekið stefnuna á nánara samstarf við EB-ríkin með því að mynda Evrópska efnahagssvæðið. Nú vilja ríkin í Mið- og Austur-Evrópu einnig tengjast EB með einum eða öðrum hætti. Er ljóst af málflutningi forustumanna þessara ríkja að þeir átta sig á því hve nauðsynlegt er að efla samstarf milli þjóða og ríkja í því skyni að tryggja frið og uppræta tortryggni, ríg og drottnunarhneigð sem er undirrót spennu og blóðugra átaka.

*


    Ísland hefur tengst efnahagssamstarfi Vestur-Evrópuríkja og einnig tekið þátt í öryggissamstarfi þeirra og ríkjanna í Norður-Ameríku á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Samhliða því sem Vestur-Evrópuríkin efldu öryggi sitt með Atlantshafssamstarfinu hófu þau efnahagssamstarf sín á milli og treystu þannig forsendur friðsamlegrar samvinnu sinnar. Stofnuðu nokkur þeirra Kola- og stálbandalagið 1951 en það leiddi til þess að Efnahagsbandalagi Evrópu (EBE) var komið á fót á grundvelli Rómarsáttmálans á árinu 1957. Stofnríki EBE voru sex (Belgía, Frakkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg og Sambandslýðveldið Þýskaland). Önnur Vestur-Evrópuríki (Austurríki, Bretland, Danmörk, Noregur, Portúgal, Sviss og Svíþjóð), sem vildu nýta kosti fríverslunar en ekki axla jafnmiklar stjórnmálalegar og stjórnskipulegar skuldbindingar og EBE-ríkin gerðu með Rómarsáttmálanum, stofnuðu Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) árið 1960. Frá upphafi EFTA hefur verið ljóst að mörg aðildarríki þess hafa litið á þátttöku sína í því sem áfanga á leiðinni til nánara samstarfs við ríkin sem settu samstarfi sínu ramma með Rómarsáttmálanum. Strax í upphafi sjöunda áratugarins hófust umræður um aðild ýmissa EFTA-ríkja að EBE. Þá var einnig rætt um að íslenska ríkið slægist í þann hóp. Undir lok sjöunda áratugarins varð Efnahagsbandalag Evrópu hluti af því sem síðan hefur á íslensku verið nefnt Evrópubandalagið (EB).

*



    Eins og áður sagði bjuggu Íslendingar sig undir að ná tengslum við stækkað Efnahagsbandalag á árunum 1961 til 1963. Þegar ljóst varð að bandalagið yrði ekki stækkað sneru íslensk stjórnvöld sér að athugunum á þátttöku í EFTA. Á árunum 1962 til 1966 voru miklir uppgangstímar í íslenskum efnahagsmálum. Olli þetta því að Íslendingar urðu lítið varir við það óhagræði í viðskiptamálum sem það hafði í för með sér að standa utan EFTA eða EB. Upp úr 1967 fór að halla undan fæti í atvinnu- og viðskipatmálum þjóðarinnar og haustið 1968 samþykkti Alþingi ályktun sem heimilaði ríkisstjórninni að sækja um aðild að EFTA. Hófust samningaviðræður um aðild Íslands að EFTA í janúar 1969 og við það tækifæri flutti dr. Gylfi Þ. Gíslason, þáverandi viðskiptaráðherra, ræðu þar sem hann sagði m.a.:
    „Ef viðskiptatengsl minnka minnka smám saman menningartengsl og stjórnmálatengsl. Það er eindregin skoðun mín og íslensku ríkisstjórnarinnar að í raun og veru séu efnahagsvandamálin, sem leysa þarf í sambandi við aðild Íslands að EFTA, smávægileg í sambandi við vandamálin á sviði stjórnmála og varnarmála sem hætt er við að smám saman komi upp ef efnahagsvandamálin verða látin óleyst og Ísland verður áfram utan viðskiptasamvinnu við Vestur-Evrópu. Ef Íslendingar eiga að vera traustir meðlimir þeirrar þjóðafjölskyldu, sem nú hefur náið samstarf á fjölmörgum sviðum, og það vill yfirgnæfandi meiri hluti Íslendinga af alhug vera, þá verða þeir einnig að eiga þess kost að vera meðlimir þeirrar viðskiptafjölskyldu sem þeir með eðlilegustum hætti eiga heima í. Í raun og veru er hér ekki aðeins — og kannski ekki einu sinni fyrst og fremst — um viðskiptamál og efnahagsmál að ræða, hér er spurning um vináttu og samstarf, vaxandi kynni og vaxandi samstarf eða minnkandi kynni og minnkandi samstarf.“
    Ísland varð aðili að EFTA 1. mars 1970. Finnland gerðist fullgildur aðili að EFTA 1986, en hafði átt aukaaðild síðan 1961, og Liechtenstein bættist í EFTA-hópinn 1991. 1. janúar 1973 yfirgáfu Bretland og Danmörk EFTA með aðild að EB og þá gekk Írland einnig í EB. Árið 1981 varð Grikkland aðili að EB. Portúgal fór úr EFTA í EB 1986 en þá gerðist Spánn einnig aðili EB.

*



    Þegar aðild Íslands að EFTA var til afgreiðslu á Alþingi snerist Alþýðubandalagið gegn henni en þingmenn Framsóknarflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Þessir flokkar settust í ríkisstjórn 1971 og það kom síðan í hlut hennar að ljúka fríverslunarsamningi Íslands við Evrópubandalagið með undirritun sumarið 1972, en hann tók gildi eftir samþykki Alþingis á árinu 1973. Í umræðum um samninginn á þingi bentu forustumenn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem stóðu að EFTA-aðildinni, á þá staðreynd að fríverslunarsamningurinn við EB væri útfærsla á fríversluninni innan EFTA á EB-markaðinn. Væri athyglisvert á hve skömmum tíma alþýðubandalagsmenn og framsóknarmenn hefðu áttað sig á gildi fríverslunar Vestur-Evrópuþjóðanna fyrir Íslendinga og þeirri staðreynd að þar væri meira í húfi en aðeins efnahags- og viðskiptahagsmunir. Varð einhugur á Alþingi um stuðning Íslands við fríverslunarsamninginn við EB. Í viðræðunum um hann komu samningamenn EB fyrst fram með þá kröfu að fyrir tollívilnanir fyrir fiskafurður á EB-markaði skyldu Íslendingar veita veiðiheimildir fyrir EB-skip í íslenskri fiskveiðilögsögu — en þeirri kröfu hafa Íslendingar ávallt hafnað.
    Á árunum 1972–1973 sömdu öll EFTA-ríkin, en þó hvert fyrir sig, við Evrópubandalagið um fríverslun. Hún náði fyrst og fremst til iðnaðarvara, en Ísland samdi jafnframt við EB um tollívilnanir fyrir mikinn hluta af þeim fiski og fiskafurðum sem þá voru seldar til bandalagsins. Tengdust þessir tvíhliða samningar EFTA-ríkja við EB aðild Breta, Dana og Íra að EB.
    Fram til ársins 1984 var samvinna EFTA-ríkjanna við EB að mestu á tvíhliða grundvelli. Á því ári efndu EFTA og EB hins vegar til sameiginlegs ráðherrafundar í Lúxemborg og þar var samþykkt að efla samstarf aðildarríkjanna á sviðum sem tengdust vöruviðskiptum og einnig að því er varðar rannsóknir og þróunarstarf, mennta- og menningarmál og umhverfismál. Er vísað til nánari samvinnu EFTA-ríkja við EB á þessum málasviðum í samningnum um EES.

*



    Á vettvangi Evrópubandalagsins var tekin ákvörðun um það á árinu 1985 að koma á raunverulegum innri markaði bandalagsins frá og með 1. janúar 1993. Vegna þessarar ákvörðunar var nauðsynlegt að endurmeta samstarfshætti EB og EFTA. Gerði Jacques Delors, forseti framkvæmdastjórnar EB, tillögur í því efni í ársbyrjun 1989, en þá hafði Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs, boðað til leiðtogafundar EFTA-ríkjanna í Ósló í mars 1989. Á þeim fundi var ákveðið að EFTA-ríkin skyldu ganga til viðræðna við EB á grundvelli þeirrar tillögu Delors að samstarf EFTA og EB yrði víðtækara en áður og kerfisbundnara bæði að því er varðaði töku sameiginlegra ákvarðana og eftirlit með því að þeim væri framfylgt. Þar með var lagður grunnur að samningaviðræðunum sem leiddu til þess að 2. maí 1992 var samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði (EES) undirritaður í Óportó í Portúgal. Aðild að samningnum eiga EFTA-ríkin sjö, EB-ríkin 12, Efnahagsbandalag Evrópu og Kola- og stálbandalag Evrópu. Jafnframt rituðu utanríkisráðherrar EFTA-ríkjanna undir samning EFTA um að setja eftirlitsstofnun og dómstól á laggirnar auk samnings um fastanefnd EFTA, en heimild til að fullgilda þá samninga er jafnframt veitt með þessu frumvarpi.
    Þegar þátttaka í EES var rædd á Alþingi haustið 1989 héldu þingmenn Sjálfstæðisflokksins þeirri skoðun fram að skynsamlegt væri að reyna til þrautar að halda fast í tvíhliða viðræður einstakra EFTA-ríkja við EB. Töldu þeir að með því yrðu hagsmunir Íslands betur tryggðir en ella. Jafnframt vildu sjálfstæðismenn að Alþingi samþykkti sérstakt umboð til handa utanríkisráðherra í viðræðunum við EB. Hvorug tillagan náði fram að ganga. Tóku þáverandi stjórnarflokkar, Alþýðubandalag, Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur, ákvörðun um að ríkisstjórnin hefði umboðið til samningsgerðar alfarið í sínum höndum og að haft yrði samflot með öðrum EFTA-ríkjum í viðræðunum. Fyrir þingkosningar 1991 lýsti Sjálfstæðisflokkurinn yfir stuðningi við aðild Íslands að EES, enda var þá vafalaust ljóst að ekki gæti orðið um tvíhliða viðræður að ræða.

*



    Fyrsti fundur aðalsamninganefndar EFTA og EB var 20. júní 1990. Frá upphafi byggðust samningaviðræðurnar á viðeigandi greinum Rómarsáttmálans og réttargjörningum EB. Fyrir kosningar til Alþingis í apríl 1991 lýsti utanríkisráðherra yfir því að samið hefði verið um 98% þeirra úrlausnarefna sem voru á borði samningamannanna. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem var mynduð eftir kosningarnar, veitti Jóni Baldvini Hannibalssyni utanríkisráðherra umboð til að halda áfram við að ná lokaniðurstöðu í samningaviðræðunum um EES.
    Áður en hinar formlegu samningaviðræður EB og EFTA hófust var ljóst að eitt EFTA-ríki, Austurríki, vildi gerast aðili að Evrópubandalaginu. Breytti það engu um aðild Austurríkismanna að viðræðunum. Meðal annars með vísan til hinna gífurlegu breytinga í Evrópu eftir upplausn Sovétríkjanna og hrun kommúnismans tóku þing Svía og Finna ákvörðun um að sækja um aðild að EB. Ríkisstjórnir Sviss og Liechtenstein hafa siglt í kjölfarið. Norska Stórþingið hefur samþykkt heimild til ríkisstjórnarinnar til að sækja um aðild að EB. Framkvæmdastjórn EB og einstök aðildarríki hafa fagnað þessum umsóknum. Stefnt er að því að flýta samningaviðræðum við umsóknarríkin.

*



    Á fundi í Maastricht í Hollandi í desember 1991 náðu leiðtogar EB-ríkjanna samkomulagi um skjal sem síðan hefur verið kennt við hina hollensku borg. Með samkomulaginu er stefnt að enn nánari samvinnu EB-ríkjanna í stjórnmálum, utanríkismálum og efnahagsmálum. Enn er óljóst um örlög Maastricht-samkomulagsins. Vandræði við að hrinda því í framkvæmd og óvissa um fjárlög EB til næstu fimm ára kunna að tefja fyrir viðræðum og samningum við þau ríki sem hafa sótt um aðild að EB.
    Aðild Íslands að Evrópubandalaginu er ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Í stefnuræðu sinni, sem flutt var 12. október sl., sagði Davíð Oddsson forsætisráðherra m.a.:
    „Mál standa nú þannig í Vestur-Evrópu, þrátt fyrir sviptingar á síðustu vikum, að flest bendir til að öll önnur ríki en Ísland verði sameinuð í einu Evrópubandalagi innan 10 ára. Ísland hefur ekki valið þann kost. Sú afstaða okkar hefur valdið nokkurri undrun í röðum frænda- og vinaþjóða en hún á sér margar og eðlilegar skýringar. Þeirra er ekki að leita í því að Íslendingar vilji ekki eiga góð og náin samskipti við nágranna sína í Evrópu. Ég held að Íslendingar eigi um það nánast eina sál að vilja hvergi fremur eiga náin skipti en við þær þjóðir sem líkastar eru okkur að uppruna, menningu og stjórnmálaskipan. En við sjáum fjölmarga annmarka á því fyrir litla þjóð að ganga inn í Evrópubandalagið og vega þeir miklu þyngra en sá ávinningur sem aðild kynni að fylgja.“
    Spurt hefur verið hvað verði um EES-samband Íslands við Evrópubandalagið ef önnur EFTA-ríki fara í EB. Hannes Hafstein, sendiherra og aðalsamningamaður Íslands í EES-viðræðunum, hefur fjallað um aðild EFTA-ríkja að EB og framtíð EES í greinargerð til utanríkismálanefndar. Þar segir m.a.:
    „Ef og þegar önnur EFTA-ríki gerast aðilar að Evrópubandalaginu ganga þau líka inn í alla þessa samvinnu. Engin ástæða er til að ætla að neinum af efnisþáttum samningsins verði sagt upp gagnvart Íslandi af þeirri ástæðu að önnur EFTA-ríki gangi í EB.
    Á hinn bóginn er ljóst að stofnanaþættir samningsins verða að koma til endurskoðunar og einföldunar. Allir sem komið hafa að þessari samningsgerð gera sér grein fyrir þessu. Engin ástæða er til að ætla að Íslendingum mundi henta verr sú einföldun sem þá yrði gerð á stofnanaþættinum, né að hagsmunum þeirra yrði þar verr borgið. Það kemur í ljós þegar þar að kemur. Þá verður samningurinn líka í reynd sá tvíhliða samningur sem sumir virðast óska eftir.
    Hitt er líka ljóst að með inngöngu annarra EFTA-ríkja í Evrópubandalagið líður EFTA undir lok og þar með hverfur sá samsráðsvettvangur og sá samningsstyrkur sem við höfum haft með aðild okkar að EFTA. Jafnframt munu veigamiklir þættir norrænnar samvinnu breytast og flytjast að verulegu leyti inn á vettvang Evrópubandalagsins eða tengjast honum mjög náið.“
    Forsætisráðherra hefur lýst yfir vilja ríkisstjórnarinnar til að kanna með bréfi og formlega hjá framkvæmdastjórn EB hver staða Íslands yrði á grundvelli EES kæmi til þess að önnur EES-ríki gengju í EB.
    Í þessu sambandi er rétt að minnast þess að EES-samningurinn riftir ekki tvíhliða samningum EFTA-ríkja við EB. Framkvæmd þessara samninga er hins vegar frestað, að svo miklu leyti sem efni þeirra skarast við efni EES-samningsins á meðan hann er í gildi. Falli EES-samningurinn úr gildi án þess að nokkuð komi í stað hans hlýtur fyrri tvíhliða samningur EFTA-ríkis við EB fullt gildi. Þannig mundi Ísland geta lagt fríverslunarsamninginn frá 1973 til grundvallar í tvíhliða samskiptum sínum við EB.

*



    Fyrirsjáanlegar eru ýmsar breytingar á samstarfi Norðurlandanna á vettvangi ríkisstjórna og þjóðþinga í kjölfar samningsins um EES. Sagt hefur verið að EES-samningurinn sé mikilvægasti Norðurlandasamningur sem gerður hefur verið um áratugaskeið. Með honum verða loks „Norðurlönd einn heimamarkaður“, svo sem löngum hefur verið stefnt að á vettvangi Norðurlandaráðs, og helstu markmið „NORDEK“ frá því um 1970 verða komin í höfn. Með EES-samningnum flytjast norræn samstarfsmálefni á sviði efnahagsmála, viðskipta og annarra viðfangsefna, sem undir samninginn heyra, yfir á hinn stærri EES-vettvang. Breytingarnar á samstarfi Norðurlandanna miða ekki síst að því að nýta til fulls þá möguleika sem þar verður að finna. EES-samstarfið er til þess fallið að styrkja norræna samvinnu ef rétt er á málum haldið. Stæðu Íslendingar utan við EES væru þeir jafnframt að einangra sig frá stórum og mikilvægum þáttum í norrænu samstarfi. Slíkt er að sjálfsögðu mjög varasamt.

*



    Þátttaka í EES-samstarfinu setur íslenska ríkinu engar kvaðir í samningum við ríki eða stofnanir sem ekki eiga aðild að EES-samningnum. Íslendingar geta eins og áður samið um viðskipti við Bandaríkjamenn, Japani eða aðrar mikilvægar viðskiptaþjóðir sínar. Samningurinn kann í raun að kalla á fjárfestingu hér á landi frá ríkjum sem ekki eiga aðild að EES. Má í því sambandi nefna að í umræðum um álver hér í eigu bandaríska fyrirtækisins Kaiser hefur því sjónarmiði verði hreyft að ákvörðun um að ráðast í álframkvæmdir hér ráðist m.a. af því að fyrirtækið hafi áhuga á aðgangi að EES-markaðinum. Með EES-samstarfinu er ekki á nokkurn hátt dregið úr möguleikum Íslendinga til viðskipta- eða fjárfestinga utan EES-svæðisins.

*



    Í áratugi hafa stjórnmálaflokkarnir deilt um þátttöku Íslendinga í alþjóðlegu samstarfi. Strax á fyrstu árum lýðveldisins settu deilurnar um ráðstafanir til að tryggja öryggi þjóðarinnar og varnir sterkan svip á stjórnmálabaráttuna. Mótuðust þessi hörðu átök að verulegu leyti af þeirri staðreynd að þá voru talsmenn kommúnisma og náinna tengsla við Sovétríkin háværir í íslenskum stjórnmálum. Sem betur fer hafnaði þjóðin leiðsögn þessara manna í utanríkismálum og við ákvarðanir um samstarf við aðra. Í þessu ljósi er athyglisvert en kemur ekki á óvart að Alþýðubandalagið hefur snúist gegn aðild Íslands að EES. Má segja að eina undantekningin varðandi slíka neikvæða stefnumótun flokksins í utanríkismálum sé þegar fríverslunarsamningurinn við EB var gerður 1972 og samþykktur á Alþingi 1973. Þá sat fulltrúi Alþýðubandalagsins á stóli viðskiptaráðherra.
    Þeir sem eru andvígir þátttöku Íslands í EES benda ekki á neinn annan skynsamlegan kost til að tryggja aðild Íslands að samstarfi þeirra þjóða í Evrópu sem hafa staðið Íslendingum næst. Samstaðan um afgreiðslu fríverslunarsamningsins við EB á Alþingi 1973 var á þeim tíma túlkuð á þann veg í þingumræðum að þeir sem skömmu fyrr voru andstæðir aðild að EFTA eða vildu ekki veita henni lið sitt hefðu áttað sig á almennu gildi þess að Íslendingar gerðu viðskiptasamninga við ríki Vestur-Evrópu til að einangrast ekki frá þjóðunum þar. Því miður virðist þessi samstaða ætla að rofna á Alþingi nú þegar EES-samningurinn er borinn undir það til lögfestingar. Má þó minna á að allir flokkar á Alþingi nema Samtök um kvennalista hafa með einum eða öðrum hætti borið ábyrgð á því að EES-samningurinn var gerður með þátttöku Íslendinga.
    Þegar staða Íslands gagnvart Evrópuríkjunum er metin á hið sama við um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu og um aðild að EFTA og gerð fríverslunarsamningsins við EB. Í engu þessara tilvika ganga Íslendingar undir skuldbindingar gagnvart öðrum ríkjum sem eru svo íþyngjandi að þær geri að engu hinn mikla og almenna ávinning er auknu samstarfi fylgir.
    Að því er varðar veigamikla stjórnmálahagsmuni, aldalöng menningartengsl og meginstefnu Íslands í utanríkismálum eru kostir aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu augljósir. Á þetta er nauðsynlegt að leggja megináherslu um leið og staðfest er að efnahagslegur og viðskiptalegur ávinningur af aðild Íslands að EES er augljós og óumdeildur.

III. Efni samningsins.


    Meginmarkmið EES-samningsins er að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði.
    Til að ná þessum markmiðum byggir samningurinn á hinu svokallaða fjórþætta frelsi sem felur í sér frjálsa vöruflutninga, frjálsa fólksflutninga, frjálsa þjónustustarfsemi og frjálsa fjármagnsflutninga. Jafnframt er ætlunin að tryggja að markmið samningsins náist með því að koma á kerfi sem tryggi að samkeppni raskist ekki og að reglur þar að lútandi verði virtar af öllum.
    Auk meginmarkmiða samningsins gerir hann einnig ráð fyrir nánari samvinnu á öðrum sviðum, svo sem á sviði rannsókna og þróunar, umhverfismála, menntunar, félagsmála og neytendamála.
    Í meginatriðum er ætlunin að ná fram markmiðum samningsins um hið fjórþætta frelsi með eftirfarandi aðgerðum:
     Í fyrsta lagi verður á sviði vöruviðskipta kveðið á um að tollar og magntakmarkanir séu ekki leyfð á þeim vörum sem undir samninginn falla og fjáröflunargjöld ýmiss konar megi ekki leggjast af meiri þunga á innfluttar vörur en innlendar.
     Í öðru lagi eru frjálsir fólksflutningar gerðir að veruleika með því að komið er á sameiginlegum vinnumarkaði á Evrópska efnahagssvæðinu. Ríkisborgurum hvers aðildarríkis verður þannig heimilt að fara til annarra aðildrríkja í atvinnuleit og dvelja þar í allt að þrjá mánuði á meðan á leit stendur og hafi þeir fengið starf innan þess tíma er veitt dvalarleyfi til fimm ára í senn og endurnýjað sjálfkrafa. Þá skal einstaklingum frjálst að setja á stofn sjálfstæða starfsemi í öðru ríki með því að próf þeirra, sem jafngilda prófum innlendra borgara, séu viðurkennd.
     Í þriðja lagi munu á EES-svæðinu gilda frjáls þjónustuviðskipti. Ríkisvaldið tekur þannig á sig þá kvöð að leggja ekki hömlur á þjónustuviðskipti á grundvelli ríkisfangs eða búsetu þess sem þjónustuna selur, enda sé viðkomandi frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     Loks verður með frjálsum fjármagnsflutningum komið í veg fyrir hindranir á fjármagnshreyfingum yfir landamæri aðildarríkjanna. Sú meginregla mun gilda að engar hömlur skuli lagðar á gjaldeyrisyfirfærslur og að engar hömlur megi leggja á fjárfestingar einstaklinga eða fyrirtækja þannig að mismunað sé eftir þjóðerni. Frelsi þetta mun þó engu breyta um skattaeftirlit eða innheimtu opinberra gjalda.
    Í samningnum eru reglur sem sem varða vörur og þjónustu og eiga að tryggja samkeppni á því sviði og útiloka hringamyndun og misbeitingu markaðsyfirráða. Auk þess takmarkar samningurinn ríkisstyrki sem skekkja samkeppni og setur reglur um starfsemi ríkiseinkasölufyrirtækja.

IV. Efni frumvarpsins.


    Með lögfestingu frumvarps til laga um Evrópska efnahagssvæðið er í senn veitt heimild til að fullgilda samninginn og kveðið á um að meginmál hans hafi lagagildi þegar samningurinn öðlast gildi að því er Ísland varðar. Jafnframt fær bókun 1 með samningnum lagagildi. Í þessari bókun eru settar almennar reglur um það hvernig laga skuli gerðir Evrópubandalagsins að EES-samningnum. Er skynsamlegt að velja fremur slíka altæka aðlögun gerðanna en þann kost að umskrifa allar gerðirnar og laga þær þannig að stjórnskipun EES-samningsins. Frumvarpið gerir auk þess ráð fyrir að lögfestir séu þeir liðir úr tveimur viðaukum við samninginn þar sem Íslandi er heimilað að setja höft á eignarhald útlendinga í fyrirtækjum á sviði sjávarútvegs og fiskvinnslu.
    Ákvæði fyrri viðaukans (9. tölul. VIII. viðauka), sem hér um ræðir, hljóða svo:
    „Þrátt fyrir ákvæði 31.–35. gr. samningsins og ákvæði þessa viðauka er Íslandi heimilt að beita áfram höftum, sem eru í gildi við undirritun samningsins um staðfestu þeirra sem eru ekki ríkisborgarar og ríkisborgara sem eiga ekki lögheimili á Íslandi, á sviði sjávarútvegs og fiskvinnslu.“
    Ákvæði síðari viðaukans (g-liðar 1. tölul. XII. viðauka) hljóða svo:
    „Þrátt fyrir 40. gr. samningsins og ákvæði þessa viðauka er Íslandi heimilt að beita áfram þeim höftum, sem eru í gildi við undirritun samningsins um eignarrétt erlendra og/eða eignarrétt aðila sem ekki eru búsettir á Íslandi, á sviði fiskveiða og fiskvinnslu.
    Þessi höft skulu ekki koma í veg fyrir fjárfestingar erlendra aðila eða ríkisborgara, sem eru ekki með lögheimili á Íslandi, í félögum sem taka aðeins á óbeinan hátt þátt í fiskveiðum eða fiskvinnslu. Þó hafa innlend yfirvöld rétt til að skuldbinda fyrirtæki, sem hafa að hluta eða að öllu leyti verið keypt af erlendum aðilum eða ríkisborgurum sem ekki eru með lögheimili á Íslandi, til að losa sig við fjárfestingar í starfsemi á sviði fiskvinnslu eða í fiskiskipum.“
    Umræður fóru fram í utanríkismálanefnd um það hvað fælist í hugtakinu „fiskvinnsla“ og fékk nefndin eftirfarandi greinargerð um það efni frá utanríkisráðuneytinu:
    „Í 2. tölul. 4. gr. núgildandi laga nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi, er að finna eftirfarandi skilgreiningu á vinnslu sjávarafurða: „ . . .  með vinnslu sjávarafurða er hér átt við frystingu, söltun, herslu, reykingu, súrsun, niðursuðu, niðurlagningu og hverja aðra þá verkun sem ver fisk og aðrar sjávarafurðir skemmdum, þar með taldar bræðsla og mjölvinnsla. Til vinnslu í þessu sambandi telst hins vegar ekki umpökkun afurða í neytendaumbúðir eða frekari vinnsla afurða til að gera þær hæfari til dreifingar, neyslu eða matreiðslu.“
    Í VIII. viðauka EES-samningsins eru sérstök ákvæði um staðfesturétt. Í 9. tölul. við þann viðauka segir að Íslandi sé heimilt að beita áfram höftum sem eru í gildi við undirritun samningsins um staðfestu þeirra sem eru ekki ríkisborgarar og ríkisborgara sem ekki hafa lögheimili á Íslandi, á sviði sjávarútvegs og vinnslu sjávarafurða. Sams konar undanþágu er að finna í g-lið XII. viðauka EES-samningsins sem fjallar um hreyfingar fjármagns milli landa. Í samningaviðræðunum voru gildandi lög á Íslandi lögð fram til frekari skilgreiningar. Telst því skilgreiningin hér að ofan á vinnslu sjávarafurða gilda sem skilgreining fyrir sama hugtak í EES-samningnum.“
    Iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagði nýlega fram á Alþingi frumvarp til laga (255. mál, þskj. 322) sem tryggir að samræmi sé milli gildandi íslenskra laga og þess ákvæðis í g-lið 1. tölul. XII. viðauka þar sem rætt er um fjárfestingar erlendra aðila eða ríkisborgara, sem eru ekki með lögheimili á Íslandi, í félögum sem taka aðeins á óbeinan hátt þátt í fiskveiðum eða fiskvinnslu.
    Auk þess að heimila fullgildingu 129 greina meginmáls EES-samningsins veitir þetta frumvarp ríkisstjórninni heimild til að fullgilda 49 bókanir við samninginn og 22 viðauka, ásamt gerðum sem í viðaukunum er getið. Samningnum fylgja 71 yfirlýsing og fjöldi samþykkta. Í viðaukunum er vísað til þeirra 1.400 réttargjörninga EB sem lagðir voru til grundvallar EES-samningnum allt frá upphafi hans, en þeir eru í lagafrumvarpinu og samningnum nefndir „gerðir“ og er þar einkum um að ræða reglugerðir og tilskipanir EB sem snerta EES. Í utanríkismálanefnd var rætt um orðið „gerð“ í þessari sérstöku lagamerkingu og komu ekki fram tillögur um aðra betri þýðingu á EB-hugtakinu „act“ sem nær yfir alla réttargjörninga Evrópubandalagsins.
    EES-samningurinn er milli 19 ríkja EFTA og EB, auk tveggja stofnana þess bandalags, sem fyrr segir. Samhliða því sem heimild er veitt til að fullgilda hann veitir þetta lagafrumvarp ríkisstjórninni heimild til að fullgilda tvo samninga milli EFTA-ríkjanna sjö um a) stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls og b) um fastanefnd EFTA.
    Í 3. gr. frumvarpsins er að finna skynsamlega og nauðsynlega reglu varðandi lögskýringu og takmörkun á skýringarreglu greinarinnar. Af ákvæðum 3. gr. ræðst að engar kvaðir eru lagðar á Alþingi varðandi framtíðarlagasetningu vegna EES.
    EES-samningurinn nær til reglna um innri markað EB sem samkomulag hafði orðið um fyrir 1. ágúst 1991. Eftir þann dag hafa fjölmargar EB-gerðir komið til sögunnar. Á fundi utanríkismálanefndar 23. nóvember sl. var lagt fram ritið „Samanburður á íslenskri löggjöf og samþykktum Evrópubandalagsins“ sem er ítarleg skýrsla um þær EB-gerðir sem til greina kemur að bætist við EES-samninginn. Um gildi þeirra á EES-svæðinu verður samið á EES-vettvangi eftir að samningurinn kemur til framkvæmda eða eins og segir í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Kristínar Einarsdóttur um þetta efni á þskj. 300:
    „Undanfarna mánuði hafa sérfræðingar EB og EFTA farið yfir helstu gerðir sem samþykktar hafa verið innan EB eftir 1. ágúst 1991 til þess að kanna hvort þær hafi áhrif á Evrópska efnahagssvæðið og hvort ástæða sé til þess að fella þær inn í EES-samninginn. Starf sérfræðinganna miðast við það að flýta fyrir því að sameiginlega nefndin geti tekið um það ákvörðun hvaða gerðum skuli bæta inn í viðauka EES-samningsins eftir gildistöku hans. Sú ákvörðun yrði síðan lögð fyrir Alþingi til samþykktar eða synjunar. Það er matsatriði hverju sinni hvort EB-gerð snertir EES-samninginn eða ekki og sjálfstæð ákvörðun hvort fella eigi hana inn í samninginn eða ekki. Samningaviðræður um það munu fara fram í sameiginlegu nefndinni  . . . 
    Samtals eru þær gerðir, sem samþykktar hafa verið innan EB frá 1. ágúst 1991 til þessa dags og sérfræðingum sýnist snerta EES-samninginn, um 176 talsins. Í flestum tilfellum er um að ræða tæknilegar breytingar á fyrri textum. Ísland er undanþegið 27 þeirra, þ.e. þeim er varða heilbrigðiseftirlit dýra  . . .
    Er lögð rík áhersla á að Alþingi fylgist náið með framvindu þessara mála þannig að sem best verði staðið að aðlögun gerðanna að íslenskum lögum og að undirbúningi undir lögfestingu á þeim gerðum sem þarf að lögfesta hér. Með því að samþykkja EES-samninginn verða Íslendingar þátttakendur í nýju ferli í samstarfi Evrópuríkja.
    Í því skyni að tryggja sem best eftirlit Alþingis og aðhald er gerð tillaga um að 4. gr. frumvarpsins sé felld á brott. Í þeirri grein felst heimild til að setja reglugerð „ef sérstök nauðsyn krefur“. Þótt þetta ákvæði sé hugsað sem varaheimild þykir varhugavert, a.m.k. á þessu stigi, að Alþingi veiti ráðherrum jafnalmenna heimild til útgáfu reglugerða þegar gengið er til samstarfs á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Alþingi á að hafa sem besta aðstöðu til að fylgjast með hverju skrefi á hinu nýja EES-ferli. Er nauðsynlegt að hugað verði sérstaklega að því hvernig Alþingi ætlar að sinna slíku eftirliti og haga meðferð EES-mála. Í þessu sambandi er mikilvægt að minnast þess að í EES-samningnum er ákvæði um sameiginlega EES-þingmannanefnd til að stuðla að auknum skilningi milli EB og EFTA-ríkjanna á EES-samningssviðinu.
    Minnt er á að nú þegar hafa verið flutt 46 frumvörp til laga á Alþingi í því skyni að aðlaga íslenska löggjöf að þátttöku í EES. Eins og málum er nú háttað er ráðgert að flytja alls 65 frumvörp til laga vegna EES og er listi yfir þau birtur sem fylgiskjal IV með nefndarálitinu.
    Ríkisstjórnin hefur látið vinna útdrátt á íslensku úr öllum dómum EB-dómstólsins sem lagðir voru til grundvallar við gerð EES-samningsins og getið er í fylgiskjölum hans. Er þetta gert að ósk þingmanna sem m.a. hefur komið fram í utanríkismálanefnd.

V. Þjóðhagsleg áhrif EES-samningsins.


    Árið 1991 var fob-verðmæti útflutnings Íslands ríflega 91,5 milljarðar króna. Af því var flutt til EES-landa fyrir rúmlega 68 milljarða króna en það samsvarar tæplega 75% af útflutningi þess árs. Til samanburðar var fob-verðmæti útflutnings okkar til Bandaríkjanna 12,6% og til Japans 7,9% á sama ári. Ef litið er á innflutning árið 1991 eru tölurnar þessar: Innflutningur til Íslands var ríflega 101,5 milljarðar króna á cif-verði. Af því komu tæp 70% frá EES-löndum, rúm 10% frá Bandaríkjunum og 7,4% frá Japan. Þessar tölur segja í raun allt sem segja þarf um mikilvægi EES-markaðarins fyrir inn- og útflutning Íslendinga. Engum sem vill efla hag íslenska þjóðarbúsins getur til hugar komið að leiðin til þess sé að reka viðskiptafleyg á milli EES-markaðarins og Íslands. Með aðild að EES eru tryggð hindrunarlaus viðskipti á þeim sviðum sem falla undir EES-samninginn.
    Sá mikilvægi munur er á EES-samningnum og fríverslunarsamningi Íslands við EB frá 1972 að með EES-samningnum fá helstu útflutningsafurðir Íslendinga, sjávarafurðir, í fyrsta sinn sambærileg kjör á við þau sem iðnvarningur hefur notið um áratugi. Áralangri baráttu gegn saltfiskstollum er lokið með sigri. Allir tollar falla niður strax í upphafi á mikilvægustu sjávarafurðavöruflokkum, en aðrir tollar munu síðan lækka í áföngum um 70%. Niðurfelling tolla hefur af samtökum sjávarútvegsins sjálfs verið metin á 2 milljarða króna á ári. Þegar EES-samningurinn verður að fullu kominn til framkvæmda 1997 tryggir hann íslenskum sjávarútvegi lækkun tolla sem svarar til um 96% sé miðað við gildandi tollskrár EB og núverandi útflutningsmagn. Þetta takmark hefur náðst án þess að fallist hafi verið á kröfur sem samningamenn EB hafa haft uppi í tvo áratugi, um að aðgangur að íslenskri fiskveiðilögsögu kæmi í stað tollaívilnana.


*


    
     Um almenn þjóðhagsleg áhrif EES-samningsins er vísað til þess sem segir í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1993. Þar segir um Evrópska efnahagssvæðið:
    „     Á næsta ári kemur samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið til framkvæmda og um leið verður komið á innri markaði Evrópubandalagsins. EES-samningurinn boðar einhverjar víðtækustu breytingar í íslenskum þjóðarbúskap sem ráðist hefur verið í hér á landi. Efnahagsáhrif samnings og efnahagssamrunans í Evrópu hafa verið metin af ýmsum innlendum sem erlendum hagstofnunum. Hér verða dregnar saman helstu niðurstöður.
    Áhrifa samningsins um EES á ýmsa þætti íslensks efnahagslífs mun gæta þegar á næsta ári. Þar ber hæst niðurfellingu tolla á ýmsum sjávarafurðum. Afnám tollanna mun bæta samkeppnisstöðu innlendrar fiskvinnslu gagnvart vinnslu í EB-ríkjunum. Miðað við núverandi samsetningu sjávarvöruútflutnings verða 93% útflutnings til Evrópuríkjanna tollfrjáls. Mestu munar þar um afnám tolla á saltfiski, en tollatekjur EB af útfluttum saltfiski frá Íslandi nema 1 milljarði króna. Útflutt flök til EB hafa borið 18% toll, en með EES-samningnum verður útflutningur þeirra tollfrjáls. Með niðurfellingu tolla eykst því hagkvæmni í útflutningi flakaðs fisks í samanburði við útflutning óunnins fisks sem styrkir innlenda fiskvinnslu.
    Aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu mun færa íslenskum fyrirtækjum ný sóknarfæri og stuðlar að því að búa þeim sama rekstrarumhverfi og samkeppnisaðilum. Ávinningurinn felst ekki síður í tækifærum til nýsköpunar, m.a. með samstarfi við önnur fyrirtæki á efnahagssvæðinu. Þegar til lengri tíma er litið mun ávinningurinn af EES fyrir íslenskt þjóðarbú fyrst og fremst felast í þessum þáttum sem þó er erfitt er að meta til fjár. Þessi tækifæri eru mikilvægur þáttur í þeirri stefnu að auka fjölbreytni íslensks atvinnulífs. Mikilvægt er að íslensk fyrirtæki nýti þá möguleika sem í samningnum felast svo sem kostur er. Til þess að undirbúa jarðveginn hefur ríkisstjórnin ákveðið að leggja 100 millj. kr. í sérstakt markaðsátak á EES-svæðinu. Þetta átak verður undirbúið og að því staðið í nánu samstarfi við samtök atvinnulífsins og einstök fyrirtæki.
    Fyrir utan afnám tolla skiptir mestu fyrir íslenskt þjóðarbú aukin samkeppni í hvers konar þjónustuviðskiptum. Þessi áhrif munu koma fram á nokkrum árum. Samkeppnin mun óhjákvæmilega leiða til lækkunar þjónustugjalda peningastofnana og tryggingafélaga og lækkunar vaxta. Viðskiptakjör Íslendinga munu batna því verðlag innfluttrar vöru frá efnahagssvæðinu gæti lækkað um allt að 3%. Athuganir sýna að þjónustugjöld gætu lækkað um 10–15% og vextir um tæpt prósentustig. Áhrif þessara þátta á helstu hagstærðir hafa verið metin af Þjóðhagsstofnun.

*     Landsframleiðsla. Athuganir Þjóðhagsstofnunar sýna að þegar til lengdar lætur eru bein áhrif af EES-samningum sem svarar allt að 1,5% á landsframleiðslu.
*     Verðlag. Vísitala framfærslukostnaðar gæti lækkað sem nemur allt að 1,7%.
*     Vextir. Aukin samkeppni og greiðari aðgangur að erlendum fjármagnsmörkuðum gætu leitt til lækkunar raunvaxta um 0,7%.
*     Vinnumarkaður. Áhrif samningsins á vinnuaflseftirspurn eru lítil vegna þeirrar hagræðingar og framleiðsluaukningar sem aukin samkeppni mun kalla á.
*     Kaupmáttur launa gæti aukist um 2–3%.

    EES-samningurinn hefur ekki aðeins áhrif á leikreglur atvinnulífsins heldur ekki síður á leikreglur efnahagsstjórnar á sviði atvinnumála og ríkisfjár- og peningamála. Aukið frelsi í milliríkjaviðskiptum samfara fastgengisstefnu og frjálsum fjármagnsflutningum leiðir óhjákvæmilega til aukins vægis ríkisfjármála í hagstjórn. Enn fremur má ætla að samrunaferlið í Evrópu muni kalla á samræmingu skattamála meðal ríkja álfunnar, ekki síst hvað varðar skattlagningu fyrirtækja. Á tekjuhlið fjárlaga kallar samstarf við Evrópuríkin á lækkun skatta á neysluvörur. Tekjur ríkissjóðs munu aukast vegna meiri hagvaxtar. Á gjaldahlið eru ýmsir liðir sem lækka. Heildaráhrifin á afkomu ríkissjóðs eru því án efa jákvæð.
    Aðild Íslands að EES mun leiða til aukins aðhalds og aga í efnahagsstjórn. Aðild að EES mun einnig auka tiltrú erlendra fjárfesta og lánveitenda á íslenskt efnahagslíf sem gæti treyst stöðu Íslands á erlendum lánamörkuðum.“
    Við þetta er að bæta að samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun svarar hin árlega aukning landsframleiðslu, sem nefnd er hér að ofan, til allt að sex milljörðum króna miðað við landsframleiðsluna eins og hún er núna.

*



     Um áhrif EES-samningsins á fjármál ríkisins er vísað til skýrslu frá fjármálaráðuneytinu sem var gefin út í apríl 1991, en ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins staðfesti nýlega gildi hennar við núverandi aðstæður á fundi utanríkismálanefndar. Þar segir m.a.:
    „ Ríkisútgjöld lækka. Þegar á heildina er litið gæti aðlögun að evrópska markaðnum dregið úr útgjöldum ríkissjóðs, enda þótt kostnaður aukist á ýmsum sviðum. Heildaráhrifin gætu legið á bilinu 1–2,5 milljarðar króna. Þessi áhrif eru þó afar óviss. Sparnaðurinn kemur einkum fram í auknu aðhaldi að ríkisstyrkjum til atvinnuvega, einkum ívilnunum á sviði skattamála og lánafyrirgreiðslu. Aukið frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur og meiri hagkvæmni í búrekstri gæti einnig skilað sér í lægra búvöruverði og þannig dregið úr þörf fyrir niðurgreiðslur úr ríkissjóði. Þá er líklegt að vextir lækki þegar fram í sækir vegna áhrifa innri markaðarins. Opnun íslenska fjármagnsmarkaðarins mun hafa sömu áhrif.
    Agaðri hagstjórn — auknar kröfur til ríkisfjármála. Aukið efnahagssamstarf við Evrópuríkin þrengir svigrúmið til sjálfstæðrar gengisstefnu. Jafnframt takmarkar aukið frelsi fjármagnsflutninga milli landa hagstjórnarmöguleika á sviði peningamála. Við þessar aðstæður eru meiri kröfur gerðar til ríkisfjármálanna sem hagstjórnartækis til að bregðast við sveiflum í þjóðarbúskapnum en nú er. Þar skiptir ekki síst máli að stefnan í ríkisfjármálum sé trúverðug og í samræmi við stefnuna í gengis- og peningamálum. Skattkerfið þarf að vera sveigjanlegt til þess að stuðla að stöðugleika í efnahagslífinu. Jafnframt þarf að ná betri tökum á útgjaldahlið ríkissjóðs og hverfa frá varanlegum hallarekstri. Hér hlýtur að koma til álita að takmarka yfirdráttarheimildir ríkissjóðs í Seðlabanka líkt og tíðkast víða í Evrópu. Með því gæti skapast nauðsynlegt aðhald að útgjaldaákvörðunum stjórnvalda og um leið forsendur fyrir meira jafnvægi í þjóðarbúskapnum.
    Nauðsyn jafnvægis í þjóðarbúskapnum. Það er brýnt að efnahagslegur ávinningur af aðlögun að evrópska markaðnum verði nýttur til þess að treysta stöðu ríkisfjármála þannig að þau geti sinnt því lykilhlutverki sem þeim er ætlað í hagstjórn. Styrk staða ríkisfjármála skapar skilyrði til betra jafnvægis í þjóðarbúskapnum. Þannig verður lagður grundvöllur að bættum lífskjörum í landinu, en það hlýtur í senn að vera hið eiginlega markmið og endanlegur mælikvarði á nauðsyn aðlögunar Íslands að evrópska markaðnum.“

VI. Stjórnarskráin og EES-samningurinn.


    Í mars 1991 lagði utanríkisráðherra skýrslu fyrir Alþingi þar sem greint var frá stöðu EES-samningaviðræðnanna í sama mund og gengið var til þingkosninga hér. Í skýrslu utanríkisráðherra sagði að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefði látið kanna hvort einhver ákvæði EES-samningsins brytu í bága við íslensku stjórnarskrána. Niðurstaðan hefði orðið sú að óþarft væri að breyta stjórnarskránni vegna EES. Þessi niðurstaða kemur heim og saman við það sem fram hefur komið í umræðum innan utanríkismálanefndar um þetta mál. Síðast gerðist það á fundi, sem nefndin efndi til 6. nóvember 1992, að aðalsamningamaður Íslands í EES-viðræðunum, Hannes Hafstein sendiherra, ítrekaði að það grundvallarsjónarmið hefði legið fyrir af hálfu allra samningsaðila að þannig skyldi gengið til verks að hvorki þyrfti að breyta stjórnarskrám einstakra þátttökuríkja né Rómarsáttmálanum vegna aðildar að EES-samningnum.
    Þótt þannig hefði verið staðið að verki frá upphafi samningaviðræðna og þrátt fyrir athuganir á stjórnarskrárþætti málsins, sem gerðar voru í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, hafa deilur um þennan þátt málsins sett töluverðan svip á stjórnmálaumræður undanfarna mánuði. Hér er annars vegar um lögfræðilegt álitaefni að ræða og hins vegar stjórnmálalegt úrlausnarefni.
    Það er ekkert nýmæli að deilur vakni um það á lögfræðilegum vettvangi hvort ákvarðanir Alþingis brjóti í bága við stjórnarskrána eða ekki. Á liðnu sumri kom t.d. út rit eftir Sigurð Líndal, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, þar sem hann rökstyður þá skoðun sína að Alþingi hafi afsalað sér meira valdi en samræmist stjórnarskránni við setningu löggjafar um framleiðslustjórn í landbúnaði. Þeir sem vilja fá skorið úr slíkum lögfræðilegum álitaefnum geta leitað til dómstólanna. Hæstiréttur hefur síðasta orðið um það hvort íslensk lög eru í samræmi við stjórnarskrána eða ekki. Ekki er haggað við þessu valdi með aðild að EES-samningnum.
    
Hér á landi starfar ekki stjórnlagadómstóll eins og víða annars staðar. Til slíkra dómstóla er unnt að skjóta álitaefnum varðandi stjórnskipulega stöðu mála á meðan þau eru til meðferðar á löggjafarþingum. Hér er það alfarið á valdi Alþingis að ákveða við hina þinglegu meðferð hvort frumvörp til laga eða efni alþjóðasamninga samræmist stjórnarskránni eða ekki. Hæstiréttur Íslands hefur síðan úrslitavald til að dæma um það hvort íslensk lög eða samningar við erlend ríki brjóti í bága við stjórnarskrána. Hvað sem þessum stjórnskipunarreglum líður kunna umræðurnar um stjórnarskrána og EES-samninginn, stjórnarskrána og landbúnaðarlöggjöfina eða hvað annað álitamál á þessu sviði sem rís að kveikja tillögur um íslenskan stjórnlagadómstól. Þar er þó ekki um viðfangsefni utanríkismálanefndar að ræða.
    Vegna umræðna um stjórnarskrárþátt þessa máls skipaði utanríkisráðherra 14. apríl 1992 Þór Vilhjálmsson, hæstaréttardómara og dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, Gunnar G. Schram, prófessor í stjórnskipunarrétti, Stefán Má Stefánsson, prófessor í réttarfari og Evrópurétti, og Ólaf W. Stefánsson, skrifstofustjóra í dómsmálaráðuneytinu, í nefnd til að meta hvort EES-samningurinn, ásamt fylgisamningum, bryti á einhvern hátt í bága við íslensk stjórnskipunarlög. Álit þessarar nefndar er dagsett 6. júlí 1992. Í stuttu máli komust nefndarmenn að þeirri niðurstöðu að EES-samningurinn bryti ekki í bága við íslensk stjórnskipunarlög.
    Fyrir utan þetta nefndarálit hafa utanríkismálanefnd borist skriflegar greinargerðir um stjórnarskrána og EES frá Davíð Þór Björgvinssyni, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, Hannesi Hafstein sendiherra, Guðmundi Alfreðssyni lögfræðingi og Birni Þ. Guðmundssyni, prófessor í stjórnarfarsrétti. Auk funda með þessum lögfræðingum, hverjum um sig, efndi utanríkismálanefnd 6. nóvember sl. til fundar með þeim Þór Vilhjálmssyni, Hannesi Hafstein, Guðmundi Alfreðssyni og Birni Þ. Guðmundssyni þar sem þeir skýrðu sjónarmið sín, svöruðu fyrirspurnum nefndarmanna og skiptust á skoðunum. Með þingmönnum í utanríkismálanefnd sátu þingmenn í stjórnarskrárnefnd Alþingis þennan fund.
    Fyrir utanríkismálanefnd hafa verið lögð eftirfarandi meginsjónarmið varðandi lögfræðileg álitaefni sem snerta þennan þátt:
    Með EES-samningnum er lagður grunnur að nýjum leikreglum í samskiptum þátttökuríkjanna á þeim sviðum sem samningurinn spannar. Einnig er komið á fót eftirlits- og dómstólakerfi til að fylgjast með því að allir þátttakendur í samstarfinu fari eftir þessum leikreglum. Með þessum hætti er skapað nýtt réttarsvið. Aðild að þessu samstarfi getur ekki falið í sér neitt afsal á íslensku ríkisvaldi af því að ákvörðunarvaldið, sem stofnunum EFTA eða EB er veitt með EES-samningnum, tilheyrir ekki íslenska ríkisvaldinu.
    Framkvæmdarvald og dómsvald verða á tilteknum sviðum í höndum eftirlitsstofnunar EFTA og dómstóls EFTA og við sérstakar aðstæður, sem varða bæði EFTA-ríki og ríkin í Evrópubandalaginu, í höndum stofnana EB. Á þetta aðeins við um samkeppni í viðskiptum milli samningsaðila, þ.e. milliríkjaviðskipti. Bent er á að það sé íslensk réttarregla að við sérstakar aðstæður beri að beita erlendum réttarreglum hér á landi; dæmi eru til þess að ákvarðanir erlendra stjórnvalda gildi hér og að þær séu aðfararhæfar; dæmi eru til þess að erlenda dóma megi framkvæma hér; vald það, sem alþjóðastofnunum er ætlað með EES-samningnum, er vel afmarkað, það gildir á takmörkuðu sviði og er ekki verulega íþyngjandi fyrir íslenska aðila. Með vísan til þessa er talið að aðild að EES-samningnum brjóti ekki í bága við stjórnarskrána.
    Með EES-samningnum er stofnunum EFTA og EB falið svo mikið framkvæmdarvald og dómsvald að það samræmist ekki 2. gr. stjórnarskárinnar að framselja það úr landi.
    Þegar þessi mál hafa verið til umræðu í utanríkismálanefnd hafa talsmenn þess að um brot á íslensku stjórnarskránni sé að ræða m.a. rökstutt mál sitt með því að vísa til umræðna á Norðurlöndum og stjórnarskrárákvæða í Danmörku og Noregi þar sem þjóðþingum er heimilað að framselja ríkisvald til alþjóðastofnana að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þessar breytingar á stjórnarskrám Dana og Norðmanna eiga einkum rætur að rekja til umræðna í þessum löndum um aðild að Evrópubandalaginu. Enginn ágreiningur er um að aðild Íslands að EB mundi krefjast stjórnarskrárbreytingar. Hins vegar eiga umræður um það mál ekkert erindi þegar rætt er um aðild Íslands að EES. Breyting á stjórnarskránni í þá átt að heimila framsal á íslensku ríkisvaldi til alþjóðastofnana er sjálfstætt athugunarefni sem hefur verið til meðferðar á Alþingi undanfarið vegna tillagna þingmanna Alþýðubandalags, Framsóknarflokks og Samtaka um kvennalista í þá veru.
    Umræður um stjórnarskrána og EES í utanríkismálanefnd hafa einnig snúist um fullveldið og hvað í því felst. Minnt er á að árið 1918 varð Ísland lýst frjálst og fullvalda ríki, en þó fóru Danir áfram með utanríkismál landsins. Í sambandslögunum var einnig ákvæði um að Hæstiréttur Danmerkur hefði á hendi æðsta dómsvald í íslenskum málum „þar til Ísland kynni að ákveða að stofna æðsta dómstól í landinu sjálfu“. Svo sem kunnugt er var Hæstiréttur Íslands stofnaður árið 1920. Hér eru þessi dæmi nefnd til að minna á að skýring á fullveldishugtakinu er ekki algild heldur háð mati á hverjum tíma. Að sjálfsögðu er vald íslenskra stjórnvalda í utanríkismálum eða Hæstaréttar í engu skert með aðild að EES. Þessi dæmi minna einnig á að þeir eru á hálum ís sem telja sér fært að lýsa aðild að EES stjórnarskrárbrot vegna þess að „stjórnarskrárgjafinn“ hafi ekki séð aðildina fyrir þegar texti stjórnarskrárinnar var saminn!
    Til glöggvunar á hinum ólíku viðhorfum, sem verið hafa uppi varðandi skilgreiningu á fullveldishugtakinu, er ekki nóg að líta til lögfræðilegra þátta. Þar koma söguleg, heimspekileg og stjórnmálafræðileg viðhorf einnig til álita. Má því til staðfestingar t.d. benda á greinar eftir Atla Harðarson heimspeking sem birtust í Lesbók Morgunblaðsins 24. og 31. október sl. undir fyrirsögninni „Hvers virði er fullveldi?“ Þar sagði höfundurinn m.a.:
    „Á 18. öld og þeirri 19. urðu ýmsar breytingar á evrópskum stjórnmálum. Fólk missti trúna á kaupauðgisstefnu og sólkonunga. Í staðinn komu frjálshyggja og þjóðernisstefna sem boðaði að hver þjóð og menningarheild ætti að mynda eitt ríki.
    Þessar nýju stefnur tóku fullveldishugmyndina upp á sína arma. Hún var að vísu hálfutangátta við meginstrauma frjálshyggjunnar og kom þjóðfrelsishreyfingum yfirleitt að litlu gagni því hún gerir nánast ráð fyrir því að samfélag hafi annaðhvort fullt vald yfir eigin málum eða ekkert — útilokar þann milliveg sem ef til vill hefði verið heppilegastur fyrir margar fámennar þjóðir.
    Konungseinveldi og kaupauðgisstefna eru svo úreltar stefnar sem nokkrar stjórnmálastefnur geta verið. En hvað með fullveldið? Er það ekki úrelt líka? Er ekki augljóslega þörf á alþjóðlegri yfirstjórn t.d. yfir umhverfismálum og eftirliti með vígbúnaði? Er lengur hægt að gera greinarmun á innanríkismálum og alþjóðamálum þegar iðnaður í einu ríki veldur súru regni í því næsta?“
    Þegar gengið er til alþjóðasamstarfs eins og EES-samstarfsins er mikilvægt að allir sitji við sama borð og geti gengið að því sem vísu að jafnræðis sé gætt. Reglur og stofnanir, sem tryggja slíkt jafnræði, þjóna ekki síst hagsmunum hinna smærri þjóða í samstarfinu. Sagan geymir óteljandi dæmi um að stórveldi telja sig geta boðið smærri ríkjum birginn með ofurefli. Með sameiginlegum reglum um rétt hvers og eins og eftirlits- og dómstólakerfi til að framfylgja reglunum er tryggt að stórir og smáir hafi sömu réttarstöðu. Öll viðleitni í alþjóðlegu samstarfi hefur síðustu áratugi miðað að því að útiloka með samningum og framkvæmd þeirra að hinir sterku og stóru í samfélagi þjóðanna geti sett hinum minni afarkosti eða hrifsað verðmæti þeirra til sín með því að neyta aflsmunar. Er það almennt talið til marks um að ríki hafi náð góðum árangri í samstarfi sín á milli ef þau sættast á friðsamlega úrlausn deilumála þar sem beiting valds eða hótun um valdbeitingu er útilokuð.
    Þegar Alþingi tekur afstöðu til EES-samningsins er nauðsynlegt að hafa öll sjónarmið varðandi stjórnarskrárþátt málsins í huga. Á vettvangi utanríkismálanefndar hefur mikil vinna verið innt af hendi til að draga sem best fram meginatriði þessa þáttar. Umræður hafa einnig verið miklar um þetta atriði á almennum vettvangi. Þær halda áfram, hver svo sem niðurstaða Alþingis verður um EES-samninginn. Lögfræðileg sjónarmið hljóta einkum að vega þungt í mati Alþingis á þessum þætti. Með vísan til þeirra hefur meiri hluti utanríkismálanefndar komist að þeirri niðurstöðu að EES-samningurinn brjóti ekki í bága við stjórnarskána. Við þetta mat verður ekki heldur horft fram hjá þeim sjónarmiðum öðrum sem nefnd voru hér að framan, auk hins almenna gildis sem aðild Íslands að EES hefur fyrir þróun íslensks þjóðfélags og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Í stuttu máli er hér komist að þeirri niðurstöðu að samþykki Alþingis á EES-samningnum brjóti ekki í bága við stjórnarskrána.

VII. Álit umsagnaraðila.


    Í júní sl. sendi utanríkismálanefnd samninginn um Evrópska efnahagssvæðið til umsagnar 66 aðila. Eins og tilgreint er í fylgiskjali II bárust nefndinni 35 skriflegar umsagnir stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka um samninginn. Ástæða þess að ekki bárust svör frá öllum aðilum má einkum rekja til þess að á þessum tíma voru margir enn ekki búnir að kynna sér samninginn til hlítar og því ekki reiðubúnir að tjá sig um hann.
    Þegar þær 35 umsagnir, sem nefndinni bárust, eru skoðaðar er athyglisvert að aðeins einn umsagnaraðili (BHMR) treystir sér ekki til að mæla með aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Greinilegur stuðningur við samninginn almennt kemur hins vegar fram hjá mörgum aðilum, ekki síst úr íslensku atvinnulífi, eins og t.d. frá Félagi Íslenskra iðnrekenda, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Verslunarráði og Vinnuveitendasambandi Íslands. Þá lýsa aðilar eins og t.d. Félag rækju- og hörpudisksframleiðenda, Rannsóknaráð ríkisins og flugráð yfir stuðningi við þá þætti samningsins er þá varða og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands mælir með samþykkt hans. Aðrir umsagnaraðilar, t.d. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, vísa til þess að samtök þeirra hafi enn ekki tekið afstöðu til samningsins.
    Rétt þykir að vekja hér athygli á umsögn Neytendasamtakanna en þar segir að þau telji að „hvað varðar íslenska neytendur og þá sérstaklega neytendalöggjöf sé samningurinn í öllum meginatriðum til bóta“. Í þessu sambandi má einnig vísa til umsagnar samtakanna Íslenskrar verslunar sem eru samtök Bílgreinasambandsins, Félags íslenskra stórkaupmanna og Kaupmannasamtaka Íslands. Í umsögn sinni árétta samtökin nauðsyn þess að starfsskilyrði fyrirtækja verði sem líkust á EES-svæðinu svo að tryggt verði að verslunin flytjist ekki úr landi, en um leið er m.a. bent á eftirfarandi atriði:
    „Það er skoðun samtakanna að aukið samstarf við þau réttarríki, sem mynda hið Evrópska efnahagssvæði, muni færa einstaklingum og lögaðilum aukna réttarvernd, ekki síst þar sem samningurinn mun öðlast lagagildi hér á landi  . . .
    Samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði felur í sér opnun íslensks efnahagskerfis fyrir erlendri samkeppni og erlendum samskiptum. Verslun á Íslandi er e.t.v. eina atvinnugreinin í landinu sem býr við fulla samkeppni og nýtur engra styrkja af neinu tagi. Aukin samkeppni í verslun mun því ekki valda miklum viðbrigðum innan greinarinnar.“
    Áhersla á mikilvægi EES-samningsins fyrir íslenskt efnahagslíf kemur einnig fram í umsögn Félags íslenskra iðnrekenda. Þar segir m.a.:
    „EES-samningurinn er nauðsynlegt og eðlilegt framhald á aðild Íslands að EFTA og fríverslunarsamningnum við Evrópubandalagið. Þá var það aðeins iðnaðurinn sem fór inn í hinn harða heim fríverslunarinnar en nú bætast fleiri greinar í hópinn. Það leiðir til þess að iðnaðurinn mun eiga kost á ódýrari aðföngum og þjónustu til rekstrarins.
    Tæknilegum viðskiptahindrunum verður rutt úr vegi og sameiginlegt eftirlits- og úrskurðarvald verður með framkvæmd samningsins og sameiginlegum samkeppnisreglum. Þessi atriði eru mjög mikilvæg íslenskum fyrirtækjum. Það veldur þó vissum vonbrigðum að ekki skyldi takast að einfalda reglur um uppruna og sönnun hans meira en raun ber vitni.
    Ákvæði samningsins um frjálst flæði varnings, þjónustu, fjármagns og vinnuafls eru mjög mikilvæg enda tryggja þau að greinar, sem hafa verið að meira eða minna leyti verndaðar fyrir erlendri samkeppni, verða nú að laga sig að breyttum aðstæðum. Samningurinn um EES mun án nokkurs vafa gera Ísland fýsilegri kost en áður í augum erlendra fjárfesta, en Íslendingum er nauðsynlegt að fá erlent áhættufé í auknum mæli til landsins.
    Samningurinn gefur Íslendingum færi á að taka þátt í mótun þeirra leikreglna sem gilda um starfsemi atvinnulífsins í Evrópu. FÍI leggur áherslu á að íslensk stjórnvöld nýti sér þessa möguleika þar sem það á við og hafi formlegt samráð við FÍI og önnur hagsmunasamtök um það starf. Hér má einnig benda á mikilvægi ráðgjafarnefndar EFTA og ráðgjafarnefndar EES þar sem aðilar vinnumarkaðarins geta komið sjónarmiðum sínum á framfæri. FÍI hvetur íslensk stjórnvöld til þess að tryggja þátttöku Íslands á þessum vettvangi með fullnægjandi fjárhagslegum stuðningi.“
    Í þeim umsögnum, sem nefndinni hafa borist frá aðilum atvinnulífsins, hefur mjög verið hvatt til þess að samhliða aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu tryggi stjórnvöld atvinnulífinu svipuð starfsskilyrði og eru í öðrum ríkjum á EES-svæðinu. Meiri hluti nefndarinnar telur að hluti af þeim efnahagsaðgerðum, sem ríkisstjórnin tilkynnti 23. nóvember, hafi verið mikilvægur liður í því að koma til móts við þessar óskir. Til upplýsingar er hér birtur sá hluti greinargerðar með yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er að þessu lýtur:
    „Veigamikill þáttur í þeim aðgerðum, sem hér er fjallað um, er afnám aðstöðugjaldsins. Eftir því sem alþjóðaviðskipti verða frjálsari og samkeppni harðnar verður mikilvægara að skapa íslensku atvinnulífi sambærileg skattakjör og helstu keppinautum. Þess vegna er orðið brýnt að afnema aðstöðugjaldið. Með þessari aðgerð og fyrirhugaðri lækkun tekjuskatts félaga úr 45% í 33% má telja að skattlagning atvinnurekstrar á Íslandi sé með því hóflegasta sem þekkist í nálægum löndum. Þetta styrkir mjög stöðu íslensks atvinnulífs í samkeppni á EES-markaði auk þess sem þetta hefur áhrif á áhuga erlendra fyrirtækja á að fjárfesta á Íslandi.“
         Til viðbótar þeim umsögnum, sem nefndinni hafa borist, þykir meiri hluta nefndarinnar rétt að vekja athygli á því að síðustu daga hafa Alþingi borist ályktanir frá sveitarfélögum þar sem lýst er yfir stuðningi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Þessar ályktanir eru frá Vestmannaeyjabæ, Grindavíkurbæ, Njarðvíkurbæ og Keflavíkurbæ.
    Með hliðsjón af fyrirliggjandi umsögnum, sem og viðræðum við þá fjölmörgu aðila sem komið hafa á fund nefndarinnar, er það mat meiri hluta utanríkismálanefndar að samningurinn um Evrópska efnahaghssvæðið njóti víðtæks stuðnings í þjóðfélaginu.

VIII. Sjávarútvegur og landbúnaður.


    Með aðild að EES gerist Ísland hvorki þátttakandi í sameiginlegri landbúnaðarstefnu EB né sameiginlegri sjávarútvegsstefnu. Báðum þessum málaflokkum var í meginatriðum haldið utan við hina eiginlegu samningsgerð um EES, en vissir þættir þeirra eru þó hluti samningsins til að greiða fyrir viðskiptum með sjávarafurðir og landbúnaðarvörur. Um landbúnaðarvörur er það að nefna að með EES-samningnum er fylgisamningur um sérstakt fyrirkomulag í landbúnaði milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu sem var undirritaður á sama tíma í Óportó 2. maí 1992. Hann tekur gildi um leið og EES-samningurinn samkvæmt bókun 42 við þann samning. Um sjávarafurðir er sérstaklega fjallað í bókun 9 við samninginn og þar m.a. kveðið á um tollalækkanir á innflutningi sjávarafurða til Evrópubandalagsins. Þessu til viðbótar skal minnt á að á sama tíma og EES-samningurinn var undirritaður var gerður samningur milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu um sjávarútvegsmál. Samkomulag náðist um einstök útfærsluatriði samningsins á fundi 27. nóvember sl., m.a. varðandi framkvæmd ákvæða hans um gagnkvæm skipti veiðiheimilda. Sá samningur tengist ekki EES-samningnum nema með óbeinum hætti og á eftir að koma fyrir Alþingi sem sérstakt þingmál og verður því ekki fjallað um hann í þessu nefndaráliti.
    Þrátt fyrir að landbúnaðar- og sjávarútvegsmál vegi ekki þungt í EES-samningnum hafa umræður um landbúnaðarvörur og sjávarafurðir tekið verulegan hluta af þeim tíma sem utanríkismálanefnd hefur varið í umfjöllun um EES-samninginn og er það skiljanlegt í ljósi mikilvægis þessara þátta fyrir íslenskt atvinnulíf.
     Umfjöllun utanríkismálanefndar um landbúnaðarvörur hefur í meginatriðum verið tvíþætt. Í fyrsta lagi hefur umfjöllun nefndarinnar snúist um draga fram nákvæmlega hvaða landbúnaðarafurðir það eru sem falla undir samninginn og er því heimilt að flytja til landsins. Í öðru lagi hefur hún snúist um rétt og möguleika íslenskra stjórnvalda til að leggja á verðjöfnunargjöld við innflutning á tilteknum afurðum sem unnar eru úr landbúnaðarvörum. Varðandi fyrra atriðið má einkum benda á eftirfarandi niðurstöður úr EES-samningaviðræðunum:
    Á grundvelli heilbrigðisástæðna geta stjórnvöld áfram bannað innflutning á kjöti, mjólk, kartöflum o.fl.
    Íslensk stjórnvöld fengu tilteknar undanþágur frá ákvæðum í bókun 3 við samninginn og geta bannað innflutning á rjómaís og viðbiti eins og Smjörva og Léttu og laggóðu.
    Sá tími, þegar frjáls innflutningur verður leyfður á vissum tegundum grænmetis, þ.e. tómötum, gúrkum, salati og papriku, hefur verið styttur verulega í samráði við garðyrkjubændur og verður frá 1. nóvember til 15. mars.
    Aðeins er heimilaður innflutningur á fimm blómategundum (nellikur, protea, anthurium, ornithogallum og strelizia) á tímabilinu 1. desember til 30. apríl.
    Undanfarið hafa staðið yfir samningaviðræður milli íslenskra stjórnvalda og fulltrúa EB um framkvæmd bókunar 3 við EES-samninginn. Þessum viðræðum er ekki lokið og líklegt er að framkvæmd bókunar 3 frestist a.m.k. til 1. júlí 1993.
    Við umfjöllun landbúnaðarmála í tengslum við bókun 3 hefur utanríkismálanefnd notið góðs af hinni nákvæmu athugun landbúnaðarnefndar Alþingis á því máli. Um leið og meiri hluti utanríkismálanefndar þakkar landbúnaðarnefnd framlag hennar vill hann vekja athygli á að með starfi nefndarinnar hefur verið gefið gott fordæmi um það hvernig þingnefndir geta kynnt sér til hlítar einstaka þætti EES-samstarfsins og framkvæmd þess. Með þessu nefndaráliti er birt sem fylgiskjal V bréf formanns landbúnaðarnefndar til utanríkismálanefndar um athugun málsins. Þá er að finna í fylgiskjali VI spurningar sem landbúnaðarnefnd beindi til nokkurra ráðuneyta um málið og svör þeirra. Í fylgiskjali VII er svo birt bréf landbúnaðarnefndar til Tryggva Gunnarssonar hrl. og í fylgiskjali VIII eru birtir kaflar úr álitsgerð sem Tryggvi Gunnarsson gaf landbúnaðarnefnd.
     Umfjöllun nefndarinnar um sjávarafurðir hefur einkum varðað tollaívilnanir á mörkuðum Evrópubandalagsins. Til glöggvunar um það efni þykir meira hluta nefndarinnar rétt að birta sem fylgiskjal IX minnisblað sem Árni Kolbeinsson, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, skrifaði 22. október 1991 þegar fyrir lá samkomulag EFTA og EB um EES-samninginn. Í því minnisblaði er einnig tekið á öðrum þáttum er varða sjávarútvegsþátt samningsins, þ.e. fjárfestingum og gagnkvæmum veiðiheimildum eins og þau mál stóðu þá. Eftir undirritun EES-samningsins í Óportó lék nokkur vafi á hvort söltuð síldarflök og hörpudiskur nytu tollfrelsis á mörkuðum Evrópubandalagsins. Í því máli liggur fyrir sú niðurstaða að tollar munu falla niður á söltuðum síldarflökum að því undanskildu að ekki hefur að fullu fengist niðurstaða varðandi edikverkaða síld og skýrist það mál ekki fyrr en EB hefur lokið endurskoðun sinni á aukefnaskrá bandalagsins. Til frekari skýringar er í fylgiskjali X birt minnisblað aðalsamningamanns Íslands í EB-viðræðunum um síldarflök í EES-samningi. Um hörpudiskinn er það að segja að hann mun njóta tollfríðinda.
    Rétt þykir að vekja hér sérstaklega athygli á ritinu Sjávarútvegsmál sem utanríkisráðuneytið gaf út í nóvember 1992. Um er að ræða 61 blaðsíðu yfirlitsrit til kynningar á þeim áhrifum sem EES-samningurinn hefur á sjávarútvegsmál.

IX. EES-samningurinn og íslensk löggjöf.


    Eins og fram hefur komið hér að framan hafa fjölmörg frumvörp til laga verið lögð fram á Alþingi í tengslum við EES-samninginn. Öll nema tvö eru til meðferðar í öðrum þingnefndum en utanríkismálanefnd.
    Í utanríkismálanefnd hefur sérstaklega verið rætt um þær forvarnir eða „girðingar“ sem talið hefur verið nauðsynlegt að lögfesta á ýmsum sviðum til að útiloka óæskileg áhrif af EES-samningnum. Ríkisstjórnin hefur boðað að lögð verði fram frumvörp til laga í því skyni að tryggja slíkar forvarnir. Kynnti utanríkisráðherra utanríkismálanefnd til dæmis drög að frumvarpi til laga um breytingu á jarðalögum, nr. 65/1976, með síðari breytingum, o.fl., þar sem settar eru skorður við jarðakaupum og hefur það frumvarp nú verið lagt fyrir Alþingi á þskj. 315.
    Hér er ekki tilefni til að taka afstöðu til einstakra lagafrumvarpa í tengslum við EES-samninginn. Á hinn bóginn skal sú almenna skoðun látin í ljós að við slíka lagasetningu skuli þess gætt að veita ekki almennar heimildir um gildistöku EB-gerða sem ekki hafa verið grandskoðaðar af Alþingi. Í því skyni að ná sem víðtækastri stjórnmálasamstöðu um þátttökuna í EES kann að vera skynsamlegt að hafa svokallaðar girðingar frekar hærri en lægri því að það er alfarið á valdi Alþingis að lækka þær þegar reynsla hefur fengist af EES-samstarfinu.
    Innan utanríkismálanefndar var einnig rætt um formið á frumvörpum sem flutt hafa verið vegna EES. Var spurt hvort algengt væri að lögfesta texta sem fylgiskjöl með lagafrumvörpum. Tók skrifstofa Alþingis saman lista yfir lög þar sem þessari tæknilegu aðferð er beitt og er hann birtur í fylgiskjali XI með þessu nefndaráliti.

X. Kostnaður vegna EES-þátttöku.


    Nokkur umræða hefur orðið um kostnað íslenska ríkisins af þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu. Meiri hluta utanríkismálanefndar þykir því rétt að birta hér efni minnisblaðs sem utanríkisráðherra lagði fram á fundi nefndarinnar 9. nóvember sl. um áhrif EES á stjórnsýslu og fjárlög. Minnisblaðið er svohljóðandi:

1.     Stofnanir EFTA.

Áætlaður heildarkostnaður:                              Hlutur Íslands samkvæmt fjárlagafrv.:

EFTA-skrifstofa 53 millj. SFR
30,0 millj. kr.
Eftirlitsstofnun EFTA 27 millj. SFR
15,0 millj. kr.
Dómstóll EFTA 11 millj. SFR
5,0 millj. kr.
    Alls 91 millj. SFR
50,0 millj. kr.

    Hlutur Íslands verður 1,20% eða 1,092 millj. SFR, þ.e. ISK 47,8 millj. (gengi 43,7678).
    Þessar áætlunartölur eru ekki endanlegar. Viðræðum er ekki lokið um fjárframlög til þessara stofnana.
    Rétt er að benda á að núverandi hlutur Íslands var ákveðinn með ráðherrasamþykkt á Reykjavíkurfundinum í maí sl. Hann var áður 1,72%.

2.     Íslensk stjórnsýsla.
    Um þennan þátt vísast til þess sem segir í EES-frumvarpinu. Í fjárlagafrumvarpi 1993 er gert ráð fyrir að 40 millj. kr. skiptist milli ráðuneyta stjórnarráðsins vegna aukakostnaðar sem leiðir af EES. Fjármálaráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið eru þegar komin með fulltrúa við sendiráðið í Brussel. Ákveðið er að einn bætist við frá menntamálaráðuneytinu og líklega annar frá viðskiptaráðuneytinu ef af EES-samningnum verður.

3.     Þróunarsjóður EFTA.
    Áætlað heildarframlag EFTA-þjóðanna er 125 millj. ECU. Hlutur Íslands reiknast 0,70% eða 875.000 ECU, þ.e. ISK 65,3 millj. (gengi 74,6246). Áætlun um heildarframlag hefur því breyst frá því EES-frumvarpið kom út, en í frumvarpi til fjárlaga 1993 er hlutur Íslands áætlaður 60 millj. kr.

4.     Verkefni á vegum EB.
    Allar áætlunartölur um þennan þátt eru mjög óvissar og breytingum háðar. Eins og staðan er í dag er heildarframlag EFTA-þjóðanna nú áætlað 99 millj. ECU, þar af 75 millj. í rannsóknir og þróun sem Íslandi er ekki skylt að taka þátt í á árinu 1993. Samningsbundinn hlutur Íslands 1993 reiknast 0,71% af 24 millj. ECU eða 170 þús. ECU, þ.e. ISK 12,7 millj. (gengi 74,6246). Hins vegar sækist Ísland eftir aðild að ýmsum verkefnanna á sviði rannsókna og þróunar. Gangi það eftir, sem ætla verður, hefur framlag Íslands verið áætlað 38,6 millj. ISK. Vænta má að fjárhæðin eigi eftir að breytast síðar þegar endanlegar ákvarðanir sameiginlegu nefndarinnar liggja fyrir um þátttöku EFTA í einstökum verkefnum og stjórnunarkostnaði.

5.     Tryggingagreiðslur.
    Um þennan þátt vísast til kostnaðarmats fjármálaráðuneytisins vegna frumvarps heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um almannatryggingar sem er væntanlegt á næstunni.
     . . .

XI. Ályktunarorð.


    Að lokinni gaumgæfilegri athugun á EES-samningnum og þeim skyldum og réttindum, sem honum fylgja fyrir Íslendinga, er það eindregin niðurstaða meiri hluta utanríkismálanefndar Alþingis að það sé íslenskum hagsmunum ótvírætt til framdráttar að Ísland gerist aðili að samningnum.
    Í 4. gr. frumvarps til laga um Evrópska efnahagssvæðið á þskj. 1 er almennt ákvæði um útgáfu reglugerða. Lagt er til að þessi grein verði felld úr frumvarpinu.
    Meiri hluti utanríkismálanefndar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með áðurgreindri breytingu.

Alþingi, 30. nóv. 1992.



Björn Bjarnason,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Geir H. Haarde.


form., frsm.



Árni R. Árnason.

Tómas Ingi Olrich.






Fylgiskjal I.


Fundir utanríkismálanefndar Alþingis þar sem fjallað var um EES.


(Þar með taldar umræður um undirbúning að EES-viðræðum.)




Fundir á undirbúningsstigi EES-viðræðna:


710. fundur — 25. apríl 1989    Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra,
    Jón Baldvin Hannibalson utanríkisráðherra,
    Helgi Ágústsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
716. fundur — 20. júlí 1989    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Valgeir Ársælsson sendiherra,
    Lilja Viðarsdóttir sendráðsritari,
    Helgi Ágústsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
717. fundur — 30. ágúst 1989    Hannes Hafstein, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gréta Gunnarsdóttir sendiráðsritari.
718. fundur — 19. september 1989    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Hannes Hafstein, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Lilja Viðarsdóttir sendiráðunautur.
720. fundur — 28. október 1989     Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Sverrir H. Gunnlaugsson sendiherra,
    Helgi Ágústsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
723. fundur — 27. nóvember 1989    Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra,
    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Hannes Hafstein, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
724. fundur — 29. nóvember 1989    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Hannes Hafstein, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
725. fundur — 22. janúar 1990    Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra,
    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Hannes Hafstein, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Sverrir Haukur Gunnlaugsson sendiherra,
    Lilja Viðarsdóttir sendiráðunautur.
727. fundur — 5. febrúar 1989    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Hannes Hafstein sendiherra,
    Sveinn Björnsson, starfandi ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
729. fundur — 12. mars 1990    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Sveinn Björnsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
732. fundur — 23. apríl 1990    Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra,
    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
733. fundur — 27. apríl 1990          Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
736. fundur — 11. júní 1990          Jón Sigurðsson, starfandi utanríkisráðherra.


Fundir eftir að formlegar samningaviðræður voru hafnar um EES:

737. fundur — 2. júlí 1990    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Hannes Hafstein aðalsamningamaður,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
738. fundur — 30. júlí 1990    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Hannes Hafstein aðalsamningamaður,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
739. fundur — 27. september 1990    Hannes Hafstein aðalsamningamaður,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
742. fundur — 29. október 1990    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Hannes Hafstein aðalsamningamaður,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
743. fundur — 23. nóvember 1990    Jón Sigurðsson, starfandi utanríkisráðherra,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
744. fundur — 10. desember 1990    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
752. fundur — 28. janúar 1991     Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
758. fundur — 15. febrúar 1991    Hannes Hafstein aðalsamningamaður,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
759. fundur — 21. febrúar 1991    Enrique Baron Crespo, forseti Evrópuþingsins,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, sendifulltrúi í Brussel.
760. fundur — 21. febrúar 1991    Nefndarmenn úr nefnd Evrópuþingsins sem fjallar um tengsl við Norðurlönd,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, sendifulltrúi í Brussel.
761. fundur — 21. febrúar 1991    Þingmenn úr þingflokki jafnaðarmanna á Evrópuþinginu,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, sendifulltrúi í Brussel,
    Jóhann Benediktsson frá utanríkisráðuneyti.
762. fundur — 21. febrúar 1991    Þingmenn Evrópska þjóðarflokksins á Evrópuþinginu,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, sendifulltrúi í Brussel,
    Jóhann Benediktsson frá utanríkisráðuneyti.
763. fundur — 21. febrúar 1991    Fulltrúar þingflokks frjálslyndra og lýðræðissina á Evrópuþinginu,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, sendifulltrúi í Brussel.
764. fundur — 22. febrúar 1991    Fulltrúar Evrópudómstólsins,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, sendifulltrúi í Brussel.
765. fundur — 5. mars 1991    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
767. fundur — 21. maí 1991    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
768. fundur — 21. maí 1991    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
769. fundur —27. maí 1991    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
770. fundur — 30. maí 1991    Lilja Ólafsdóttir sendiráðunautur,
    Stefán Már Stefánsson lagaprófessor,
    Gunnar G. Schram lagaprófessor,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
771. fundur — 31. maí 1991        Hannes Hafstein aðalsamningamaður,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
772. fundur — 11. júní 1991    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
773. fundur — 20. júní 1991    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra,
    Árni Kolbeinsson, ráðuneytisstjóri sjávarútvegsráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti,
    Sveinn Björnsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
774. fundur — 21. júní 1991    Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra,
    Halldór Blöndal landbúnaðarráðherra,
    Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti,
    Björn Friðfinnsson, ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytis,
    Jakob Jakobsson fiskifræðingur,
    Magnús Gunnarsson, framkvæmdastjóri SÍF,
    Kristján Ragnarsson, framkvæmdastjóri LÍÚ,
    Sveinn Björnsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
776. fundur — 30. júlí 1991    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Gunnar Gunnarsson, sendifulltrúi í utanríkisráðuneytinu,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
777. fundur — 12. ágúst 1991     Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Hannes Hafstein aðalsamningamaður,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti,
    Þórólfur Sveinsson, varaformaður Stéttarsambands bænda,
    Magnús Sigurðsson, varaformaður Búnaðarfélags Íslands,
    Hermann Sigurjónsson, í stjórn Búnaðarfélags Íslands,
    Hákon Sigurgrímsson, framkvæmdastjóri Stéttarsambands bænda,
    Gunnlaugur Júlíusson, hagfræðingur Stéttarsambands bænda,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
778. fundur — 12. ágúst 1991     Hannes Hafstein aðalsamningamaður,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
783. fundur — 14. október 1991     Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Guðmundur Eiríksson þjóðréttarfræðingur,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu.
785. fundur — 21. október 1991    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
786. fundur — 22. október 1991    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
787. fundur — 22. október 1991    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra,
    Hannes Hafstein, aðalsamningamaður Íslands,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
788. fundur — 23. október 1991    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra,
    Hannes Hafstein aðalsamningamaður,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
789. fundur — 4. nóvember 1991    Björn Friðfinnson, ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytis og formaður samningahóps ríkisstjórnarinnar um fjármagns- og þjónustuviðskipti,
    Erlendur Lárusson, í samningahópnum,
    Kjartan Gunnarsson, í samningahópnum,
    Tryggvi Axelsson, í samningahópnum,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
791. fundur — 18. nóvember 1991    Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytis og formaður samningahóps ríkisstjórnarinnar um atvinnu- og búseturéttindi,
    Dögg Pálsdóttir, skrifstofustjóri heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis,
    Ólafur W. Stefánsson, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneyti,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
792. fundur — 25. nóvember 1991    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Sólrún Jensdóttir, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneyti og formaður samningahóps ríkisstjórnar um jaðarmálefni,
    Gylfi Kristinsson, deildarstjóri í félagsmálaráðuneyti,
    Kristinn Helgason, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu,
    Þorsteinn Gunnarsson, deildarsérfræðingur í menntamálaráðuneyti,
    Jón Ögmundur Þórmundsson, skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneyti,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
793. fundur — 28. nóvember 1991    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra,
    Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
794. fundur — 2. desember 1991    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra,
    Magnús Gunnarsson, formaður Samtaka atvinnurekenda í sjávarútvegi,
    Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur LÍÚ,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
795. fundur — 9. desember 1991    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
797. fundur — 16. desember 1991    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
800. fundur — 27. janúar 1992    Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
801. fundur — 10. febrúar 1992    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
802. fundur — 14. febrúar 1992    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
803. fundur — 17. febrúar 1992    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
8 04. fundur — 24. febrúar 1992    Hannes Hafstein aðalsamningamaður,
    Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
809. fundur — 13. apríl 1992        Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Pálsson sendiherra,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
Fundir eftir að EES-samningurinn var undirritaður:

810. fundur — 4. maí 1992    Árni Kolbeinsson, ráðuneytisstjóri sjávarútvegsráðuneytis,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
813. fundur — 26. maí 1992    Hannes Hafstein sendiherra,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
814. fundur — 3. júní 1992    Sigurður Líndal lagaprófessor,
    Sigurður Helgason lögfræðingur,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
815. fundur — 10. júní 1992        Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
816. fundur — 19. júní 1992    Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra,
    Árni Kolbeinsson, ráðuneytisstjóri sjávarútvegsráðuneytis,
    Guðjón A. Kristjánsson, formaður Farmanna- og fiskimannasambands Íslands,
    Guðmundur Alfreðsson þjóðréttarfræðingur,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
817. fundur — 7. júlí 1992    Lilja Ólafsdóttir sendiráðunautur,
    Guðmundur Alfreðsson þjóðréttarfræðingur,
    Davíð Þór Björgvinsson, dósent við Lagadeild HÍ,
    Jón Sigurðsson, starfandi utanríkisráðherra,
    Gunnar G. Schram lagaprófessor,
    Stefán Már Stefánsson lagaprófessor,
    Ólafur W. Stefánsson, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneyti,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
818. fundur — 8. júlí 1992    Björn Friðfinnsson, ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytis,
    Harald Aspelund sendiráðsritari,
    Heimir Steinsson, útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins,
    Hörður Vilhjálmsson, fjármálastjóri Ríkisútvarpsins,
    Kristján Þorbergsson hrl.,
    Jónas R. Jónsson dagskrárstjóri,
    Þorbjörn Broddason, formaður útvarpsréttarnefndar,
    Þórunn Hafstein, deildarstjóri í menntamálaráðuneyti,
    Árni Páll Árnason frá utanríkisráðuneyti,
    Ólafur Tómasson, póst- og símamálastjóri,
    Þorvarður Jónsson, framkvæmdastjóri fjarskiptasviðs Pósts og síma,
    Sigvaldi Hrafn Jósafatsson, forstöðumaður í sérverkefnum hjá Samskipum hf.,
    Pétur J. Eiríksson, framkvæmdastjóri markaðssviðs Flugleiða,
    Leifur Magnússon, formaður flugráðs,
    Gunnar Helgi Hálfdanarson, formaður samtaka verðbréfafyrirtækja,
    Guðmundur Hauksson, varaformaður samtaka verðbréfafyrirtækja,
    Helgi Sigurðsson lögfræðingur,
    Erlendur Lárusson, forstöðumaður Tryggingaeftirlits ríkisins,
    Rúnar Guðmundsson, skrifstofustjóri Tryggingaeftirlits ríkisins,
    Þórður Ólafsson frá bankaeftirliti Seðlabankans,
    Sigurjón Gunnarsson, varaformaður Sambands íslenskra bankamanna,
    Baldur Óskarsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra bankamanna,
    Ólafur B. Thors, formaður Sambands íslenskra tryggingafélaga,
    Sigmar Ármannsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra tryggingafélaga.
819. fundur — 9. júlí 1992    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti,
    Guðmundur Rúnar Guðmundsson, deildarstjóri í fjármálaráðuneyti,
    Áslaug Guðmundsdóttir, lögfræðingur í fjármálaráðuneyti,
    Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri Áburðarverksmiðju ríkisins,
    Höskuldur Jónsson, forstjóri ÁTVR,
    Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga,
    Pálmi Kristinsson, framkvæmdastjóri Verktakasambands Íslands,
    Jón Sigurðsson, framkvæmdastjóri Íslenska járnblendifélagsins,
    Halldór Jónatansson, forstjóri Landsvirkjunar,
    Jóhann Már Maríusson, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar,
    Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Innkaupastofnunar ríkisins,
    Georg Ólafsson verðlagsstjóri,
    Birgir L. Jónsson, formaður Félags stórkaupmanna,
    Stefán Guðjónsson, framkvæmdastjóri Félags stórkaupmanna,
    Bjarni Finnsson, formaður Kaupmannasamtakanna,
    Magnús Finnsson, varaframkvæmdastjóri Kaupmannasamtakanna,
    Kjartan Ólafsson, formaður Sambands garðyrkjubænda,
    Brynja Hjálmtýsdóttir, starfsmaður Sambands garðyrkjubænda,
    Guðmundur Sigþórsson, skrifstofustjóri landbúnaðarráðuneytis,
    Árni Kolbeinsson, ráðuneytisstjóri sjávarútvegsráðuneytis,
    Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra iðnrekenda,
    Jón Steindór Valdimarsson frá Félagi íslenskra iðnrekenda,
    Garðar Sverrisson, formaður Sölusamtaka lagmetis,
    Jón Gíslason, formaður Matvælafræðingafélags Íslands.
820. fundur — 11. ágúst 1992    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti,
    Lilja Ólafsdóttir, sendiráðunautur í utanríkisráðuneyti,
    Georg Ólafsson verðlagsstjóri,
    Haukur Halldórsson, formaður Stéttarsambands bænda,
    Gunnlaugur Júlíusson, hagfræðingur Stéttarsambands bænda,
    Guðmundur Sigþórsson, skrifstofustjóri í landbúnaðarráðuneyti,
    Jakob Ármannsson frá Stofnlánadeild landbúnaðarins,
    Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytis,
    Gunnar Sigurðsson frá félagsmálaráðuneyti,
    Hörður Lárusson frá menntamálaráðuneyti,
    Þórarinn V. Þórarinson, framkvæmdastjóri VSÍ,
    Hrafnhildur Stefánsdóttir frá VSÍ,
    Kristján Jóhannsson frá VSÍ,
    Ásmundur Stefánsson, formaður ASÍ,
    Ari Skúlason frá ASÍ,
    Örn Friðriksson frá ASÍ,
    Birgir Björn Sigurjónsson frá BHMR,
    Ásta Möller frá BHMR,
    Eggert Lárusson frá BHMR,
    Svanhildur Kaaber frá Kennarasambandi Íslands,
    Eiríkur Jónsson frá Kennarasambandi Íslands,
    Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.
821. fundur — 24. ágúst 1992    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
822. fundur — 28. ágúst 1992    Björn Þ. Guðmundsson lagaprófessor,
    Guðmundur Eiríksson þjóðréttarfræðingur,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
823. fundur — 7. september 1992    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Pétur G. Thorsteinsson sendifulltrúi,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
824. fundur — 14. september 1992    Pétur G. Thorsteinsson sendifulltrúi,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
825. fundur — 21. september 1992    Pétur G. Thorsteinsson sendifulltrúi,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
826. fundur — 9. október 1992    Pétur G. Thorsteinsson sendifulltrúi,
    Lilja Ólafsdóttir sendiráðunautur,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
827. fundur — 12. október 1992    Pétur G. Thorsteinsson sendifulltrúi,
    Lilja Ólafsdóttir sendiráðunautur,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
828. fundur — 19. október 1992    Pétur G. Thorsteinsson sendifulltrúi,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
829. fundur — 26. október 1992        Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti,
    Pétur Gunnar Thorsteinsson sendifulltrúi,
    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra.
830. fundur — 2. nóvember 1992        Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Pétur Gunnar Thorsteinsson sendifulltrúi,
    Þórður Friðjónsson frá Þjóðhagsstofnun,
    Ásgeir Daníelsson frá Þjóðhagsstofnun,
    Friðrik Már Baldursson frá Þjóðhagsstofnun,
    Magnús Pétursson frá fjármálaráðuneyti,
    Bolli Þór Bollason frá fjármálaráðuneyti,
    Sigurður Guðmundsson frá Byggðastofnun,
    Helgi Bernódusson, forstöðumaður þingmálaskrifstofu Alþingis.
831. fundur — 6. nóvember 1992    Björn Þ. Guðmundsson lagaprófessor,
    Guðmundur Alfreðsson þjóðréttarfræðingur,
    Hannes Hafstein sendiherra,
    Þór Vilhjálmsson hæstaréttardómari,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Pétur G. Thorsteinsson sendifulltrúi.
832. fundur — 9. nóvember 1992    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti,
    Pétur G. Thorsteinsson sendifulltrúi,
    Benedikt Jónsson sendifulltrúi.
833. fundur — 16. nóvember 1992    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra,
    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti,
    Pétur G. Thorsteinsson sendifulltrúi,
    Guðmundur Sigþórsson, skrifstofustjóri í landbúnaðarráðuneyti,
    Árni Kolbeinsson, skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneyti.
834. fundur — 19. nóvember 1992    Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra.
835. fundur — 23. nóvember 1992    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti.
836. fundur — 24. nóvember 1992    Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis,
    Gunnar Snorri Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti,
    Árni Kolbeinsson, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneyti,
    Magnús Gunnarsson, forstjóri SÍF,
    Kristján Ragnarsson, framkvæmdastjóri LÍÚ,
    Benedikt Valsson, hagfræðingur FFSÍ.

Samtölur:
    Fjöldi funda á undirbúningsstigi EES-viðræðna:     
13

    Fjöldi funda eftir að formlegar samningaviðræður voru hafnar     
44

    Fjöldi funda eftir að EES-samningurinn var undirritaður     
25

     Samtals fjöldi funda þar sem rætt var um EES     
82

    Fundinn 6. nóvember 1992, sem var eins konar málþing með lögfræðingum er samið höfðu skriflegar greinargerðir um stjórnarskrána og EES, sátu einnig þingmenn úr stjórnarskrárnefnd þingsins.
    Fundurinn 24. nóvember 1992, þar sem rætt var sérstaklega um sjávarútvegssamning EB og Íslands, var sameiginlegur með sjávarútvegsnefnd Alþingis.
    Til viðbótar þessum fundum var rætt um EES og þróun mála í Evrópu á fundi utanríkismálanefndar með sendinefnd EB-þingsins 31. ágúst 1992.




Fylgiskjal II.

Aðilar sem sent hafa umsagnir um EES-samninginn


til utanríkismálanefndar.


    Í júní 1992 sendi utanríkismálanefnd EES-samninginn 66 aðilum til umsagnar. Svör bárust frá 35 aðilum og eru þeir eftirfarandi, í stafrófsröð:

Alþýðusamband Íslands.
Atvinnuleysistryggingasjóður.
Bandalag háskólamanna.
Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna.
Bandalag íslenskra listamanna.
Bandalag starfsmanna ríkis og bæja.
Búnaðarfélag Íslands.
Farmanna- og fiskimannasamband Íslands.
Félag íslenskra fiskimjölsframleiðenda.
Félag íslenskra iðnrekenda.
Félag rækju- og hörpudiskframleiðenda.
Flugráð.
Hollustuvernd ríkisins.
Íslensk verslun.
Íslenskar sjávarafurðir.
Jafnréttisráð.
Lögmannafélag Íslands.
Meistara- og verktakasamband byggingamanna.
Neytendasamtökin.
Póst- og símamálastofnunin.
Rannsóknaráð ríkisins.
Ríkismat sjávarafurða.
Ríkisútvarpið.
Samband íslenskra kaupskipaútgerða.
Samband íslenskra tryggingafélaga.
Samband íslenskra viðskiptabanka.
Seðlabanki Íslands, bankaeftirlit.
Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra.
Staðlaráð Íslands.
Stéttarsamband bænda.
Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda.
Verðlagsstofnun.
Verslunarráð Íslands.
Vinnuveitendasamband Íslands.
Öryrkjabandalag Íslands.



Fylgiskjal III.

Útgefin gögn er varða Evrópubandalagið


og Evrópska efnahagssvæðið

.

(Skráin miðast við gögn á bókasafni Alþingis.)



Rit útgefin af Alþingi.


Skýrsla utanríkisráðherra til Alþingis, mars 1992.
Skýrsla utanríkisráðherra til Alþingis um stöðu samningaviðræðna um Evrópska efna     hagssvæðið, mars 1991.
Skýrsla utanríkisráðherra til Alþingis um samningaviðræður um Evrópska efnahags     svæðið, október 1990.
Áfangaskýrsla Evrópustefnunefndar Alþingis, VII. rit, maí 1990.
Skýrsla umhverfisráðherra um lagasetningu vegna samnings um Evrópskt efnahagssvæði     og áhrif hans á umhverfismál. (Lögð fram á 115. löggjafarþingi, 1992.)
Ísland og Evrópa I.–VII. rit. Evrópustefnunefnd, Alþingi, 1990.

Rit útgefin af ýmsum aðilum.


Evrópuréttur. Réttarreglur og stofnanir Evrópubandalagsins.
    Stefán Már Stefánsson. Iðunn, 1991.
Evrópubandalagið.
    Gunnar G. Schram. Háskólaútgáfan, 1990.
Evrópustefnan. Aðlögun Íslands að þróun Evrópubandalagsins.
    Gunnar Helgi Kristinsson. Öryggismálanefnd.
Evrópska efnahagssvæðið, meginatriði og skýringar.
    Gunnar G. Schram. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, 1992.
Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið og fasteignir á Íslandi.
    Álitsgerð samin að beiðni dóms- og kirkjumálaráðherra og landbúnaðarráðherra. Reykjavík, júní 1992.
Evrópa 1992 og ríkisfjármálin.
    Fjármálaráðuneytið, apríl 1991.
Erlent vinnuafl og frjáls atvinnu- og búseturéttur útlendinga.
    Könnun unnin á vegum félagsmálaráðuneytisins og Alþýðusambands Íslands, janúar 1992.
Skýrsla um Evrópska efnahagssvæðið og umhverfismálin.
    Umhverfisráðuneytið, Kristinn Sv. Helgason og Dr. Gunnar Steinn Jónsson, nóvember 1991.
EES-samningurinn og umhverfisvernd.
    Umhverfisráðuneytið, 1992.
EES-samningurinn og ferðamál.
    Spurningar og svör er varða ferðamálaiðnaðinn á Íslandi og þá sem við hann starfa. Davíð Stefánsson, samgönguráðuneytið, 1992.
Samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði.
    Stutt samantekt um helstu áhrif á íslensk iðnfyrirtæki. Félag íslenskra iðnrekenda, maí 1992.
EES og íslenskur vinnumarkaður.
    ASÍ og BSRB, nóvember 1991.
Ísland og alþjóðasamstarf í menntamálum.
    Háskóli Íslands og menntamálaráðuneytið, desember 1991.
Fjárfestingarreglur. Ísland, EES og EB.
    Stefán Már Stefánsson. Félag Íslenskra iðnrekenda, 1992.
Íslenskur þjóðarbúskapur og Evrópska efnahagssvæðið.
    Þjóðhagsstofnun, Reykjavík, september 1991.
Ísland og Evrópubandalagið.
    Gunnar Helgi Kristinsson. Öryggismálanefnd, 1987.
Framsal ríkisvalds til Evrópubandalagsins.
    Gunnar G. Schram. Háskólaútgáfan, 1990.
Evrópumarkaðshyggjan. Hagsmunir og valkostir Íslands.
    Hannes Jónsson. Félagsmálastofnunin, 1990.
Hvað um þig? Íslensk iðnfyrirtæki og innri markaður EB 1992.
    Iðntæknistofnun Íslands, júní 1990.
Ísland og Evrópubandalagið 1986. Stækkun EB og áhrif þess á útflutningsviðskipti Ís     lands frá 1961.
    ICC, Landsnefnd Alþjóðaverslunarráðsins, 1987.
Hin sameiginlega sjávarútvegsstefna Evrópubandalagsins.
    Ketill Sigurjónsson. Háskólaútgáfan, 1992.
Evrópsk samvinna og íslensk fyrirtæki.
    Kristján Jóhannsson og Jón Steindór Valdimarsson. VSÍ, FÍI, 1989.
Samtök launafólks og Evrópubandalagið. Afstaða verkalýðshreyfingarinnar til félags     mála í EB.
    ASÍ, BSRB, 1989.
Íslenskur sjávarútvegur og Evrópubandalagið.
    Samstarfsnefnd atvinnurekenda í sjávarútvegi 1989.
Evrópska efnahagssvæðið og byggðaþróun.
    Byggðastofnun, desember 1990.
Sjávarútvegsreglur Evrópubandalagsins.
    Stefán Már Stefánsson. Félag íslenskra iðnrekenda, september 1991.
Evrópubandalagið. Stofnanir og ákvarðanataka.
    Þorsteinn Magnússon. Öryggismálanefnd, 1989.
Fjárfestingarreglur. Ísland, EES og EB.
    Stefán Már Stefánsson. Félag íslenskra iðnrekenda, 1992.
Hjáríki. Staða Íslands samkvæmt samningsuppkastinu um EES.
    Björn S. Stefánsson. 1992.
Greinargerð um ECU-tengingu íslensku krónunnar.
    Seðlabanki Íslands, september 1991.


Rit gefin út af utanríkisráðuneytinu.



    EES-upplýsingablöð utanríkisráðuneytisins (dreift ókeypis):

I. Vöruviðskipti.
    I.1               Ríkisstyrkir,
    I.2               Tollar, tollafgreiðsla og upprunareglur,
    I.3               Tæknilegar viðskiptahindranir,
    I.4               Samkeppnisreglur,
    I.5               Landbúnaður,
    I.6               Orkumál,
    I.7               Sjávarútvegsmál,
    I.7.i          Tollar á útfluttar sjávarafurðir,
    I.8               Lyfjamál,
    I.9               Matvæli,
    I.10          Opinber innkaup og útboð,
    I.11          Hugverkaréttindi.
II. Þjónustu- og fjármagnsviðskipti.
    II.1          Fjármálaþjónusta,
    II.2          Flugmál,
    II.3          Skipaflutningar,
    II.4          Fjarskiptaþjónusta, útvarp og sjónvarp,
    II.5          Fjármagnshreyfingar,
    II.6          Vátryggingar.
III. Fólksflutningar.
    III.1     Atvinna og búseta,
    III.2     Almannatryggingar,
    III.3     Starfsréttindi,
IV. Jaðarmálefni.
    IV.1     Menntamál,
    IV.2     Umhverfismál,
    IV.3     Félagsmál,
    IV.4     Lítil og meðalstór fyrirtæki,
    IV.5     Neytendamál,
    IV.6     Rannsóknir og þróun,
    IV.7     Vinnuvernd,
    IV.8     Félagaréttur.
V.1. Stofnanir EES.
V.2. Yfirlit yfir lagabreytingar.
VI.1 Sögulegt yfirlit EFTA og EB.

    Bæklingar sem utanríkisráðuneytið dreifir ókeypis:

Sjávarútvegsmál — EES-samningurinn, október 1992, 61 bls.
Samningurinn um EES (meginmál).
Ísland og EES (sent á hvert heimili).
The EEA Agreement (EFTA).
EES-samningurinn (EFTA).
EES og flugmál, samgönguráðuneytið, júlí 1992.
Framsaga utanríkisráðherra fyrir frumvarpi til laga um EES, 20. ágúst 1992.
Stjórnarskráin og EES-samningurinn.
    Álit nefndar á vegum utanríkisráðuneytisins á því hvort samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, ásamt fylgisamningum, brjóti á einhvern hátt í bága við íslensk stjórnskipunarlög. Utanríkisráðuneytið, viðskiptaskrifstofa, ágúst 1992.


    Önnur rit utanríkisráðuneytisins:

Samanburður á íslenskri löggjöf og samþykktum Evrópubandalagsins sem lagðar eru til grundvallar í samningaviðræðum um Evrópskt efnahagssvæði.

    Utanríkisráðuneytið viðskiptaskrifstofa, október 1990.
Samanburður á íslenskri löggjöf og samþykktum Evrópubandalagsins: EB-gerðir sem til greina kemur að bætist við EES-samninginn.
    Utanríkisráðuneytið, viðskiptaskrifstofa, nóvember 1992.




Fylgiskjal IV.

Fylgifrumvörp EES-samningsins.



I. EES-frumvörp sem lögð hafa verið fram á 116. þingi (25. nóvember 1992).


Dómsmálaráðuneyti:
    Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum sem varða réttarfar, atvinnuréttindi o.fl. vegna aðildar að samningi um Evrópska efnahagssvæðið.
    Frumvarp til laga um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið.

Félagsmálaráðuneyti:
    Frumvarp til laga um hópuppsagnir.
    Frumvarp til laga um breytingar á lögum um vinnumarkaðsmál vegna aðildar að samningi um Evrópskt efnahagssvæði.
    Frumvarp til laga um frjálsan atvinnu- og búseturétt innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Frumvarp til laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

Fjármálaráðuneyti:
    Frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, og lögum nr. 52/1987, um opinber innkaup, með síðari breytingum.
    Frumvarp til laga um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, og lögum nr. 87/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.
    Frumvarp til laga um vörugjald á ökutæki og eldsneyti.
    Frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 49/1974, um Lífeyrissjóð sjómanna, lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og lögum nr. 38/1954, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti:
        Frumvarp til laga um breytingar á lagaákvæðum á sviði heilbrigði- og tryggingamála vegna aðildar að samningi um Evrópskt efnahagssvæði.

Iðnaðarráðuneyti:
    Frumvarp til laga um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum.
    Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi, og lögum nr. 47/1968, um vörumerki, sbr. og lög nr. 31/1984.
    Frumvarp til laga um staðla.
    Frumvarp til laga um hönnunarvernd.

Landbúnaðarráðuneyti:
    Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 53/1978, um eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum, áburði og sáðvörum og verslun með þær vörur.
    Frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Áburðarverksmiðju ríkisins.*
    Frumvarp til laga um breytingu á jarðalögum, nr. 65/1976, með síðari breytingum, o.fl.*

Menntamálaráðuneyti:
        Frumvarp til laga um gagnkvæma viðurkenningu á menntun ríkisborgara í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og á Norðurlöndum til starfsréttinda á Íslandi.

Samgönguráðuneyti:
    Frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða samgöngumál vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu.
    Frumvarp til laga um breytingar á lögum um fjarskipti, nr. 73/1984.

Sjávarútvegsráðuneyti:
    Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 123 28. desember 1989, um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla, með síðari breytingum.
    Frumvarp til laga um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra.
    Frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Ríkismat sjávarafurða.
    Frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 36 27. maí 1992, um Fiskistofu.

Umhverfisráðuneyti:
    Frumvarp til laga um aðgang að upplýsingum um umhverfismál og upplýsingamiðlun.
    Frumvarp til laga um umhverfismat.
    Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 33 26. apríl 1966, um fuglaveiðar og fuglafriðun, ásamt síðari breytingum, vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Utanríkisráðuneyti:
    Frumvarp til laga um Evrópska efnahagssvæðið.
    Frumvarp til laga um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana o.fl.

Viðskiptaráðuneyti:
    Frumvarp til laga um gjaldeyrismál.
    Frumvarp til laga um innflutning.
    Frumvarp til laga um vog, mál og faggildingu.
    Frumvarp til samkeppnislaga.
    Frumvarp til laga um öryggi framleiðsluvöru.
    Frumvarp til laga um húsgöngu- og fjarsölu.
    Frumvarp til laga um verðbréfasjóði.
    Frumvarp til laga um verðbréfaviðskipti.
    Frumvarp til laga um Verðbréfaþing Íslands.
    Frumvarp til laga um neytendalán.
    Frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum, er varða íslenskt ríkisfang, vegna aðildar að samningi um Evrópska efnahagssvæðið.
    Frumvarp til laga um umboðssöluviðskipti.
    Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34 25. mars 1991.
    Frumvarp til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti.
    Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 9/1978, um geymslufé.*
    Frumvarp til laga um viðskiptabanka og sparisjóði.*

II. EES-frumvörp sem eftir er að leggja fyrir Alþingi (25. nóvember 1992).

    Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit (umhverfisráðuneyti).
    Frumvarp til laga um heimild til að fullgilda Norðurlandasamning um félagslegt öryggi (utanríkisráðuneyti — heilbrigðisráðuneyti).
    Frumvarp til laga um eignarrétt að auðlindum í jörðu (iðnaðarráðuneyti).
    Frumvarp til laga um virkjanarétt fallvatna (iðnaðarráðuneyti).
    Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 46/1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (landbúnaðarráðuneyti).
    Frumvarp til laga um aðrar lánastofnanir en viðskiptabanka og sparisjóði (viðskiptaráðuneyti).*
    Frumvarp til laga um bátaábyrgðarfélög og um breytingu á lögum um Samábyrgð Íslands að fiskiskipum (heilbrigðisráðuneyti).
    Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 68/1985, útvarpslögum (menntamálaráðuneyti).
    Frumvarp til laga um takmarkanir á notkun og losun erfðabreyttra örvera og lífvera (umhverfisráðuneyti).*
    Frumvarp til laga um almannatryggingar (heilbrigðisráðuneyti).
    Frumvarp til laga um vátryggingarstarfsemi (heilbrigðisráðuneyti).
    Frumvarp til laga um val á vátryggingarsamningalögum (heilbrigðisráðuneyti).
    Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 19/1940, almennum hegningarlögum (dómsmálaráðuneyti).
    Frumvarp til laga um fólks- og vöruflutninga á landi (samgönguráðuneyti).
    Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 24/1982, um flutningasamninga og ábyrgð við vöruflutninga á landi (samgönguráðuneyti).
    Frumvarp til laga um stærri hlutafélög (viðskiptaráðuneyti).*
    Frumvarp til laga um smærri hlutafélög (viðskiptaráðuneyti).*
    Frumvarp til laga um samvinnufélög (viðskiptaráðuneyti).*
    Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 51/1968, um bókhald (fjármálaráðuneyti).*

* Aðlögunartími er til 1. janúar 1995.




Fylgiskjal V.

Bréf formanns landbúnaðarnefndar


til utanríkismálanefndar.


(24. nóvember 1992.)



    Landbúnaðarnefnd Alþingis hefur haft til ítarlegrar umfjöllunar málefni landbúnaðarins að því er varðar samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, einkum þó ákvæði bókunar 3 við samninginn sem geymir ákvæði um fríverslun um landbúnaðarafurðir. Þar sem ýmis atriði bókunarinnar þóttu óljós fékk nefndin á fund sinn fulltrúa frá landbúnaðarráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu til umfjöllunar um málið. Fyrstu viðræður við þá fulltrúa leiddu ekki til nægilega skýrrar niðurstöðu að mati nefndarinnar og voru því með bréfi dags. 18. september 1992 lagðar fram skriflegar spurningar til framangreindra ráðuneyta. Með því að svör þau, er nefndinni bárust, dags. 2. október 1992 og 8. október 1992, þóttu enn ekki leiða í ljós hver réttur Íslands samkvæmt bókuninni í rauninni væri var með bréfi dags. 30. október 1992 leitað til Tryggva Gunnarssonar hrl. um lagalega túlkun þessa efnis. Með bréfi dags. 16. nóvember 1992 barst landbúnaðarnefnd sameiginleg álitsgerð undirrituð af fulltrúum fjögurra ráðuneyta, utanríkisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis.
    Lokaumfjöllun nefndarinnar um þetta mál fór fram 24. nóvember 1992 og lagði þá Tryggvi Gunnarsson fram álitsgerð um fyrrgreindan þátt samningsins. Þessi gögn eru hér með send háttvirtri utanríkismálanefnd.

Virðingarfyllst,



Egill Jónsson,


formaður landbúnaðarnefndar.






Fylgiskjal VI.

Greinargerð utanríkisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, iðnaðar- og


viðskiptaráðuneytanna og landbúnaðarráðuneytis um spurningar


landbúnaðarnefndar um bókun 3 við EES-samninginn.


    Landbúnaðarnefnd Alþingis hefur beint ýmsum spurningum til ráðuneytanna varðandi bókun 3 við EES-samninginn. Samningaviðræðum um þá bókun er ekki lokið, en ýmislegt hefur skýrst á undanförnum vikum. Öll ofangreind ráðuneyti hafa komið að þessum samningum. Samningaviðræður um 2.–7. viðbæti hófust á þessu ári og hafa fulltrúar allra ráðuneyta tekið þátt í því starfi frá því í september sl. Að neðan eru sameiginleg svör þeirra við spurningum nefndarinnar.

1.1.    Hvenær má búast við að náð verði samkomulagi um innihald 2.–7. viðbætis?
    Samningum um 2.–7. viðbæti átti að vera lokið fyrir júlíbyrjun en þeir hafa dregist á langinn. Nú er stefnt að samkomulagi fyrir nk. áramót. Á meðan ekki næst samkomulag um bókun 3 í EES-samningnum gildir bókun 2 í fríverslunarsamningnum milli Íslands og EB. Ráðgert er að bókun 3 taki gildi 1. júlí 1993 ef samkomulag næst.

1.2.    Hvert má ætla að verði innihald þeirra (t.d. hvaða hráefni munu falla undir verðjöfnun og hverjar verðviðmiðanir verða)?
    Í 2. viðbæti verður skrá yfir hráefni sem falla undir verðjöfnun. Nokkur þróun hefur orðið í samningagerðinni undanfarið og er ásættanlegt samkomulag um flest atriði fyrir Ísland. Að því er varðar hráefni, sem eru sérstaklega mikilvæg fyrir Ísland, hefur verið samþykkt að egg, kjöt og mjólkurafurðir, þar á meðal mjólkurfita, verði á listanum. Enn er ágreiningur um lágmarkskjötinnihald vöru til þess að verðjafna megi (tekist er á um 1–10%) og ekki er enn frágengið á hvaða hátt verður unnt að fá viðurkenningu á tvenns konar verði á mjólkurfitu (auk eggjahvítu) sem Ísland hefur gert kröfu um.
    Hráefnalistinn í 2. viðbæti eins og hann nú stendur fylgir (fskj. 1).
    Í 6. viðbæti verður listi yfir hráefni sem tilkynnt verður verð á. Í 7. viðbæti verða stuðlar til þess að reikna út verð á þeim hráefnum sem ekki eru talin í 6. viðbæti. Þótt endanleg niðurstaða verði sú að eitthvert hráefni verði ekki á listanum í 6. viðbæti kemur það ekki í veg fyrir að unnt verði að leggja verðjöfnunargjald á það ef hráefnið verður á lista í 7. viðbæti.
    Um viðmiðunarverð segir í 6. gr. bókunar 3: „Tilkynnt [hráefnisverð] skal endurspegla raunverulegt verðlag á yfirráðasvæði samningsaðila. Þetta skal vera það verð sem vinnsluiðnaður greiðir yfirleitt á heildsölu- eða framleiðslustigi. Ef hráefni úr landbúnaði er fáanlegt til vinnsluiðnaðar, eða einhverrar greinar hans, á lægra verði en á innanlandsmarkaði skal laga tilkynninguna til samræmis við það.“
    Samkvæmt þessari grein verður almenna reglan sú að raunveruleg hráefnisverð verða tilkynnt EES-nefndinni og hún staðfestir þau. Eins og samningar standa nú er gert ráð fyrir að í þeim tilvikum þegar raunveruleg hráefnisverð eru ekki fáanleg megi nota svonefnd stofnanaverð.
    Nánar er fjallað um samningsstöðuna í meðfylgjandi frásögn af sérfræðingafundi um verðjöfnunarkerfi 9.–10. nóvember sl. (fskj. 2) og í símbréfi frá sendiráðinu í Brussel nr. 608F, dags. 12. nóvember 1992 (fskj. 3).

1.3.    Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar af hálfu ríkisstjórnarinnar til að tryggja hagsmuni Íslands í samningum um 2.–7. viðbæti?
    Ríkisstjórninni ber að gæta hagsmuna allra viðkomandi aðila í þessu sambandi, svo sem neytenda, ríkissjóðs, iðnaðarins og landbúnaðarins. Til þess að tryggja þessa hagsmuni hafa sérfræðingar utanríkisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytanna, landbúnaðarráðuneytisins og Framleiðsluráðs landbúnaðarins sótt sérfræðingafundi þar sem fjallað er um 2.–7. viðbæti. Þessir fulltrúar hafa haft samráð við hagsmunaaðila utan stjórnkerfisins eins og kostur er.

2.    Nær verðjöfnun á hráefni samkvæmt samningnum einvörðungu til framleiðslukostnaðar hjá bændum eða kemur hlutur vinnslustöðva einnig til verðjöfnunar?
    Hlutur vinnslustöðva kemur einnig til verðjöfnunar á þeim hráefnum sem verða á listanum í 2. viðbæti. Um þetta er fjallað í 6. gr. bókunar 3. Sjá svar við spurningu 1.2.

3.1.    Textinn skýrir ekki rétt til verðjöfnunargjalda gagnvart þeim vörum sem innflutningsbann hefur hvílt á fyrir samningsgerðina og er því umdeildur.
    Íslensk stjórnvöld eru sammála um túlkun textans og framkvæmd samningsins. EB hefur ekki mótmælt þeirri túlkun að Ísland geti ýmist haldið núgildandi innflutningsbönnum eða lagt full verðjöfnunargjöld á allar vörur sem innflutningsbann hefur hvílt á eins og nánar er útskýrt í svari við næstu spurningu.
    Þessi skilningur varðandi beitingu jöfnunargjalda var staðfestur á ríkisstjórnarfundi 11. ágúst 1992. Landbúnaðarráðherra gaf út sérstaka yfirlýsingu f.h. ríkisstjórnarinnar um framkvæmdina (sjá fskj. 4). Sjá enn fremur frumvarp til laga um Evrópska efnahagssvæðið, lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992, bls. 86–87. Einnig vísast í minnisblað samningamanna um fund með framkvæmdastjórn EB 4. desember 1991 (fskj. 5).

3.2.    Nauðsynlegt er að skýrt verði nákvæmlega hvaða verndar þessar vörur eigi að njóta.
    Einu vörurnar sem EES-samningurinn opnar fyrir innflutning á umfram það sem gildir í dag eru eftirtaldar vörur. Á þær má leggja óheft verðjöfnunargjöld:
0403.10         Jógúrt, bragðbætt eða með ávöxtum, hnetum eða kakói.
0403.90        Vissar sýrðar mjólkurafurðir bragðbættar með ávöxtum, hnetum eða kakói.
1517.10        Smjörlíki sem inniheldur meira en 10% en þó ekki meira en 15% af mjólkurfitu miðað við þunga.
1517.90        Aðrar olíublöndur sem innihalda meira en 10% en þó ekki meira en 15% af mjólkurfitu miðað við þunga.
    Enn fremur er heimilt að leggja óheft verðjöfnunargjöld á vörur í eftirgreindum tollflokkum sem ekki hefur verið innflutningsbann á, þ.e. á allar þær vörutegundir í töflu 1 í bókun 3 sem skipta Ísland einhverju máli. Þær eru:

1806 Súkkulaði o.fl.
1901 Maltkjarni o.fl.
1902 Pasta o.fl.
1905 Brauð o.fl.
2007 Sulta o.fl.
2103 Sósur o.fl.
2104 Súpur o.fl.
3.3.    Nauðsynlegt er að skýrt verði  . . .  hvar í samningsgerðinni sé að finna ákvæði er tryggi hagsmuni Íslands í þessum efnum.
    Réttur Íslands til þess að beita óheftum verðjöfnunargjöldum á ofangreinda vöruflokka kemur fram í 1. mgr. 2. tölul. 5. gr. 1. viðbætis við bókun 3. Hún hljóðar svo:
    „Að því er Ísland varðar skal það hámark verðjöfnunarfjárhæða, sem lagðar eru á við innflutning og gert er ráð fyrir í 9. gr. bókunarinnar, ekki gilda um Ísland vegna vara í ST-nr. 0403, 1517, 1806, 1901, 1902, 1905, 2007, 2103, 2104.“
    9. gr. bókunar 3 hljóðar svo:

„Hámark verðjöfnunarfjárhæða.


    Samningsaðili skal ekki leggja á framleiðsluvöru frá öðrum samningsaðila breytilegt verðjöfnunargjald sem er hærra en sá tollur eða fastagjald sem hann lagði á viðkomandi vöru samningsaðilans 1. janúar 1992. Þetta hámark á einnig við hafi tolli eða fastagjaldi verið stýrt með tollkvóta en ekki hafi viðkomandi vara heyrt undir verðjöfnunaraðgerðir 1. janúar 1992, auk tollsins eða fastagjaldsins.“
    Því hefur verið haldið fram að ekki sé heimilt að banna innflutning á rjómaís með kakóinnihaldi vegna ákvæða bókunar 2 við fríverslunarsamninginn frá 1972, 120. gr. EES-samningsins og 11. gr. bókunar 3. Þetta er á misskilningi byggt. Ívitnaðar greinar (120. gr. og 11. gr.) eru almenn ákvæði, en 1. tölul. 5. gr. 1. viðbætis við bókun 3, sbr. 13. gr. bókunar 3, er sérákvæði. 13. gr. bókunar 3 hljóðar svo:
    „Í 4.–6. gr. 1. viðbætis er fjallað um sérstakt fyrirkomulag vegna Austurríkis, Finnlands, Íslands og Noregs.“
    Samkvæmt almennum túlkunarreglum ganga sérreglurnar fyrir hinum almennu ef þær stangast á. Samkvæmt 13. gr. gildir slík sérregla um fyrirkomulag vegna Íslands og ganga ákvæði hennar því fyrir.

3.a.1.    Tekur takmörkunarákvæði 2. mgr. 2. tölul. 5. gr., sem er undanþága Íslands frá ákvæðum 9. gr., til þeirra vara sem falla undir þau tollnúmer sem eru tilgreind í 1. mgr. töluliðarins?
    Nei. Íslensk stjórnvöld eru sammála um að svo sé ekki og telja reyndar engan vafa leika á því þótt orðalag ákvæðisins hefði mátt vera skýrara. Sjá svar við spurningu 3.2.

3.a.2.    Sé svo ekki, hvert er samhengi þessara tveggja málsgreina?
    Síðari málsgreinin tekur til allra tollnúmera í töflu 1 við bókun 3 nema tollnúmera í fyrri málsgreininni (og tollnúmera í 1. tölul.). Sjá svar við spurningu 3.2.

3.b.1.    Taka takmörkunarákvæði 2. mgr. [2. tölul. 5. gr.] í texta undanþágunnar frá 9. gr. til annarra tollnúmera en eru talin upp í 1. mgr. og þá til hverra?
    Já. Sjá svar við spurningu 3.2.

3.b.2. Sé svo ekki, við hvað á þá texti 2. mgr. 2. tölul.?
    Á ekki við. Sjá svar við spurningu 3.2.

3.c.    Hvaða áhrif hafa ákvæði um takmarkanir á töku verðjöfnunargjalda, sem felast í 9. gr. [bókunar 3] og 5. gr. [1. viðauka], á möguleika Íslands til að beita fullum verðjöfnunargjöldum skv. 2., 6. og 8. gr. í bókun 3?
    Ákvæði 9. gr. bókunar 3 og 2. mgr. 2. tölul. 5. gr. 1. viðbætis við bókun 3 takmarka möguleika Íslands til að beita fullum verðjöfnunargjöldum þannig að þau gjöld mega ekki vera hærri á þeim vörum sem taldar eru upp í töflu 1 en aðflutningsgjöld voru á þeim árið 1991, að undanskildum þeim vörum sem taldar eru upp í 1. mgr. 2. tölul. 5. gr. (og 1. tölul. 5. gr. 1. viðbætis). Hámark verðjöfnunargjalda á þessum vörum verður:

Vöruflokkur     Vöruheiti
Hámark (%)


0710.40     Sykurmaís (maískorn)
30,00

0711.90     Sykurmaís (maískorn)
30,00

1302.20     Pektínefni, pektínöt og peköt
0,00

1702.50     Kemískt hreinn ávaxtasykur (frúktósi)
0,00

1704     Sætindi án kakóinnihalds
36,25

1903.0001     Tapíókamjöl o.s.frv., 5 kg umbúðir eða minni
100,00

1903.0009     Tapíókamjöl — stærri umbúðir
50,00

1904     Matvæli úr belgdu eða steiktu korni eða kornvörum
20,00

2001.90     Sykurmaís
0,00

2004.10     Kartöflumjöl
120,00

2004.90     Sykurmaís
0,00

2005.20     Kartöflumjöl
100,00

2005.80     Sykurmaís
0,00

2008.11     Hnetusmjör
5,00

2008.92     Blöndur að meginstofni úr korni
0,00

2008.99     Maís
0,00

2101.10, 20
  og 30     Kjarnar, kraftur og seyði úr kaffi, te o.s.frv.
5,00

2102.10 og 20    Ger
0,00

2102.30     Bökunarduft
5,00

2106.1000     Próteinseyði og textúruð próteinefni
0,00

2106.9011    Ávaxtasafi, ógerjaður og ósykraður, í 50 kg umbúðum
              eða stærri
31,25

2106.9019     Ávaxtasafi, ógerjaður og ósykraður í öðrum umbúðum
36,25

2106.9021     Áfengislaus efni til framleiðslu á drykkjarvörum
31,25

2106.9029     Önnur efni til framleiðslu á drykkjarvörum
36,25

2106.9031, 
  9039     Búðingsduft
5,00

2106.9041     Sælgæti sem hvorki inniheldur sykur né kakó
36,25

2106.9042     Ávaxtasúpur og grautar
5,00

2106.9049     Annað
0,00

2203.0001     Öl með meira en 0,5% til og með 2,25% vínanda að rúmmáli.
36,25

2203.0009     Annað
0,00

2205     Vermút og annað vín úr nýjum þrúgum o.s.frv.
0,00

2206.50 og 90     Gin og genever og líkjörar o.s.frv.
0,00

2209     Edik og edikslíki fengið úr ediksýru
0,00

2095.43 og 44     Mannitól og sorbítól
0,00

3505     Dextín, önnur umbreytt sterkja og þess háttar
0,00

3809.10     Áferðar- og íburðarefni o.s.frv.
0,00

3823.60     Sorbítól
0,00


    Hefðu niðurgreiðslur tíðkast á þessum vörum á árinu 1991 mætti við afnám þeirra eða lækkun hækka verðjöfnun sem því nemur.

3.d.1.    Eftir hverju fer það hámark verðjöfnunarfjárhæða sem er ákveðið með takmörkunum skv. 9. gr. eða eftir 5. gr. 1. viðbætis?
    Hámark verðjöfnunarfjárhæða er samanlögð aðflutningsgjöld (og niðurgreiðslur) á árinu 1991 sem fyrr segir.
    Rétt er að benda á að með tilkomu bókunar 3 verður verð á landbúnaðarvörum erlendis miðað við lægsta EES-verð en ekki heimsmarkaðsverð eins og verið hefur. Þetta gerir það að verkum að verðjöfnunargjöld á innfluttum vörum frá EES-ríkjum lækka sem þessu nemur, í sumum tilfellum allt að 60–70%. Um þetta er fjallað í 8. gr. bókunar 3 sem hljóðar svo: „Verðjöfnunarfjárhæð hvers hráefnis skal ekki vera hærri en sem nemur muninum á innlendu viðmiðunarverði og lægsta viðmiðunarverði hjá nokkrum samningsaðila.“
    Verðjöfnunargjald á unnar landbúnaðarafurðir reiknast því sem mismunur landbúnaðarhráefnisverðs að teknu tilliti til magns hráefnis í viðkomandi afurð.
    Þá er enn fremur rétt að fram komi að ekki er gert ráð fyrir að verðjöfnunargjald geti orðið hærra en sem nemur hámarki gjalda sem Ísland hefur skuldbundið sig til að nota samkvæmt ákvæðum í gildandi GATT-samningi.

3.d.2.    Er það bundið í krónutölu eða sem hlutfall af verði?
    Sem hlutfall af verði, þ.e. þeirri prósentutölu aðflutningsgjalda sem lagðist á tollverð þessara vara á árinu 1991.

3.d.3.    Verða þau jöfnunargjöld verðtryggð sem ákvarðast af hámarki sem tiltekin krónutala?
    Engin jöfnunargjöld takmarkast af krónutölu. Sjá næsta svar á undan við spurningu 3.d.2 og heildarlista í svari við spurningu 3.c.

4.a.    Hindrar undanþáguákvæði 5. gr. bókunar 3 innflutning á ís til manneldis eða verður hann heimill með tilvísun til bókunar 2?
    Undanþáguákvæði 1. tölul. 5. gr. 1. viðbætis við bókun 3 hindrar innflutning á ís til manneldis. Hægt er að beita innflutningsbanni með vísun í það ákvæði eins og fyrr segir.

4.b.1. Hvernig ber að túlka 9. gr. bókunar 3 og 2. tölul. 5. gr. 1. viðbætis við bókun 3?
    Túlkun þessara ákvæða hefur verið lýst hér að ofan.

4.b.2.    Hver má ætla að lagalegur réttur Íslands sé ef til ágreinings kemur um skilning aðila á tilgreindum ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið?
    Eftirfarandi möguleikar eru fyrir hendi samkvæmt EES-samningnum:
    EB getur tekið málið upp í sameiginlegu EES-nefndinni, skv. 111. gr. EES-samningsins. Ef ekki næst samkomulag þar getur
    EB, fræðilega séð, tekið málið upp í EES-ráðinu skv. 89. gr. EES-samningsins. Ef ekki næst samkomulag, hvorki í EES-nefndinni eða EES-ráðinu, hefur EB engin önnur úrræði samkvæmt samningnum en að
    beina málinu til Eftirlitsstofnunar EFTA. Sama á við um EFTA-ríkin og einkaaðila, en Eftirlitsstofnunin ræður því hvort hún tekur málið upp. Ef samkomulag næst ekki getur stofnunin borið málið undir EFTA-dómstólinn. Niðurstaða hans yrði bindandi fyrir Ísland.
    EFTA-ríki getur borið málið upp í fastanefnd EFTA. Ef ekki næst samkomulag þar getur
    EFTA-ríki borið þetta mál upp við EFTA-dómstólinn, þótt ólíklegt sé að sú leið verði farin. Niðurstaða hans yrði bindandi fyrir Ísland.
    Einkaaðili á Íslandi gæti höfðað mál fyrir íslenskum dómstólum. Dómstólunum ber hins vegar að fara að íslenskum lögum, en bókun 3 verður ekki lögfest. Stefnandi yrði því að byggja á meginmáli EES-samningsins, t.d. 8. gr. samningsins og 3. gr. EES-frumvarpsins, ef samþykkt verður, sem kveður á um að skýra beri lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Dómstólar geta hins vegar ekki dæmt gegn skýrum vilja löggjafans.

Reykjavík, 16. nóv. 1992.



Fyrir utanríkisráðuneytið,

Fyrir fjármálaráðuneytið,

Fyrir iðnaðarráðuneytið,


Gunnar Snorri Gunnarsson.

Indriði H. Þorláksson.

Baldur Pétursson.



Fyrir landbúnaðarráðuneytið,


Guðmundur Sigþórsson.






Fylgiskjal VII.


Bréf formanns landbúnaðarnefndar


til Tryggva Gunnarssonar hrl.


(30. október 1992.)



    Landbúnaðarnefnd Alþingis hefur að undanförnu fjallað um bókun 3 með samningi um Evrópska efnahagssvæðið en þar er að finna ákvæði um fríverslun með landbúnaðarafurðir.
    Þar sem ýmis atriði bókunarinnar eru óljós leitaði landbúnaðarnefnd Alþingis álits utanríkisráðuneytisins og landbúnaðarráðuneytisins um þau atriði með beiðni um nánari skýringar. Svör ráðuneytanna reyndust ekki fullnægjandi og er því spurst fyrir um eftirfarandi atriði:

a. Vörur sem eru undanþegnar samningnum.
    Í núgildandi fríverslunarsamningi milli Íslands og EB er kveðið á um fríverslun með rjómaís og annan ís til manneldis (S.T. nr. 2105). Í 11. gr. bókunar 3 segir að ákvæði bókunar 2 haldi gildi hvað varðar þær vörur er bókun 3 nær ekki til.
     Með því að rjómaís og annar ís með kakóinnihaldi fellur undir ákvæði bókunar 2 í núgildandi fríverslunarsamningi er óskað álits yðar á hvort undanþáguákvæði 5. gr. bókunar 3 hindri innflutning á ís til manneldis eða hvort innflutningur verður heimill með tilvísan til bókunar 2.

b. Vörur sem eru undanþegnar 9. gr. bókunar 3.
    Í 9. gr. bókunar 3 er tekið fram að jöfnunargjald megi ekki fara fram úr því hámarki tolla og fastagjalds sem lagt var á 1. janúar 1992 milli landanna. Í 2. tölul. 5. gr. 1. viðbætis eru tilgreindir 9 tollflokkar sem skulu vera undanþegnir ákvæðum þessarar greinar. Samkvæmt skýringum utanríkisráðuneytisins er Íslandi heimilt að leggja á tilteknar vörur í þessum tollflokkum full verðjöfnunargjöld þrátt fyrir að undir þessum tölulið sé jafnframt tekið fram að upphæð aðflutningsgjalda, sem lögð eru á við landamærin, skuli þó aldrei vera hærri en það sem Íslands leggur á innflutning frá nokkrum samningsaðila árið 1991.
     Spurt er: Hvernig ber að túlka þennan texta og hver má ætla að lagalegur réttur Íslands sé ef til ágreinings kemur um skilning aðila á tilgreindum ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Virðingarfyllst

,

Egill Jónsson,


formaður landbúnaðarnefndar Alþingis.






Fylgiskjal VIII.


Kaflar úr álitsgerð Tryggva Gunnarssonar hrl. til


landbúnaðarnefndar Alþingis um túlkun á tilteknum


ákvæðum bókunar 3 með EES-samningnum.


(23. nóvember 1992.)



    Í samræmi við reglu 120. gr. EES-samningsins er það niðurstaða mín miðað við fyrirliggjandi gögn og upplýsingar að 1. tölul. 5. gr. 1. viðbætis við bókun 3 í EES-samningnum gangi framar ákvæðum bókunar 2 í fríverslunarsamningi Íslands og EB varðandi rjómaís með kakóinnihaldi. Samkvæmt þessu fær Ísland rýmri heimild með tilkomu EES-samningsins til að setja innflutningstakmarkanir á rjómaís og annan ís til manneldis sem inniheldur kakó en Ísland hefur nú samkvæmt fríverslunarsamningi Íslands og EB.
    Eins og tekið er fram í lokamálslið 1. tölul. 5. gr. viðbætisins er þetta þó bráðabirgðafyrirkomulag sem samningsaðilunum ber að taka til endurskoðunar fyrir árslok 1998.
    Þótt með þessu sé verið að þrengja viðskiptafrelsi í samskiptum þessara aðila frá því sem ýtrasta túlkun á gildandi fríverslunarsamningi milli aðilanna ætti að leiða til og slík niðurstaða sé almennt í mótsögn við meginmarkmið EES-samningsins um aukið frelsi á þessu sviði girðir það ekki fyrir að samningsaðilar komi sér saman um einstakar undantekningar í því efni. Það getur hins vegar leitt til þess að ágreiningur rísi um túlkun á slíkum ákvæðum og ef þau skýra sig ekki sjálf verður sá sem heldur fram þrengingu á fyrra viðskiptafrelsi að sýna fram á að slíka reglu sé að finna í samningum aðila. Þá kunna lýsingar aðila og gögn um tilurð ákvæða í samningum þeirra að skipta máli sem og venjur við skýringar á slíkum milliríkjasamningum og framsetning hliðstæðra ákvæða í þeim samningi sem um er deilt. Á móti kemur síðan að með umræddri undanþágu í EES-samningnum er Ísland að fá staðfestingu á framkvæmd sem viðgengist hefur og EB hefur ekki andmælt.

*



    Þegar höfð er hliðsjón af markmiði þessa undanþáguákvæðis, eins og því er lýst af hálfu Íslands, verður ekki annað séð en það hefði þjónað litlum sem engum tilgangi ef eingöngu átti að miða við gjöld á árinu 1991 í stað 1. janúar 1992 varðandi umrædda níu vöruflokka. Munurinn var í raun aðeins jöfnunargjald upp á eitt prósentustig í hluta af þessum vöruflokkum. Það er almennt ekki trúverðugt að sá litli munur hafi orðið tilefni undanþáguákvæðis af þessu tagi. Með bókun 3 er m.a. verið að kveða á um fríverslun með ákveðna vöruflokka sem höfðu verið háðir innflutningstakmörkunum hér á landi. Sett er sú almenna regla að hámark verðjöfnunargjalda skuli miðast við álagða tolla og fastagjald á tilteknum tímapunkti. Án sérstaks fyrirvara af hálfu Íslands eða almenns ákvæðis í samningnum um sérstaka viðmiðun, þegar innflutningsbann hefur verið í gildi, hefði þetta leitt til þess að ekki var heimilt að leggja verðjöfnunargjald á vörur sem háðar voru innflutningsleyfi en áttu að bera 0% gjöld ef leyfi hefði fengist.
    Þegar allt það sem rakið hefur verið hér að framan er virt er það niðurstaða mín að komi til ágreinings um túlkun umrædds ákvæðis séu líkur á að Ísland geti fært fram nægjanleg rök til þess að túlkun byggð á lögskýringarsjónarmiðinu eðli máls gangi framar beinu orðalagi við túlkun á lokamálslið 5. gr. 1. viðbætis við bókun 3. Í samræmi við þessa niðurstöðu tekur sú viðmiðun aðflutningsgjalda, sem fram kemur í lokamálsliðnum, ekki til hámarks verðjöfnunarfjárhæða á þeim sérgreindu níu vöruflokkum sem um er fjallað í 2. tölul. Lokamálsliðurinn á hins vegar við aðrar vörur sem tilgreindar eru í töflu I og eru undir verðjöfnunarkerfinu.
    Hvað varðar ákvörðun verðjöfnunarfjárhæða, sem lagðar eru á við innflutning á vörum í hinum níu sérgreindu vöruflokkum samkvæmt 2. tölul 5. gr. 1. viðbætis, gilda ákvæði bókunar 3 að undanskildri 9. gr. Það er markmið þessarar verðjöfnunar að mæta þeim mismun, sem er á kostnaði við þau hráefni úr landbúnaði sem notuð eru í umræddar vörur, í samningsríkjunum. Verðjöfnunargjöldin eru því lögð á til að gera innlenda framleiðendur jafnsetta gagnvart innflutningi á sömu vöru frá hinum samningsríkjunum. Þó að formlega sé ekki í samningnum kveðið á um hámark verðjöfnunarfjárhæða á þeim níu vöruflokkum, sem tilgreindir eru í 2. tölul. 5. gr. 1. viðbætis, verður að telja að í því efni sé Ísland bundið við að ákveða ekki hærri verðjöfnunargjöld en færa má málefnaleg rök fyrir að þörf sé á til að mæta mismun á kostnaði við umrædda hráefnisþætti hér innan lands og í hinni innfluttu vöru frá EES-ríkjunum. Þarna er því ekki um að ræða heimild til að nota verðjöfnunargjöldin sem „tolla“ umfram það sem nauðsynlegt er til að jafna samkeppnisaðstöðu innlends iðnaðar.
    Það skal að síðustu tekið fram að þau atriði EES-samningsins, sem hér er fjallað um, eru ekki jafn glögg og greinileg og þörf hefði verið á til að taka af allan vafa um túlkun þeirra. Undirritaður hefur ekki haft aðstöðu til að kynna sér nema að takmörkuðu leyti gögn og vinnuskjöl um tilurð 5. gr. 1. viðbætis við bókun 3. Þá hef ég ekki kynnt mér hvaða afstöðu EB eða þeir sem stóðu að samningum um þetta atriði af þeirra hálfu hafa til túlkunar á þessum ákvæðum. Niðurstöður mínar eru því byggðar á þeim gögnum sem ég hef haft aðgang að, og ný gögn og skýringar kunna því hugsanlega að leiða til annarrar niðurstöðu. Sérstaklega á þetta við varðandi svör við síðari spurningunni.




Fylgiskjal IX.


Sjávarútvegsráðuneyti:

M I N N I S A T R I Ð I


Áhrif samnings um Evrópska efnahagssvæðið á íslenskan sjávarútveg.


(22. október 1991.)



1.     Markaðsaðgangur.
    Íslendingar hafa notið tollfríðinda við innflutning á sjávarafurðum til Evrópubandalagsins á grundvelli bókunar 6 í fríverslunarsamningi milli Íslands og EB frá 1972. Á grundvelli bókunar 6 hafa nálægt 60% af sjávarvöruútflutningi okkar til bandalagsins notið tollfrelsis. Á undanförnum árum hefur mikilvægi Evrópubandalagsmarkaðarins farið vaxandi en jafnframt hefur gildi bókunar 6 rýrnað vegna breyttra aðstæðna við stækkun bandalagsins og framfara í flutningstækni. Á árinu 1990 voru greiddar um 2.100 m.kr. í tolla vegna innflutnings íslenskra sjávarafurða til Evrópubandalagsins. Samkvæmt samningunum um Evrópskt efnahagssvæði verður veruleg breyting á þessu. Langstærstur hluti tolla af sjávarafurðum fellur niður, tæp 76% núverandi tollgreiðslna falla niður strax við gildistöku samningsins 1. janúar 1993 en þegar tollalækkanir verða komnar að fullu til framkvæmda 1. janúar 1997 verða tæplega 90% af núverandi tollgreiðslum niður fallnar (hvort tveggja miðað við samsetningu útflutnings 1990, sjá meðfylgjandi töflu). Samkvæmt því lækka árlegar tollgreiðslur um tæpar 1.900 m.kr. eftir að samningurinn hefur komið að fullu til framkvæmda. Ekki varðar minna að niðurfelling tolla ætti að geta skapað nýja möguleika til vöruþróunar og markaðssóknar á ýmsum sviðum þar sem tollmúrar hafa hingað til verið þrándur í götu þróunar.
    Af mörgum mikilvægum afurðum eru tollar felldir niður með öllu strax frá gildistöku samningsins 1. janúar 1993. Ber þar fyrst og fremst að nefna saltaðan þorsk og öll söltuð flök en tollar af þessum vörum voru tæplega 1 milljarður vegna útflutnings á árinu 1990 eða tæp 50% af heildartollgreiðslum vegna útflutnings okkar til EB á því ári. Þá falla niður tollar af ferskum þorski, ýsu og ufsaflökum en tollgreiðslur af þessum afurðum voru um 250 m.kr. á árinu 1990 eða tæp 12% af heildartollgreiðslum okkar. Hér er þó meira um vert að með niðurfellingu þess 18% tolls, sem á þessar vörur hefur verið lagður, opnast nýir og mikilvægir möguleikar til verkunar og útflutnings á ferskum unnum sjávarafurðum sem skila háu verði. Sömu áhrif hefur niðurfelling tolls á söltuð síldarflök. Hár tollur hefur hingað til að mestu komið í veg fyrir útflutning á þennan markað en vegna sviptinga í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu er brýnt að afla nýrra markaða fyrir saltsíldariðnaðinn. Þá falla frá 1. janúar 1993 niður tollar af skreið (þurrkuðum þorski) en af þeim útflutningi voru greiddar um 70 m.kr. í toll á árinu 1990. Að auki fellur strax niður tollur af ferskri og frosinni lúðu og grálúðu og flökum af þessum tegundum samtals um 85 m.kr. Þá fellur niður tollur af ferskum og heilfrystum þorski, ýsu og ufsa.
    Af öllum öðrum sjávarafurðum en þeim sem tollar verða felldir niður af að fullu og þeim sem fjallað er um í næstu málsgrein lækka tollar í árlegum áföngum um 70% á fimm árum talið frá og með 1. janúar 1993. Að aðlögunartímabilinu loknu verða því einungis eftir 30% af núverandi tollum á þessum vöruflokkum. Eins og áður sagði leiðir þessi lækkun til að núverandi tollagreiðslur lækka um 14% til viðbótar þeirri 76% lækkun sem verður 1. janúar 1993. Frá ársbyrjun 1997 verða tollar af sjávarafurðum, innfluttum til bandalagsins því aðeins um 10% af núverandi tollum.
    Örfáar sjávarafurðir njóta engra tollalækkana samkvæmt samningnum. Eru það tegundir sem Efnahagsbandalagið telur sérstaklega viðkvæmar en þeirri afstöðu varð ekki haggað í samningaviðræðum við bandalagið varðandi þessar tegundir. Það sem Íslendinga skiptir máli í þessu efni er humar, síld, önnur en söltuð síldarflök, og lax. Þegar á heildina er litið er mikilvægi þessara tegunda í útflutningi á markað Evrópubandalagsríkjanna þó svo hverfandi að tollar á þeim ráða ekki úrslitum þegar gildi samningsins í heild er metið. Tölurnar tala þar sínu máli. Eftir að samningurinn verður að fullu kominn til framkvæmda verða niður fallnir um 90% af heildartollum sem nú eru greiddir af sjávarafurðum okkar við útflutning til bandalagsins. Ákvæði bókunar 6 munu halda gildi sínu og samanlagt munu þessir samningar tryggja okkur niðurfellingu á 95–96% af sjávarafurðatollum EB.

2.     Fjárfestingar.

    Samkvæmt samningnum geta Íslendingar haldið núverandi ákvæðum varðandi fjárfestingar og eignarhald erlendra aðila í sjávarútvegi. Samkvæmt lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri frá 1990 mega íslenskir ríkisborgarar sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðilar, sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara, einir stunda fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Þar eru sett sömu skilyrði fyrir því að aðili megi eiga og reka fyrirtæki á Íslandi til vinnslu sjávarafurða.

3.     Gagnkvæmar veiðiheimildir.
    Í tengslum við samningana um Evrópskt efnahagssvæði verður gerður tvíhliða samningur milli Íslands og Evrópubandalagsins um samstarf á sviði sjávarútvegsmála. Flest efnisákvæði slíks samnings liggja fyrir en endanlega verður gengið frá samningnum síðar, líklega ekki fyrr en á næsta ári. Þar verður kveðið á um vísindasamstarf, nýtingu sameiginlegra stofna (kolmunna) og skipti á gagnkvæmum jafngildum veiðiheimildum. Er gert ráð fyrir að árlega verði gert sérstakt samkomulag á grundvelli slíks rammasamnings. Við það er miðað að Efnahagsbandalagsþjóðir fái heimild til veiða á 3.000 karfaígildistonnum við Ísland en í staðinn fái íslensk skip heimild til að veiða u.þ.b. 30.000 tonn af þeim hluta loðnukvótans sem Evrópubandalagið hefur samið um að fá frá Grænlendingum. Af hálfu Íslands hefur verið lagt til að 70% af veiðiheimildum bandalagsríkjanna verði langhali en 30% karfi. Eftir er að ganga endanlega frá samningum að þessu leyti en bandalagið hefur látið í ljós ósk um að veiða einungis karfa. Þar sem vitneskja um útbreiðslu og afrakstursgetu langhalastofnsins er af skornum skammti er ljóst að auka þarf rannsóknir verulega á þessu sviði. Gert er ráð fyrir að einstök skip Efnahagsbandalagsríkjanna sæki fyrir fram um leyfi til þessara veiða og að slíkt leyfi verði aðeins veitt takmörkuðum fjölda skipa. Skipin yrðu bundin við fyrir fram ákveðin takmörkuð veiðisvæði og veiði yrði aðeins heimil á tilteknum tíma ársins (síðari hluta árs). Um veiðarnar gilda almennar íslenskar reglur varðandi möskvastærð, lokun veiðisvæða o.s.frv. Skipunum verður gert að tilkynna sig til Landhelgisgæslu er þau sigla inn í íslenska lögsögu og yfirgefa hana. Gert er ráð fyrir að um borð í skipunum verði að jafnaði íslenskur veiðieftirlitsmaður á kostnað útgerðar skipsins. Leyfi mun ekki verða veitt til skipa er vinna aflann um borð. Veiðar íslenskra skipa á loðnu, sem í þeirra hlut fellur, munu fara eftir íslenskum reglum og ákvæðum þríhliða samnings milli Íslands, Grænlands og Noregs um loðnuveiðar. Samkvæmt núgildandi ákvæðum gætu íslensk skip veitt þennan loðnukvóta hvort sem væri í íslenskri lögsögu eða lögsögu við Grænland eða Jan Mayen.




Fylgiskjal X.


Hannes Hafstein:

Greinargerð um söltuð síldarflök í EES-samningi.


(20. febrúar 1992.)



    Tollflokkur CN 0305 30 90 fellur undir töflu II í viðauka 2 við bókun 9 með samningi um EES og verður þar með tollfrjáls við gildistöku samningsins. Undir þennan tollflokk falla m.a. söltuð síldarflök og er það atriði staðfest af hálfu Evrópubandalagsins, sbr. hjálagt bréf sjávarútvegsdeildar EB, dags. 14. nóvember 1991 (fskj. 1).
    Nákvæm skilgreining á því hvað falli undir einstök tollskrárnúmer er víðtækara mál en svo að um það sé yfirleitt samið í viðskiptasamningum milli einstakra ríkja eða ríkjasamtaka. Tollasamvinnuráðið (Customs Cooperation Council) er sá alþjóðavettvangur þar sem sú vinna er framkvæmd og hafa verið gefnar út víðtækar skilgreiningar og leiðbeiningar um tollaflokkanir á vegum ráðsins.
    Nokkrar vísbendingar um flokkun einstakra tegunda saltsíldarflaka með aukefnum er að finna í útgefnum leiðbeiningum Tollasamvinnuráðsins (fskj. 2), „Harmonized Commodity Description and Coding System, Explanatory Notes“. Í skýringum við kafla 03.05. segir m.a.: „The salt used in the preparation of fish, salted or in brine, may contain added sodium nitrite or sodium nitrat. Small quantity of sugar may be used in the preparation of salted fish without affecting the classification of the fish in this heading.“ Síðar í skýringum Tollasamvinnuráðsins stendur:
     „The heading does not cover:
    (a) Cooked fish (subject to the above provisions regarding smoked fish) and fish prepared in any other way, for example preserved in oil or vinegar or in a marinade, and caviar substitutes (heading 16.04).“
    Síldarútvegsnefnd, sem flokkar söltuð síldarflök eftir mismunandi framleiðsluaðgerðum, vill að eftirtalin flök, við innflutning til EB-ríkja, flokkist undir tollflokk CN 0305 30 90 og njóti þannig tollfrelsis.

    Saltflök
        — léttsöltuð          saltinnihald
7–10%

        — millisöltuð                "
10–13%

        — harðsöltuð                "
13–16%

    Sykurflök                     " 10–13%     sykurinnihald
1–3,5%
    Kryddflök                     " 10–13%          "
1–3,5%
    Edikflök                     " 4–8%     edikinnihald
0,5–2,5%

    Í byrjun desember 1991 leitaði sendiráðið í Brussel eftir áliti skrifstofu Tollasamvinnuráðsins á tollskrárflokkun saltsíldarflaka samkvæmt framangreindri lýsingu Síldarútvegsnefndar og fylgir það álit, dags. 12. desember 1991, hér með (fskj. 3). Samkvæmt því telur skrifstofa ráðsins rétt að flokka saltflökin, sykurflökin og kryddflökin undir 0305 (og þar með yrðu þau tollfrjáls í EES). Á hinn bóginn telur skrifstofan rétt, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, að flokka edikflök undir tollskrárflokk 16.04. Sá tollflokkur er utan EES-samnings að því er síld varðar, en hins vegar njóta íslensk edikflök þá tollívilnunar við innflutning til EB á grundvelli bókunar nr. 6, þ.e. 10% í stað 20%, en sú bókun gildir áfram jafnhliða EES-samningi.
    Í samningaviðræðunum um EES afhenti aðalsamningamaður Íslands aðalsamningamanni EB drög að bréfi, sem hann lagði ríka áherslu á að fá frá bandalaginu, til staðfestingar á því að aðilar væru sammála um að túlka bæri tollflokk nr. 0305 30 90 í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði svo að allar framangreindar tegundir saltsíldarflaka féllu þar undir.
    Í framhaldi af viðræðum og könnun á þessu máli innan framkvæmdastjórnar EB voru svör samningamanna EB þau að hér virtist ekki um raunverulegt vandamál að ræða og að tollyfirvöld í aðildarríkjum EB virtust ekki túlka þessi mál á andstæðan hátt við álit síldarútvegsnefndar. Endurskoðun væri í gangi á nákvæmari tollfokkun einstakra vörutegunda með tilliti til notkunar aukefna. Þar eð þessi væri staða mála væri það eindregið ráð samningamanna EB að um málið yrði ekki fjallað að sinni og að þeirra álit væri að tilraun til breytinga á þessu stigi gæti haft óheppileg áhrif á endurskoðun varðandi aukefni. Varð málinu ekki frekar þokað.
    Samkvæmt framansögðu virðist nokkuð ljóst að fyrstu þrír flokkarnir á lista síldarútvegsnefndar eiga að falla undir 0305 og njóta tollfrelsis. Sama gildir ekki um fjórða flokkinn, ediksöltuð flök, en þar gæti oltið nokkuð á skilgreiningu ediksins sem notað er, þ.e. hvort um er að ræða landbúnaðarvöruna edik (vinegar) eða kemískt framleidda sýru. Síðari möguleikinn yki líkurnar á flokkun í 0305. Þetta atriði þarf nánari athugunar við en formleg niðurstaða fæst væntanlega ekki fyrr en endurskoðun á aukefnaskrá EB hefur verið lokið.




Fylgiskjal XI.

Skrá yfir gildandi lög í lagasafni


þar sem fylgiskjal er lögfest.


4/1926             Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að ganga inn í viðbótarsamning við myntsamning Norðurlanda.
29/1931        Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að láta öðlast gildi alþjóðleg einkamálaréttarákvæði í samningi milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, um hjúskap, ættleiðingu og lögráð.
30/1932        Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að láta öðlast gildi ákvæðin í samningi milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, um viðurkenningu dóma og fullnægju þeirra.
21/1934        Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að láta öðlast gildi ákvæðin í samningi milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, um gjaldþrotaskipti.
108/1935        Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að láta öðlast gildi ákvæðin í samningi milli Íslands og Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, um erfðir og skipti á dánarbúum.
13/1948        Lög um heimild til að staðfesta fyrir Íslands hönd alþjóðasamning um réttindi Sameinuðu þjóðanna.
41/1949        Lög um gildistöku alþjóðasamnings um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa.
110/1951        Lög um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess.
72/1953        Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd Norðurlandasamning um gagnkvæmi varðandi greiðslur vegna skertrar starfshæfni.
18/1954        Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að láta öðlast gildi ákvæðin í alþjóðasamningi frá 5. apríl 1946, um möskvastærð fiskinetja og lágmarksstærðir fisktegunda, ásamt ákvæðum viðbætis við samninginn frá 2. apríl 1953.
62/1954        Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að láta öðlast gildi samning um breyting á samningi milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, frá 6. febrúar 1931, um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð.
52/1960        Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd samþykkt um alþjóðasiglingamálastofnun (IMCO).
102/1961        Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta fyrir Íslands hönd Parísarsamþykktina um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar.
93/1962        Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að láta öðlast gildi ákvæði í samningi milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, um innheimtu meðlaga.
74/1966        Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að gerast aðili að alþjóðasamningi um lausn fjárfestingardeilna milli ríkja og þegna annarra ríkja.
10/1968        Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta fyrir Íslands hönd alþjóðasamþykkt um takmörkun á ábyrgð útgerðarmanna, sem gerð var í Brüssel 10. október 1957.
98/1969        Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að láta öðlast gildi samkomulag milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um breyting á Norðurlandasamningnum frá 6. febrúar 1931, um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð.
9/1970            Lög um Iðnþróunarsjóð.
16/1971        Lög um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband.
80/1972        Lög um heimild ríkisstjórninni til handa til að staðfesta Bernarsáttmálann til verndar bókmenntum og listaverkum í þeirri gerð hans, sem samþykkt var á ráðstefnu Bernarsambandsríkja í París 24. júlí 1971.
54/1973        Lög um norrænan tækni- og iðnþróunarsjóð.
95/1973        Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að láta öðlast gildi samkomulag milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um breytingu á Norðurlandasamningnum frá 6. febrúar 1931, um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð.
7/1975            Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd samþykkt um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó, 1972.
26/1976        Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd samning Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, um stofnun Norræna fjárfestingarbankans.
42/1976        Lög um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. um álbræðslu við Straumsvík.
18/1977        Lög um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði.
4/1978             Lög um aðild Íslands að alþjóðasamningi um ræðissamband.
44/1978        Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli lýðveldisins Íslands og Sambandslýðveldisins Þýskalands um gagnkvæma aðstoð í tollamálum.
14/1979        Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta fyrir Íslands hönd þrjá alþjóðasamninga um varnir gegn mengun sjávar af völdum olíu.
48/1979        Lög um framkvæmd samnings um framtíðarsamvinnu ríkja varðandi fiskveiðar á Norðvestur-Atlantshafi.
57/1979        Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka eignarnámi hluta jarðarinnar Deildartungu í Reykholtsdalshreppi ásamt jarðhitaréttindum.
94/1980        Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um gagnkvæma aðstoð í tollamálum.
66/1981        Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd Norðurlandasamning um félagslegt öryggi.
68/1981        Lög um aðild Íslands að samningi um framtíðarsamvinnu ríkja varðandi fiskveiðar á Norðaustur-Atlantshafi.
104/1984        Lög um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. um álbræðslu við Straumsvík.
111/1985        Lög um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. um álbræðslu við Straumsvík.
32/1986        Lög um varnir gegn mengun sjávar.
55/1987        Tollalög.
55/1989        Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta samninga um réttarstöðu skrifstofu ráðherranefndar Norðurlanda og stjórnarnefndar Norðurlandaráðs og um réttarstöðu samnorrænna stofnana.
46/1990        Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Norðurlanda um aðstoð í skattamálum.


Skrá yfir gildandi lög í lagasafni þar sem vísað er til meðfylgjandi


fylgiskjals og aðalefni laganna er ekki heimild fyrir ríkisstjórn.


9/1970             Lög um Iðnþróunarsjóð.
54/1973        Lög um norrænan tækni- og iðnþróunarsjóð.
18/1977        Lög um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði.
57/1979        Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka eignarnámi hluta jarðarinnar Deildartungu í Reykholtsdalshreppi ásamt jarðhitaréttindum.
32/1986        Lög um varnir gegn mengun sjávar.
55/1987        Tollalög. (Tollskrá er viðauki við lögin.)

Við hvern fund er getið þeirra gesta sem sátu fundinn.
Fylgiskjöl, sem vísað er til í greinargerðinni, eru ekki birt hér.
Um stofnanaverð sjá 4. gr. í drögum að 6. viðbæti við bókun 3, sem fylgja bréfi sendiráðsins í Brussel nr. 608F, 12. nóvember 1992.

Greinin hljóðar svo:
   Ef ekki er kveðið á um annað í samningi þessum og einkum í bókunum 41, 43 og 44 skulu ákvæði samningsins ganga framar ákvæðum í gildandi tvíhliða eða marghliða samningum sem Efnahagsbandalag Evrópu annars vegar og eitt eða fleiri EFTA-ríki hins vegar eru bundin af að því leyti sem samningur þessi tekur til sömu efnisatriða.

Málsgreinin hljóðar svo:
   Upphæð aðflutningsgjalda, sem lögð eru á við landamærin, skal þó aldrei vera hærri en það sem Ísland leggur á við innflutning frá nokkrum samningsaðila árið 1991.

Almenn meginregla um verðjöfnun.

Viðmiðunarverð.

Mismunur á viðmiðunarverði.

Með aðflutningsgjöldum er átt við tolla, vörugjöld, jöfnunargjöld, verðjöfnunargjöld og sérstakt jöfnunargjald af kartöflum og vörum unnum úr þeim.
   Taka má tillit til niðurgreiðslna innan lands þegar hámark verðjöfnunargjalds er reiknað skv. 2. gr. bókunar 3. Ekki hefur þótt ástæða til að niðurgreiða vörurnar í neðangreindri töflu.

Sjá fylgiskjal VII.
Fylgiskjöl, sem vísað er til í greinargerðinni, eru ekki birt hér.
Að jafnaði ekki lög sem vísa eingöngu í viðauka. Sjá þó tollalög.