Ferill 13. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 13 . mál.


393. Nefndarálit



um frv. til l. um Verðbréfaþing Íslands.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund hennar komu frá viðskiptaráðuneytinu Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri, Finnur Sveinbjörnsson skrifstofustjóri og Páll Ásgrímsson lögfræðingur. Þá komu Þórður Ólafsson, forstöðumaður bankaeftirlits Seðlabanka Íslands, Jóhann Albertsson, deildarstjóri í bankaeftirliti Seðlabanka Íslands, Eiríkur Guðnason, aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands, Jóhann Þorvarðarson, hagfræðingur Verslunarráðs Íslands, Rúnar B. Jóhannsson, formaður Félags löggiltra endurskoðenda, og loks frá Samtökum íslenskra verðbréfafyrirtækja Gunnar Helgi Hálfdanarson formaður, Guðmundur Hauksson varaformaður og Helgi Sigurðsson hdl. Umsagnir bárust frá Verðbréfaþingi Íslands, Verslunarráði Íslands, Neytendasamtökunum, Samtökum íslenskra verðbréfafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, Sambandi almennra lífeyrissjóða, Lögmannafélagi Íslands og Félagi löggiltra endurskoðenda. Enn fremur var stuðst við umsagnir er bárust á 115. löggjafarþingi frá Samtökum íslenskra verðbréfafyrirtækja, Verslunarráði Íslands og Neytendasamtökunum.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar við frumvarpið:
    Lagt er til að 1. gr. verði breytt þannig að einkaréttur Verðbréfaþings Íslands til verðbréfaþingsstarfsemi verði afmarkaður betur með nánari skilgreiningu á starfseminni.
    Lögð er til sú breyting á 2. gr. að hlutverk Verðbréfaþingsins verði þar tæmandi upp talið.
    Lögð er til lagfæring á 3. gr.
    Lagt er til að 8. gr. verði breytt. Í fyrsta lagi verði heimild verðbréfamiðlara til að gerast þingaðilar samkvæmt greininni felld brott, en ákvæðið í núverandi mynd þykir vera of víðtækt. Enn fremur er lagt til að 2. mgr. falli niður og í stað hennar komi nýr töluliður í 1. mgr. er kveði á um að verðbréfafyrirtæki utan Evrópska efnahagssvæðisins geti orðið þingaðilar séu þau með leyfi til verðbréfamiðlunar samkvæmt lögum síns heimalands og heyri undir eftirlit lögbærs yfirvalds þar. Loks er lagt til að 3. mgr. falli brott enda er kveðið á um starfsemi Seðlabankans í lögum um hann.
    Lagt er til að 11. gr. verði breytt og frestur skv. 3. tölul. styttur en hann þykir of langur í ljósi gildandi reglna um Verðbréfaþingið. Verður meginreglan sú að frestur verði tveir mánuðir; skal þingaðila tilkynnt um ákvörðun stjórnar, að jafnaði eftir tvo mánuði frá því að fullbúin umsókn barst. Ákvörðun stjórnar verður þó að liggja fyrir innan sex mánaða.
    Lagt er til að 12. gr. verði breytt. Annars vegar verði ákvæði um niðurfellingu verðbréfa af skrá Verðbréfaþingsins sambærileg við núgildandi reglur þess en ákvæði frumvarpsins hafa sætt nokkurri gagnrýni. Hins vegar er lagt til að kveðið verði fastar að orði um samráð ráðherra við stjórn Verðbréfaþingsins þegar hann tekur ákvörðun um tímabundna stöðvun viðskipta á þinginu.
    Lögð er til sú breyting á 15. gr. að þingaðili þurfi ekki að fá formlega staðfestingu kaupenda og seljenda á að þeir sætti sig við að hann eigi viðskipti með skráð verðbréf án þess að bjóða þau fram í viðskiptakerfi Verðbréfaþingsins. Þykir ákvæðið þungt í vöfum auk þess að valda auknum kostnaði. Nægilegt er að viðkomandi séu fræddir um þetta og að viðskiptin séu skráð.
    Lagðar eru til þær breytingar á 18. gr. að annars vegar falli út heimild bankaeftirlitsins til þess að ganga beint að gögnum og upplýsingum um starfsemi útgefenda skráðra verðbréfa. Nægilegt þykir að bankaeftirlitið hafi aðgang að gögnum um þessa aðila hjá Verðbréfaþinginu sjálfu.
    Lagt er til að gildistökuákvæði frumvarpsins verði breytt. Þykir eðlilegra að frumvarpið öðlist gildi 1. júlí nk.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með þeim breytingum sem hér hefur verið gerð grein fyrir og gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 2. des. 1992.


Vilhjálmur Egilsson,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.

form., frsm.



Halldór Ásgrímsson.

Guðjón Guðmundsson.

Ingi Björn Albertsson.



Sólveig Pétursdóttir.

Kristín Ástgeirsdóttir,

Steingrímur J. Sigfússon,

með fyrirvara.

með fyrirvara.