Ferill 140. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 140 . mál.


407. Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1992.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.


    Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1992 setti ríkisstjórnin sér það mark að ríkissjóðshallinn yrði ekki meiri en 4,1 milljarður kr. Stjórnarandstaðan taldi þetta með öllu óraunhæft og benti á að þetta markmið næðist ekki með þeim sparnaðartillögum sem ríkisstjórnin boðaði.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrir fyrstu níu mánuði ársins kemur fram að stefnt var að því að lækka rekstrarútgjöld ráðuneyta og stofnana sem undir þau heyra um 5,5 milljarða kr. Einnig segir í skýrslunni að lauslegt mat á þeim sparnaði, sem náðst hefur á fyrstu níu mánuðum ársins 1992, bendi til að útgjöld á A-hluta ríkissjóðs hafi dregist saman um 1,9 milljarða kr. Enn fremur segir þar að sá sparnaður sé að mestu tilkominn vegna lækkunar vaxtagjalda upp á 950 millj. kr., svo og minni stofnkostnaðar og eignakaupa sem nemur 900 millj. kr. Þetta sýnir að lítill sparnaður hefur náðst í launum og almennum rekstri.
    Fjárlagafrumvarpið, sem nú er til afgreiðslu, staðfestir að aðvaranir minni hlutans áttu við rök að styðjast. Frumvarpið gerir ráð fyrir að halli ríkissjóðs verði 9,1 milljarður kr. á árinu 1992 og sú tala hækkar enn samkvæmt breytingartillögum meiri hlutans sem gera ráð fyrir 335 millj. kr. viðbótarútgjöldum. Eins og mál standa nú er áætlaður halli ríkissjóðs upp á 9,4 millj. kr. Því er ljóst að ekki eru öll kurl komin til grafar.
    Í erindi heilbrigðisráðuneytisins til fjárlaganefndar kemur m.a. fram að lyfjakostnaður muni fara 400 millj. kr. fram úr fjárlögum þessa árs. Í greinargerð frumvarpsins er gert ráð fyrir að þessi umframkostnaður verði allt að 300 millj. kr. og komi til frádráttar heimildum næsta árs. Því mótmælir ráðuneytið í bréfi sínu og telur það með öllu óraunhæft. Þrátt fyrir þessi mótmæli leggur meiri hluti fjárlaganefndar til í breytingartillögum sínum að aðeins 200 millj. kr. af þessari umframfjárþörf verði teknar inn í fjáraukalagafrumvarpið.
    Í fjáraukalagafrumvarpinu fyrir árið 1992 er gert ráð fyrir að tekjur af sölu aflaheimilda Hagræðingarsjóðs að upphæð 525 millj. kr. standi undir rekstri Hafrannsóknastofnunar. Fram kemur í athugasemdum fjáraukalagafrumvarpsins að óvissa ríki um að hve miklu leyti tekjur af sölu veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs koma til með að skila sér í ríkissjóð á þessu ári. Þegar er ljóst að ekki mun skila sér nema lítill hluti þessarar upphæðar. Sala veiðiheimilda á sl. hausti gaf 25–30 millj. kr. og útboð sem opnað var 1. desember sl. fól í sér tilboð upp á 102 millj. kr.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir viðbótarfjárveitingu til Hafrannsóknastofnunar sem nemur 83 millj. kr. vegna lækkunar á markaðsverði. Því er ljóst að alger óvissa ríkir um sértekjur til Hafrannsóknastofnunar sem eru yfir 300 millj. kr.
    Framlög til flóabáta og vöruflutninga eru hækkuð í frumvarpinu um 28 millj. kr. til að gera upp skuld við Hríseyjarhrepp vegna Eyjafjarðarferja. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerð ríkisins, sem framvegis á að hafa umsjón með þessum rekstri, vantar enn tugi milljóna króna til að ná endum saman í þessum rekstri á yfirstandandi ári.
    Nefndinni barst beiðni um fjárveitingu til þess að gera upp ógreidda styrki samkvæmt jarðræktarlögum frá árinu 1991 að upphæð um 19 millj. kr. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1993 er ekki heldur gert ráð fyrir greiðslu þessarar skuldar. Meiri hlutinn gerir ekki tillögu um að sinna þessari beiðni. Málið er því skilið eftir í algjörri óvissu.
    Hér er þó ekki allt upp talið og nægir að nefna vanda Atvinnuleysistryggingasjóðs. Útgjöld hans aukast með hverjum deginum sem líður með vaxandi atvinnuleysi. Því er alls óvíst hvort sú viðbótarfjárveiting til sjóðsins, sem fjáraukalagafrumvarpið gerir ráð fyrir, nægir.
    Af framansögðu er ljóst að hér er verið að slá vandanum á frest og koma sér hjá því að sýna útkomu ársins 1992 eins og hún er í raun.
    Ljóst er að tekjuáætlun fjárlaga hefur ekki staðist og munar þar 2,4 milljörðum kr. samkvæmt fjáraukalagafrumvarpinu. Ein meginástæðan fyrir því er efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar og aðgerðarleysi í atvinnumálum. Samdrátturinn í þjóðfélaginu hefur leitt til minni veltu og minnkandi innflutnings sem leiðir til minni tekna af aðflutningsgjöldum og virðisaukaskatti. Á sama hátt hefur orðið tekjumissir vegna minnkandi atvinnu og vaxandi atvinnuleysis.
    Að lokum má geta þess að í fjárlögum ársins 1992 var gert ráð fyrir tekjum af sölu eigna og ríkisfyrirtækja upp á rúmlega 1 milljarð kr. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lækka þessa upphæð um 500 millj. kr. vegna þess að salan hefur brugðist. Enn er þó algjör óvissa um hvort tekst að ná þeim 500 millj. kr. tekjum sem eftir standa. Því er ljóst að enn er verið að slá vandanum á frest og koma sér hjá því að sýna raunverulega útkomu ársins 1992.
    Þótt minni hlutinn geti fallist á að einstakar tillögur, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, séu til bóta vill hann ekki bera ábyrgð á frumvarpinu sem heild og situr því hjá við lokaafgreiðslu þess.

Alþingi, 4. des. 1992.


Guðmundur Bjarnason,

Jón Kristjánsson.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.

frsm.


Guðrún Helgadóttir.

Anna Kristín Sigurðardóttir.