Ferill 125. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 125 . mál.


409. Nefndarálit



um frv. til l. um umboðssöluviðskipti.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund frá viðskiptaráðuneytinu Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóra, Finn Sveinbjörnsson skrifstofustjóra, Jón Ögmund Þormóðsson skrifstofustjóra og Þórunni Erhardsdóttur deildarstjóra. Þá bárust umsagnir frá Íslenskri verslun, Lögmannafélagi Íslands, Félagi íslenskra iðnrekenda, Landssambandi iðnaðarmanna, Sambandi íslenskra tryggingafélaga og Verslunarráði Íslands.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar við frumvarpið:
    Lagt er til að 1. gr. verði breytt þannig að ákvæði frumvarpsins gildi um viðskipti í umboðssölu sem eiga sér stað á milli Íslands og annarra ríkja. Þá er lögð til breytt orðanotkun í síðari málslið fyrri málsgreinar og hafi umboðssölumaður ótímabundna heimild til að semja um kaup og sölu á vörum og þjónustu í stað varanlegar heimildar. Enn fremur er lagt til að orðið „skiptastjóri“ verði notað í síðari málsgrein og er það í samræmi við ákvæði gildandi laga.
    Lögð er til breyting á uppsetningu 10. gr. til þess að gera hana skýrari.
    Lögð er til lagfæring á 11. gr. en þar mun hafa orðið misritun.
    Lagt er til breytt orðalag á 13. gr. sem þykir gera ákvæðið bæði einfaldara og skýrara.
    Lögð er til lagfæring á 16. gr. en þar hafði fallið niður tilvísun í 15. gr.
    Lögð er til sú breyting á 17. gr. að skilgreining hugtaksins „fjárhagstjón“ í 4. mgr. verði rýmkuð.
    Lagt er til að orðalag 2. mgr. 18. gr. verði gert skýrara.
    Lögð er til lagfæring á 19. gr. en þar mun hafa orðið misritun.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með þessum breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 3. des. 1992.


Vilhjálmur Egilsson,

Sólveig Pétursdóttir.

Kristín Ástgeirsdóttir.

form., frsm.



Rannveig Guðmundsdóttir.

Ingi Björn Albertsson.

Halldór Ásgrímsson.



Jóhannes Geir Sigurgeirsson.

Steingrímur J. Sigfússon.

Sigríður A. Þórðardóttir.