Ferill 78. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 78 . mál.


480. Nefndarálit



við frv. um breyt. á l. nr. 53 16. maí 1978, um eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum, áburði og sáðvörum og verslun með þær vörur.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem hefur þann megintilgang að fella brott úr gildandi lögum heimild, sem hingað til hefur aldrei verið beitt, til takmörkunar á innflutningi á eftirlitsskyldum vörum til verndunar innlendrar framleiðslu.
    Nefndin fékk á fund sinn Jón Höskuldsson frá landbúnaðarráðuneytinu og Gunnar Sigurðsson frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins en þeir stóðu meðal annarra að gerð þessa frumvarps. Í máli þeirra kom m.a. fram að brýn nauðsyn er á heildarendurskoðun þessara laga og er nú starfandi nefnd á vegum landbúnaðarráðherra sem hefur þá endurskoðun með höndum. Nefndinni bárust umsagnir frá yfirdýralækni, Áburðarverksmiðju ríkisins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Búnaðarfélagi Íslands. Að ósk nefndarinnar tók Gunnar Sigurðsson saman stutta álitsgerð um framkvæmd þessara mála og birtist hún sem fylgiskjal með nefndaráliti þessu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali:
    Lagðar eru til tvær breytingar á 2. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi að landbúnaðarráðherra skuli hafa samráð við sérfróða aðila áður en hann ákveður hvaða upplýsingar skuli fylgja vörum sem lög þessi ná yfir og gefur út reglugerð þar að lútandi. Í öðru lagi er lagt til að við greinina bætist nýr málsliður þar sem kveðið er á um að ráðherra skuli í reglugerð kveða á um staðla og merkingar. Með þeirri tillögu er leitast við að gera eftirlitið virkara og sjálfstæðara en áður auk þess að tryggja að kaupendur geti treyst því að þær fóðurvörur sem í boði eru henti þeim og aðstæðum hér á landi.
    Lagt er til að við frumvarpið bætist ný grein, 5. gr., er breyti 19. gr. laganna þannig að í stað orðsins „Áburðarverksmiðjan“ komi: seljandi áburðar. Þessi breyting þykir eðlileg með hliðsjón af því að á grundvelli hugsanlegs EES-samstarfs er gert ráð fyrir að einkaleyfi Áburðarverksmiðju ríkisins til framleiðslu og sölu á áburði falli niður.
    Þá er lagt til að við frumvarpið bætist ný grein, er verði 6. gr., til viðbótar við 24. gr. laganna. Samkvæmt lagagreininni á gjaldtaka fyrir eftirlit að miðast við að standa undir óhjákvæmilegum kostnaði. Í framkvæmd hefur verið um að ræða flatan skatt á þær framkvæmdir sem eftirlitið tekur til. Eðlilegra er að eftirlitsgjald leggist á sérhvern vörusala í samræmi við kostnað þann er af eftirliti hjá honum hlýst. Eftirlitsgjaldið ætti þannig að vera í formi þjónustugjalds þar sem söluaðilar greiði samkvæmt reikningi fyrir eftirlitið í samræmi við umfang eftirlitsstarfsins hjá hverjum og einum. Þannig væri tryggt að þeim sem eru með góða vöru yrði ekki gert að bera kostnað við eftirlit hjá þeim er versla með lakari vöru.
    Enn fremur er lagt til að orðalag 5. gr. frumvarpsins breytist og loks að lög þessi öðlist þegar gildi þar sem þau þykja horfa til eðlilegra breytinga án tillits til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Einar K. Guðfinnsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. des. 1992.



Egill Jónsson,

Ragnar Arnalds.

Össur Skarphéðinsson.


form., frsm.



Kristín Ástgeirsdóttir.

Guðni Ágústsson.

Eggert Haukdal.



Árni R. Árnason.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.






Fylgiskjal.


Rannsóknastofnun landbúnaðarins:


Álitsgerð Gunnars Sigurðssonar til landbúnaðarnefndar Alþingis.


(15. desember 1992.)



    Tilgangur með frumvarpi því sem hér liggur fyrir er að sníða af gildandi lögum þá heimild sem nú er til mismununar á íslenskum og innfluttum vörum þeirra vöruflokka sem lögin taka til. Hér eru óverulegar efnisbreytingar á ferð.
    Við gerð frumvarpsins varð ljós sú brýna þörf sem er á heildarendurskoðun gildandi laga og reglugerða. Nú nýverið, eftir að frumvarpið var lagt fram, skipaði landbúnaðarráðherra því nefnd til slíkrar heildarendurskoðunar. Í þeirri nefnd eiga sæti Jón Höskuldsson, deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu, formaður, Brynjólfur Sandholt yfirdýralæknir og undirritaður.
    Ljóst er að við gildistöku samningsins um EES breytist það viðskiptaumhverfi sem verið hefur fyrir vöruflokka þá sem lög þessi taka til. Ýmis þau atriði, sem nægjanlegt hefur verið að hafa á samkomulagsgrundvelli eftirlits og viðskiptaaðila, þarf nú að setja í reglugerðir. Sem dæmi um þetta má nefna að sl. áratug hefur samkvæmt ábendingu eftirlitsdeildar verið í gildi hjá Áburðarverksmiðju ríkisins sú framleiðslustefna að aðeins skuli nota sérstaklega hrein hráefni til áburðarframleiðslu. Þetta þýðir að áburður sem nú er framleiddur í Gufunesi er með minna kadmíum (Cd) en víðast hvar er notað annars staðar. Þetta hefur án efa þýtt aðeins dýrari hráefniskaup fyrir Áburðarverksmiðju ríkisins en það þýðir jafnframt að undanfarin ár hefur áburður framleiddur hér á landi aðeins innihaldið tæpan helming af því kadmíum sem EB er að setja nú sem markmið.
    Vegna athugasemda Íslendinga og fleiri við upphaflega skoðun laga í viðauka II., kafla 14 um áburð (bls. 163) hefur EB fallist á sjónarmið sem sett voru fram í þessu tilliti. Við höfum því leyfi til að halda þessari sérstöðu og EB mun aðlaga sig þessum umhverfis-sjónarmiðum í viðskiptum með áburð.
    Erlendis er víða talið erfitt að stunda nútímabúfjárhald nema með stöðugri lyfjanotkun í fóður til að tryggja heilbrigði dýranna og betri afurðasemi. Hér á landi hefur ríkt sú skoðun að lyf skuli aðeins nota í búfjárrækt í sjúkdómstilvikum og þá samkvæmt tilvísun dýralæknis. Ein undantekning hefur verið frá þessu sem er notkun hníslasóttarlyfja í fóðri kjúklinga. Þetta gefur íslenskri búfjárframleiðslu sérstöðu. EB er á næstunni að gefa út staðla fyrir hvað talist getur „lífræn framleiðsla“ í búfjárrækt. Sú stefna sem ríkt hefur hér á landi gerir hugsanlega kleift að markaðsfæra stóran hluta okkar landbúnaðarframleiðslu sem lífræna framleiðslu.
    Sérstaða okkar í þessu tilliti hefur einnig verið viðurkennd af hálfu EB. Í samningnum nú eru í gildi ákvæði um að þessar reglur er varða lyfjanotkun í fóður skuli koma til endurskoðunar árið 1995. Sívaxandi skilningur á gildi hreinleika í framleiðslu á landbúnaðarvörum mun gera okkur kleift að tryggja þessum sjónarmiðum brautargengi áfram.
    Vegna athugasemda hæstvirtrar landbúnaðarnefndar um samræmingu á kostnaði við framkvæmd eftirlits og innheimtu eftirlitsgjalda skal tekið fram að skv. 24. gr. gildandi laga skal miða innheimtuna við raunverulegan kostnað við framkvæmd eftirlitsins. Á þessu sviði eins og ýmsum öðrum hefur verið tekið mið af þessum tekjum við gerð fjárlaga fyrir Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Stjórn RALA hefur hins vegar ekki talið fært vegna annarra verkefna að verja eftirlitsgjaldinu eingöngu til eftirlitsstarfa. Þannig hefur starfsemi eftirlitsdeildar verið skorin niður á undanförnum árum og er ófullnægjandi við ríkjandi viðskiptahætti hvað þá ef það viðskiptaumhverfi, sem EES markar, tekur gildi. Við opnun viðskipta eykst, eins og áður segir, þörfin fyrir nánari skilgreiningar og meiri og nákvæmari mælingar.
    Heimilt er samkvæmt reglum EB að innheimta eftirlitsgjöld til að standa straum af kostnaði við eftirlit. En tryggja verður að innheimta eftirlitsgjalda sé ekki óbein skattheimta heldur sé féð notað til raunverulegra eftirlitsstarfa.
    Mikið verkefni leggst á íslensk stjórnvöld að fylgjast með áframhaldandi lagasetningu EB um þá málaflokka sem hér hefur verið fjallað um. Undirritaður hefur eftir föngum reynt að tryggja sér yfirsýn samhliða núverandi störfum. Þetta atriði eitt og sér kallar á aukna vinnu og árvekni sem síðan getur gefið mikla möguleika.