Ferill 46. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 46 . mál.


491. Nefndarálit



um frv. til l. um Kjaradóm og kjaranefnd.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund hennar komu Indriði H. Þorláksson, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneyti, Valtýr Sigurðsson, formaður Dómarafélags Íslands, Geir Waage, formaður Prestafélags Íslands, Kristinn Ágúst Friðfinnsson, varaformaður Prestafélags Íslands, Ólafur Davíðsson, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis, Árni Kolbeinsson, ráðuneytisstjóri sjávarútvegsráðuneytis, Sveinbjörn Björnsson, rektor Háskóla Íslands, Edda Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Háskóla Íslands, Ólafur Tómasson póst- og símamálastjóri, Guðlaugur Þorvaldsson ríkissáttasemjari og Friðrik Ólafsson, skrifstofustjóri Alþingis, og frá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana Bera Nordal formaður og Ágúst Guðmundsson, formaður kjaranefndar. Enn fremur komu Páll Halldórsson, Birgir Björn Sigurjónsson og Eggert Lárusson frá BHMR, Ásmundur Stefánsson, Lára V. Júlíusdóttir og Bryndís Hlöðversdóttir frá ASÍ, Ögmundur Jónasson og Svanhildur Halldórsdóttir frá BSRB, Árni Benediktsson frá VMS og Þórarinn V. Þórarinsson og Hannes G. Sigurðsson frá VSÍ. Þá bárust umsagnir frá ríkisféhirði, póst- og símamálastjóra, rektor Háskóla Íslands, flugvallarstjóranum á Keflavíkurflugvelli, VMS, hagstofustjóra, ríkissáttasemjara, rektor Tækniskóla Íslands, siglingamálastjóra, forstjóra Fríhafnar á Keflavíkurflugvelli, sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli, forstjóra Vinnueftirlits ríkisins, landsbókaverði, þjóðskjalaverði, forstjóra Fangelsismálastofnunar ríkisins, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, vita- og hafnamálastjóra, forsetaritara, forstöðumanni Listasafns Íslands, rektor Kennaraháskóla Íslands, Innkaupastofnun ríkisins, útvarpsstjóra, forstjóra Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, forstjóra Iðntæknistofnunar, BSRB, BHMR, Sýslumannafélagi Íslands, brunamálastjóra, biskupi Íslands, ríkisendurskoðanda, ráðuneytisstjórum, Félagi forstöðumanna ríkisstofnana, framkvæmdastjóra Húsnæðisstofnunar ríkisins, Dómarafélagi Íslands, forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, ASÍ, forstjóra Lánasýslu ríkisins, skrifstofustjóra Alþingis, Prófastafélagi Íslands og veiðimálastjóra.
    Í frumvarpi þessu er mælt fyrir um skipan og starfssvið Kjaradóms, svo og kjaranefndar. Hefur skipan kjaranefndar verið nokkuð umdeild og er því lagt til að henni verði breytt. Miðar sú breyting að því að færa nefndina fjær framkvæmdarvaldinu og nær því að vera óháður úrskurðaraðili en núverandi ákvæði frumvarpsins kveða á um. Nefndin fjallaði nokkuð um hugsanleg áhrif breytinga samkvæmt frumvarpinu á eftirlaunum hlutaðeigandi aðila, bæði vegna þegar áunnins réttar og líklegrar þróunar í framtíðinni. Meiri hluti nefndarinnar varð sammála um að gera tilteknar breytingar til að tryggja að raungildi þegar áunnins réttar haldist.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að eftirtaldar breytingar verði gerðar á frumvarpinu:
    Lögð er til sú breyting á 2. gr. að fimm embætti bætist við þau sem talin eru upp í greininni. Eru það biskup Íslands, ríkisendurskoðandi, ríkissáttasemjari, ríkissaksóknari og umboðsmaður Alþingis.
    Lagt er til að 6. gr. verði breytt þannig að auk þess sem talið er upp í 3. mgr. skuli Kjaradómur hafa hliðsjón af ráðningarkjörum. Er þá sérstaklega haft í huga hvort um sé að ræða tímabundna ráðningu eða æviráðningu.
    Lagt er til að ný grein komi á eftir 6. gr. Vísast um það til athugasemda við 7. gr. í liðnum hér á eftir.
    Lögð er til sú breyting á 7. gr. að skipan kjaranefndar verði þannig að Kjaradómur tilnefni tvo í nefndina og ráðherra einn sem jafnframt skal vera formaður. Er með þessu leitast við að gera kjaranefnd að eins konar undirdómi Kjaradóms og þannig sniðnir af þeir annmarkar sem þóttu vera á skipan kjaranefndar samkvæmt frumvarpinu. Til að undirstrika þessa nýju skipan enn frekar er lagt til að ný grein komi         á eftir 6. gr. þar sem kveðið er á um að Kjaradómur skuli setja kjaranefnd meginreglur um úrskurði nefndarinnar.
    Lagðar eru til breytingar í fjórum liðum við 8. gr. Í fyrsta lagi er lagt til að embætti ríkisbókara, ríkisféhirðis og veiðimálastjóra bætist við þau embætti sem heyra undir úrskurð kjaranefndar um launakjör. Í öðru lagi falli út þrjú embætti sem færast undir úrskurð Kjaradóms, sbr. 2. gr. Enn fremur er lagt til að embættisheiti skrifstofustjóra Alþingis falli brott en gert er ráð fyrir að launakjör hans fari eftir 35. gr. laga nr. 38/1954. Þá er lögð til orðalagsbreyting á 3. mgr. svo að skýrt komi fram að kjaranefnd úrskurði um launakjör presta þjóðkirkjunnar eins og annarra embættismanna sem nefndir eru í greininni. Loks er lagt til að orðalag 5. mgr. verði ítarlegra þannig að ljóst sé að kjaranefnd úrskurði um laun þeirra stjórnenda ríkisstofnana sem ekki óska eftir að taka laun samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna. Sem dæmi um stjórnendur sem þetta á við má nefna aðstoðarpóst- og símamálastjóra og æðstu framkvæmdastjóra Póst- og símamálastofnunarinnar.
    Lagt er til að 9. gr. verði breytt þannig að út falli ákvæði um að embættismenn verði að veita kjaranefnd upplýsingar um störf sem þeir kunna að gegna fyrir aðra.
    Lagt er til að 11. gr. verði breytt og vísast um það til athugasemda um 6. gr. hér að framan.
    Lagt er til að við ákvæði til bráðabirgða bætist tvær nýjar málsgreinar. Mælt verði fyrir um afdrif skriflegra kjarasamninga sem gerðir hafa verið við einstaklinga sem gegna embættum sem falla undir ákvæði frumvarpsins. Þá er lagt til að kveðið verði á um stöðu þeirra sem hafa þegar áunninn eftirlaunarétt. Mun sá réttur, sem þegar er áunninn fyrir gildistöku laga þessara, haldast að raungildi þótt þróun launa og annarra greiðslna, sem rétturinn miðast við, kynni að verða á þann veg á komandi árum að eftirlaun lækkuðu. Réttur manns til eftirlauna, sem myndast frá og með gildistöku laga þessara, mun hins vegar breytast í samræmi við þær breytingar sem verða á dagvinnulaunum samkvæmt lögunum.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum þeim sem gerð hefur verið grein fyrir og gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 17. des. 1992.



Vilhjálmur Egilsson,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Guðjón Guðmundsson.


form., frsm.



Sólveig Pétursdóttir.

Ingi Björn Albertsson.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson,


með fyrirvara.



Halldór Ásgrímsson,

Steingrímur J. Sigfússon,


með fyrirvara.

með fyrirvara.