Ferill 286. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 286 . mál.


495. Nefndarálit



um frv. til l. um breytingar í skattamálum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Efnahags- og viðskiptanefnd hefur um nokkurt skeið fjallað um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum sköttum. Nefndin hefur haft mjög skamman tíma til að fjalla um málið og er það allt of seint fram komið, illa undirbúið og því veruleg hætta á mistökum. Ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hefur verið að breyta málinu frá degi til dags og hringlandahátturinn hefur gert okkur í minni hlutanum ókleift að meta endanlega heildaráhrif málsins. Á sama tíma og kvartað hefur verið undan löngum umræðum um Evrópskt efnahagssvæði á Alþingi hefur meiri hluti nefndarinnar reynt að nota þann tíma til að lagfæra verstu ágalla frumvarpsins. Þótt plástrar hafi verið settir hér og þar er ljóst að verstu ágallarnir standa eftir og ekki er haft í huga að hlífa þeim sem verst standa og draga úr atvinnuleysi.
    Verkalýðshreyfingin og fulltrúar launþega eru mjög andvígir málinu og viðbrögð þeirra sýna að skattastefna ríkisstjórnarinnar mun trúlega leiða til mikilla átaka á vinnumarkaðinum. Því er nauðsynlegt að undirbúa málið mun betur og ná meiri friði um það við aðila vinnumarkaðarins. Fulltrúar vinnuveitenda hafa jafnframt sett fram harða gagnrýni á málsmeðferðina og eru andvígir mörgum þeim breytingum sem ætlunin er að framkvæma. Minni hluti nefndarinnar er tilbúinn til frekara samstarfs um málið við ríkisstjórnina og aðila vinnumarkaðarins í þeim tilgangi að ná meiri sátt á vinnumarkaðnum. Minni hlutinn telur því best að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar og undirbúa það betur í nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins.
    Minni hlutinn fellst á að nauðsynlegt var að breyta skattlagningu einstaklinga og fyrirtækja vegna þeirrar ákvörðunar að fella niður aðstöðugjaldið. Þótt sú ákvörðun hafi sætt gagnrýni styður minni hlutinn þá aðgerð en telur að mikið vanti á að gætt sé sanngirni og réttlætis í álagningu þeirra skatta sem koma í staðinn. Hér á eftir mun verða gerð grein fyrir mikilvægustu atriðum frumvarpsins, en einstakir nefndarmenn munu gera frekari grein fyrir afstöðu sinni í umræðum um málið.

Skattlagning einstaklinga.
    Skattprósenta einstaklinga er hækkuð um 1,5% eða úr 32,8% í 34,3%. Minni hlutinn gerir ekki athugasemd við þessa breytingu eina og sér en jafnframt eiga sér stað aðrar breytingar sem eru vanhugsaðar og jöfnunaraðgerðir vantar.
    Á síðasta ári ákvað ríkisstjórnin að hækka skatta sérstaklega á barnafólki og þeim sem eru að afla sér húsnæðis. Stjórnarflokkarnir eru ávallt að gera tilraun til að blekkja kjósendur sem þeir gáfu það loforð að skattar yrðu alls ekki hækkaðir. Sjálfstæðisflokkurinn komst til valda með því að telja kjósendum trú um að þeir ætluðu sér að lækka skatta. Raunin hefur orðið sú að flokkurinn hefur svikið öll sín kosningaloforð á sviði skattamála og fjármálaráðherrann eyðir mestu af orku sinni í að leita að felustöðum. Þrátt fyrir góða viðleitni gengur það ekki lengur því að almenningur er að gera sér betur grein fyrir því óréttlæti sem af þessu leiðir. Þannig hefur skattur á barnafólki hækkað mun meira en á öðrum eins og skýrt kemur fram í umsögnum aðila vinnumarkaðarins. Engin tilraun er gerð til þess að vernda kaupmátt þeirra sem hafa lægstar tekjur en svokallaður hátekjuskattur lagður á af sálfræðilegum ástæðum. Nú síðast var ákveðið að lækka persónuafslátt og draga nokkuð úr fyrirhugaðri skattlagningu á barnafólk. Hægt hefði verið að ná fram meiri tekjujöfnun með því að hækka skattprósentu lítillega en hækka jafnframt persónuafslátt. Með því hefði verið hægt að verja mun betur hag þeirra sem minnst mega sín. Ekkert slíkt er á dagskrá en ljóst má vera að það verður helsta krafa verkalýðshreyfingarinnar í komandi kjarasamningum.
    Ríkisstjórnin virðist vilja átök þótt vandséð sé hvaða styrk hún hefur til þess. Fulltrúar minni hlutans vöruðu við skattastefnu ríkisstjórnarinnar á síðasta ári og gera það enn. Skortur á samvinnu við aðila vinnumarkaðarins kemur nú fram í vaxandi óróa og má í því sambandi vitna til samþykktar verkamannafélagsins Dagsbrúnar 16. desember sl., en þar segir m.a.:
    „Þá kom fram á fundinum að stjórnarflokkarnir hefðu svikið öll þau loforð sem þau gáfu fyrir síðustu kosningar. Skattar hefðu verið hækkaðir stórkostlega með álagningu þjónustugjalda og hækkun lyfjakostnaðar og heilbrigðisþjónusta skert. Í stað efnda á loforði um hækkun skattleysismarka væri nú lagt til að hækka álagningarprósentu og sveitarfélögum bent á að hækka útsvarsprósentu til að mæta niðurfellingu aðstöðugjaldsins.“
    Í umsögn BHMR segir m.a.:
    „BHMR vill vegna fyrirliggjandi frumvarps mótmæla þeim áformum sem í því felast og leiða til lakari kjara almenns launafólks. Þar er sérstaklega mótmælt áformum um hærri tekjuskattsprósentu, óbreyttum persónuafslætti, skertum barnabótum og skertum vaxtabótum. Allir hljóta að sjá það óréttlæti sem felst í sérstöku hátekjuskattsþrepi barnafjölskyldna. BHMR varar við þeirri aðför að barnafjölskyldum í landinu sem felst í þessu frumvarpi.“
    Í umsögn ASÍ segir m.a.:
    „Það er einnig umhugsunarefni hversu skammt er gengið í skattlagningu hærri tekna á sama tíma og verið er að draga úr barnabótum og vaxtabótum. Skerðing barnabóta og vaxtabóta er auðvitað ekkert annað en aukin skattlagning þar sem það er gert að skilyrði fyrir skattlagningunni að viðkomandi eigi börn eða standi undir erfiðri greiðslubyrði vegna öflunar íbúðarhúsnæðis. Í flestum tilfellum er hér um einn og sama hópinn að ræða. Þeir sem eru komnir yfir miðjan aldur og hafa þokkalegur tekjur sleppa hins vegar mun betur frá aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Þetta er í hæsta máta óásættanlegt og lýsir ASÍ sig mótfallið þeirri stefnu stjórnvalda að leggja stöðugt þyngri byrðar á láglaunafólk, barnafólk og það fólk sem er að koma sér upp húsnæði á sama tíma og aðrir sleppa.“
    Í þessum umsögnum verkalýðshreyfingarinnar kemur skýrt fram að mikill órói hefur skapast og með aðgerðum sínum hefur ríkisstjórnin skapað varhugavert ástand.

Skattlagning fyrirtækja.
    Minni hluti nefndarinnar er sammála því markmiði að samræma skattlagningu félaga við það sem gengur og gerist í samkeppnislöndum okkar. Því miður hafa breytingar þessar sáralítið verið undirbúnar. Sem dæmi um það lagði ríkisstjórnin til að tekjuskattur félaga lækkaði úr 45% í 33%, en síðan var ákveðið að breyta honum í 38%. Við meðferð málsins lagði meiri hlutinn til að tekjuskattar yrðu hækkaðir að nýju í 45%, en við lokaafgreiðslu málsins var prósentan lækkuð í 39%. Þetta er aðeins dæmi um þann hringlandahátt sem hefur viðgengist að undanförnu. Er það í beinu framhaldi af þeim vinnubrögðum sem viðgengust á síðasta hausti þegar tilkynnt var fyrirvaralaust að arður væri ekki lengur frádráttarbær hjá fyrirtækjum.
    Ríkisstjórnin hefur skapað mikla óvissu á hlutabréfamarkaðnum og með framkomu sinni unnið gegn því að fólk fjárfesti í hlutabréfum. Um þessar mundir er mjög mikilvægt að bæta eiginfjárstöðu atvinnurekstrarins, m.a. með því að sem flestir séu tilbúnir að eignast hlut í atvinnulífi landsmanna. Það verður best gert með góðum rekstrarskilyrðum og vissu um hvaða reglur gilda um skattlagningu.
    Sama ástandið ríkir í samskiptum ríkisvalds og vinnuveitenda og má í því sambandi vitna til umsagnar Vinnuveitendasambands Íslands, en þar segir m.a.:
    „Tilgangurinn með lækkun arðsfrádráttar er torskilinn því að ekki getur verið um nema óverulega fjárhagslega hagsmuni ríkissjóðs að ræða. Vandfundin er önnur skýring á þessu slysi en að hér sé á ferðinni vanhugsuð pólitísk málamiðlun sem einungis getur grundvallast á skilningsleysi á aðstæðum á fjármagnsmarkaði.“
    Á öðrum stað segir:
    „Sú skyndilega og óvænta frestun á nýlega boðaðri stefnu ríkisstjórnarinnar um að lækka skattaálögur fyrirtækja til samræmis við samkeppnislöndin er ekki til þess fallin að vekja traust á efnahagsstefnunni né að auka mönnum áræði í krafti loforða um að henni verði síðar hrundið í framkvæmd. Allt ber þetta vitni um slæm samskipti ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins og er vísbending um það að ríkisstjórninni er ekki treystandi til að varða veginn í því alvarlega efnahagsástandi sem nú ríkir.“
    Í ljósi þessara viðbragða telur minni hlutinn að málið sé illa undirbúið og að það þurfi að vinna betur. Minni hlutinn vill þó taka fram að þau atriði frumvarpsins, sem snerta skattlagningu á tekjum atvinnurekstrarins, hafa skánað við umfjöllun í nefndinni.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins.
    Minni hlutinn styður þær skipulagsbreytingar sem fyrirhugaðar eru í skatteftirliti. Minna verður á að ekki er nægilegt að breyta skipulagi og aðskilja skrifstofur. Nauðsynlegt er að stórauka skatteftirlit. Skýrasti vitnisburðurinn um það eru ummæli stærstu samtaka atvinnurekenda í landinu sem segja m.a. í umsögn sinni:
    „Vaxandi óþols gætir meðal fyrirtækja í VSÍ gagnvart því ástandi sem ríkir að svört atvinnustarfsemi geti starfað og dafnað óáreitt. Vitanlega kemur það illa við heiðarleg fyrirtæki að missa viðskipti til aðila sem ekki gefa tekjur upp til skatts. Fyrir liggur að þeir möguleikar til skilvirkara skatteftirlits sem virðisaukaskattskerfið býður upp á og vonir voru bundnar við hafa ekki ræst. Það liggur einnig fyrir að þeim málum, sem rannsökuð hafa verið undanfarin missiri, hefur farið fækkandi.“
    Þetta álit er slæmur vitnisburður um skatteftirlit í landinu og ætti að verða ríkisstjórninni nægileg hvatning til að taka hér til hendi.

Virðisaukaskattur.
    Þær breytingar á virðisaukaskatti, sem eru fyrirhugaðar, eru til þess fallnar að auka óvissu í atvinnumálum. Minni hlutinn er þeirrar skoðunar að breytingin muni ekki skila þeim tekjuauka sem ætlunin er, m.a. vegna minnkandi umsvifa í atvinnulífinu. Virðisaukaskattur á ferðaþjónustu mun leiða til samdráttar í atvinnugreininni og fækka störfum á tímum vaxandi atvinnuleysis. Það er óskynsamleg ráðstöfun að stöðva þannig helsta vaxtarbrodd í íslensku atvinnulífi. Það er vaxandi samkeppni um ferðamenn í heiminum, en þessi unga atvinnugrein Íslendinga hefur átt við byrjunarörðugleika að stríða.
    Í umsögnum um málið kemur eftirfarandi m.a. fram hjá VSÍ:
    „Það væri grátbroslegt framlag stjórnvalda til atvinnuuppbyggingar og í reynd sértæk skattheimta á það sem menn vona nú að geti orðið vaxtarbroddur í atvinnumálum framtíðarinnar. Þessi skattheimta má ekki ganga fram eins og boðað er því hækkun á borð við tveggja ára verðbólgu í OECD hlýtur að leiða til kyrkings í atvinnugreininni.“
    Í umsögn Félags íslenskra ferðaskrifstofa segir m.a.:
    „Því harmar Félag íslenskra ferðaskrifstofa að um leið og áralöng barátta ferðaþjónustu á Íslandi fyrir jafnræði gagnvart öðrum gjaldeyrisskapandi atvinnugreinum hvað varðar aðstöðugjöld og tryggingagjald er að bera árangur er sá ávinningur samtímis dreginn til baka og gott betur með álagningu virðisaukaskatts.“
    Í umsögn Sambands veitinga- og gistihúsaeigenda segir m.a.:
    „Á haustmánuðum fóru fram viðræður við fulltrúa stjórnvalda um það hvernig hægt væri að bæta rekstrarskilyrði ferðaþjónustu í síaukinni samkeppni á alþjóðavettvangi. Það var því mikið áfall fyrir ferðaþjónustuna að svarið skyldi vera aukin skattheimta.“
    Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að virðisaukaskattur verði lagður á tímaritaútgáfu og bókaútgáfu. Mjög alvarlegar athugasemdir hafa verið gerðar við þessa fyrirætlan, ekki síst af þeim sem starfa í atvinnugreininni. Fram hefur komið að mikil hætta er á að prentun og útgáfa bóka muni nánast leggjast af hér á landi. Þar er um svo alvarlegar fullyrðingar að ræða að þær verður að taka mjög alvarlega.
    Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar fór þess á leit við Þjóðhagsstofnun að hún legði mat á áhrif skattlagningar á atvinnulífið. Niðurstaða Þjóðhagsstofnunar hefur enn ekki borist, en þrátt fyrir það er ákveðið að leggja skattinn á. Ríkisstjórnin hefur engan áhuga fyrir að fá upplýsingar um afleiðingar gerða sinna og bindur sem fastast um augun. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir minni hluta nefndarinnar til að fá skattlagningu frestað og frekari athugun á málinu hefur því einfaldlega verið hafnað.
    Í þessu sambandi má vitna til útreikninga bóka- og blaðaútgáfunnar Fróða þar sem sýnt er fram á með haldbærum rökum að ríkissjóður tapi verulega á þessum breytingum. Skatturinn hefur mjög alvarlegar afleiðingar fyrir íslenska menningu og bókmenntir. Eitt mikilvægasta sérkenni íslenskrar menningar er mikil bókaútgáfa og áhugi á bókmenntum. Íslenskar bókmenntir eru í mikilli samkeppni við annað afþreyingarefni. Með vaxandi alþjóðlegum samskiptum er mikil nauðsyn að standa vörð um íslenska menningu og hlífa henni við frekari skattlagningu.
    Virðisaukaskattur á fjölmiðla mun draga úr lýðræðislegri umræðu hér á landi. Dagblöðum hefur fækkað og hætt er við að fleiri muni hverfa af sjónarsviðinu. Nýir ljósvakamiðlar hafa hleypt nýju lífi í þjóðfélagsumræðuna og m.a. veitt núverandi ríkisstjórn visst aðhald. Þótt núverandi stjórnarflokkar hafi barist hvað mest fyrir breytingum á þessu sviði þola þeir illa gagnrýni og hafa í hótunum við fjölmiðla. Þessi skattlagning mun jafnframt draga úr atvinnu og má í því sambandi vísa til umsagnar Blaðamannafélags Íslands.
    Með virðisaukaskatti á húshitun og fólksflutninga innan lands er verið að leggja skatt á ójafna aðstöðu. Einn mesti munur á framfærslukostnaði í landinu kemur fram í mismunandi kostnaði við að hita híbýli landsmanna. Það hefur verið baráttumál þeirra sem versta aðstöðuna hafa að jafna þennan kostnað. Það vakti mikla undrun þegar ríkisstjórnin tilkynnti skattlagningu húshitunarkostnaðar. Þótt ákveðið hafi verið að jafna skattinn nokkuð mun hann auka aðstöðumun í landinu. Virðisaukaskattur á fólksflutninga mun verða til þess að hækka kostnað þeirra sem þurfa að sækja þjónustu langt að. Einnig mun skatturinn draga úr ferðalögum innan lands og virka lamandi á starfsemi þeirrar þjónustu.
    Hætta er á að lækkun á virðisaukaskatti vegna byggingarkostnaðar auki skattsvik og dragi úr atvinnu byggingamanna. Í umsögn Landssambands iðnaðarmanna segir m.a.:
    „Skerðing á endurgreiðslu virðisaukaskatts til húsbyggjenda og húseigenda mun tvímælalaust bitna á atvinnu í byggingariðnaði og þar með auka á það kreppuástand og atvinnubrest sem þar hefur þegar skapast. Þá er ljóst að þessi skerðing mun hækka byggingarvísitölu um 3,7% þar sem ekki er ætlunin að lækka um leið skatthlutföll virðisaukaskatts, eins og upphafleg áform gerðu ráð fyrir. Ekki bætir úr skák að í þessu frumvarpi er vegið að hag húsbyggjenda og byggingariðnaðarins úr mörgum fleiri áttum, þ.e. með skerðingu vaxtabóta, skerðingu skattfrádráttar vegna húsnæðissparnaðarreikninga og sérstakri skattpíningu og órökréttum skattareglum varðandi atvinnurekstur í eigin nafni eða sameignarfélagsformi, en slíkt rekstrarform er algengt í byggingariðnaði. Allar þessar ráðstafanir eru í hróplegu ósamræmi við markmið frumvarpsins og skorar Landssamband iðnaðarmanna því á Alþingi að taka þær til endurmats.“ Þrátt fyrir þessar aðvaranir hafa engar breytingar verið gerðar.
    Af framangreindu má vera ljóst að breytingar á virðisaukaskatti mun virka til samdráttar í íslensku atvinnulífi og stórauka atvinnuleysi. Ólíklegt er að skattlagningin muni skila þeim tekjum sem gert er ráð fyrir en heildaráhrifin munu verða samdráttur í þjóðartekjum og minnkandi tekjur þjóðarbúsins. Hér er því um að ræða illa undirbúna breytingu þar sem enginn gerir sér grein fyrir áhrifunum.

Sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði.
    Minni hlutinn styður framlengingu þessa skatts en vill benda á að þetta er í fimmtánda skipti sem hann er settur á til bráðabirgða og jafnoft hefur Sjálfstæðisflokkurinn barist á móti honum. Þrátt fyrir 15 ára langa baráttu gegn skattinum hefur Sjálfstæðisflokkurinn ákveðið að framlengja hann um eitt ár enn og er það lýsandi dæmi um hversu lítið er að marka yfirlýsingar Sjálfstæðisflokksins í skattamálum fyrir kosningar.

    Ýmis atriði frumvarpsins eru enn óljós þegar þetta nefndarálit er ritað. Ekki hafa fengist upplýsingar um allar breytingartillögur meiri hlutans og því er ekki mögulegt að gera grein fyrir þeim hér. Minni hlutinn telur með tilvísun til framangreinds rökstuðnings að frumvarp þetta sé á engan hátt hæft til afgreiðslu. Allt of lítið er vitað um afleiðingar þess. Ekki hefur reynst unnt að fara nægilega vel ofan í lögfræðileg álitamál.
    Alvarlegust eru þó hin hörðu viðbrögð sem málið hefur fengið. Í öllum þeim umsögnum, sem fylgja með nefndaráliti okkar, kemur fram hörð gagnrýni á frumvarpið. Þeir sem að þessu nefndaráliti standa muna ekki eftir jafnalvarlegum athugasemdum við nokkurt frumvarp sem ríkisstjórnir hafa flutt í skattamálum.
    Með tilliti til ofanritaðs leggur minni hluti nefndarinnar til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 17. des. 1992.



Halldór Ásgrímsson,

Steingrímur J. Sigfússon.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.


frsm.



Kristín Ástgeirsdóttir.




    Umsagnir um frumvarpið og fleiri gögn, sem það varða, voru birt í þingskjalinu (lausaskjalinu) sem fylgiskjöl með nefndarálitinu. Um fylgiskjölin er vísað til þingskjalsins og skrár um erindi þingmála í efnisyfirliti Alþingistíðinda.
    Hér fer á eftir skrá yfir fylgiskjölin með frumvarpinu.


Fylgiskjöl:
    I. Þjóðhagsstofnun: Bréf Þjóðhagsstofnunar til efnahags- og viðskiptanefndar, 14. des. 1992.
    II. Þjóðhagsstofnun: Bréf Þjóðhagsstofnunar til efnahags- og viðskiptanefndar, 18. des. 1992.
    III. Vinnuveitendasamband Íslands: Umsögn, 14. des. 1992. Umsögninni fylgdu bréf Vinnuveitendasambandsins til fjármálaráðherra um landsútsvar og aðstöðugjald, 3. des. 1992, og yfirlit yfir áhrif álagningar virðisaukaskatts á hótelrekstur, 15. des. 1992.
    IV. Alþýðusamband Íslands: Umsögn, 14. des. 1992. Umsögninni fylgdu handrit að 15. tölublaði fréttabréfs ASÍ, 14. des. 1992, ályktun samþykkt á fundi miðstjórnar ASÍ, 9. des. 1992, og ályktun um kjara-, efnahags- og atvinnumál samþykkt á 37. þingi ASÍ á Akureyri, 23.–27. nóv. 1992.
    V. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja: Bréf til alþingismanna, 14. des. 1992.
    VI. Landssamband iðnaðarmanna: Umsögn, 14. des. 1992.
    VII. Landssamband iðnaðarmanna: Bréf til ríkisstjórnarinnar, 25. sept. 1992.
    VIII. Landssamband iðnaðarmanna: Bréf til efnahags- og viðskiptanefndar, 16. des. 1992.
    IX. Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna: Umsögn, 14. des. 1992. Umsögninni fylgdi ályktun aðalfundar BHMR 1992.
    X. Samband veitinga- og gistihúsa: Umsögn, 14. des. 1992.
    XI. Félag íslenskra iðnrekenda: Umsögn, 14. des. 1992.
    XII. Verkamannafélagið Dagsbrún: Bréf til forseta Alþingis, 16. des. 1992.
    XIII. Lánasjóður sveitarfélaga og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga: Sameiginleg ályktun vegna áforma ríkisstjórnarinnar um skerðingu á framlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, 7. des. 1992.
    XIV. Samband íslenskra sveitarfélaga: Umsögn, 12. des. 1992, og framhaldsumsögn Sambandsins, 16. des. 1992.
    XV. Verslunarráð Íslands: Umsögn, 14. des. 1992.
    XVI. Íslensk verslun: Umsögn, 16. des. 1992.
    XVII. Landssamband íslenskra útvegsmanna: Umsögn, 15. des. 1992.
    XVIII. Húsnæðisstofnun ríkisins: Ályktanir samþykktar á fundi húsnæðismálastjórnar, 10. des. 1992.
    XIX. Samband hljómplötuframleiðenda: Bréf til efnahags- og viðskiptanefndar, 16. des. 1992.
    XX. Félag sérleyfishafa og Félag hópferðaleyfishafa: Umsögn, 14. des. 1992.
    XXI. Félag íslenskra ferðaskrifstofa: Umsögn, 15. des. 1992.
    XXII. Ferðamálaráð Íslands: Ályktun samþykkt á fundi ráðsins, 24. nóv. 1992.
    XXIII. Blaðamannafélag Íslands: Umsögn, 11. des. 1992. Umsögninni fylgdi bréf til alþingismanna frá 7. des. 1992.
    XXIV. Samtök útgefenda tímarita: Umsögn, 14. des. 1992. Umsögninni fylgdi bréf til alþingismanna frá 7. okt. 1992.
    XXV. Fjármálaráðuneytið, efnahagsskrifstofa: Minnisblað um húsnæðissparnaðarreikninga og hlutafjárafslátt, 11. des. 1992, vinnuskjal um skattlagningu ferðaþjónustu, 11. des. 1992, minnisblað um virðisaukaskatt og skemmtanaskatt, 12. des. 1992, umsögn um kostnað við upptöku hátekjuskatts frá vararíkisskattstjóra, 12. des. 1992, og vinnuskjal um fyrirhugaðar breytingar á virðisaukaskatti 1993 og 1994, 11. des. 1992.
    XXVI. Iðnaðarráðuneytið: Ýmsar upplýsingar um kostnað við húshitun.