Ferill 284. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 284 . mál.


496. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/1990, um tekjustofna sveitarfélaga.

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarp þetta en með því er lagt til að innheimta álagðs aðstöðugjalds verði felld niður á árinu 1993 og að í kjölfar þess verði sveitarfélögum bætt tekjutapið til bráðabirgða á því ári með hlutdeild í tekjuskatti ríkisins árið 1993.
    Á fund nefndarinnar komu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga Þórður Skúlason og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Enn fremur komu á fund nefndarinnar Húnbogi Þorsteinsson frá félagsmálaráðuneytinu og Maríanna Jónasdóttir frá fjármálaráðuneytinu.
    Nefndin sendi frumvarp þetta til umsagnar efnahags- og viðskiptanefndar sem fjallaði um málið annars vegar út frá ráðstöfunum í efnahags- og skattamálum og hins vegar með tilliti til landsútsvars. Nefndinni bárust þrjú álit frá efnahags- og viðskiptanefnd. Í umsögn Vilhjálms Egilssonar o.fl. er lagt til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Meiri hluti félagsmálanefndar er samþykkur því áliti.
    Nefndin telur ástæðu til að árétta að ákvæði 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I, er varðar breytingar á framlagi ríkissjóðs sem yfirferð framtala og úrskurður á kærum kann að leiða til, gildir eingöngu um árið 1992.

Alþingi, 17. des. 1992.



Rannveig Guðmundsdóttir,

Guðjón Guðmundsson.

Einar K. Guðfinnsson.


form., frsm.



Gunnlaugur Stefánsson.

Árni M. Mathiesen.





Fylgiskjal I.


Álit Vilhjálms Egilssonar, Guðjóns Guðmundssonar,


Inga Björns Albertssonar og Rannveigar Guðmundsdóttur.


    Efnahags- og viðskiptanefnd hefur fjallað um þau ákvæði frumvarps til laga um breyting á lögum nr. 19/1990, um tekjustofna sveitarfélaga, 284. mál, sem eru á hennar málefnasviði, sbr. bréf félagsmálanefndar frá 15. desember sl. Á fund nefndarinnar komu Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri VSÍ, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson formaður og Þórður Skúlason framkvæmdastjóri, Róbert Agnarsson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Gylfi Þórðarson, framkvæmdastjóri Sementsverksmiðju ríkisins, Þór Valgeirsson, aðstoðarforstjóri ÁTVR, Alfreð Þorsteinsson, forstjóri Sölu varnarliðseigna, Baldvin Tryggvason, formaður Sambands íslenskra sparisjóða, Stefán Pálsson bankastjóri frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri Áburðarverksmiðju ríkisins, Kristinn Björnsson, forstjóri Skeljungs hf., Geir Magnússon, forstjóri Olíufélagsins hf., Hörður Helgason, aðstoðarforstjóri OLÍS, og Jakob R. Möller hdl.
    Nefndin fjallaði í fyrsta lagi um þá hlið aðstöðugjaldsmálsins sem snýr að þeim ráðstöfunum í efnahagsmálum og skattamálum sem þar hafa verið til umfjöllunar. Undirritaðir nefndarmenn telja niðurfellingu aðstöðugjalds mikilvæga ráðstöfun fyrir atvinnulíf landsmanna.
    Jafnframt var fjallað um landsútsvar. Kom fram mikil gagnrýni frá mörgum umsagnaraðilum um að það skyldi ekki vera fellt niður með sama hætti og aðstöðugjald. Kom og fram það sjónarmið og lögfræðilegt álit að landsútsvar væri ígildi aðstöðugjalds og því væri andstætt jafnræðisreglu að fella það ekki niður jafnhliða. Fulltrúar fjármálaráðuneytisins töldu hins vegar að jafnræðisregla væri ekki brotin. Ljóst er að málið mun verða áfram til umfjöllunar.
    Með hliðsjón af þeim aðstæðum, sem nú eru í ríkisfjármálum og vegna aðdraganda málsins, leggja undirritaðir nefndarmenn til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 17. des. 1992.



Vilhjálmur Egilsson, form.


Guðjón Guðmundsson.


Ingi Björn Albertsson.


Rannveig Guðmundsdóttir.





Fylgiskjal II.


Álit Sólveigar Pétursdóttur.


    Undirritaður nefndarmaður efnahags- og viðskiptanefndar vísar til umsagnar Vilhjálms Egilssonar o.fl. til félagsmálanefndar, dags. 17. desember 1992, um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/1990, um tekjustofna sveitarfélaga, og telur að það eigi að samþykkja óbreytt, að undanskildu ákvæði um landsútsvar. Eins og fram kemur í fyrrgreindri umsögn kom fram veruleg gagnrýni á fundi efnahags- og viðskiptanefndar á þennan þátt frumvarpsins og var talið að það væri andstætt jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að fella þetta gjald ekki niður jafnhliða aðstöðugjaldinu. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður í ríkisfjármálum telur undirrituð að finna hefði mátt lausn á þessu máli enda verða ekki séð nein rök sem réttlæti þessa mismunun í skattlagningu.

Alþingi, 17. des. 1992.



Sólveig Pétursdóttir.





Fylgiskjal III.


Álit Halldórs Ásgrímssonar, Steingríms J. Sigfússonar,


Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar og Kristínar Ástgeirsdóttur.


    Efnahags- og viðskiptanefnd hefur fengið til umsagnar frá félagsmálanefnd frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga sem fjallar um niðurfellingu aðstöðugjalds. Undirritaðir fulltrúar minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar eru sammála því að aðstöðugjaldið verði fellt niður. Almenn samstaða hefur náðst um það í þjóðfélaginu að þessi tekjustofn sé ranglátur og niðurfelling gjaldsins muni örva atvinnulífið og stuðla að lækkuðu vöruverði. Með niðurfellingu aðstöðugjaldsins eru jöfnuð samkeppnisskilyrði íslenskra atvinnuvega við erlenda samkeppnisaðila. Aðstöðugjaldið hefur auk þess komið misjafnlega við einstakar atvinnugreinar og valdið mismunun.
    Uppruna aðstöðugjalds sveitarfélaga má rekja til veltuútsvars. Veltuútsvarið var mismunandi hátt og þess vegna var ákveðið að setja lögbundið hámark með lögum nr. 43 1960. Með lögunum var ákveðið að hámarks álagning veltuútsvars væri 3% fyrir Reykjavík, en utan Reykjavíkur var 3% hámark fyrir t.d. olíuverslun, kvikmyndahús og sælgætisgerðir og 2% hámark fyrir t.d. annan iðnað og verslun. Aðstöðugjald var fyrst lagt á með lögum nr. 69 frá 1962, um tekjustofna sveitarfélaga. Þau lög komu í stað laga um tekjuútsvar frá 1960.
    Grundvallaratriði þessara laga var að koma á tekjustofni fyrir sveitarfélögin í stað veltuútsvarsins en það þótti sanngjarnt að fyrirtækin greiddu fyrir þá aðstöðu sem þau fengju hjá sveitarfélögunum. Hámark aðstöðugjaldsins hefur verið mismunandi frá því að lögin tóku fyrst gildi 1962. Mismunandi aðstöðugjald á rætur sínar að rekja til þess að efnahagslífið var með allt öðrum hætti þegar gjaldið var fyrst lagt á. Sjávarútvegurinn skapaði nær allar gjaldeyristekjur og flestar aðrar atvinnugreinar voru verndaðar með háum tollum og aðflutningsgjöldum. Við breyttar aðstæður var ákveðið að jafna aðstöðugjaldið meira með tilliti til vaxandi alþjóðlegrar samkeppni og opnara hagkerfis.
    Miðað við forsögu málsins og þess vilja löggjafans að jafna samkeppnisskilyrði atvinnuveganna við erlenda keppinauta telur minni hluti nefndarinnar nauðsynlegt að fella niður aðstöðugjöld á öllum atvinnugreinum.
    Tekið skal fram að þar með er ekki verið að fallast á þá leið sem ríkisstjórnin hefur valið til að afla fjár til að mæta niðurfellingu aðstöðugjaldsins. Um afstöðu minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar vísast í því sambandi í nefndarálit um „skattorm“ ríkisstjórnarinnar.
    Meiri hluti nefndarinnar hefur ekki fallist á að fella niður landsútsvar með samsvarandi hætti og aðstöðugjald. Landsútsvarið er sami skatturinn sem leggst á tiltekin fyrirtæki. Að mati minni hlutans leikur mikill vafi á því hvort slík mismunun samrýmist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
    Verði samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði að veruleika mun hagkerfið opnast mun meira en áður og því eru engin rök sem mæla með því að viðhalda landsútsvarinu. Með því tekur ríkisstjórnin mikla áhættu en fyrirtækin hafa ákveðið að sækja rétt sinn með málaferlum.
    Varðandi frekari rökstuðning vill minni hluti nefndarinnar vitna til meðfylgjandi bréfs Vinnuveitendasambands Íslands dagsett 3. desember 1992. Þeir aðilar, sem komu til viðtals við nefndina, tóku allir undir þau rök sem þar koma fram. Jafnframt er rétt að benda á bréf Íslenska járnblendifélagsins til fjármálaráðuneytisins en þar kemur fram að það er samningsbrot að viðhalda aðstöðugjaldinu á fyrirtækið.
    Þrátt fyrir öll þessi rök sýndi ríkisstjórnin engan vilja til að leiðrétta þau mistök sem virðast hafa átt sér stað. Það er lýsandi dæmi fyrir vinnubrögð undanfarinna vikna að fljótræði og skyndiákvarðanir ráða ferðinni. Skattar eru rökstuddir sem sálfræðileg aðgerð, en skynsemin og tekjuöflunarþörfin ráða minnu. Vel má vera að hin sálfræðilegu áhrif þeirrar mismununar sem kemur hér fram verði einhver, en verulegar líkur eru á að ríkisstjórnin tapi þeim ímyndaða ávinningi í kostnaðarsömum málaferlum. Það er ekki hægt að styðja slík vinnubrögð og því leggur minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að landsútsvarið verði jafnframt fellt niður.

Alþingi, 17. des. 1992.



Halldór Ásgrímsson.


Steingrímur J. Sigfússon.


Jóhannes Geir Sigurgeirsson.


Kristín Ástgeirsdóttir.