Ferill 145. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 145 . mál.


532. Nefndarálit



um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1993.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund frá fjármálaráðuneyti Halldór Árnason skrifstofustjóra, Jón Ragnar Blöndal viðskiptafræðing, Bolla Þór Bollason skrifstofustjóra, Maríönnu Jónasdóttur deildarstjóra og Sveinbjörn Óskarsson deildarstjóra. Enn fremur komu frá Húsnæðisstofnun ríkisins Sigurður E. Guðmundsson forstjóri, Hilmar Þórisson skrifstofustjóri, Halldór Jónatansson, forstjóri Landsvirkjunar, Örn Marinósson, skrifstofustjóri Landsvirkjunar, Jóhanna Leópoldsdóttir og Snorri Tómasson frá Ferðamálasjóði, Þorvarður Alfonsson frá Iðnþróunarsjóði, Geir Gunnlaugsson frá Iðnlánasjóði, Guðmundur Malmquist, forstjóri Byggðastofnunar, Ólafur Tómasson póst-og símamálastjóri, Guðmundur Björnsson, aðstoðarpóst- og símamálastjóri, Ágúst Valgeirsson framkvæmdastjóri Flugmálastjórnar, Lárus Jónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna, Jón Gunnar Ottósson, deildarstjóri í umhverfisráðuneyti, Þorgeir Sigurgeirsson, aðstoðarmaður landbúnaðarráðherra, Leifur Kr. Jóhannesson, framkvæmdastjóri Stofnlánadeildar landbúnaðarins, Jón Reynir Magnússon, forstjóri Síldarverksmiðja ríkisins, og Arndís Steinþórsdóttir, deildarstjóri í sjávarútvegsráðuneyti.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
    Lögð er til sú breyting á 1. gr. að lántökuheimild fjármálaráðherra verði lækkuð úr 15.800 millj. kr. í 15.400 millj. kr. og er það í samræmi við stöðu fjárlagafrumvarps. Skýringin á þessu er í fyrsta lagi sú að veitt lán, nettó, lækka um 670 millj. kr., í öðru lagi hækka stofn- og hlutafjárframlög um 65 millj. kr. sem stafar af þátttöku Íslands í Greiðslujafnaðarsjóði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir Eystrasaltsríkin. Þá hækka greiddar afborganir ríkissjóðs um 110 millj. kr. vegna gengisbreytinga. Loks er halli ríkissjóðs nú áætlaður um 60 millj. kr. meiri en fram kemur í frumvarpi.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 3. gr. Lagt er til að lántökuheimild Lánasjóðs íslenskra námsmanna hækki um 360 millj. kr. og stafar hækkunin nær alfarið af mistökum við gerð fjárhagsáætlunar Lánasjóðsins en þar féllu niður 300 millj. kr. í afborgunum og vöxtum. Enn fremur er lagt til að lántökuheimild Póst- og símamálastofnunar verði flutt í 5. gr. frumvarpsins. Þannig mun stofnunin geta leitað lána beint frá framleiðendum ljósleiðarans þar sem hún telur sig geta fengið afar hagstæð lánskjör. Verði raunin önnur getur ríkissjóður hins vegar nýtt lántökuheimildina og endurlánað Póst- og símamálastofnuninni samkvæmt heimild í 5. gr. laga nr. 43/1990, um Lánasýslu ríkisins. Þá er lagt til að Síldarverksmiðjur ríkisins fái heimild til að taka lán að fjárhæð allt að 130 millj. kr. Rekstraráætlun fyrirtækisins hefur verið endurskoðuð miðað við erfiðari rekstrarskilyrði og er ekki lengur talið gerlegt að ná fram þeirri lækkun rekstrarkostnaðar sem að var stefnt. Síldarverksmiðjur ríkisins eru B-hluta ríkisfyrirtæki og er þetta í samræmi við afgreiðslu fjárlaganefndar á því.
    Lagðar eru til þær breytingar á 4. gr. að lántökuheimild Landsvirkjunar verði 7.750 millj. kr. í stað 7.450 millj. kr. og stafar hækkun þessi af gengisbreytingum; lántökuheimild Byggingarsjóðs verkamanna verði 6.870 millj. kr. í stað 6.691 millj. kr. og stafar hækkunin af ýmsum fjármagnshreyfingum; lántökuheimild húsbréfadeildar Húsnæðisstofnunar ríkisins lækki um 4.000 millj. kr. í framhaldi af hækkun lántökuheimildar húsbréfadeildar um sömu fjárhæð á þessu ári, sbr. lög 9. des. 1992, um breytingu á lánsfjárlögum fyrir árið 1992; loks hækki lántökuheimild Iðnlánasjóðs um 300 millj. kr. til þess að mæta þörfum sjóðsins.
    Lögð er til sú breyting á 5. gr. að undir hana verði færð lántökuheimild Pósts- og símamálastofnunarinnar frá 3. gr. Hækkun lántökuheimildar úr 1.100 millj. kr. í 1.280 millj. kr. stafar af fjármagnskostnaði sem ekki var áður gert ráð fyrir.
    Lagt er til að 6. gr. verði breytt þannig að heimilt verði að nýta erlendar lántökuheimildir, sem skilgreindar eru í viðauka frumvarpsins, til lántöku innan lands. Er þetta gert til að aðilar hafi sveigjanleika til að taka lán innan lands fremur en erlendis ef aðstæður leyfa.
    Lagt er til að 11. gr. verði breytt þannig að uppsetning hennar verði aftur færð í hefðbundið snið og töluliðir hennar verði hver um sig ein grein. Enn fremur er lögð til breyting á 18. tölul., er verði 27. gr., sem er nauðsynleg vegna fjárlaga 1993.
    Í athugasemdum með frumvarpinu á bls. 14–15 kemur fram það álit að erlendir lánardrottnar telji að ríkissjóður beri ábyrgð á skuldbindingum Fiskveiðasjóðs. Meiri hluti nefndarinnar telur í þessu sambandi rétt að árétta að samkvæmt lánsfjárlögum fyrir árið 1992, nr. 2/1992, ber ríkissjóður ekki ábyrgð á nýjum skuldbindingum sem Fiskveiðasjóður stofnar til eftir 1. mars 1992. Í samræmi við þetta er lagt til að fella niður ákvæði um Fiskveiðasjóð úr viðauka frumvarpsins. Meiri hluti nefndarinnar telur að skoðanir erlendra lánardrottna um ríkisábyrgð á lánum hafi ekki lagagildi á Íslandi og telur að ásetningur löggjafans um að afnema ríkisábyrgð á skuldbindingum Fiskveiðasjóðs hafi komið skýrt fram við setningu lánsfjárlaga fyrir árið 1992.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með þessum breytingum sem hér hefur verið gerð grein fyrir og gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 19. des. 1992.


Vilhjálmur Egilsson,

Guðjón Guðmundsson.

Ingi Björn Albertsson.

form., frsm.



Rannveig Guðmundsdóttir.

Sólveig Pétursdóttir.