Ferill 295. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 295 . mál.


535. Nefndarálit



um frv. til l. um fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.


    Allsherjarnefnd hefur fjallað um frumvarp til laga um fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. I. kafli frumvarpsins, 1.–29. gr., fjallar um brottfall laga um hreppstjóra, nr. 32 26. apríl 1965, o.fl. Ákvörðun stjórnarflokkanna að leggja niður stöður hreppstjóra kom fram í frumvarpi til fjárlaga og var því til umræðu í allsherjarnefnd þegar hún ræddi þann kafla þess sem er á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis.
    Í áliti minni hluta allsherjarnefndar til fjárlaganefndar segir svo um þetta efni:
    „Hjá fulltrúum dómsmálaráðuneytisins, sem komu á fund nefndarinnar, kom fram að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu ætti að leggja niður störf hreppstjóra frá næstu áramótum. Þessi ákvörðun lækkar útgjaldatillögur í fjárlagafrumvarpinu um 18 millj. kr. en ekki hefur verið gerð nein athugun á því hver raunverulegur sparnaður verður. Við verkefnum hreppstjóra eiga lögregla, dýralæknar og sveitarstjórnir að taka. Því mun að sjálfsögðu fylgja aukinn kostnaður fyrir lögreglu, bæði vegna vinnu og aksturs, en ekki er gert ráð fyrir neinni hækkun fjárveitinga til hennar í því skyni. Ekkert kom fram um hver ætti að greiða dýralæknum fyrir þá aukavinnu sem þeir munu þurfa að taka að sér, en áreiðanlega er tímakaup þeirra ekki lægra en hreppstjóra. Ekkert samráð hefur verið haft við Samband íslenskra sveitarfélaga um þau verkefni sem þeim er ætlað að sinna og ekki heldur gert ráð fyrir neinum greiðslum til þeirra af þeim sökum. Það er því augljóst að hér er um mjög flausturslega ákvörðun að ræða sem enginn veit hvaða tilgangi þjónar því að þeir sem til þekkja eru sannfærðir um að miðað við launakjör hreppstjóra muni breytingin ekki leiða til sparnaðar. Ekki hefur enn verið lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um hreppstjóra og því liggur ekki fyrir hvort meiri hluti er fyrir því á Alþingi að leggja niður þessi gömlu embætti.“
    Þessar ábendingar voru ekki teknar til greina af meiri hluta fjárlaganefndar fyrir 2. umr. frumvarps til fjárlaga. Því fluttu fulltrúar úr minni hluta allsherjarnefndar breytingartillögu við þá umræðu um fjárveitingu til greiðslu á launum hreppstjóra. Þingmenn stjórnarflokkanna felldu þessa breytingartillögu og var hún því endurflutt nokkuð breytt fyrir 3. umr.
    Við 1. umr. þessa frumvarps lýsti dóms- og kirkjumálaráðherra því svo yfir að nú mundi vera orðinn meiri hluti fyrir því á Alþingi að halda áfram greiðslu launa hreppstjóra og óskaði þess vegna eftir því við allsherjarnefnd að hún flytti breytingartillögu við frumvarpið um að fyrstu 29 greinar þess af 34 alls féllu niður. Það kom líka fram í ræðu formanns fjárlaganefndar við 3. umr. frumvarps til fjárlaga að nefndin hefur nú fallist á það sjónarmið minni hluta allsherjarnefndar að það er síður en svo sparnaður fyrir ríkið eða þjóðarbúið að þessari tillögu stjórnarflokkanna að leggja niður embætti hreppstjóra. Þvert á móti muni það leiða til stóraukinna útgjalda og tjóns eins og raunin er á um svo margar aðrar tillögur ríkisstjórnarinnar.
    En þetta mál er táknrænt dæmi um hringlandahátt og vitleysu ríkisstjórnarinnar í öllum málefnaundirbúningi.
    Fyrsta grein frumvarpsins, sem stendur þá eftir, er núverandi 30. gr. þess. Samkvæmt henni skal leggja á umferðaröryggisgjald sem renni til Umferðarráðs. Hér er um að ræða nýjan skatt ríkisstjórnarinnar, en þeir eru að verða fleiri en tölu verður á komið. Hins vegar kom það fram hjá Óla H. Þórðarsyni, framkvæmdastjóra Umferðarráðs, á nefndarfundi að meiri hluti tekna af gjaldinu á að renna til nýrra verkefna á sviði umferðaröryggismála hjá Umferðarráði. Minni hlutinn getur því fallist á þessa gjaldtöku en leggur eindregið til að vísitöluákvæðin í greininni verði felld niður og mun flytja um það sérstaka breytingartillögu.
    Í III. kafla frumvarpsins, sem verður II. kafli, er um að ræða fjármálaráðstafanir á sviði kirkjumála. Tekjustofnar kirkjunnar hafa verið skertir í þrjú ár. Á þessu ári er kirkjugarðsgjald skert um 20%. Því mótmælti biskup Íslands í ræðu við setningu kirkjuþings 1991 með þessum orðum:
    „Það urðu mér mikil vonbrigði þegar Þorsteinn Pálsson kirkjumálaráðherra og Friðrik Sophusson fjármálaráðherra stóðu ekki við yfirlýsingar sínar í fyrra. Þá á ég við blaðagrein Þorsteins og þingræðu Friðriks. Vonbrigðin eru ekki aðeins vegna þess að kirkjan fái ekki þessa peninga heldur einnig að fá framan í sig að það sé rétt sem almannarómur hefur lengi haldið fram að stjórnmálamenn hafi þrenns konar afstöðu til mála. Í fyrsta lagi hvernig þeir tala fyrir kosningar, í öðru lagi hvernig þeir tala á þingi sem óbreyttir þingmenn og í þriðja lagi hvað gerist þegar þeir verða ráðherrar.“
    Þessu svaraði Þorsteinn Pálsson, dóms- og kirkjumálaráðherra í ræðu síðar á kirkjuþinginu og segir Morgunblaðið frá henni 26. október 1991 með þessari fyrirsögn: „Kirkjan fær óskertar tekjur af sóknar- og kirkjugarðsgjöldum 1993.“ Fyrirsögnin er byggð á eftirfarandi kafla í ræðu ráðherra:
    „En við fjárlagagerð næsta árs verður þessi tekjustofn óskertur eins og ég skýrði biskupi fyrir nokkru frá að í undirbúningi væri. Kirkjunnar menn vita að það er ekki alltaf hlaupið að því að kveða niður drauga sem vaktir hafa verið upp, en það verður eigi að síður að því er þennan varðar gert við næstu fjárlagagerð sem verður sú fyrsta sem þessi ríkisstjórn vinnur að með fullum undirbúningstíma.“
    Þrátt fyrir þetta loforð, sem gefið var á kirkjuþingi 1991, er hér lagt til að ráðstöfunarfé kirkjugarða verði aftur skert um 20% á árinu 1993. En ekki er látið þar við sitja því að við er bætt ákvæði í 33. gr. frumvarpsins um að laun umsjónarmanns kirkjugarða skuli greiðast úr Kirkjugarðasjóði. Það er athyglisvert að þessi nýja skerðing á ráðstöfunarfé kirkjunnar er látin bitna á Kirkjugarðasjóði þar sem í 27. gr. laga um kirkjugarða segir:
    „Meginmarkmið Kirkjugarðasjóðs er að jafna aðstöðu kirkjugarða og veita aðstoð þar sem tekjur kirkjugarða hrökkva ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum.“
    Stjórnarflokkarnir eru því trúir þeirri stefnu sinni að skerða fyrst og fremst framlög sem varið er til jöfnunar og nota skattstofna sem bitna þyngst á þeim sem versta hafa aðstöðu.
    Minni hluti allsherjarnefndar getur því ekki stutt ákvæði III. kafla frumvarpsins sem gengur þvert á fyrirheit dóms- og kirkjumálaráðherra við kirkjuna og eykur óréttlæti.
    Undirritaðir nefndarmenn leggja því til að 31.–33. gr. verði felldar.

Alþingi, 19. des. 1992.


Jón Helgason,

Kristinn H. Gunnarsson.

Ólafur Þ. Þórðarson.

frsm.



Anna Ólafsdóttir Björnsson.