Ferill 286. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 286 . mál.


555. Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breytingar í skattamálum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Ekki er ein báran stök í fálmkenndri glímu ríkisstjórnarinnar við ríkisfjármálin. Eftir 2. umr. um skattafrumvarpið kom í ljós svo sem vænta mátti að sitthvað vantaði upp á að hægt væri að loka skattadæminu. Eftir var að uppreikna skattvísitölu eignatengdra skatta, svo og að svara erindi bænda varðandi skattalega meðferð á kostnaði þeim sem fylgir kaupum á framleiðslurétti í landbúnaði. Nefndin tók þessi atriði til umfjöllunar milli umræðna og afgreiddi frá sér breytingartillögur sem ræddar verða við 3. umr.
    Nefndin fékk á sinn fund Gylfa Arnbjörnsson, hagfræðing ASÍ, og Halldór Björnsson, varafor­mann Verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Þeir greindu nefndinni frá harðorðri ályktun miðstjórnar ASÍ frá 16. desember og fjölmennum fundi Dagsbrúnarmanna sem mótmæltu aðgerðum ríkisstjórn­arinnar og kröfðust þess að ríkisstjórnin færi frá linnti ekki árásum hennar á launafólk. Þeir sögðu tillögur ríkisstjórnarinnar ýta undir vaxandi atvinnuleysi og nefndu sem dæmi um það hve alvarlegt ástandið væri að sl. föstudag bættust 100 nýir Dagsbrúnarmenn við á atvinnuleysisskrá. Dagsbrún ákvað nýlega að greiða atvinnulausum félögum sínum sérstaka jólauppbót úr eigin sjóðum til marks um þá alvarlegu stöðu sem þeir standa frammi fyrir.
    Þessar lýsingar árétta þá niðurstöðu sem minni hluti nefndarinnar komst að í fyrra nefndaráliti. Ríkisstjórnin er að efna til ófriðar á vinnumarkaði og ljóst er að verkalýðshreyfingin mun ekki láta óréttlátar skattaálögur hennar yfir sig ganga án þess að snúast til varnar.
    Nefndin flytur sameiginlega breytingartillögur varðandi skattalega meðferð á framleiðslurétti í landbúnaði, enda er um nauðsynjamál að ræða. Minni hluta nefndarinnar þykir rétt að ríkisstjórnar­flokkarnir beri ábyrgð á útreikningi skattvísitölunnar, en þess ber að geta að ASÍ heldur því fram að núverandi ríkisstjórn hafi í raun lækkað skattleysismörkin um 6.000 kr. á mánuði. Um þetta atriði deila fjármálaráðuneytið og ASÍ.
    Samkvæmt útreikningum ASÍ voru skattleysismörkin rúmar 72 þús. kr. á mánuði samkvæmt nú­verandi verðlagi þegar staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp 1988. Eftir þær breytingar, sem sam­þykktar voru við 2. umr. um skattafrumvarp ríkisstjórnarinnar, eru þau komin niður í rúmar 57 þús. kr. og voru nú síðast lækkuð um 400 kr. á mánuði. Þessu mótmælti stjórnarandstaðan harðlega og ítrekar þau mótmæli hér, enda er það álit hennar að heldur beri að skattleggja þá sem meira bera úr býtum en rýra kjör þeirra sem lægst hafa launin.
    Minni hluti nefndarinnar ítrekar það álit sitt, sjá þskj. 495, að skattafrumvarpið hafi komið allt of seint fram. Það tók sífelldum breytingum dag frá degi og allt of lítill tími gafst til að fara ofan í einstök atriði þess. Þó er ljóst að áhrif frumvarpsins, ef að lögum verður, geta orðið afdrifarík bæði fyrir afkomu fjölda heimila í landinu og ekki síður fyrir ferðaþjónustu, prentiðnað og bóka- og blaðaútgáfu. Að mati Þjóðhagsstofnunar geta tapast allt að 170 störf vegna 14% virðisaukaskattsins sem stendur til að leggja á þessar greinar.
    Með tilliti til þeirra efasemda, sem uppi eru varðandi útreikninga á skattvísitölunni og þeirra margvíslegu óréttlátu skatta sem lagðir verða á almenning og einstakar atvinnugreinar, nái frum­varpið fram að ganga, leggur minni hluti nefndarinnar til að það verði fellt.

Alþingi, 21. des. 1992.



    Kristín Ástgeirsdóttir,     Halldór Ásgrímsson.     Steingrímur J. Sigfússon.
    frsm.          

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.







Fylgiskjal I.


Alþýðusamband Íslands:

Ályktun miðstjórnar ASÍ vegna lækkunar persónuafsláttar.


    Miðstjórn ASÍ mótmælir harðlega hugmyndum meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um að auka skattaálögur almennings með því að lækka persónuafsláttinn um 400 kr. á mánuði eða 4.800 kr. á ári. Slík skerðing lendir óhjákvæmilega af meiri þunga á því fólki sem hefur lægstu tekjurnar. Miðstjórn fagnar þeirri ákvörðun að fallið verði frá því að skerða barnabætur um 500 millj. kr. á næsta ári, en ítrekar að tekjuþörf ríkissjóðs ber að mæta með skattlagningu hærri tekna, fjár­magnstekjuskatti og stórhertu skatteftirliti. Miðstjórn lýsir furðu sinni á því að ríkisstjórnin skuli enn hafna því að láta þá sem betur mega sín bera meiri byrðar en velja þess í stað að auka skattaálög­ur lágtekjufólks.
    Miðstjórn ASÍ minnir Alþingi jafnframt á að þegar staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp 1. jan­úar 1988 voru skattleysismörkin sem svarar rúmlega 72 þús. kr. miðað við verðlag í dag. Skattleys­ismörk hafa þannig verið lækkuð um rúmar 15 þús. kr. á mánuði á núverandi verðlagi. Einstaklingur með 72 þús. kr. tekjur var skattlaus 1988 en er nú gert að greiða nærri 9% tekna sinna í tekjuskatt og útsvar. Í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa skattleysismörkin verið lækkuð úr tæpum 63 þús. kr. í 57 þús. kr., eða um 6.000 kr. á mánuði, og skattbyrði einstaklings með 63 þús. kr. tekjur aukin um 3,6%.


Hagdeild ASÍ:



(Tölvutækur texti ekki til. Athugið pdf-skjalið)




Fylgiskjal II.

Alþýðusamband Íslands:

Minnisblað um aukna skattheimtu ríkissjóðs vegna


efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar sent efnahags- og viðskiptanefnd.


(21. desember 1992.)



(Upphæðir eru í millj. kr.)     

Hækkun tekjuskatt um 1,5%          2.900
Lækkun persónuafsláttar          700
Hátekjuskattur          400
Samtals aukning tekjuskatts          4.000

Fækkun undanþágna í VSK          1.800
Vaxtabætur          500
Hækkun viðmiðunarmarka sjálfstæðra atvinnurekenda          300
Hækkun bensíngjalds um 1,50 kr.          375
Samtals annað          2.975

Samtals skattheimta          6.975

Þar af:
Almenn skattheimta          6.275
Sértæk skattheimta          700

Útgjöld ríkissjóðs vegna afnáms aðstöðugjalds          4.250
Útgjöld vegna lækkunar tryggingagjalds í ferðaþjónustu          250


Fylgiskjal III.

Verkalýðsfélagið Árvakur:


Mótmæli gegn aðför að lífskjörum.


    Almennur fundur í Verkalýðsfélaginu Árvakri Eskifirði mótmælir harðlega tillögum meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um lækkun skattleysismarka. Með því eru svikin loforð allra þeirra sem buðu fram í síðustu alþingiskosningum. Þessi atlaga gegn láglaunafólki í landinu er sú síðasta af fjölmörgum sem á launafólki hafa dunið síðustu mánuði.
    Fundurinn hefur fullan skilning á því að mikil efnahagsleg áföll, sem dunið hafa á Íslendingum á síðustu missirum, gera það að verkum að lífskjör hljóta að versna. Það á hins vegar að vera skýlaus krafa til ríkisstjórna á hverjum tíma að þær séu þeim vanda vaxnar að jafna slíkum áföllum af rétt­læti á þegnana. Þessari skyldu hefur núverandi ríkisstjórn brugðist. Hún hefur m.a. þverbrotið öll loforð sem gefin voru í síðustu kosningum um réttlátari skattlagningu. Verði ekki þegar snúið af þessari braut sem leiðir beint til aukinnar fátæktar í landinu og tekin upp samvinna við verkalýs­hreyfinguna um úrlausnir sem taka mið af hagsmunum hinna verst settu þá ber þessari ríkisstjórn að fara frá og gefa öðrum tækifæri til að leysa aðsteðjandi vandamál.


Fylgiskjal IV.


Starfsmannafélagið Sókn:


Ályktun til ríkisstjórnar Íslands frá stjórn Sóknar.


(18. desember 1992.)


    Stjórn Starfsmannafélagsins Sóknar mótmælir harðlega fyrirhugaðri lækkun á persónuafslætti, hækkun skatta og auknum álögum á lágtekjufólk. Hin breiðu bök þjóðfélagsins finnast ekki meðal fólks með 50 til 60 þús. kr. mánaðarlaun heldur meðal fjármagnseigenda og hátekjufólks. Stjórn Starfsmannafélagsins Sóknar krefst þess að ríkisstjórnin hætti við fyrirhugaðar skattbreytingar sem leiða eingöngu til frekari gjaldþrota alþýðuheimila landsins en beini þess í stað atlögum sínum að þeim sem meira mega sín, fjármagnseigendum og hátekjufólki, sem hér eftir sem hingað til eiga að sleppa frá vandanum.
    Með versnandi atvinnuástandi fjölgar því fólki dag frá degi sem býr við kjör langt undir fátækra­mörkum. Stjórn Starfsmannafélagsins Sóknar krefst þess að ríkisvaldið og aðrir ráðamenn þjóðfé­lagsins komi til móts við verkalýðshreyfinguna og leiti allra leiða til að vinna bug á ógnvænlegu at­vinnuleysi sem þjóðfélagið er í engu tilbúið að halda úti eða búa við og auka jöfnuð í þjóðfélaginu í stað þess að ráðast alltaf á garðinn þar sem hann er lægstur.

F.h. Starfsmannafélagsins Sóknar,


Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður.





Fylgiskjal V.



Umsögn Sambands íslenskra viðskiptabanka.


(18. desember 1992.)


    Samband íslenskra viðskiptabanka þakkar bréf dags. 8. desember sl. þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um skattamál. Ýmsir meginþættir frumvarpsins gefa ekki tilefni til umsagnar af hálfu viðskiptabankanna en ástæða er til að koma á framfæri eftirfarandi ábendingum og athuga­semdum.

Stefnumörkun í tekjuskattlagningu lögaðila.
    Samband íslenskra viðskiptabanka fagnar því ákvæði frumvarpsins sem kveður á um verulega lækkun á tekjuskattshlutfalli lögaðila enda þótt sú lækkun komi ekki að fullu til framkvæmda við álagningu á tekjur ársins 1992. Lækkun tekjuskatts hefur sérstaka þýðingu fyrir bankana sem eru háðir ströngum alþjóðlegum reglum um lágmarkshlutfall eigin fjár á hverjum tíma.
    Í þessu sambandi skal þó bent á að gjalda ber varhug við því að taka upp svokallaða ígildisaðferð við skattlagningu arðs af hlutafé í stað núgildandi aðferðar sem m.a. felur í sér að hlutafélög geta dregið úthlutaðan arð frá skattskyldum tekjum, þó aldrei meira en sem nemur 15% af nafnverði hlutafjár. Um rök fyrir þessu skal vísað til umfjöllunar í IV. kafla áfangaskýrslu um samræmda skattlagningu eigna og eignatekna sem lögð var fram í mars 1992. Samkvæmt þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir hefur verið fallið frá þeirri hugmynd sem fram kemur í frumvarpinu að lækka framangreinda frádráttarheimild úr 15% í 10% af nafnvirði hlutafjár og telja bankarnir það rétta ákvörðun við núverandi aðstæður á hlutabréfamarkaðnum.

Skatthlutfall innlánsstofnana.
    Samkvæmt gildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt reiknast sama tekjuskattshlutfall (45%) af skattstofni hvers skattskylds lögaðila, óháð félagsformi. Samkvæmt frumvarpinu er ætlunin að hlutafélög, samvinnufélög og aðrir þeir lögaðilar sem skattskyldir eru á grundvelli 1. og 2. tölul. 2. gr. laganna greiði 33% skatt en aðrir lögaðilar 41% skatt.
    Ljóst er að viðskiptabanki, sem rekinn er í hlutafélagsformi, fellur undir 1. tölul. laganna og ljóst er jafnframt að það mundi ekki samrýmast jafnræðissjónarmiðum í skattamálum að skattleggja innlánsstofnanir og lánasjóði, sem ekki eru hlutafélög, með öðru skatthlutfalli en hlutafélagsbanka. Hins vegar verður að telja nauðsynlegt að kveða skýrt á um það í frumvarpinu að öll þau fyrirtæki og stofnanir, sem falla undir lög um skattskyldu innlánsstofnana, nr. 65/1982, með síðari breyting­um, skuli greiða sama skatthlutfall af tekjum sínum og þeir lögaðilar sem taldir eru upp í 1. og 2. tölul. 2. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.

Húsnæðissparnaðarreikningar.
    Á árinu 1985 voru sett lög um svokallaða húsnæðissparnaðarreikninga þar sem opnuð var leið til skattafsláttar að vissu marki fyrir þá er leggja fé á slíka reikninga. Þessi leið er háð þröngum fjár­hæðarmörkum og skilyrði um 10 ára binditíma innstæðnanna sem er margfalt lengri binding en á öðrum innlánsreikningum. Af þessum ástæðum urðu bankar og sparisjóðir að leggja í verulegan kostnað til að vekja athygli viðskiptamanna sinna á eiginleikum þessara sparireikninga. Þessi við­leiti hefur nú borið árangur. Bankarnir hljóta því að mótmæla þeim hugmyndum að söðlað verði um á þessu sviði strax og árangurinn er farinn að koma í ljós.

Sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði.
    Þessi 1,5% skattur, sem reiknast af fasteignamatsverði verslunar- og skrifstofuhúsnæðis, er í reynd eignarskattur til viðbótar við 1,45% almennan eignarskatt sem lagður er á bankana eins og aðra lögaðila.
    Eins og áður segir eru bankarnir háðir ströngum aþjóðlegum reglum um lágmarkshlutfall eigin fjár. Hinir háu eignarskattar hérlendis rýra eigið fé bankanna á hverju ári og torvelda þeim að við­halda traustri eiginfjárstöðu sem er undirstaða viðskiptatrausts þeirra innan lands og utan.
    Bankarnir hljóta því að mótmæla hugmyndum um að framlengja enn einu sinni þennan mjög svo umdeilda skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði.

Virðingarfyllst,



Samband íslenskra viðskiptabanka,


Ólafur Örn Ingólfsson.